Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 13:04:39 (2064)

1995-12-16 13:04:39# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[13:04]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við erum að ræða stórt mál sem er frv. til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza Holding Ltd. um álbræðslu við Straumsvík og er þetta 2. umr. málsins. Ég tel, virðulegur forseti, óhjákvæmilegt við þessa umræðu að fara yfir ýmsa þætti sem málið varðar til viðbótar því sem ég kom að við 1. umr. málsins, en ýmislegt hefur komið fram síðan á þeim tíma sem liðinn er, bæði við umfjöllun í nefndum þingsins sem og á opinberum vettvangi, sem óhjákvæmilegt er að fara yfir við 2. umr.

Ég vil segja almennt um málið í upphafi að mér finnst að við umræðu um það og umfjöllun í þinginu og í nefndum á vegum þingsins hafi nokkuð á það skort að farið sé yfir málið í þeirri breidd og í því samhengi sem það verðskuldar. Mér finnst menn hafa haft tilhneigingu til þess að fara yfir málið út frá þessum samningi tiltölulega einangrað án þess að líta á aðra þætti sem eru til umfjöllunar á vegum stjórnvalda um þessar mundir og kynntir hafa verið. Ef marka má yfirlýsingar geta verið líkur á, og þær e.t.v. ekki litlar, að um nýjar skuldbindingar af hálfu stjórnvalda verði að ræða í sambandi við stóriðju alveg á næstunni. Það gengur því ekki að mínu mati að skoða þennan samning einangraðan burt séð frá stefnu stjórnvalda að þessu leyti. Ég mun koma nánar að því í ræðu minni á eftir.

Ég tel líka að það vanti talsvert á að það hafi verið varpað ljósi á þá þætti í aðalsamningi íslenska ríkisins, Íslands og Alusuisse, sem varðar álbræðsluna í Straumsvík, samningi sem gerður var 1966 og sem hefur verið endurskoðaður nokkrum sinnum síðan og er þetta 5. viðauki við samninginn. Ég segi þetta vegna þess að mér finnst að það hefði verið sjálfsagt af hálfu stjórnvalda við upptöku málsins og gerð þessa viðauka að gera kröfur um endurskoðun ýmissa fráleitra ákvæða sem aðalsamningurinn hefur að geyma til þess að ná þar fram lagfæringum. Þetta á m.a. við um ákveðna þætti sem tengjast skattamálum fyrirtækisins sem hafa satt að segja verið til muna of lítið til meðferðar í þessari umræðu og umfjöllunar af hálfu nefnda þingsins. Það er verið að ganga fram hjá því með afskaplega léttvægum hætti hver niðurstaða gæti orðið miðað við þessar reglur sem hér er verið að innleiða og hvað eðlilegt gæti tekist í því efni. Að því mun ég koma nokkuð síðar í máli mínu, en taldi rétt að nefna þetta í upphafi.

Síðan er sá þáttur sem hefur verið fyrirferðarmikill í 2. umr. til þessa sem snýr að umhverfismálum og er kannski sá þáttur sem þrátt fyrir allt mest umræða hefur orðið um, bæði í þinginu og eins meðal almennings í landinu og fjölmiðla. Það hefur þrátt fyrir allt tekist í sambandi við málið að fá umræðu um það og skoðun á þáttum þess, mörgum hverjum, og sú skoðun leiðir í ljós að mínu mati að hér er um að ræða algerlega óviðunandi frágang að því er varðar umhverfismálin og starfsleyfi fyrirtækisins. Mál sem þetta er samansett úr nokkrum meginþáttum. Eitt er það sem varðar hinn þjóðhagslega þátt, þær væntanlegu tekjur sem íslenska ríkið, fyrirtæki í landinu og þjóðarbúið er talið hafa af þessum samningi. Það er mjög gildur og stór þáttur sem eðlilegt er að sé athugaður, en þá verða menn líka að vega þetta jafnhliða, bæði orkuverðið og skattgreiðslurnar. Það er það tvennt í sameiningu sem skapar hinn þjóðhagslega þátt málsins, þann hagnað sem menn eru að vænta að geta haft af samningnum. Þetta hefur ekki verið gert upp með þeim hætti sem ég hefði talið eðlilegt vegna þess að spurningin gagnvart samningsaðilanum er sú hvaða greiðslur það eru í heild sinni sem þessum atvinnurekanda er ætlað að standa skil á til íslenska þjóðarbúsins, annars vegar Landsvirkjunar sem raforkuframleiðanda og sérstaks fyrirtækis og hins vegar íslenska ríkisins í sambandi við skattgreiðslur. Við höfum langa reynslu fyrir því í samskiptum við Alusuisse á liðnum áratugum að þeir hafa gætt þess af mikilli prýði út frá sínum hagsmunum að halda þannig á málum að um leið og þeir hafa slakað til í sambandi við raforkuverð, um leið og þeir hafa neyðst til að endursemja um raforkuverðið, hafa þeir gætt þess að ná fram breytingum á skattgreiðslum til þess að vega þar upp á móti.

Frægasta dæmið í þessum efnum er endurskoðun samningsins 1975 þegar um var að ræða smávægis aukningu á framleiðslugetu fyrirtækisins og það þurfti að ná samningum þar að lútandi og raforkuverðið var endurskoðað. En það sem gerðist í leiðinni var að slegið var af á skattahliðinni þannig að þegar þetta dæmi var skoðað af óvilhöllum aðilum í kringum 1980 kom í ljós að ef nokkuð var, þá hallaði á ríkið út úr þessum samningum, þá hallaði á ríkið og hallaði á þjóðarbúið, þ.e. sameiginleg niðurstaða úr raforkuverðssamningnum og skattasamningnum varð neikvæð. Að vísu ekki svo miklu munaði, en hún varð samt neikvæð þegar litið var yfir þetta 5--6 ára tímabil sem þarna var til athugunar. Þetta hefur ekki verið farið yfir nú í sambandi við meðferð málsins og það hefur ekki verið litið á ýmsa þætti í aðalsamningnum sem að mínu mati hefði verið sjálfsagt að taka á í sambandi við skoðun málsins.

