Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 21:17:45 (1944)

1995-12-14 21:17:45# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[21:17]

Hjálmar Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki fara í máli mínu svo mjög út í einstök efnisatriði. Það hafa þeir prýðilega gert sem talað hafa á undan mér, hv. formaður og varaformaður fjárln. og ýmsir fleiri. Ég vil nota tækifærið til að þakka nefndarmönnum og starfsfólki öllu gott samstarf í fjárln. Það kemur fjöldi fólks til nefndarinnar, leggur fram sín mál, þau eru skráð, þeim er haldið til haga og við þeim er svo brugðist. Ég hef ekki sömu sögu að segja um fjárln. og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir. Nauðsynlegt er að stofnanir, félög og einstaklingar eigi beinan aðgang að þingnefndinni með erindi sín. Ég hygg að það sé eitt af aðalsmerkjum hins háa Alþingis að það er ekki og á ekki að vera hátt yfir fólkið hafið. Það er ekki hátt í þeim skilningi, heldur í því að vera falin mikil ábyrgð og hátt hlutverk og það er aðalsmerki þess að fólk á beinan aðgang að þinginu. Ég veit að við erum sammála um þetta, ég og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir.

En það er margt í þessum fjárlögum sem ég vildi vissulega sjá öðruvísi og ég deili þeirri skoðun ugglaust með öllum hv. þm. hins háa Alþingis. Ef til væri nóg fjármagn, veit ég um mörg verkefni sem sannarlega þyrftu á meiri framlögum að halda og önnur sem ekkert fá í sinn hlut samkvæmt tillögum okkar. Eins og hv. síðasti ræðumaður benti á eru þau verkefni einkum í mínu heimakjördæmi eins og hún nefndi sitt, þar sem maður þekkir vissulega best til og veit hvar eldurinn brennur heitastur. En það er margt sem hindrar aukin framlög. Við erum með allt of mikinn fjárlagahalla. Slíkt getur ekki gengið. Að því leyti er tillaga kratanna djarfmannleg að eyða hallanum strax.

Vissulega skiptir það miklu máli að losna við ásókn ríkisins í fjármagn. Það lækkar vextina og auðveldar atvinnulífinu að blómstra. Engin ein aðgerð í efnahagsmálum hefur nálægt því jafnmikil áhrif til góðs fyrir efnahaginn og lífskjör fólks í landinu og sú að koma reglu á ríkisfjármálin. Það er því forgangsverkefni. Þetta væri enginn vandi ef hægt væri að flokka málefnin, setja þau í tvo flokka, annars vegar góð mál, hins vegar slæm eða óþörf mál. En það er ekki auðvelt að segja við sjúkrahússtjórnir, sveitarstjórnarmenn og marga fleiri: Það er fjárlagahalli. Það er ekki hægt að halda áfram að bæta aðstöðuna og þjónustuna. Næstum öll málin eru góð mál.

Í heimi takmarkaðra gæða er ekki hægt að auka þjónustuna í hið óendanlega og kem ég reyndar að því síðar. Það er þröngt um kosti í fjárfestingarliðunum og í upphafi kjörtímabils ríkisstjórnar sem hefur myndað sáttmála um það að koma rekstri ríkisins í viðunandi horf væri það beinlínis firra að byrja á því að sprengja rammana og markmiðin sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett sér. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar við ræðum um fjárlög næsta árs. Ekki er um þá fjármuni að tefla að hægt sé að gera allt fyrir alla. Þá er líka nauðsynlegt að hafa það í huga að ekki ber allt upp á sama daginn og ekki allt upp á sömu fjárlögin heldur. Það er einatt svo að auðvelt er að gagnrýna en erfiðara að hafa ábyrgðina þegar þröngt er um kosti.

Ég vil einkum víkja að vanda í heilbrigðisþjónustunni en það er nokkuð sem hefur tekið mikinn tíma hjá okkur í vinnu þingsins undanfarnar vikur og vissulega oft áður. Breytingar á skipulagi þarf að gera í heilbrigðiskerfinu, sagði hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, fara þarf yfir stjórnun og rekstur og ná þannig fram sparnaði miklu fremur en segja þeim að ástunda flatan niðurskurð. Þetta er vissulega rétt og ég vona að ég hafi haft þetta rétt eftir. En vandinn í heilbrigðisþjónustunni er að mínum dómi ekki einungis skipulagsvandi eða stjórnunarvandi innan hennar. Vandinn er miklu meiri og djúpstæðari að mínu mati. Lausnir á honum eru ekki á færi þeirra einna, stjórnenda sjúkrastofnananna eða í heilbrigðiskerfinu að leysa og ekki heldur stjórnmálamannanna einna að leysa.

