Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 16:02:25 (1883)

1995-12-13 16:02:25# 120. lþ. 64.8 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv., 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[16:02]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að ríkisstjórnin skuli með þessum frv. taka af öll tvímæli um heimild til handa Háskóla Íslands og í þessu tilfelli einnig Háskólanum á Akureyri, en ég er einkum að ræða hér um Háskóla Íslands, að honum sé heimilt að taka þau skráningargjöld sem hann hefur neyðst til að taka undanfarin ár vegna lágra fjárveitinga til skólans. Eins og við vitum er ekki heimilt að setja skólagjöld á í íslenskum skólum og því er hér lagt til að þetta verði skráningargjald og er það þá hugsað sem það standi undir þeim kostnaði sem af skráningu hlýst. Mér er ekki alveg ljóst hvernig þessi upphæð, 24 þús. kr., er fengin og reyndar dreg ég í efa að skráningin kosti þetta mikið fé. Ég vek einnig athygli á því að þetta er ekki föst upphæð heldur er stjórnvöldum heimilt að breyta henni frá ári til árs. Það er stórpólitísk ákvörðun að setja skólagjöld á í Háskóla Íslands sem ég er mótfallin. En við skulum halda okkur við skráningargjöld og þá vil ég sem starfsmaður háskólans vekja athygli á því að það hefur haft jákvæð áhrif innan háskólans að hafa skráningargjöld. Það skapast meiri festa. Nemar skrá sig ekki að óþörfu. Það er auðveldara fyrir kennara að panta bækur og annað slíkt. En mér er stórlega til efs að þessi upphæð sé hin rétta og finnst hún reyndar fullhá og velti fyrir mér hvernig hún er fengin. Og því vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða viðmið eru notuð við að ákvarða þessa upphæð og sér hann fyrir sér að sömu viðmið verði notuð í framtíðinni þegar hún er ákvörðuð?