Það hefur auðvitað komið fram, og það kom fram mjög skýrt fyrri hluta nóvembermánaðar um það leyti sem samningurinn var undirritaður af aðaltalsmönnum Alusuisse, að þeir voru prýðilega ánægðir með niðurstöðuna og töldu sig hafa náð afar hagstæðum samningi fyrir fyrirtæki sitt. Þetta skulum við hafa í huga þegar við erum að meta þetta mál í heild sinni. Síðan verður það auðvitað að vera pólitískt mat hvort menn telja að samningurinn í heild og allt sem honum tengist sé ásættanlegt, sé hagkvæmt. Ég veit að það er mat hæstv. iðnrh. og fleiri sem að þessu máli hafa komið að svo sé. Ég er aftur á móti ekki sammála hæstv. ráðherra að þessu leyti. Ég tel að í þessu máli séu afar margir brestir og veikleikar. Þegar ég met mál af þessum toga tel ég þætti eins og umhverfismál og þá hagsmuni sem umhverfismálunum tengjast ekki síður gilda en spurninguna um einhverja reiknaða þjóðhagslega hagkvæmni. Störf sem eiga að skapast vegna samningsins eru ekki nema 90 talsins með beinum hætti, að vísu fleiri út frá almennum margfeldisstuðli. Á þetta verður að líta og vega nokkuð jafnhliða og líta heildstætt á þetta þegar verið er að skoða hlutina. Þeir sem telja að umhverfisþátturinn sé slæmur eða jafnvel óviðunandi geta að mínu mati ekki verið með þessum samningi. Þeir geta ekki stuðlað að því að samningurinn fái staðfestingu á Alþingi Íslendinga. Það væri mjög undarlegt að mínu mati miðað við það að umhverfishagsmunirnir eru stærsti þátturinn í þessu máli til framtíðar litið. Ég á þá ekki við þetta mál einstakt, heldur almennt. Þegar verið er að ganga frá samningum um fyrirtæki af þessum toga sem geta haft veruleg áhrif á umhverfið, neikvæð áhrif, eru það þeir hagsmunir að mínu mati sem verður að leggja ríkasta áherslu á. Við eigum ekki að hafa þá stefnu á Alþingi Íslendinga að gera samninga um stóriðju eða veita starfsleyfi almennt til atvinnurekstrar sem stenst ekki lágmarkskröfur um umhverfisvernd með viðunandi hætti.

Ég ætla þá, virðulegur forseti, að þessum inngangi loknum að koma í máli mínu að einstökum þáttum þessa samnings. Ég veit að virðulegur forseti mun ekki hafa neina athugasemd við það þótt ég kæmi að málsskjölum sem ég hef notað hér aðeins til hliðar.

(Forseti (ÓE): Það er rétt.)

Ég þakka. Ég ætla að koma að rafmagnsþættinum sem eðlilega hefur mikið verið ræddur. Þessi þáttur málsins, samningur Landsvirkjunar við Ísal um raforkusölu, hefur fengið þann dóm hjá flestum sem hafa tjáð sig um málið að þetta sé heldur góður samningur. Sumir telja hann mjög góðan og hafa jafnvel sterkari lýsingarorð í þeim efnum. Virðulegur forseti. Þar sem ég hef haft aðstöðu til að skoða þetta verð ég að segja að það er ekki mjög einfalt vegna þess að þessi þáttur málsins, sem skiptir mjög miklu í þjóðhagslegu samhengi og kannski frekar varðandi tekjur en skattaþátturinn þótt ég hafi ekki skoðað það nákvæmlega, hefur verið lokaður og honum haldið leyndum fyrir alþingismönnum. Þótt hæstv. iðnrh. segi að iðnn. þingsins hafi verið veittar allar upplýsingar um málið liggur það fyrir að hv. þingmenn í þeirri nefnd eru bundnir af trúnaðarskyldu. Það var ítrekað af hv. talsmanni meiri hluta iðnn. sem talaði hér áðan að svo væri. Ég skil vel að hv. nefndarmenn í iðnn. telji sig bundna af slíkum trúnaði vegna þess að menn vilja ekki ganga gegn því sem þeim hefur verið uppálagt í þessu máli. En ég gagnrýndi það við 1. umr. málsins mjög harðlega hvernig á þessum þætti hefur verið haldið og ég tel í rauninni að þetta sé ekki frambærilegt og þetta sé í rauninni, óttast ég, skálkaskjól frá hendi þeirra sem að þessu máli standa og leggja það fram til þess að opna málið ekki til almennrar umræðu og skoðunar í samfélaginu. Það er mjög alvarlegt mál.

Hér er um að ræða opinbert fyrirtæki, Landsvirkjun, sem er að sækja heimildir varðandi lántökur og annað til Alþingis Íslendinga og það er að ganga til samninga við erlend fyrirtæki með stórfelldar skuldbindingar, en lokar um leið forsendum málsins gagnvart þinginu. Ég leyfi mér að orða það þannig, virðulegur forseti, vegna þess að það er þannig. Það er lokað gagnvart þinginu vegna þess að iðnaðarnefndarmenn þingsins eru bundnir af trúnaði varðandi málið.

[13:15]

Alþingi Íslendinga á að geta skoðað svona mál óbundið og það væri lágmark að alþingismenn allir, virðulegi forseti, hefðu fengið í hendur gögn málsins og möguleika til að óska eftir upplýsingum um einstaka þætti þess. Ég hefði talið til bóta þó svo að þingið hefði verið bundið af því að fara með málið sem trúnaðarmál út á við. Það hefði verið til bóta. En ég tel samt að eðlilegt hefði verið að málið hefði verið opið til skoðunar. Um þetta mál á ekki að vera leynd. Það varðar engu í spurningunni um hvernig haldið er á málum gagnvart öðrum samningsaðilum, fullyrði ég. Í stöðunni, gagnvart þeim sem á að semja við í framtíðinni um orkusölu, skiptir ekki máli þó að samningarnir liggi opnir fyrir skoðun og umræðu.

Ýmsir þeir sem yfir málið hafa farið, haft aðstöðu til þess, fara sumir hverjir mjög gagnrýnum orðum um það og tala um útsölu á orku, sérstaklega í fyrsta þætti málsins, fram til ársins 2004. Því væri hægt að finna stað í mörgum tilvitnunum, bæði í þingræðum, sem og í viðtölum úti í samfélaginu. Þannig að ekki er nú allt einhlítt í þessum efnum.

