Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 12:00:56 (1741)

1995-12-08 12:00:56# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[12:00]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. flytur bandorm sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon, sem talaði áðan, kvartaði mikið undan og líkti við einhvers konar pólitíska sullaveiki. Frv. er í 63 greinum og þar ægir saman nánast öllum þeim málaflokkum sem við er að fást í íslenskri stjórnsýslu. Hér er fjallað um samgöngumál, vegamál, flugmál, hafnamál, ferðamál, málefni fatlaðra, málefni aldraðra, sveitarstjórnarmál, fiskveiðistjórnun, kirkjubyggingar, landbúnaðarmál, jarðrækt, búfjárrækt, stofnlánadeild, málefni Ríkisútvarps, listskreytingar og Kvikmyndasjóð svo nokkuð eitt sé nefnt.

Tilgangurinn með þessum samsetningi er síðan sá að freista þess að spara svolítið í ríkisbúskapnum. Miðað við forsendur þess fjárlagafrv. sem fyrir liggur eru sparnaðaráformin upp á 922 millj. kr. á fjárlögum næsta árs og kannski 213 millj. til viðbótar á árinu 1997. Þegar litið er á þessa upphæð, tæpan milljarð, sést að skerðingin á mörkuðum tekjustofnum er drýgst að því er varðar framkvæmdir í flugmálum og vegamálum, þ.e. rúmlega helmingur upphæðarinnar, rúmur hálfur milljarður kr. Næststærsta upphæðin er niðurfelling mæðra- og feðralauna með einu barni sem á að leiða til sparnaðar upp á 125 millj. kr. Því næst er seilst í 62 greinum vítt og breitt um málefnasvið stjórnsýslunnar til þess að öngla saman þeim sparnaði sem upp á vantar.

Það er fyrst og fremst eitt sem sætir tíðindum við frv. og það er að ríkisstjórnin hefur heykst á boðuðum áformum í fjárlagafrv. um að taka upp innritunargjöld á sjúkrahúsum. Ástæðan er trúlega sú að það mál hefur þegar verið tekið upp á hinu háa Alþingi. Formaður heilbrn. hlýddi hæstv. heilbrrh. yfir það mál og málsvörn hans var svo gersamlega í handaskolum að þeir hafa runnið á rassinn við að halda því til streitu. Tæknilega séð var því haldið fram að þetta væri eðlilegt mál vegna þess að verið væri að samræma gjaldtöku á annars vegar utanspítalaþjónustu og hins vegar á sjúkrahúsum og misvægi þar á milli væri beinlínis skaðlegt vegna þess að í því fælist hvatning til þess að leita inn á sjúkrahúsin eftir dýrari þjónustu. Staðreyndin var hins vegar sú að þegar smáa letrið í slíkum tillögum er skoðað er sparnaðurinn sem af þessu átti að hljótast, eitthvað um 80 millj., þess eðlis, það lítill að hann raunverulega réttlætir þetta ekki og framkvæmdaerfiðleikarnir eru slíkir að það gengur ekki upp. Að þeim niðurstöðum höfðu menn reyndar komist áður í tíð fyrri ríkisstjórnar þannig að endanlega niðurstaðan er sú hin sama.

Af öllum þessum málaflokkum sem hér ægir saman vil ég segja í upphafi að það er tvennt sem við jafnaðarmenn munum fyrst og fremst einbeita okkur að að því er þetta varðar og taka upp til rækilegrar skoðunar í hv. efh.- og viðskn. Það er annars vegar klúður stjórnarflokkanna að því er varðar skerðingar þeirra og takmarkanir á því að framfylgja lögum um greiðsluábyrgð ríkisins og greiðslur ríkisins á bótum til þolenda afbrota. Hitt málið varðar að sjálfsögðu hag og lífskjör þeirra sem hafa misst vinnuna, þ.e. þeirra sem eru atvinnulausir sem og bótaþega almannatrygginga og þá ekki hvað síst aldraðra og fatlaðra.

