Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:57:20 (1700)

1995-12-07 15:57:20# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ætli það sé nú ekki mergurinn málsins að fólk þarf að búa einhvers staðar. Það er nefnilega meinið. Því miður eru ekki allir í aðstöðu til þess að sitja bara rólegir, halla sér aftur á bak og vega og meta málin. Spá í afföllin og spá í tímann og velja sér svo einhvern vísindalega réttan tíma til að fara í að byggja eða kaupa íbúð. Þetta er ekki þannig. Aðstæðurnar eru ekki þannig í lífi venjulegs fólks að það geti ráðið slíku sjálft og valið sér besta tímann. Frestað ákvörðunum eða frestað því að leysa sín húsnæðismál vegna þess að afföll séu mikil o.s.frv. Við vitum öll að auðvitað er það ekki svona. Þar á ofan, hv. þm., eru ekki allir sérfræðingar í verðbréfaviðskiptum og afföllum og öllu því dóti. Það er bara einu sinni þannig. Langoftast upplifir fólk þetta svo að það stendur þannig á að það þarf að leysa sín húsnæðismál og það vill gera það núna. Það er komið heim frá námi, nýbúið að gifta sig, er að eignast barn eða eitthvað því um líkt. Það sem ræður er að fólkið er þannig statt í lífi sínu að það verður að leysa shúsnæðismál sín. Ekki það hvort afföllin eru 5% meiri eða minni, hvernig ástandið er á fasteignamarkaði eða hvaða lánakerfi er í gangi í augnablikinu. Það er ekki svo. Þetta vitum við öll. Þess vegna verður að reyna að haga þessum hlutum þannig að það sé stöðugleiki og það sé jafnan í boði einhver viðráðanleg úrræði fyrir venjulegt fólk til að búa við öryggi í húsnæðismálum. Það er það sem þetta snýst um. Svona frumskógarmarkaðshyggjukerfi með afföllum sem sveiflast upp og niður, breytilegum vöxtum og alls konar hringli þar á ofan af hálfu stjórnvalda það er ekki lausnin, hv. þm., það er alveg órafjarri. Nema þá að gera alla þjóðina, 270.000 hræðurnar, að sérfræðingum í verðbréfaviðskiptum og senda alla í háskóla í þeim efnum. Það held ég að verði nú seint.