Ég vil benda á, virðulegi forseti, að hvað varðar raforkuþáttinn er óhjákvæmilegt að skoða hvað stjórnvöld ætlast fyrir alveg á næstu missirum. Ég leyfði mér að leggja fram á Alþingi fjórar fyrirspurnir til hæstv. iðnrh. sem snerta málið sem hér er til umræðu. Ég mun koma að þeim á eftir.

Áður vil ég þó segja, virðulegi forseti, að það sem er kvíðvænlegast í sambandi við raforkusöluna til Ísals er sú tenging við þróun álverðs sem í samningnum felst. Hún snertir í þessu tilviki, eins og komið hefur fram í umræðunum, yfir 60% af raforkusölu Landsvirkjunar þegar búið er að stækka fyrirtækið eins og óskað er heimilda til. Þá er aðalraforkuframleiðandi landsins bundinn þessum samningi og raforkusala hans, að 60%, sveiflast til eftir þróun álverðs á heimsmarkaði. Ekki einu sinni um það að ræða í samningnum að gengið sé frá botni í þeim efnum, ef ég hef skilið rétt það sem menn hafa látið að liggja um hann. Það var þó botn í gamla samningnum. Þar var reyndar líka þak, sem var auðvitað fráleitt, en þar var botninn 12,5 mill á kwst. á samningstímanum, samningsins sem gerður var við endurskoðun 1984.

Það er tenging við heimsmarkaðsverð á áli við einn kaupanda sem auk þess beitir úreltri tækni. Veruleg hætta er á því að þessi álbræðsla verði í framtíðinni ekki samkeppnishæf vegna þess að hún notar úrelta tækni. Á þetta hefur verði bent af mönnum sem til eiga að þekkja. Ég vitnaði við 1. umr. málsins til Pálma Stefánssonar sem var lengi háttsettur starfsmaður og síðar ráðgjafi Ísals og starfar nú hjá virtu fyrirtæki erlendis í áliðnaði. Hann hefur varað við því að binda trúss sitt við Ísal áfram með vaxandi uppbyggingu þar vegna þeirrar úreltu tækni sem fyrirtækið notar. Þetta snertir samkeppnisstöðu þess fyrir utan að fyrirtækið ræður ekki við, að því er virðist, að sinna eða ná fram eðlilegum lágmarkskröfum um mengunarvarnir.

Þá ætla ég að víkja aðeins að svörum hæstv. iðnrh., sem bárust mér í hendur í fyrrakvöld, við fyrirspurnum mínum. Fyrsta fyrirspurnin sem ég ætla að gera hér að umtalsefni og svörin við henni voru um afgangsorku í kerfi Landsvirkjunar, svonefnda afgangsorku og ótryggða orku. Í þessum svörum kemur fram, að mati hæstv. iðnrh., að um 1.500 gwst. hafi verið árið 1994 af afgangsorku og ótryggðu rafmagni hjá fyrirtækinu.

Spurt er um hversu miklu af afgangsorku fyrirtækin hafi ráðstafað til viðskiptavina sinna, þ.e. Landsvirkjun og/eða Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, samkvæmt sérsamningum á síðustu fimm árum flokkað eftir árum og notendahópum. Svarið við þeirri fyrirspurn er að samtals hafi Landsvirkjun selt u.þ.b. 850 gwst. á árinu 1994.

Þá er spurt um á hvaða verði þessi afgangsorka hafi verið seld og ég leyfi mér, virðulegi forseti, að taka niðurstöðutölurnar en svörin liggja á borðum hv. þm. Því er til svarað að tekjurnar af sölu þessa ótryggða rafmagns eða afgangsorku, eins og hún er skilgreind, hafi numið 619 millj. kr. á árinu 1994, að meðalverð Landsvirkjunar fyrir þessa seldu orku hafi verið 0,73 kr., þ.e. 73 aurar kwst. Það er meðaltalið, sem þýðir umreiknað í bandaríkjamill yfir 10 mill, í kringum 11 mill, meðalverð fyrir hverja orkueiningu sem þarna er seld. Án þess að ég viti nákvæmlega hver botninn getur orðið í raforkusamningnum sem nú er verið að gera við Ísal þá kann að vera að verið sé að semja um raforkusölu næstu árin til Ísals á svipuðum kjörum og þessi afgangsorka er seld til fjölmargra þýðingarmikilla notenda í landinu sem hafa gert samninga þar að lútandi.

Innifalin í þessum tölum er vissulega sú afgangsorka sem stóriðjufyrirtækin kaupa en einnig er um að ræða hitaveitur, mjólkurvinnslu, steinullarframleiðslu, fiskimjölsframleiðslu, þ.e. loðnubræðslurnar sem við köllum svo, svo og hitaveitur, t.d. á Vestfjörðum til Orkubús Vestfjarða, sem fá raforkuna á sérstökum kjörum sem réttlætt eru með því að um afgangsorku sé að ræða.

Síðan er spurt, virðulegi forseti: Hvað gerir Landsvirkjun ráð fyrir mikilli afgangsorku til ráðstöfunar í kerfi sínu á tímabilinu 1998--2004 miðað við fyrirliggjandi áætlanir um virkjanir og sölu forgangsorku? Ég leyfi mér að lesa úr svarinu þannig að ekkert fari þar milli mála, með leyfi forseta. --- Ég vænti þess, virðulegi forseti, að hv. frsm. meiri hluta iðnn. sé hér innan seilingar. Ég sé ekki hv. þm. (Gripið fram í: Hann er í hliðarherbergi.) Mér þykir nú viðkunnanlegra að aðalforsvarsmenn málsins séu í þingsal við 2. umr.