Að því er varðar niðurstöðuna sem hér er kynnt varðandi greiðslur bóta til þolenda afbrota er það sorgarsaga og nánast smánarblettur á ríkisstjórninni hvernig hún hefur haldið á því máli. Alþingi setti lög sem gerðu ráð fyrir því að ríkið ábyrgðist greiðslu á bótum til þolenda afbrota strax á árinu 1993. Hæstv. dómsmrh. lét sér sæma í sparnaðartillögum fyrir ráðuneyti sitt að leggja til að fresta framkvæmd þessara laga. Það er svokölluð frönsk tillaga í fjárlagagerð, þ.e. af því að hann heyktist á að koma með alvörusparnaðartillögur til þess að fullnægja skilyrðum rammafjárlaga um sparnað á málasviði hans er gripið til þessa ráðs. Ég trúi því ekki fyrr ég tek á því að Alþingi láti bjóða sér slíkt en það er kannski ekki aðaláhyggjuefni dómsmrh. ef ég þekki hann rétt að því er varðar sparnaðartillögunar. Þá verður sagt að Alþingi fellst ekki á þetta og þá verður bara frá því fallið. Í staðinn fyrir að gera einfaldlega hreint fyrir sínum dyrum og falla frá þessu og framfylgja lögunum er hér boðað að fresta eigi gildistökunni fram á mitt næsta ár og síðan eigi bótagreiðslurnar að sæta takmörkunum eins og tíundað er í 18. og 20. gr. til þess að ná fram sparnaði á ári hverju þegar fram í sækir sem svarar 20 millj. kr. Um þetta er það eitt að segja að þetta er hneyksli og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Alþingi láti bjóða sér þetta. Ég ætla ekki að fortaka að það megi ekki líta á þær bótafjárhæðir sem hér voru ákveðnar í löggjöfinni upphaflega. Að sjálfsögðu verður hlustað á þau rök sem varða t.d. þessa fjóra meginflokka bóta. Það er út af fyrir sig mál sem sjálfsagt er að skoða og á faglegum grundvelli og hlusta á tryggingafræðileg rök o.s.frv. en að lögin komi til framkvæmda strax og við þau fyrirheit verður staðið er grundvallarmál sem við munum leggja þunga áherslu á. Hið sama gildir varðandi þau ákvæði þessara laga sem varða lífskjör og afkomu þeirra sem verst eru settir í þessu þjóðfélagi, þeirra sem eru fórnarlömb atvinnuleysis. Þau mál hljótum við að taka til rækilegrar umfjöllunar og eins önnur skerðingarákvæði sem varða hag aldraðra og fatlaðra.

Um leið og ég segi þetta tek ég skýrt fram að sá sem hér stendur er sammála því markmiði sem lýst er af hálfu ríkisstjórnarinnar um að víkja frá þeim ósið að byggja löggjöf á mörkuðum tekjustofnum eða binda í lögum með sjálfvirkum hætti útgjöld í einhverjum tekjutenginum hvort heldur er við vísitölur eða eitthvað annað. Ég er sammála þeirri grundvallarreglu að frá þessu á að hverfa. Ástæðan er einfaldlega sú að þegar svo er komið að meginhluti útgjalda ríkisins að viðbættum launum er orðinn bundinn í löggjöf með sjálfvirkum hætti án tillits til annarra afkomuþátta þjóðarbúsins er búið að setja ríkisbúskapinn í sjálfstýringu sem nær ekki nokkurri átt. Það er svo allt annað mál hvaða pólitískar ákvarðanir meiri hluti þings ætlar að taka í hverju einstöku máli. Alþingi á ekki að víkja sér undan því að taka slíkar ákvarðanir með þeim einfalda hætti að vísa í einhver sjálfvirkniákvæði þannig að áformin sem hér er lýst um það almennt séð sem er ekki fylgt eftir að fullu í þessu frv. en lýst sem áformum að losna við sjálfvirkar bindingar og lögbindingar útgjalda. Ég er samþykkur þeim en tek skýrt fram að það þýðir ekki þar með að ég sé að leggja blessun mína yfir þær tilteknu ákvarðanir um lækkun útgjalda sem felast annaðhvort í þessu frv. eða í fjárlagafrv. Ég er einfaldlega að segja að þau mál eigum við þá að taka upp sérstaklega og ég er að boða það að þá munum við flytja um það sérstakar tillögur, annaðhvort við afgreiðslu þessa frv. eða við afgreiðslu fjárlaga.

