Staðgreiðsla opinberra gjalda

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 17:16:10 (1861)

1995-12-12 17:16:10# 120. lþ. 61.2 fundur 136. mál: #A staðgreiðsla opinberra gjalda# (álag á vanskilafé) frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[17:16]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum frá efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

Nefndin skrifar öll undir nefndarálitið, þó einn nefndarmaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara. Nefndin hefur sent þetta frv. til umsagnar hjá hefðbundnum umsagnaraðilum slíkra frumvarpa og fengið á sinn fund fulltrúa fjmrn. og ríkisskattstjóra þar sem rætt var um breytingartillögurnar og þær athugasemdir sem fram höfðu komið.

Nefndin gerir tillögu um breytingar á frv. Það eru fyrst og fremst viðbætur. Í fyrsta lagi bætist ný grein við frv. og hún er í tveimur liðum. Þar er um að ræða tillögu til breytinga á 18. gr. laganna, annars vegar að í stað orðsins ,,sex`` komi: fjóra. Þar er átt við að það er verið að ívilna fyrir námsmönnum með því að rýmkuð eru ákveðin skilyrði sem námsmenn þurfa að uppfylla til þess að geta fengið endurgreiðslu á staðgreiðslu og þar er um að ræða að námstíminn þarf ekki að vera nema fjórir mánuðir í stað sex áður.

Við 5. mgr. eru gerðar breytingar þar sem fyrst og fremst er verið að tala um að bæta við álagi upp á 0,2% fyrir hvern mánuð, en það er hluti af þeirri kerfisbreytingu sem verið er að gera í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt og tengdum lögum, að afnema sjálfkrafa uppfærslu vegna verðbóta en miða þess í stað við ákveðið álag. Hér er miðað við 0,2% fyrir hvern mánuð til samræmis við það sem gildir í sambandi við álag að öðru leyti sem er yfirleitt 2,5% fyrir hvert ár.

Eins og áður segir, virðulegi forseti, skrifar nefndin öll upp á þetta nefndarálit nema Steingrímur J. Sigfússon sem skrifar undir með fyrirvara.