Í svarinu segir: ,,Á tímabilinu 1998--2004 má gera ráð fyrir að bæta þurfi við nýjum virkjunum vegna orkuaukningar almenns markaðar, auk þeirra framkvæmda sem þörf er á vegna stækkunar Ísals. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hverjar þær virkjanir verða. Ef gert er ráð fyrir t.d. að 1. áfangi Nesjavallavirkjunar bætist við raforkukerfið árið 2001 og Hágöngumiðlun árið 2004 má gera ráð fyrir að Landsvirkjun hafi í meðalvatnsári`` --- menn taki eftir því --- ,,til ráðstöfunar eftirfarandi magn af afgangsorku og ótryggðu rafmagni:

Árið 1998 620 gwst., árið 1999 670 gwst., árið 2000 630 gwst., árið 2001 820 gwst., árið 2002 780 gwst., árið 2003 730 gwst. og árið 2004 740 gwst.``

Þetta er aðallega á bilinu frá 600 gwst. upp í 750 gwst. en hámarkið er 820 gwst. árið 2001. Ef við berum þessar tölur saman við þá samninga sem gerðir hafa verið um sölu á afgangsraforku eða ótryggðu rafmagni þá er samtalan úr því 844 gwst. Ég spyr hv. talsmann meiri hluta iðnn.: Fór hæstv. iðnn. yfir þessi efni út frá þessari stöðu að því er varðar sölu á afgangsorku til einstakra notendahópa? Ég vænti þess að gerð verði grein fyrir því ásamt ýmsu fleiru sem ég mun spyrja talsmann meiri hluta iðnn. í tengslum við þetta mál.

[13:30]

Það er ekki einhlítt út af fyrir sig að líta á þessar samtölur einar og sér en menn verða jafnframt að líta á hvers eðlis þeir samningar eru sem þarna er verið að gera. Ég tel í rauninni að óhjákvæmilegt sé fyrir hv. iðnn. að fara yfir þessi efni, m.a. í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið í svörum hæstv. iðnrh. og meta stöðuna að þeim upplýsingum fengnum ef nefndin hefur ekki haft svörin undir höndum á meðan hún fjallaði um málið, sem ég efast um að hafi verið, a.m.k. ekki með beinum hætti því að þau bárust mér í hendur fyrst í fyrrakvöld og var dreift á borð þingmanna í gær. Það kann að vera að spurt hafi verið um sérstaka þætti í iðnn. í sambandi við þetta efni.

Í sambandi við þetta mál er í lokin spurt hvort gert sé ráð fyrir að á árunum eftir 1997 verði til afgangsorka sem svari til þess að unnt verði að fullnægja þeim samningum, sem nú eru í gildi, á sérkjörum til sölu ótryggðrar orku. Svarið er stutt og laggott: ,,Áætlað er að unnt sé að standa við þá samninga sem þegar hafa verið gerðir um afhendingu á ótryggðu rafmagni í samræmi við gildandi skilmála.``

Nú vil ég biðja hv. form. iðnn. um að upplýsa þingið hverjir þessir skilmálar séu og fá þær upplýsingar fram í sambandi við sölu á ótryggðu rafmagni. Ég hafði ekki fyrir því, sem ég hefði átt að gera, að biðja um þessa samninga fyrir þingið í einstökum atriðum þannig að menn gætu metið stöðuna á grundvelli samninganna. Nú tel ég óhjákvæmilegt að hv. iðnn. afli þessara upplýsinga fyrir 3. umr. málsins þannig að unnt sé að skoða þennan þátt sem varðar ekki litlu í sambandi við mat á viðskiptum við fjölmarga innlenda aðila sem gert hafa þessa samninga á undanförnum árum. Það er vissulega mjög vel að undanfarið hefur tekist að auka markaðinn fyrir raforku sem hefur verið yfirfljótandi, a.m.k. er óhætt að segja að hún hafi verið rúm. Ég dreg til baka yfirfljótandi því að ég held að það sé ekki allt sem sýnist í þeim málum í sambandi við framleiðslugetu kerfisins. Margt af því hefur nýst í raun þó ekki væri nema með óbeinum hætti þannig að hægt hefur verið að viðhalda raforkuverum sem hefði ekki verið hægt að ráðast í viðhald á ef ekki hefði verið þokkalega rúmt um í sambandi við framleiðslugetu í kerfinu. Þá er ég m.a. að tala um viðhald í Búrfellsvirkjun.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki haft ráðrúm til að skoða það efni eða haft þau gögn fyrir mér til athugunar að það hafi ekki verið um að ræða að skerða hafi þurft eða beita hafi þurft takmörkunum í þessum samningum á undanförnum árum frá þeim tíma sem þeir voru gerðir. Samningar um sérkjör gera ráð fyrir möguleika á verulegum takmörkunum. Vegna þess að það hefur verið næg raforka til afhendingar á þessari orku þá hefur það af eðlilegum ástæðum ekki verið takmarkað. Slíkt hefði auk þess verið viðskiptalega óhagkvæmt fyrir Landsvirkjun. En þetta þýðir um leið að möguleikar Landsvirkjunar á aukinni skerðingu á næstu árum eru mun meiri en ef um takmarkanir hefði verið að ræða á liðinni tíð. Þetta getur í rauninni verið svo að hægt sé að loka fyrir söluna, jafnvel klippa alveg á söluna um talsverðan tíma, jafnvel eitt ár ef þannig ber undir að beita þurfi ýtrustu takmörkunum samkvæmt sérsamningum. Þetta segi ég án þess að hafa skoðað málið til hlítar. Ég nefni það þannig að menn átti sig á að hér getur verið um mjög alvarlega stöðu að ræða fyrir þá aðila sem byggja á þessum samningum um afgangsorku eða ótryggt rafmagn. Ég bendi t.d. á aðila eins og þá sem stunda ylrækt, blómaræktendur og aðra þá sem stunda ylrækt. Þar er í rauninni óhjákvæmilegt fyrir viðkomandi að hafa aðgang að raforkunni vegna framleiðslu sinnar. Það hefur komið fram að undanförnu að ylræktendur leggja mjög mikið upp úr því að geta náð samningum til lengri tíma og öruggum samningum í sambandi við þetta og auðvitað hagstæðum frá sínum bæjardyrum séð. Þarna er því um að ræða ótvíræða þörf til nákvæmrar skoðunar málsins miðað við forsendur Landsvirkjunar þannig að þeir mörgu aðilar, sem þarna eiga undir, allt frá þeim sem nýta umframorkuna til húshitunar, t.d. Orkubú Vestfjarða, og þeir sem reka loðnumjöls- og fiskimjölsverksmiðjur, þeir sem stunda steinullarframleiðslu í landinu --- það kannast hv. formaður iðnn. vel við úr heimabyggð sinni --- og eru með raforku á sérkjörum sem tíundað er í svari hæstv. iðnrh., viti hvað framtíðin kunni að bera í skauti sér ef þetta gengur eftir og þá að teknu tilliti til þess að miðlunargetan í kerfi Landsvirkjunar fari eitthvað niður úr meðaltalinu sem þessar tölur eru byggðar á, sem ég er ekki að gagnrýna út af fyrir sig, en það er miðað við meðalvatnsár. Það verður auðvitað að skoða við slíkar aðstæður og svo lakasta vatnsár sem menn hafa reynt. Enginn veit hvenær það kemur og auðvitað verður að gera ráð fyrir því að það geti orðið innan ekki langs tíma þegar menn eru að líta á þessi efni.