Rétt er að segja örfá orð í framhaldi af þeim umræðum sem áðan urðu um málsmeðferðina og þá gagnrýni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hvernig að þessu máli er staðið. Sjálfsagt er rétt hjá hæstv. forsrh. að yfirlýst áform um að hverfa frá sjálfvirkum bindingum muni þýða að bandormar framtíðarinnar með skerðingarákvæðum verði eitthvað minni að vöxtum en það er ekki kjarni málsins að því er varðar málsmeðferð og lagatækni. Það er athyglisvert að Alþingi hefur á undanförnum árum sætt í vaxandi mæli gagnrýni fyrir óvandaða frumvarpasmíð, óvönduð vinnubrögö við löggjöf og það svo mjög, sérstaklega í sumum málaflokkum eins og á sviði búvöru- og landbúnaðarlöggjafar, að prófessor við Háskóla Íslands hefur ritað um það heila bók að sú löggjöf sé að stofni til brot á stjórnarskránni. Hann hefur rökstutt það m.a. með því að sérstaklega í þeirri löggjöf hafi viðgengist árum saman að Alþingi framselji sjálft skattlagningarvaldið, sem er brot á stjórnarskránni, í hendurnar á sérhagsmunaaðilum sem eiga hagsmuna að gæta. Í annan stað hefur hann nefnt að fyrir því séu mörg dæmi að löggjöf af þessu tagi feli í sér brot á jafnréttisreglu þannig að mönnum sé mismunað af hálfu löggjafans að því er varðar að ná réttindum, sérstaklega í atvinnulegu tilliti þar sem menn eiga að búa við jafnræði. Jafnframt hefur hann bent á dæmi þess að eignarréttarákvæði stjórnarskrár séu brotin þegar um er að ræða ákvarðanir um skerðingar á atvinnuréttindum og eignarrétti manna. Þetta er sérstaklega áberandi á einu á þessu sviði löggjafarinnar og á sér langa sögu.

Hæstv. forsrh. tók undir það í stuttu andsvari sínu áðan að hér eru rúmlega sextíu lagagreinar og það er verið að fjalla um velferðarlöggjöf, málefni aldraðra, málefni fatlaðra, menningarmál, málefni sjávarútvegsins, fiskveiðistjórnun og þannig mætti lengi telja og þessu er öllu hrúgað hér í einn stóran pott og hrært í með sleif til þess að kría út tiltölulega lágar fjárhæðir til sparnaðar í ríkisbúskapnum. Skilaboðin til Alþingis eru þessi: Alþingi hefur verið að setja löggjöf. Hér hafa staðið umræður stundum dögum saman og fjallað um mál í nefnd um þessi málasvið. Síðan er Alþingi boðið upp á það með nokkurra klukkustunda fyrirvara og í umræðu af þessu tagi skömmu fyrir jól í hraðanum og asanum við að ljúka fjárlagaafgreiðslu þar sem eðlilegur vettvangur til þess að ræða þessa málaflokka er raunverulega fyrir bí. Hvaða skilaboð eru það til hv. þm. þegar þeim er sagt að ræða í einu vetfangi út frá sparnaðarsjónarmiðum málaflokk af þessu tagi?

