Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 17:17:10 (1712)

1995-12-07 17:17:10# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[17:17]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hæstv. félmrh. sagði áðan. Við búum í stóru landi og við búum líka í harðbýlu landi. Auk þess háttar þannig til að þéttbýlismyndun hófst ekki að marki fyrr en á þessari öld. Þar af leiðir að saga snjóflóða í þéttbýli er ekki mjög löng á Íslandi miðað við það sem víða gerist annars staðar. Sagan geymir hins vegar sögur af snjóflóðum víða til sveita.

En einmitt vegna þess hve saga þéttbýlis er stutt hjá okkur og við höfum byggt húsin víða undir bröttum hlíðum er ekki alveg vansalaust að rannsóknir skuli hafa verið svo litlar sem raun ber vitni. Það er slæmt að þurfa að ræða þær breytingar sem hér er verið að ræða í skugga þeirra hörmulegu atburða sem orðið hafa á þessu ári. Ég efa ekki mikilvægi þess að málið fái greiðan framgang í þinginu og skil mætavel öll þau rök sem komið hafa fram fyrir því og ætla hér einungis að hafa örfá orð um efni frv.

Í fyrsta lagi tel ég rétt að gerð hættumats verði flutt til Veðurstofu Íslands og þá í leiðinni að yfirstjórn þessara mála fari undir eitt ráðuneyti. Ég held að það sé alveg rétt sem fram kemur að á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á fyrst og fremst að gera þessi möt og það verði að girða fyrir að önnur sjónarmið geti haft áhrif á gerð hættumats en sérfræðilegt mat. Þetta held ég að sé grundvallartriði og því miður er of mikið til í því sem veðurstofustjóri sagði að allt of oft hafi pólitískt mat verið látið ráða. En til þess eru vítin að varast þau og nú erum við að reyna að gera betur.

Í öðru lagi er það mál sem hér hefur einnig komið mjög til umræðu en það er það sem fram kemur í 5. gr. þessa frv. og lýtur að reglum um tilhögun á greiðslum til eigenda þeirra húseigna sem kunna að verða keyptar. Það stendur í greinargerðinni svo ekki verður um villst að tilgangur mismunandi greiðslutilhögunar sé fyrst og fremst til að styrkja byggð í sveitarfélögum þar sem snjóflóð hafa fallið eða snjóflóðahætta er yfirvofandi og að greiðslur til þeirra sem hyggjast búa áfram í heimabyggð sinni geti þar með ásamt reglunum orðið hærri en greiðslur til þeirra sem ætla að flytja á brott. Hvað svo sem mönnum kann að finnast um réttlæti eða mismunun þá er það alveg ljóst að hér kemur andi laganna fram hvað varðar þessar greiðslur. Við þetta hljótum við að setja spurningarmerki vegna þess að þegar við veltum því fyrir okkur hver tilgangur laganna er getur hann ekki verið að styrkja byggð í ákveðnum sveitarfélögum og allra síst í sveitarfélögum þar sem snjóflóð hafa fallið og snjóflóðahætta er yfirvofandi. Tilgangurinn hlýtur að vera að bæta einstaklingum eða fjölskyldum það tjón sem þær hafa orðið fyrir að svo miklu leyti sem það er hægt með peningum. Það er mikið rétt sem hér hefur komið fram að hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi. Eigi að síður held ég að við verðum að líta til þess og hlusta á það og taka tillit til þess hvað það er sem fólkið vill sjálft. Við megum ekki mismuna með löggjöf til þess að þjóna einhverjum öðrum tilgangi en þeim að bæta einstaklingum eða fjölskyldum tjón.

Hæstv. félmrh. ræddi áðan um muninn á þeim sem fer núna og þeim sem kann að fara eftir 10 ár. Í því sambandi vil ég benda á það að ég tel að sá sem fer hugsanlega núna sé ekki frjáls að sínu vali. Það er ekki endilega víst að þeir sem hafa þurft að upplifa þær ógnir og þá atburði sem átt hafa sér stað séu endilega frjálsir að því vali hvort þeir fara eða vera. Sá sem kýs hins vegar að vera og fer eftir 10 ár er hugsanlega frjáls að því hvort hann fer eða verður. Hér eru vissulega uppi mikil álitamál og tilgangur laganna má aldrei vera átthagafjötrar. Yfir þetta verður farið vandlega í nefnd vegna þess að hér vegast á þeir miklu hagsmunir sem um hefur verið fjallað og svo sá tilgangur að gera fólk jafnsett, að fólk geti verið frjálst að því hvar það setur sig niður, að það sé ekki bundið eða því sé ekki beint inn á einn stað fremur en annan með þeirri löggjöf sem hér er sett, að hér sé ekki hægt að túlka lög með þeim hætti að fjöskyldur séu þvingaðar til þess að taka ákvarðanir sem hugsanlega eru þeim þvert um geð.

Ég ætlaði ekki að hafa þessi orð mörg. Ég endurtek að ég efa ekki mikilvægi þess að málið fái greiðan framgang og mun gera mitt til þess að svo megi verða.