Ég þykist þess fullviss að hv. iðnn. og formaður hennar séu reiðubúin að fara ofan í þessi efni og kynna niðurstöður sínar fyrir 3. umr. málsins þannig að enginn velkist í vafa um þessa stöðu mála. Ég hef því ekki þungar áhyggjur af því að það verði ekki lýst nánar inn í það. En eins og tölurnar bera með sér, eins og ég er að vekja athygli á, þá sýnist vera að þarna geti orðið þröngt um í sambandi við þessi efni. Ég tala ekki um ef ekki er miðað við meðalvatnsár.

Önnur fyrirspurn snertir þá orkuöflun sem miðað er við í svarinu við fyrirspurninni sem ég kom áðan að, þ.e. varðandi Nesjavallavirkjun. Þar var spurt um hvaða áætlanir væru uppi um gufuaflsvirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum. Svarið er ekki mjög langt og ég tel rétt að tengja það máli mínu, með leyfi virðulegs forseta. Ég vitna í svarið frá hæstv. iðnrh.

,,Ýmsar frumáætlanir um raforkuver á Nesjavöllum hafa verið unnar á mismunandi stigi sl. 7--8 ár.

Viðræður eru í gangi við Landsvirkjun um framleiðslu Hitaveitu Reykjavíkur á raforku á Nesjavöllum.`` Ég vek athygli á orðalaginu ,,viðræður eru í gangi við Landsvirkjun`` -- væntanlega af hálfu iðnrn. við Landsvirkjun -- ,,um framleiðslu Hitaveitu Reykjavíkur á raforku á Nesjavöllum.`` Ef ekki -- því ég sé að hæstv. iðnrh., gefur táknmerki um að svo sé ekki en mun vafalaust koma að málinu í töluðu máli og upplýsa hver á í viðræðum við hvern um þetta efni. (Umhvrh.: Hann hlýtur að geta talað táknmál svona í leiðinni.) Það er allt í besta lagi, hæstv. umhvrh., mjög gott að nota táknmál og svipbrigði og ég kann að lesa í ýmislegt í þeim efnum en tel það nú samt ekki jafngilt vegna þess að þingheimur er ekki varðveittur með opinberum hætti í myndrænu formi, því miður. Það kemur að því vafalaust þannig að hægt sé að telja hversu oft hv. alþm. geispa á löngum næturfundum við að ræða mikilsverðustu mál og kann þá að vera að hylli þeirra meðal þjóðarinnar og skilningur á aðstæðum þeirra og kjörum verði annar en virðist vera um þessar mundir.

,,Hvert er ráðgert afl og raforkuframleiðsla slíkrar virkjunar og hvenær hefur verið miðað við að hún gæti komist í gagnið?`` Svarið er, með leyfi forseta:

,,Til umræðu hefur verið stærð orkuvers.`` Ég vek athygli á af því að hér er verið að tala um allra næstu ár og framleiðslu ofan í samning sem hæstv. iðnrh. hefur lýst vonum að sjái í og liggi jafnvel ljóst fyrir hvort hægt sé að ná í sambandi við enn annað álver fyrir áramótin. Hvað skyldi vera langt í það? Það eru bara nokkrir dagar, hv. form. iðnn. En staðan varðandi Nesjavallavirkjun, sem á að vera úrræði til raforkuframleiðslu er sú að til umræðu hefur verið. Það eru umræður í gagni. ,,Til umræðu hefur verið stærð orkuvers allt að 2 x 30 MW með 300--400 GWh ársframleiðslu. Gert er ráð fyrir að undirbúningur og framkvæmdatími frá því að ákvörðun er tekin um virkjun þar til rekstur getur hafist sé 2,5--3 ár.`` Þetta segir hæstv. iðnrh. í skriflegu svari sínu til þingsins í gær. Það er ekki búið að semja þannig að það er langt frá því að framkvæmdir geti hafist eða það mætti ætla.

[13:45]

Síðan er spurt: ,,Hefur verið samið við Reykjavíkurborg um virkjunarréttindi og ef svo er hverjir eru helstu skilmálar þeirra samninga?``

Svar hæstv. ráðherra er svohljóðandi:

,,Í 4. mgr. 1. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum, segir: ,,Iðnaðarráðherra er heimilt að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 76 MW afli, í tveimur áföngum (38 MW hvor áfangi), enda liggi fyrir samningur um rekstur hvors áfanga virkjunarinnar um sig sem hluta af raforkukerfi landsins.`` Engir samningar hafa verið gerðir.``

Það er kominn 16. desember og hæstv. ráðherra þarf að taka á móti virðulegum útlendingum, hugsanlega fyrir áramót, sem banka upp á kontór ráðherrans. Hann þarf að svara því hvort hann sé ekki til í tuskið og reiðubúinn að tryggja þeim að sett verði niður álbræðsla í Hvalfirði, svona til að byrja með upp á 60 tonna ársframleiðslu. En raforkuframleiðsluhugmyndir iðnrn. og hæstv. ráðherra byggja á einhverju sem engir samningar eru um og aðeins eitthvað til umræðu.

Spurning 4. ,, Er búið að kanna umhverfisáhrif virkjunarinnar? Hvaða vandamál eru einkum í athugun í því sambandi?``

Svarið er stutt:

,,Umhverfisáhrif raforkuvirkjunar umfram áhrif núverandi varmavirkjunar eru talin nánast engin, þar sem ekki er gert ráð fyrir öðrum breytingum vegna raforkuvinnslunnar, svo sem frekari borunum eða breytingum á afrennsli eða útblæstri orkuversins.``

Þetta svar róar auðvitað þá sem hefðu áhyggjur af umhverfisáhrifum Nesjavallavirkjunar.

