Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 15:03:54 (1745)

1995-12-08 15:03:54# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[15:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mér er orða vant yfir þeim vinnubrögðum sem viðhafast í þinginu varðandi svona stórfelldar breytingar á lögum eins og lagðar eru fram í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1996. Það er ekki liðinn sólarhringur frá því að þessu frv. var dreift á borðin. Það er verið að breyta hér 33 lagabákum og manni er ætlað að ræða þessar breytingar allar saman innan við hálfum sólarhring frá því að málinu var dreift á borðin. Og þess má geta að það var byrjað að ræða þetta kl. 11 í morgun. Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Hér er talað um virðingu þingsins þegar það þykir henta og síðan eru svona vinnubrögð látin viðgangast. Mér finnst þetta ekki boðlegt, hvað þá þegar um svo stórfelldar breytingar er að ræða.

Ég ætla að fara yfir nokkrar greinar í þessu frv. sem ég hef haft tök á að skoða. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. 13. þm. Reykv., Mörður Árnason, fór inn á í fyrri ræðu okkar þjóðvakamanna í umræðunni um eðli skattbreytinganna sem hér eru á ferðinni. Um nefskattinn og markaða tekjustofna. Ég ætla að vona að hæstv. fjmrh. skoði þá ræðu því hann var ekki viðstaddur þegar hún var flutt. (Gripið fram í: Flyttu hana aftur.) Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að endurtaka hana, þó svo þar væri góður málflutningur á ferðinni. En hér er svo sannarlega verið að ráðast á lítilmagnann, verið að ráðast á það fólk sem getur alls ekki barist fyrir rétti sínum. Það verður fyrir niðurskurðarhnífnum. Það eru aldraðir, það eru öryrkjar, það eru einstæðir foreldrar og það eru þolendur afbrota. Og seint hefði ég trúað því að Framsfl. sem gagnrýndi svo harðlega árásir síðasta hæstv. heilbrrh. á velferðarkerfið og gagnrýndi síðustu ríkisstjórn harðlega fyrir það hvernig hún lék velferðarþjónustuna skuli nú standa fyrir árásum á þetta fólk. Það er hægt að taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni. Það er á margan hátt verið að kippa stoðunum undan velferðarþjónustunni með þessum lagabreytingum, nái þær fram að ganga.

Mig langar aðeins til að byrja á þeim mörkuðu tekjustofnum sem verið er að afnema og eru í upphafi þessa frv. Það eru breytingarnar á lögunum um Listskreytingasjóðinn, Kvikmyndasjóð, útvarpslögin, þjóðminjalög og fleira.

Fyrst um niðurskurðinn á Kvikmyndasjóðnum. Það er verið að aftengja hann mörkuðum tekjustofnum eða taka hann út úr mörkuðum tekjustofni. Það hefur komið fram hjá kvikmyndagerðarmönnum að hver einasta króna sem þeir fá úr Kvikmyndasjóði laðar að 4--5 kr. á móti í erlendu fjármagni til kvikmyndagerðar. Mér finnst því mjög varhugavert ef þarna er verið að skera niður eins og verið hefur undanfarin ár. Einnig finnst mér sérkennilegt þegar aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum í þau sem hefur verið markaður tekjustofn í Menningarsjóð útvarpsstöðva eru tekin þarna beint og lögð í ríkissjóð. Mér finnst þetta sérkennilegt vegna þess að fyrr á þessu þingi kom fram í umræðum vilji hæstv. menntmrh., sem mér leist alls ekki illa á, að þessir peningar færu í sérstakan dagskrárgerðarsjóð fyrir kvikmyndagerðarmenn og dagskrárgerðarmenn. Ég hefði frekar haldið að slík lagabreyting kæmi hér inn en þessi breyting. Reyndar hafa þessir peningar ekki skilað sér þangað sem þeir áttu að gera, eins og kom fram í ræðu hv. 13. þm. Reykv. En hér er sem sagt verið að koma því í lög að þessir peningar skulu ekki þangað sem þeim var ætlað að fara í upphafi, til dagskrárgerðar sem verða mætti til menningarauka og fræðslu.

Þá að jólaglaðningi ríkisstjórnarinnar til þeirra sem áttu rétt á bótum vegna þess að þeir eru þolendur afbrota. Nú á að fresta greiðslum sem komið var í lög á síðasta þingi, fyrir kosningar eins og kom fram í umræðunni áðan, um hálft ár. Og í 18. gr. frv. segir svo um breytingu þessara laga:

,,Bætur vegna einstaks verknaðar skulu ekki greiddar nema höfuðstóll kröfu sé 100 þús. kr. eða hærri.``

Hvað er verið að spara með þessari grein? Ég er ekki viss um að menn geri sér alveg grein fyrir því hvað er hér á ferðinni. Árið 1994 voru 11 af þeim 24 sem dæmdar hafa verið bætur vegna þessa með bótagreiðslur undir 100 þús. kr. Það er sem sagt verið að taka þarna af þeim 11 sem áttu þarna greiðslurétt á bótum og ríkisstjórnin sparar með því 530 þús. kr. Ég er sannfærð um að þolendur afbrota munar um þessa peninga. En sér er hver sparnaðurinn fyrir ríkiskassann.