Í lögum nr. 59/1983 segir svo, með leyfi forseta:

,,Allir landsmenn skulu eiga kost á þeirri fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.``

Hafi þetta verið hægt, þá er það nú þegar orðið nær ómögulegt. Uppsafnaðar skuldir segja sitt um það einmitt núna og mig grunar að það verði æ fjarlægara markmið á komandi árum. Með öðrum orðum sagt breikkar bilið jafnt og þétt milli þeirrar þjónustu sem ríkið getur framast greitt fyrir og þeirrar þjónustu sem verður í boði. Til þessa liggja nokkrar ástæður. Ég nefni fáeinar.

Meðferðarkostir verða sífellt fleiri. Líffæraflutningar gefa t.d. nær óendanlega möguleika. Annað er það að meðferðarkostirnir verða sífellt flóknari og þar með dýrari. Mér hafa sagt sérfræðingar að tæknilega séð væri hægt að leggja árlegan rekstrarkostnað meðalstórs sjúkrahúss í einn eða örfáa sjúklinga með tiltekna sjúkdóma. Í þriðja lagi er svokallað greinimark sjúkdóma orðið miklu lægra en var og sérhver röskun á aðlögun einstaklings að umhverfinu getur talist sjúkleg. Í því sambandi má benda á skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á sjúkdómshugtakinu.

Í fjórða lagi er aldursskiptingin í samfélaginu mjög að breytast eins og raunar hvarvetna á Vesturlöndum. Hér á landi er sjálfvirkur útgjaldaauki vegna breyttrar aldurssamsetningar á annan milljarð kr. á ári þótt ekki sé tekið tillit til sífellt fjölgandi meðferðarkosta með nýrri tækni.

Herra forseti. Forgangsröðun á sér nú þegar stað í heilbrigðiskerfinu og hún mun vaxa á komandi árum. Það er alveg sama hversu mjög hagur þjóðarinnar batnar. Það verður aldrei hægt að greiða fyrir það sem hægt væri að gera fyrir alla sjúklinga. Þetta er kalt mat og þetta er kaldur veruleiki.

Á næstu árum er afar brýnt að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir stöðu þessara mála og fari rækilega yfir það hvaða kostir eru í stöðunni. Þar hafa ýmsar fræðigreinar til málanna að leggja, ekki síst siðfræðin, hvaða mælikvarði forgangs er siðferðilega réttur, enda hlýtur niðurstaðan að endurspegla siðferðilega afstöðu þjóðarinnar. Verði ekki farið að vinna að þessu ræður hending og nánast að segja geðþótti einstaklinga allt of miklu. Umræður af þessu tagi hafa farið fram víða á Vesturlöndum undanfarin 10--15 ár, en því miður allt of lítið enn þá hér á landi og það er sannarlega tímabært að sú umræða verði tekin upp og tekin alvarlega. Ég nefni aðeins nokkur atriði í úrræðum stjórnmálamanna og því sem rætt hefur verið í löndunum umhverfis okkur, Vesturlöndum, og tek skýrt fram að ég er alls ekki að kveða upp nokkra dóma, aðeins benda á nokkra þá kosti sem menn hafa rætt.

Eiga þeir sem verða sjúkir vegna reykinga, ofdrykkju, eiturlyfjaneyslu eða varasamrar kynhegðunar heimtingu á að samfélagið axli ábyrgð á því með sligandi útgjöldum? Það er ein spurningin. Á að fara eftir þarfakvarða einstaklinga eða þarfakvarða samfélags þegar ákveðið er? Tekjukvarða? Á fólk að greiða í samræmi við tekjur sínar eða á að taka upp einkarekinn valkost í heilbrigðiskerfinu? Á að taka upp markaðskvarða þar sem þeir ganga fremstir sem mest vilja borga sem er leið frjálshyggjunnar og óheftra markaðsafla eða fara eftir gæðaárakvarða þar sem reiknað er út frá því hversu mörg góð ár séu fram undan hjá viðkomandi sjúklingi eftir aðgerð?

Fram undan er að ræða þessi viðfangsefni, virðulegi forseti, og mörg fleiri þótt aðeins sé í lauslegu ágripi minnst á nokkur hér. Einn af fulltrúum sjúkrahúsanna sagði á nefndarfundi í fjárln. að þörf væri raunar á því að hætta þessum holubúskap og byggja eitt stórt, almennilegt sjúkrahús í Reykjavík. Það mundi ekki kosta nema svona 15 milljarða. Við sjáum af því að kröfurnar eru ekki minni fram undan. Við verðum að taka þessa umræðu alvarlega og ræða hvað okkur er mögulegt í fjárveitingum, hvað við getum lagt af mörkum í þessu efni.