Virðulegur forseti. Það er óhjákvæmilegt að spyrja um svolítið fleira í sambandi við þetta efni því að það tengist einnig því svari við fyrri fyrirspurn varðandi afgangsorku. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. að því hvaða líkur hæstv. ráðherra telji á að hann geti snarað saman samningum við Reykjavíkurborg um þessi efni nú á næstu vikum. Hvað er það mál langt komið? Gerir ráðherrann ráð fyrir því? Á því hangir nú hugmyndin um Columbia Aluminiumsamninginn. Hæstv. ráðherra væntir þess heitt og innilega að fulltrúar þeirra komi á kontórinn til að staðfesta áhuga sinn á að koma hingað og ekki aðeins það heldur og ásetning og vilja. (StG: Síðan fleiri.) Síðan fleiri, hv. formaður iðnn., sem við komum að síðar í þessum umræðum. Ýmsir fleiri sem eru ekki jafnvolgir eða heitir og Columbia Aluminium. Atlantal er búið að vera lengi á biðstofunni að ógleymdum Kínverjunum sem komu hér m.a. að tilstuðlan hæstv. utanrrh. í samvinnu við hæstv. iðnrh. Þeir eru sagðir býsna volgir í því efni þótt þeir búi ekki yfir neinni tækni svo vitað sé til að framleiða ál. Það er önnur saga. Kínverjar eiga einhvern smáhlut í álbræðslu í Ástralíu. Þeir eru ekki með mjög traustar undirstöður að ég best veit í áliðnaði utan síns heimalands. (Gripið fram í: Þeir hafa kommúnistaflokkinn.) Þeir hafa flokkinn alsjáandi sem þeir mörgu sem hafa verið í förum austur þangað hafa prísað mikið. Heitast af öllum hv. þm. Árni Johnsen sem hefur tæpast séð til sólar síðan hann fór austur fyrir hönd hæstv. landbrh. fyrrv. til að vígja þar lakkrísverksmiðju. Hann flutti hér þingmál af því tilefni þar sem slík lofgjörð var uppi höfð um ríkið í miðjunni að ekki hefur heyrst annað eins. Það vantaði aðeins að geta um forsendurnar fyrir allri þessari dýrð sem var hið alsjáandi auga flokksins, vökult og alsjáandi. Hann ríkir þar enn og var núna nýlega að stinga inn til fjórtán ára þeim sem leyfðu sér að hafa aðra skoðun á hlutunum í ríkinu.

Vegna viðbragða hv. formanns iðnn. við máli mínu var nauðsynlegt að koma aðeins að þessum mýrasýsla borgar framtíðarhugmyndum um frekari áliðnað í landinu.

Um þessi efni hefur verið fjallað á opinberum vettvangi og ég leyfi mér hér, virðulegur forseti, að vitna til greinar sem er aðeins fárra vikna gömul. Hún birtist í Morgunblaðinu, 1. des. 1995 og er rituð af Ólafi G. Flóvenz jarðeðlisfræðingi. Ég leyfi mér að vitna til orða hans í þessari grein, sem varða með beinum hætti þetta mál. En þar sem ég reyni að þjappa hér máli saman, tek ég aðeins þann þátt úr greininni, með leyfi forseta. Fyrst fjallar höfundur svona um almennar forsendur og þýðingu Nesjavallavirkjunar vegna hitaveitunnar og það tíunda ég ekki hér. Síðan segir:

,,Hefði Reykjavíkurborg hafið framleiðslu á ódýrri raforku á Nesjavöllum meðan ofgnótt af orku var til í orkuverum Landsvirkjunar hefði það aukið á rekstrarvanda Landsvirkjunar. En nú hafa veður skipast í lofti. Samningar um stækkun álversins í Straumsvík hafa gjörbreytt stöðunni í raforkumálum landsmanna, í stað ofgnóttar af raforku þarf nú að hyggja að framkvæmdum til að auka raforkuframleiðslu í landinu. Þetta gefur Reykvíkingum tilefni til að meta stöðu sína upp á nýtt.``

Millifyrirsögn: ,,Raforkunotkun Reykjavíkur.``

,,Árlega kaupir Rafmagnsveita Reykjavíkur um 660 gwst. af raforku frá Landsvirkjun og greiðir fyrir rúmlega 1.940 millj. kr., eða u.þ.b. 3,0 kr. á kwst.``

Einhver hv. þm. með reiknistokk er fljótur að finna það út í Bandaríkjamill, sem oft eru höfð í þessari umræðu. 3 kr. á kwst. deilt með 0,65, þ.e. 65 aurum í 300.

,,Talið hefur verið að framleiðsluverð raforku á Nesjavöllum gæti orðið allt niður í 60 aura á kwst. [Þ.e. tæplega 10 mill.] Við þá tölu má bæta flutningskostnaði til Reykjavíkur, sem tæplega vegur mjög þungt. Með varkárni má telja að yfirgnæfandi líkur séu til að raforkuverðið frá Nesjavöllum yrði ekki hærra en 1,00--1,50 kr. á kwst. Talið er að auðveldlega megi framleiða um 500 gwst. af raforku á ári í Nesjavallavirkjun. Verði það gert, geta sparast árlega um 700--1.000 millj. kr. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þennan sparnað mætti nota til að lækka raforkuverð til notenda á veitusvæði Rafmagnsveitunnar og bæta þannig hag heimila og atvinnurekstrar í borginni eða nota ávinninginn til að hamla gegn aukinni skuldasöfnun borgarsjóðs. Hvort tveggja bætir hag íbúa Reykjavíkur.