Árið 1993 eru það 17 sem lenda undir þessum 100 þús. kr. mörkum af þeim 36 sem dæmdir voru og hér er ég með tölur yfir Reykjavík. Ég tek það fram, en það er um það bil helmingurinn sem dæmdir hafa verið. Þar er sparnaðurinn með því að setja þessa grein inn í lögin 780 þús. kr. sem bitnar á 17 manns. Þetta er stórmannlegt. Síðan er tekið þannig á málum að ríkissjóður mun greiða 50% af ákvörðuðum bótum tjónþola. Það er sem sagt verið að borga helminginn af því sem búið var að dæma fólki. Ég verð að segja að mér finnst þarna lítilmannlega að verki staðið, vægast sagt. Og ég trúi því ekki að Framsfl. sem hefur kennt sig við félagshyggju og mannúð ætli að standa að þessu.

Svo ég víki að öðrum þáttum þessa frv. vil ég minnast á atvinnuleysisbætur sem verið er að aftengja eins og reyndar líka almannatryggingabæturnar. Ég er ekki viss um að almenningur hafi gert sér grein fyrir því hvað er hér á ferðinni. Hann ætti að kynna sér það.

Varðandi breytingarnar á lögum um almannatryggingar er ekki verið að vísa hér til endurskoðunar almannatryggingalaganna eins og þegar sérstök frumvörp hafa komið inn á þingið til að breyta þeim lögum. Það hefur meira og minna tíðkast frá 1971 þegar frv. hafa verið til umfjöllunar. Þó svo að það hafi verið gerðar 100 breytingar á þessum lögum þá skal alltaf, sérstaklega ef á að bæta réttarstöðu einhverra, vísað til heildarendurskoðunar á lögunum, sem nú er reyndar hafin. Það hefði verið nær að þessar breytingar hefðu komið inn í þá endurskoðun í stað þess að fylgja þeim bráðaúrræðum sem kallast ráðstafanir í ríkisfjármálum og afgreidd eru með hraði í gegnum þingið.

Hér er enn verið að flækja reglurnar í almannatryggingunum og þótti þó mörgum nóg um fyrir. Nú á að skerða almannatryggingabæturnar, lífeyrisgreiðslurnar vegna fjármagnstekna. Byrjað á því að skerða greiðslur lífeyrisþega áður en aðrir eru farnir að borga fjármagnstekjuskatt. Þó svo að hún heiti ekki skattur, þessi skerðing, þá hefur þetta oft verið kallaður jaðarskattur, þessi tekjutenging bóta og skerðing vegna tekna. Og hvaða regla er sett hér inn? Jú, það á að skerða fjármagnstekjurnar að 70 hundraðshlutum. Enn ein reglan inn í skerðingarreglur lífeyristrygginganna. Grunnlífeyrir skerðist um 25% vegna tekna, tekjutryggingin um 45% vegna tekna og nú er það sem sagt 70% vegna fjármagnstekna. Hver er tilgangurinn með því að vera alltaf með þetta endalausa, flókna útreikningakerfi? Er þetta til þess að lífeyrisþegarnir átti sig ekkert á því hvað er verið að gera þeim? Ég bara spyr.

Síðan er það 31. gr., þessi makalausa grein þar sem á að fara að hegna fólki fyrir að hafa ekki borgað í lífeyrissjóð. Ég spyr: Hvað á að vera í þeirri regugerð? Hvernig ætlar hæstv. heilbrrh. að taka á þessu og skerða bætur lífeyrisþega vegna þess að þeir hafa ekki borgað í lífeyrissjóð? Ég átta mig ekki á því hvernig á að fara að taka á því. Og á að skerða lífeyri öryrkja? Fjöldi öryrkja hefur aldrei átt kost á því að greiða í lífeyrissjóð.

[15:15]

Mér þætti fróðlegt að sjá þessa reglugerð og ég legg til að hún verði lögð fyrir hv. heilbr.- og trn. áður en hún verður að lögum svo við fáum að skoða hvað út úr þessu kemur, ef þessi grein verður samþykkt hér í þinginu.

Það er rétt sem komið hefur fram hér í umræðunni, það er ekki stætt á því að breyta almannatryggingalögunum svona án þess að vera með heildarsýn yfir lögin þegar breytingar eru gerðar. Það hefur sýnt sig að það verður alltaf til þess að einhverjir verða út undan og það verða mistök og koma gloppur í lögin þegar svona er staðið að verki.