Eitt af stærstu umræðuefnunum í íslensku nútímasamfélagi er samspilið milli ríkisfjármála og velferðarmála. En hvaða umfjöllun haldið þið að þessi veigamiklu mál fái þegar svona er staðið að löggjöf? Skilaboðin frá stjórnvöldum eru auðvitað þau að þetta eru skilaboð um það að stjórnvöld bera litla virðingu fyrir umfjöllun þingsins um málin. Það er athyglisvert þegar þegar þið, hv. þm., lítið á ráðherrabekkina sem eru að vísu frekar þunnskipaðir og sérstaklega á ráðherra forustuflokks stjórnarinnar, að forusta Sjálfstfl., þ.e. forustuflokksins, er tiltölulega einsleit. Hún á nefnilega a.m.k. eitt sameiginlegt. Þeir eru allir lögfræðingar. Hæstv. forsrh. er lögfræðingur, hæstv. fjmrh. er lögfræðingur, hæstv. dóms- og kirkju- og sjútvrh. er lögfræðingur, hæstv. menntmrh. er lögfræðingur og hæstv. samgrh. er a.m.k. ígildi lögfræðings. (SJS: Nei, hann náði ekki prófinu.) Ja, hann er lögfræðingsígildi, ég hugsa að hann sé ekki sísti lögfræðingurinn af þeim. Menn í minni sveit sögðu stundum að munur væri á mönnum með lagapróf en aðrir væru löglærðir. Þetta eru allt saman lögfræðingar. Allt saman afsprengi lagadeildar Háskóla Íslands. Allt saman með sama bakgrunninn. Allt saman alið upp í hinum júridíska þankagangi. Allt saman alið upp í hinni djúpu virðingu fyrir lögunum og löggjafarsamkundunni. En þetta er niðurstaðan af lærdómnum í mörg ár.

[12:15]

Herra forseti. Það mál sem hér liggur fyrir er auðvitað fyrst og fremst um ríkisfjármál. Það er einn þáttur þess máls. Þau munum við að vísu ræða miklu betur við 2. umr. fjárlaga þegar vonandi eru komnar fram gerbreyttar forsendur fjárlagafrv., bæði vegna þess að það þarf að endurskoða tekjuhlið þess frá grunni í framhaldi af þeim samningum sem fyrir liggja um nýjar stórframkvæmdir í stóriðju og orkuverum sem og nýlegar ákvarðanir sem teknar hafa verið um aukna aflaúthlutun sem mun skila þjóðarbúinu auknum verðmætum. Tekjuhliðin mun þess vegna breytast til hækkunar. Jafnframt er ljóst að gjaldahliðin mun gera það líka. Fyrir því eru augljósar ástæður. Fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar voru kjarasamningar endurskoðaðir núna nýlega. Það er 12 milljarða samningurinn sem Alþingi lét sig hafa að samþykkja nú fyrir fáeinum dögum um búvörusamninga til aldamóta. Það er hin sjálfvirka útgjaldaþensla sem vitað er að er í heilbr.- og tryggingakerfinu. Allt mun þetta kalla á endurskoðun.

Í allri umræðu um fjárlög ættu menn á hinu háa Alþingi að hafa eitt í huga. Við Íslendingar höfum á undanförnum árum farið í gegnum samdráttarskeið og þjóðartekjur hafa annaðhvort staðið í stað eða minnkað. Það hefur orðið að grípa til erfiðra ráðstafana. Á samdráttarskeiði er eðlilegt að menn ýmist vilji ekki eða geti ekki stigið skrefið til fulls við að tryggja jöfnuð í ríkisfjármálum. Ekki síst þegar atvinnuleysis verður vart og það þarf að verja auknum fjármálum til þess að styrkja hag þeirra sem missa atvinnuna. Nú er það svo þrátt fyrir allt að á sl. ári, þessu ári og á því ári sem fram undan er, er hið versta að baki þannig að við eigum fram undan einhvern hagvöxt. Þá er ástæða til þess að líta á hvaða stefnu ríkisstjórnin mótar að því er varðar ríkisfjármálin út frá skuldasöfnun, út frá halla og út frá því hvernig hún hyggst beita ríkisfjármálunum sem jákvæðu tæki til þess að halda fram jafnvægisstefnu í efnahagsmálum.

