Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 17:01:07 (1711)

1995-12-07 17:01:07# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[17:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég er mjög feginn að þetta frv. er komið fram. Að baki því liggur mikil vinna og ég vona að hún hafi tekist vel og hafi náð þeim tilgangi sem ætlast var til. Ég vona einnig að þetta frv. fái greiðan gang á Alþingi því það er mjög mikilvægt að fá botn í þetta mál sem allra fyrst. Fólk hefði þurft að fá að vita hvar það stendur miklu fyrr, en það verður að búa sem á bæ er til og nú líður vonandi ekki langur tími þar til fólk getur gengið að því vísu hvar það stendur. Ég tel að sú niðurstaða sem fundin er í þessu frv. sé skynsamleg niðurstaða. Hér er um mjög vandasamt mál að ræða og þar eru stórkostlegir fjármunir í húfi. Hús á hættusvæðum á Íslandi eru mjög mörg. Menn hafa slegið á það með sinni þumalputtareglu að flutningurinn á Súðavík, þ.e. að flytja þorpið, sé svona tíundi partur af vandanum. Menn sjá því að þarna er um geysilega dýrt verkefni að ræða. Og það verður ekki leyst á fáum árum.

Það er um fleira að ræða en þau byggðarlög eða þéttbýlisstaði sem við tölum oftast um, Seyðisfjörð, Neskaupstað, Siglufjörð, Súðavík, Hnífsdal, Ísafjörð eða hluta af Ísafirði, Flateyri Patreksfjörð og Ólafsvík. Það eru nokkrir sveitabæir á landinu sem líka eru hættu og ég tel að það þurfi líka að huga að aðstæðum þar. Þeir sem búa þar eiga að sjálfsögðu sama rétt og fólkið í þorpunum.

Þetta verður ekki leyst á fáum árum og því er um að gera að hafa andvara á sér, efla snjóflóðaeftirlit, koma upp hundum til björgunar, sem hafa sannað að þeir eru alveg ómetanlegir við björgunarstörf, gera áætlanir um hvernig brugðist skuli við í hverju tilviki og þjálfa mannskap. Þetta er að mínu mati það sem okkur ber að gera og er verið að gera.

Það er alveg augljóst mál að það þarf að styrkja Veðurstofu Íslands verulega svo hún ráði við að standa undir þeim kröfum sem munu verða gerðar til hennar í framtíðinni með því að hún yfirtekur þetta verkefni. En ég tel að Veðurstofa Íslands sé rétti aðilinn til þess að hafa yfirstjórn á málinu. Eftirlitsmenn eru á vettvangi og Veðurstofan hljóta í hverju tilfelli að hafa náið samráð við eftirlitsmenn sína úti á stöðunum. Veðurstofan er best í stakk búin og betur í stakk búin heldur en sýslumaður eða fógeti eða formaður almannavarnanefndar á viðkomandi stað til þess að vita hvernig muni viðra næstu klukkutímana. Veðurstofan á að sjá þróunina fyrir, hvað er í vændum. Eftirlitsmennirnir á stöðunum eiga að geta greint hvað hefur skeð og hvernig veðrið er í þann svipinn, en Veðurstofan á að hafa betri yfirsýn yfir það heldur en þeir hvað er í vændum næstu klukkutímana. Og það finnst mér rökstyðja að það sé Veðurstofan sem ákveði hvenær rýmt er og hvenær ekki. Ég tel þá jafnframt einboðið að vista þetta mál hjá umhvrn. þar sem Veðurstofan tilheyrir því ráðuneyti.

Við eigum áreiðanlega nokkuð langt í land með áreiðanlegt hættumat á öllum þessum stöðum, en að því er verið að vinna. Þar er mikið verk óunnið og eftir að gera miklar rannsóknir áður en við höfum í höndum hættumat sem við getum treyst fullkomlega. En það hlýtur að vera hægt að reikna miðað við brattann á fjöllunum, miðað við mismunandi snjólag, miðað við mismunandi hitastig og veðráttu það versta sem komið gæti fyrir. Og þetta allt þarf að reikna inn í líkön áður en við höfum í höndum fullkomlega áreiðanleg hættumöt. Og ég legg sérstaka áherslu á að það má ekki spara í þessu efni.

Nú fer fram við Háskóla Íslands verulegt starf að þessum rannsóknum og það þarf að styrkja. Ég mætti fyrir Íslands hönd á fund samstarfsráðherra Norðurlanda í Kuopio í fyrra mánuði og þar var ákveðið að veita fé frá norrænu ráðherranefndinni til samstarfsverkefnis Íslendinga og Norðmanna í snjóflóðarannsóknum, 15 millj.

Varðandi varnarvirkin, þá hefur verið nokkuð sett upp af þeim. Þau duga að ákveðnu marki og hafa iðulega komið að gagni. Hitt er svo annað mál að það má ekki hafa oftrú á þeim því að þær aðstæður geta hugsanlega skapast að þau verji ekki undir öllum kringumstæðum. Ég vil taka það fram að þótt búið hafi verið að verja töluverðu fé til snjóflóðavarna á Flateyri og þær hafi iðulega komið að gagni, var því verki ekki lokið og áætlanir voru uppi um mun fleiri snjóflóðavarnir þar en búið var að setja upp. Ég held að það sé ákaflega hæpið að byggja nýtt. Það er reyndar tekið hér fram að ekki megi hefja byggingar á óbyggðum hættusvæðum né þétta byggð sem fyrir er á hættusvæðum og svo hefur verið gerð að umtalsefni lokasetningin: ,,fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.`` Ég hef yfirleitt ekki trú á að það verði ásókn í lóðir á rauðu svæðunum og jafnvel ekki á gulu svæðunum heldur. Ég hef ekki trú á því að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir mundi biðja um lóð á rauðu hættusvæði ef hún ætti kost á lóð annars staðar. Ég held að menn megi ekki mikla fyrir sér þá hættu sem af því stafaði.