Landsvirkjun stendur væntanlega frammi fyrir því að fara í fjárfrekar framkvæmdir til að tryggja landsmönnum næga orku eftir að álverið hefur verið stækkað. Því er nauðsynlegt að Reykjavíkurborg móti sér þegar þá stefnu að hefja raforkuframleiðslu á Nesjavöllum á alnæstu árum. Það mun draga verulega úr þörf Landsvirkjunar fyrir nýfjárfestingar og raforkuverð til Reykvíkinga gæti lækkað.``

Þetta er grein Ólafs G. Flóvenz í Morgunblaðinu, 1. des. 1995, sem ég er að vitna til. Og að lokum segir hann:

,,Ég hvet borgaryfirvöld í Reykjavík eindregið til að huga vel að þessu máli og stefna að raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með það fyrir augum að lækka raforkukostnað borgarbúa um allt að 1 milljarð á ári. Það munar um minna.``

Það munar um minna eru niðurlagsorð greinarhöfundar. Ég get tekið undir það. Það munar um minna.

Nú liggur það fyrir að hæstv. ráðherra hefur í huga að bæta stöðu raforkukerfisins og framleiðslu vegna hugmyndanna um stóriðjuframkvæmdir fyrir aldamót og reyndar þegar á árinu 1997 með virkjuninni á Nesjavöllum. Vafalaust hefur Landsvirkjun verið að skoða alla hagkvæmni í sambandi við þessi efni út frá því að eiga þarna aðgang með einhverjum hætti. En um málið virðist ekki hafa verið samið, um þennan grunnþátt. Ég spyr hæstv. ráðherra að því og bið hann að upplýsa hér hvernig þetta mál er hugsað? Hver er staða málsins? Og hv. formann iðnn. um það, hafi það ekki verið gert, að líta á það með tilliti til afgangssölusamninganna, samninganna sem Landsvirkjun hefur gert við viðskiptavini sína um ráðstöfun á afgangsorku á árunum fram til aldamóta og lengur, ég hef ekki yfirlit yfir hversu lengi þeir samningar eru nákvæmlega í gildi. Það er alveg ljóst að þeir sem hafa gert þá gera ráð fyrir að eiga von á framlengingu þeirra fram yfir þann tíma sem kann að hafa verið festur nákvæmlega samningsbundið. Og því þarf að líta yfir málið út frá því.

Það getur tæpast gerst í sömu andránni, virðulegur forseti, að gert sé ráð fyrir að semja um raforkuframleiðslu á Nesjavöllum á kostakjörum, í kringum 10 mill kwst. eða eitthvað nálægt því, eins og mér sýnist vera leiddar líkur að hér og reikna það inn í söludæmið eða hagnað af stóriðjusamningum eða stöðuna varðandi stóriðjusamninga að einu leytinu og hafa að hinu leytinu ekki samið við þann sem hefur forræðið yfir virkjuninni væntanlegu. Nú vil ég ekki leggja mat hér á ummæli þessa ágæta greinarhöfundar vegna þess að ég hef ekki farið yfir þau gagnrýnum augum. En það er ljóst að þarna er um stórt dæmi að ræða. Hagsmunamál, að því er virðist, fyrir þá sem yfir virkjunarréttinum ráða. Mér finnst óhjákvæmilegt að iðnn. þingsins fari yfir það mál á milli umræðna, m.a. í tengslum við afgangsorkusamningana. Er það ekki hátt í 50 mill, verðið sem Rafmagnsveita Reykjavíkur kaupir orkuna á af Landsvirkjun? 300 aurar. Ef þeir væru sextíu þá er þetta nálægt því. Þannig að hér ber mikið á milli. En kannski verður einhver til að hjálpa hæstv. ráðherra út úr þessari flækju. Kannski er þess að vænta að stjórnarformaður Landsvirkjunar leysi málið, að borgarritarinn í Reykjavík, sem gegnir stjórnarformennsku í Landsvirkjun, taki upp viðræður við Reykjavíkurborg um málið og ræði við borgarstjórann, næsta yfirmann sinn, um það hvernig eigi að leysa þennan vanda Landsvirkjunar. En hæstv. iðnrh. gekk frá skipun borgarritara Reykjavíkur í stjórnarformennsku í Landsvirkjun. (StG: Hann hafði fulla sæmd af að skipa hana sinn formann.) Hann hafði fulla sæmd af því að skipa hana sinn formann, segir hv. formaður iðnn. Ekki er ég að finna að því. Orð hafa ekki fallið þannig af minni hálfu. Ég tel viðkomandi einstakling vera hinn ágætasta fulltrúa út af fyrir sig hvar sem væri og með góða reynslu. En það er ekki málið í þessu samhengi. Er hugsanlegt, virðulegur form. iðnn., að þarna gæti verið um hagsmunaárekstur að ræða í sambandi við meðferð málsins? Það eru þær áhyggjur sem ég hef haft í sambandi við þessa ráðstöfun af hálfu hæstv. iðnrh. Mér sýnist að það dæmi sem við erum að ræða sérstaklega sé hluti af því og slíkum þáttum þarf að halda sem best í réttu horfi og réttum farvegi. Þess vegna leyfði ég mér aðeins að vísa til þess að ekki er alveg ljóst hvernig farið verður með málið.

[14:00]

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma að þriðju fyrirspurninni sem hæstv. ráðherra svaraði og kom fram hjá hv. þm. í gær um stækkun járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Það var spurt af minni hálfu frá hvaða virkjun væri ráðgert að afla raforku til hugsanlegrar stækkunar járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Í svarinu kemur fram að hennar megi afla með byggingu Vatnsfellsvirkjunar upp á 115 MW. Landsvirkjun hafi á áætlunum sínum miðað við að geta afhent orku til stækkunar verksmiðjunnar seint á árinu 1999 og afl og orkuþörf stækkunar um þriðja ofn sé um 450 gwst. á ári þegar tekið hefur verið tillit til taps í orkuflutningskerfinu. Tekið er fram að áætlanirnar séu í sífelldri endurskoðun. Þetta er einn þátturinn og þarna gæti verið um að ræða efni sem iðnrn. þyrfti að svara til um fyrri hluta næsta árs og snertir auðvitað raforkuöflun.