Fyrsta málið sem við eigum að líta á er skuldastaða ríkissjóðs. Það er satt að segja hrollvekjandi tilhugsun að afborganir og vextir af skuldum ríkissjóðs á næsta ári verða tæplega 35 milljarðar kr. Þar af eru vextir rúmlega 13 milljarðar kr. Þessir hrikalegu fjármunir jafngilda öllum útgjöldum samkvæmt fjárlagafrv. á vegum menntmrn., sem eru 19,2 milljarðar, öllum útgjöldum félmrn. sem eru 9,3 milljarðar og öllum útgjöldum dóms- og kirkjumrn. sem eru tæpir 6 milljarða. Allt streymir þetta út á næsta ári samkvæmt fjárlaga- og lánsfjárlagafrv. í hendurnar á erlendum lánardrottnum okkar og segir sína sögu um það hversu komið er málum þessarar þjóðar. Ég segi það sem mína skoðun að eitt af meginverkefnum stjórnvalda þegar umskipti hafa orðið til hins betra og í ljósi þess að það er einhver hagvöxtur fram undan er að taka á þessum málum, þ.e. að gera hvort tveggja í senn að setja sér metnaðarfull markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum, ríkisstjórnin segist ætla að stefna að því á tveimur árum, og jafnframt því að hefja það nauðsynjaverk að fara að greiða niður skuldir. Það mál munum við auðvitað ræða betur í fjárlagaumræðunni sjálfri en samt sem áður er ástæða til þess að nefna þetta í upphafi því að þetta er upphafspunkturinn í allri umræðu þegar svona er komið háttum íslenska lýðveldisins um ríkisfjármál.

Það er alveg ljóst að þrátt fyrir sparnaðaraðgerðir í tíð fyrri ríkisstjórnar er enn við að búa mikinn sjálfvirkan útgjaldavöxt á sumum sviðum ríkisbúskaparins. Þeir sem telja að hægt sé að mæta þeim vaxandi útgjöldum með hækkun skatta þyrftu að greina mjög skýrt frá því hvaða skatta þeir eru að tala um. Telja þeir unnt að ganga lengra í að hækka aðalneysluskattinn, virðisaukaskatt, þar sem fyrrv. ríkisstjórn afsalaði sér reyndar milljarða tekjustofnum með því að taka upp tveggja þrepa skattkerfi? Telja þeir mögulegt að auka enn vöxtinn í tekjusköttum? Það hefur einmitt verið einkennið á undanförnum árum að skattbyrði vegna tekjuskatta einstaklinga hefur vaxið stórlega.

Á seinustu þremur árum hafa tekjuskattar skilað sér að raungildi á verðlagi seinasta árs upp á 15,3 milljarða kr. en það er hækkun tekjuskatta einstaklinga upp á 4,3 milljarða og er hvorki meira né minna en 39,3%. Enn er stefnt að slíkri hækkun í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Menn eru komnir út í ógöngur með tekjutengingar og jaðarskatta. Tekjuskattskerfið er orðið vinnuletjandi þannig að ég held að þeir sem halda því fram að það sé unnt að mæta þessu einfaldlega með hækkun skatta verði að gera þá grein fyrir því hvar það er og tvennt er nefnt til sögunnar.

Það er auðvitað fyrst og fremst stóra gatið í íslensku skattalöggjöfinni sem varðar það að fjármagnseigendur hafa að sumu leyti sitt á þurru og sitja ekki við sama borð og aðrir að greiða skatta af tekjum sínum. Í því efni hefur ríkisstjórnin brugðist. Það er kjarni málsins að því er varðar tekjuöflunina. Fyrrv. ríkisstjórn batt það fastmælum að freista þess að ná samstöðu um útfærslu á fjármagnstekjuskatti þannig að hann gæti tekið gildi og komið til framkvæmda á árinu 1996. Það mun sýnilega ekki takast og að því leyti hefur núv. ríkisstjórnarmeirihluti brugðist þeim væntingum sem búið var að boða.