Bótaþátturinn í þessu máli öllu er mjög vandasamur og hann hefur vafist dálítið fyrir mönnum. Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar verður að gilda og eitt bótakerfi verður að gilda um allt land, þ.e. það er ekki hægt að bæta mönnum á einn veg í dag og öðruvísi á morgun. Það verður eitt yfir alla að ganga, hvort sem staðurinn heitir Súðavík, Siglufjörður eða Seyðisfjörður. Ég legg áherslu á að fólk verður auðvitað að hafa frelsi til þess að velja sér búsetu, ákveða sjálft hvar það eigi að búa. Og ég tel að það séu engir átthagafjötrar í þessu frv., síður en svo.

Það kann að vera í fljótu bragði að mönnum sýnist að þar sé fjárhagsleg hvatning fyrir þann sem yfirgefur hús sitt á hættusvæði til þess að vera kyrr. En skoðum málið aðeins nánar. Sá sem fer úr sveitarfélaginu verður að hlíta því að fá markaðsverð fyrir húseign sína. Sá sem ætlar að vera kyrr, fær hins vegar brunabótamatsverð fyrir húseign sína og getur þá byggt sér sams konar hús í sveitarfélaginu. Þetta kynni í fljótu bragði að virðast ákveðin fjárhagsleg hvatning til þess að vera kyrr þar sem maðurinn fær hærri upphæð í hendur til að byrja með. En setjum nú sem svo að maðurinn sem ákvað að vera kyrr og byggði hús á öruggum stað í sínu gamla sveitarfélagi ákveði svo eftir eitt eða tvö ár eða kannski fimm eða tíu ár að fara, þá verður hann að sjálfsögðu að hlíta því að fá ekki nema markaðsverð fyrir húsið sitt og þá eru báðir jafnir, sá sem fór strax og sá sem fór að einhverjum árum liðnum, að breyttu breytanda. Þetta finnst mér verjandi og ekki hægt að segja að þarna sé um verulega mismunun að ræða.

Hér hefur verið spurt hvað gera eigi við gömlu yfirgefnu húsin. Ég hef ekki neina allsherjarlausn á því og sjálfsagt passar ekki sama lausnin alls staðar. Sums staðar er óhjákvæmilegt að varðveita gömul hús ef þau hafa menningarsögulegt gildi, eins og t.d. kann að koma fyrir á Seyðisfirði. Þar er dýrleg byggð sem guði sé lof hefur ekki orðið fyrir snjóflóðum, en er þó á svæði sem hugsanlega verða skilgreind sem hættusvæði. Þau hús tel ég að verði að reyna að varðveita. En þar sem um er að ræða hús sem ekki hafa eitthvert sérstakt menningarsögulegt gildi, tel ég að sveitarfélögin eigi að láta rífa þau. Ég held að það hljóti að verða takmörkuð eftirspurn eftir þeim sem sumarbústöðum, það kostar að reka þau og það er ekki æskilegt að hafa einhver draugahverfi í bæjunum, þ.e. hús sem eru komin í niðurníðslu og standa tóm mestallt árið þannig að ég held að þau séu best rifin. Í mörgum tilfellum er um nýleg hús að ræða sem hægt er að hirða heilmikil verðmæti úr. Ég sæi ekkert athugavert við það þó að sveitarfélögin létu rífa þau, hirða það sem hirðandi er og selja eða gefa þeim sem eru að byggja. En ég er ekki hrifinn af þeirri lausn að fara að láta heilu hverfin standa og reikna með því að þau verði auð allan veturinn.

Hvað um atvinnuhúsnæði? Ég tel að við eigum að einbeita okkur að því að fólk geti verið öruggt á heimilum sínum. Það gildir allt öðru máli í mínum augum um atvinnuhúsnæði. Það er engin goðgá að leggja niður vinnu í frystihúsi t.d. eða síldarverksmiðju ef hættuástand skapast. Það er allt annað að senda menn heim úr vinnunni og loka ef menn sjá yfirvofandi hættu eða telja að það þurfi að hafa alla gát á. Það er allt annað að reka fólk út af heimilum sínum og við eigum að stefna að því að það sé algert forgangsverkefni að fólk geti verið öruggt á heimilum sínum. Það er að vísu langt í land og eins og ég sagði áðan þurfum við að reyna að einbeita okkur að því í fyrstu lotu að sjá til þess að snjóflóðaeftirlit sé öflugt og menn séu vakandi og meðvitaðir um að hætta geti skapast.

[17:15]

Ísland er stórt land sem betur fer og strjálbýlt og ég tel að menn eigi ekki framar að byggja á varasömum svæðum. Það þarf kannski ekki miklar rannsóknir til. Þar sem er bratt fjall getur óhjákvæmilega undir einhverjum kringumstæðum einhvern tíma skapast hætta á því að snjór fari af stað, jafnvel þó að menn hafi ekki sögur af því að það hafi gerst. En það er nú einu sinni áhættusamt að vera Íslendingur. Það er áhættusamt að fara yfir Miklubrautina. Það er jarðskjálftahætta og það er eldgosahætta. Snjóflóð eru svo sem ekki það eina sem getur grandað mönnum og að sjálfsögðu komum við ekki til með nokkurn tíma að búa við alveg fullkomið öryggi í lífinu enda veit ég ekki hvort það væri eftirsóknarvert.