Síðan kemur 35. gr. þar sem á að aftengja almannatryggingabæturnar við launaþróunina í landinu. Í umræðunni hér áðan kom fram hjá hæstv. fjmrh. að það mætti hækka og lækka um þau 3% sem hér er getið um í lagagreininni. Hér á sem sagt að spara með því að aftengja almannatryggingabætur almennri launaþróun í landinu, aftengja laun þeirra sem lokið hafa sínum starfsdegi og geta illa eða ekki staðið vörð um sín kjör. Mér finnst ansi lágt lagst, hæstv. fjmrh. og forsrh. Þið eruð kannski líka að leggja saman? Það kæmi mér ekki á óvart.

Síðan er hér veist að einstæðum foreldrum. Reyndar var nú búið að veitast að þeim nokkuð á síðasta kjörtímabili og skerða mæðra- og feðralaun það mikið að nú segja menn í stjórnarliðinu: Það er hvort eð er búið að skerða þetta svo mikið að það tekur því varla að vera að borga þetta. Þess vegna er þetta afnumið. Afnumdar greiðslur mæðra- og feðralauna með einu barni til einstæðra foreldra af því að það tekur því varla að greiða það. En ég get alveg sagt ykkur að þessa hópa munar um að fá þessar greiðslur þótt þær séu ekki háar. Það sem er að gerast með þessum skerðingum bæði hjá lífeyrisþegunum og einstæðum foreldrum er að það er verið að vísa þessu fólki meira og minna á félagsmálastofnanir sveitarfélaganna.

Síðan kemur að þeim þætti sem á að spara ríkissjóði 5 millj. kr. á næsta ári og það er afnám ekkjulífeyris frá og með næstu áramótum. Það var nú reyndar búið að taka þannig á málum með ekkjulífeyrinn að það var búið að skerða hann svo á síðasta kjörtímabili að það er engin kona með ekkjulífeyri nema hún þurfi nauðsynlega á því að halda. Hún þarf að uppfylla þannig skilyrði að þeir sem geta framfleytt sér á öðrum tekjum fá þetta ekki greitt. Þarna er líka verið að vísa ekkjunum á félagsmálastofnun. Ég þekki það úr starfi mínu hjá Tryggingastofnun að til eru ekkjur sem eiga ekki tök á því að fá atvinnuleysisbætur, þær fá ekki vinnu eftir að þær missa maka sína og þær munar um þessar upphæðir. Þetta eru konur sem eiga rétt á þessu, á aldrinum 50--67 ára. Ég tek undir það að auðvitað er þetta arfur frá liðinni tíð. En ég er sannfærð um að smátt og smátt hefði þessi bótaflokkur orðið að engu, þ.e. það væru ekki fleiri sem hefðu þörf fyrir hann vegna þeirra breytinga sem orðið hafa í samfélaginu. En ég veit að í dag er viss hópur sem þarf á þessum greiðslum að halda. Mér finnst lítilmannlegt að fara að spara þarna 5 millj. kr. á þeim ekkjum í samfélaginu sem sannanlega þarfnast aðstoðar. Hér eiga þær ekkjur ekki rétt sem hafa einhverjar tekjur.

Þetta var í stuttu máli yfirferð yfir almannatryggingarnar. En mig langar til áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, að koma aðeins inn á samgöngumálin sem valda mér áhyggjum. Það er niðurskurðurinn í flugmálunum sem mig langar aðeins til að minnast á en hann er um 50%. Ég hef áður hér á hv. Alþingi vakið athygli á ástandinu á Reykjavíkurflugvelli. Ég er ekki ein um að hafa áhyggjur af því hvernig málum er þar háttað og að ekki skuli vera tekið á öryggismálum og viðhaldi á Reykjavíkurflugvelli.

Það er ekki einvörðungu hagsmunamál Reykvíkinga að flugvöllurinn verði lagaður. Um þennan flugvöll fara um 300 þús. manns á ári, um 90% þeirra sem ferðast í innanlandsflugi. Mig langar til að geta þess að árið 1991 lét þáv. samgrh., núv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon, gera hættumat á flugvellinum og þá komust menn að niðurstöðu um að brýnt væri að þar færu fram ákveðnar framkvæmdir og eru þær í tíu liðum. Ég veit að almannavarnanefnd Reykjavíkur hefur miklar áhyggjur af því að ekki skuli hafa verið farið í að skoða þessi mál og hefur sent erindi til samgrh., en þar sem samgrh. er ekki viðstaddur og ég get ekki spurt hann út í málið mun ég leggja fram skriflega fyrirspurn um það. Það er kannski skýrara að hann fái það í skriflegri fyrirspurn, sérstaklega þar sem þetta er viðamikið mál. Ég spyr hann þá frekar út í það síðar. En ég tel það ákaflega alvarlegt að ekki skuli vera tekið á flugvallarmálunum hér í Reykjavík. Ég veit að það eru mun fleiri en ég sem hafa áhyggjur af þessu máli.

Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri að sinni en áskil mér rétt til að taka þetta til frekari umræðu síðar.