Tryggingagjald

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 17:40:00 (2034)

1995-12-15 17:40:00# 120. lþ. 66.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta JBH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[17:40]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég vísa um okkar afstöðu til nál. á þskj. 396 þar sem við gerum grein fyrir því hvers vegna þingmenn Alþfl. lýsa sig andvíga þessum skattlagningaráformum um tryggingargjald.

Tilefni þessa máls er það að fyrrv. ríkisstjórn lýsti sig reiðubúna til þess í tengslum við kjarasamninga í upphafi þessa árs að taka fyrsta skrefið í þá átt að heimila að iðgjöld launþega í lífeyrissjóði yrðu undanþegin tekjuskatti. Því var lýst yfir af hálfu þáv. ríkisstjórnar að hún áskildi sér rétt til þess að bæta sér upp tekjutapið ef þörf krefði annaðhvort með lækkun útgjalda eða með öflun tekna. Þetta var stærsta framlag þáv. ríkisstjórnar til umræddra kjarasamninga. En framlag ríkisstjórnarinnar til að ná þeim samningum má meta á nokkra milljarða króna af heildarútgjaldaauka vegna samninganna kannski upp á 14--15 milljarða kr. Þetta var gert vegna þess að innsiglun efnahagsbata og stöðugleika með kjarasamningum til tveggja ára var eitt og sér ígildi verulegs tekjuauka fyrir ríkssjóð fyrir utan allar hinar jákvæðu efnahagslegu afleiðingar sem slíkt stöðugleikatímabil hefði haft. Nú er komið á daginn og það er ekki um að deila að í kjölfar þessara samninga hefur þróunin orðið mjög jákvæð þannig að tekjuauki ríkissjóðs er meiri en nemur meintu tekjutapi vegna skattfrádráttar iðgjaldanna. Afstaða okkar alþýðuflokksmanna er því sú að í fyrsta lagi er tekjuaukinn sem fyrir liggur nægur til þess að það þarf ekki að grípa til slíkra skattlagningar. Í annan stað, jafnvel þótt menn vildu styrkja stöðu ríkissjóðs enn frekar vegna þess að hann er jú rekinn með halla, þá er það okkar afstaða að það beri að gera með sparnaðaraðgerðum og í því efni vísa ég einfaldlega til tillagna sem lagðar hafa verið fram í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna, m.a. nú við 2. umr. fjárlaga, þ.e. þar sem lagðar voru fram tillögur um sparnað í ríkisrekstri upp 1,5 milljarða kr. Þar af leiðir að við teljum þetta frv. óþarft. Því næst er því við að bæta að álagning þessa gjalds á launastofnun er eitt og sér kannski ekki skynsamleg leið. Ég viðurkenni fúslega að tryggingagjöld og launatengd gjöld eru hér lægri en víðast hvar annars staðar. En það er einmitt víti til að varast. Þau eru orðin allt of há í grannlöndum okkar og hafa reyndar greinilega haft áhrif í þá átt að auka atvinnuleysi fremur en hitt. En engu að síður er það svo að tryggingagjaldið er gjaldtaka á laun og skerðir svigrúm atvinnulífsins til þess að stíga frekari skref til að hækka launin, þessi smánarlega lágu laun sem svo voru nefnd réttilega hér áðan.

Loks er síðan það að nefna að framkvæmdin á þessari skattlagningu er ein út af fyrir sig algjörlega óásættanleg. Ef það á að leggja á skatt eins og tryggingagjald á atvinnulífið í landinu þá eiga allir atvinnuvegir og öll fyrirtæki að sitja við sama borðið. Það er óverjandi að ætla að mismuna atvinnugreinum. Og eftir hvaða mælikvarða? Eftir því hversu háværir hagsmunavörslumennirnir eru fyrir hverja atvinnugrein hér á þingi? Eftir því hversu sterk ítök rótgrónir, hefðbundnir atvinnuvegir eiga í stjórnkerfinu? Slík sjónarmið eiga alls ekki heima í þessari umræðu. Ef ríkisstjórnin vill fara þessa leið þá á hún að leggja á einfalt, samræmt tryggingagjald þar sem allir sitja við sama borð. Þessi mismunun sem hér er boðið upp á er reyndar svo gróf að það er ekki ólíklegt að á það verði látið reyna, og þá í samhengi við EES-samninga með málskoti fyrir eftirlitsstofnun og þá að lokum hugsanlega EES-dómstóls, hvort þetta standist almennar samkeppnisreglur sem við erum skuldbundnir af.

Herra forseti. Ég ítreka að ég vísa til þessa nál. sem fyrir liggur og lýsi yfir andstöðu okkar jafnaðarmanna við þessi skattlagningaráform.