Hin gjaldtakan sem sums staðar er tæpt á í þessum bandormi varðar veiðigjaldsumræðuna en þar er um að ræða smámuni sem hér eru boðaðir. Þar er um að ræða annars vegar mál sem stjórnarandstaðan ætti að freista þess að ná samstöðu um að flytja tillögu um því þessi tvö svið eru þau einu sem gætu raunverulega skilað einhverjum peningum og réttlætanlegt væri að flytja tillögur um. Að hluta til væri það til að mæta lækkun skatta vegna lækkaðra jaðarskatta. Þegar kemur hins vegar að útgjaldahliðinni er hin pólitíska umræða auðvitað fyrst og fremst um það hver forgangsröðun á að vera. Þar hefur stjórnarandstaðan áreiðanlega tillögur fram að færa sem eru á annan veg en núv. stjórnarmeirihluti hefur og þá fyrst og fremst sem að því er varðar velferðarútgjöldin.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um einstök atriði í frv. við 1. umr. Sú umræða verður auðvitað fyrst og fremst í efh.- og viðskn. Ég vek athygli á því að það mun taka tímann sinn að kalla til alla þá aðila sem þurfa að veita nefndinni upplýsingar eða gera grein fyrir máli sínu þegar um er að ræða frv. sem spannar 30 eða 40 helstu málaflokka í stjórnsýslu ríkisins. Sú athygli mun fyrst og fremst beinast að skerðingarákvæðum eins og t.d. um Kvikmyndasjóð, þeim áformum sem hér er lýst um samræmingu á veiðieftirlitsgjöldum og umræðan þá um veiðiheimildargjöld almennt. Að því er varðar tillögur um fækkun sýslumannsembætta sem hér eru gerðar tvær minni ég á að ekki er langt síðan í tíð fyrri ríkisstjórnar að gerðar voru tillögur um samruna sýslumannsembætta sem tók til níu embætta og reyndar er það undrunarefni hvers vegna núv. ríkisstjórn lætur sér nægja tiltölulega viðurhlutalitlar tillögur á því sviði. Meginathyglinni munum við þó beina að þeim tillögum sem hér eru lagðar fram um skerðingar og breytingar á ráðstöfun fjár í Framkvæmdasjóði fatlaðra, Framkvæmdasjóði aldraðra, afnám lögbundinnar viðmiðunar við launataxta að því er varðar atvinnuleysisbætur. Vegna þess að ég hef áður sagt að ég sé persónulega hlynntur því að afnema sjálfvirkni er þetta mál hins vegar sérstakt, samanber það sem fram kom í máli Steingríms J. Sigfússonar hér áðan. Það verður rækilega gengið úr skugga um það hvernig þetta mál er vaxið og hvort þær tillögur sem liggja fyrir um 5,4% hækkun eða 2.700 kr. á mánuði eru raunverulega efndir á þeim samtölum sem átt hafa sér stað og samningum við verkalýðshreyfinguna.

Að því er varðar fjármagnstekjuskatt á tiltekinn hóp aldraðra, að hluta til sem hér er boðað, er það auðvitað bæði lagatæknilegt mál og siðferðilegt álitaefni. Þ.e. fyrst og fremst spurningin um það hvenær tillögur ríkisstjórnarinnar um fjármagnstekjuskatt í heild koma fram og hvenær unnt er að koma honum í framkvæmd á næsta ári ef það er þá framkvæmanlegt.

Vegna umræðu sem hefur áður farið fram um fjárhagsvanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er ástæða til að skoða sérstaklega þau ákvæði sem eru sett fram um lögbundin framlög til Flugmálastjórnar af tekjum af flugvallargjaldi og eldsneytisgjaldi. Hér eru gerðar tillögur um að hærra hlutfalli verði varið til rekstrar en raunverulega er ástæða til þess að líta á þessa fjármuni sem eru miklir, 190 millj. Þetta er hærri fjárhæð en þyrfti raunverulega að verja til þess að standa undir árlegum afborgunum og vöxtum af skuldum flugstöðvarinnar og er raunverulega spurning um hvort ekki ætti að standa öðruvísi að fjármögnun Flugmálastjórnar.

Herra forseti. Ég endurtek að lokum að umfjöllun um þetta mál á að fara fram út frá heildarsjónarmiðum um ríkisfjármál. Við munum einbeita okkur sérstaklega að því að koma í veg fyrir að áformum ríkisstjórnarinnar að því er varðar ríkisábyrgð á greiðslum til þolenda í afbrotamálum verði hnekkt og að tryggja hag atvinnulausra og þá fyrst og fremst þeirra sem mest eiga undir bótagreiðslum almannatrygginga og framkvæmdasjóða fatlaðra og aldraðra, að þar verði skerðingar ekki með þeim hætti að það bitni á algjörlega nauðsynlegum málum.