Tekjustofnar sveitarfélaga

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 13:59:01 (2001)

1995-12-15 13:59:01# 120. lþ. 66.2 fundur 207. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (fasteignaskattur, þjónustuframlög) frv., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[13:59]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið skrifa allir þeir sem viðstaddir voru á fundinum og fram kemur að Svanfríður Jónasdóttir sem er áheyrnarfulltrúi í félmn. er samþykk áliti þessu.

Ég ætla í örstuttu máli að gera grein fyrir því um hvað þetta mál snýst. Það er í átta greinum. Í 1. gr. frv. er kveðið á um hækkun á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði. Þetta er hugsað þannig að það á að koma til móts við lækkun á sérstökum fasteignaskatti eða þeim skatti sem gengið hefur undir nafninu skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem meiningin er samkvæmt 6. gr. að þrepa niður. En á móti kemur hækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði.

[14:00]

Í 2. gr. frv. er verið að gera breytingar á ákvæðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Nefnd fór yfir lögin og þau ákvæði sem snúa að jöfnunarsjóðnum og hún lagði til nokkrar breytingar. Hér er verið að einfalda lögin og það eru felld saman ákvæði og felld niður ákvæði, t.d. sérstakt ákvæði sem gerði ráð fyrir styrkjum til tónlistarskóla. Í staðinn eru þau felld undir þjónustuframlögin.

Í 3. gr. er svo kveðið á um hvernig jöfnunarframlögum skuli skipt í tekjujöfnunarframlög og þjónustuframlög og nánar kveðið á um hvað fellur undir hvorn lið.

Í 4. gr. er kveðið nánar á um það sem kemur fram í 2. gr. þar sem m.a. er verið að gera ráð fyrir þeim breytingum sem fram undan eru vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna. 5. gr. er í framhaldi af breytingu á 1. gr. þannig að þetta hangir saman.

Í 6. gr. er kveðið á um hvernig eigi að þrepa niður skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og hvernig hinn skatturinn kemur á móti eins og ég nefndi í upphafi.

Nefndin varð sammála um þetta mál eins og kom fram í upphafi og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.