Ég ætla að geyma mér að fara út í aðra sálma sem varða fjórðu fyrirspurnina að sinni en snúa mér aðeins að myndinni sem er dregin upp og fylgir með í svari frá hæstv. iðnrh. varðandi raforkuöflunina og fylgdi raunar fyrirspurninni, líklega þeirri fyrstu. Ég er með útgáfu sem mér barst í hendur um orkujöfnuð. Þar er dreginn upp sá möguleiki að ný álbræðsla, Columbia Aluminium, komist í gagnið um áramótin 1996--1997 því að hugmyndir hafa verið um að það gæti verið að slíkur hraði væri á málinu að verksmiðjan hæfi framleiðslu eftir svo sem ár eða svo. Þannig er þetta sett upp hér myndrænt. Það kemur fram að fyrsti áfangi til að afla orku á árinu 1997 fyrir þetta hugsanlega fyrirtæki sé Nesjavellir 1, það er efst á blaði. Hágöngur, þ.e. Hágöngulón, miðlunarlón við Hágöngur syðst á Sprengisandi eða sunnan Sprengisands. Það fer eftir því hvernig við drögum mörkin þar landfræðilega. Búrfell og Kvíslaveita, fimmti áfanginn sem er í sambandi við það þrep, þá aukningu á orkujöfnuði sem fram er reitt. En í skriflega svarinu frá hæstv. ráðherra kemur fram að framkvæmdatími við Nesjavallavirkjun sé 2,5--3 ár ef ég les það út úr málinu. Það kemur skýrt fram í svari á þskj. 258:

,,Gert er ráð fyrir að undirbúningur og framkvæmdatími frá því að ákvörðun er tekin um virkjun þar til rekstur getur hafist sé 2,5--3 ár.`` En samkvæmt yfirlitinu, sem hlýtur að vera það sem sker úr í þessum efnum, þá ætla menn að hafa raforku úr fyrsta áfanga Nesjavallavirkjunar í lok ársins 1996. Um áramótin 1997 ef á að vera hægt að ýta á hnappinn í nýrri álbræðslu uppi í Hvalfirði og síðan fleiri þættir sem þarna er um að ræða. Mér sýnist að hér rekist hvað á annars horn í þessum áformum. Þetta er náttúrlega eitt af því sem liggur að baki þeirri beiðni minni að hv. iðnn. einblíni ekki bara á þennan samning við Ísal einn og sér heldur fari hún yfir þessi dæmi samtvinnað því að spurningin um það hvort menn telja réttlætanlegt að gera þann samning, sem hér er lagt til um stækkun Ísals, hlýtur m.a. að fara nokkuð eftir því hvaða bagga menn binda sér og hvað menn útiloka hugsanlega varðandi aðra möguleika. Þar á meðal söluna til fjölmargra innlendra fyrirtækja sem nota þá umframorku sem hefur verið til ráðstöfunar sem ótryggð orka í raforkukerfi landsmanna. Ekki einu sinni er búið að semja um virkjunarréttindin í málinu.

Ég treysti því, virðulegur forseti, að hæstv. iðnrh. varpi ljósi á þetta mál við umræðuna og iðnn. taki á málinu í framhaldi af umræðunni, milli umræðna til þess að við áttum okkur betur á því hvað hér er um að ræða.

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að dvelja ekki lengi við fjórðu fyrirspurnina sem er á þskj. 260 um orkufreka iðnaðarkosti. Þskj. vísar til fyrirspurnarinnar en svarið er á öðru þskj. Það er vísað til spurninganna á þskj. sem var upphaflega lagt fram.

,,Hvaða nýir orkufrekir kostir í iðnaði eða viðbætur við starfandi fyrirtæki eru nú eða hafa að undanförnu verið til athugunar hjá iðnrn. eða öðrum aðilum í samvinnu við ráðuneytið?``

Svarið er, með leyfi forseta:

,,Auk samninga um stækkun Ísals í 160.000 árstonn standa nú yfir athuganir á vegum Járnblendifélagsins á 60% stækkun járnblendiverksmiðjunnar og nýtt 60.000 árstonna álver er til umræðu við Columbia Aluminium.

Nokkrir aðrir iðjukostir svo sem kísilmálmvinnsla, magnesíumvinnsla og sinkframleiðsla eru til athugunar. Þá er verið að kanna afstöðu Atlantsálsaðilanna til álvers á Keilisnesi. Þessar athuganir eru ekki á því stigi að fyrir liggi nákvæmar áætlanir um framleiðslugetu og orkunotkun.

Svar þetta miðast því við þrjá iðjukosti, þ.e. stækkun Ísals, stækkun járnblendiverksmiðju og nýtt álver á Grundartanga.``

Það höfum við rætt og ég ætla ekki að fara frekar ofan í það efni en varðandi þá iðnaðarkosti sem hæstv. ráðherra er að vísa til en hefur ekki nákvæmar áætlanir um er í fyrsta lagi kísilmálmvinnsla. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað líður þeim áætlunum, að minnsta kosti hvað varðar staðsetningu þeirrar kísilmálmvinnslu sem þarna er vísað til? Hvað hefur verið rætt að undanförnu um það efni? Það voru í gildi lög um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði sem voru sett vorið 1981 af Alþingi Íslendinga. Ég held að fróðlegt væri að fá upplýsingar um þetta mál og einnig varðandi magnesíumvinnslu og sinkframleiðslu að því er varðar staðsetningu slíkra fyrirtækja ef lengra yrði haldið.

Ég er svolítið undrandi á því að ekki er hægt að reiða fram nákvæmar upplýsingar um álver á Keilisnesi en við vörðum allnokkrum tíma á Alþingi hér á árum áður, árin 1990--1992, í að ræða um álbræðslu á Keilisnesi. Það ætti að minnsta kosti að liggja fyrir um framleiðslugetu og orkunotkun þess fyrirtækis og ég spyr hæstv. ráðherra: Hverju mun hæstv. iðnrh. svara forsvarsmönnum Atlantal-fyrirtækisins, sem hér var kallað Atlantsál, ef þeir koma í janúarmánuði --- ég býst við að þeir reyni að halda jólin eins og aðrir --- og spyrja hæstv. iðnrh. að því: Nú höfum við áhuga á því að spretta úr spori og láta verða af því að koma þessu fyrirtæki, álveri á Keilisnesi, í gagnið hið fyrsta? Við ætlum okkur eins og áætlanir stóðu til um að þetta gæti hafið framleiðslu ekki seinna en tveimur árum eftir ákvörðun. Ég segi þetta eftir minni og óbundið. Hverju svarar hæstv. ráðherra talsmönnum Atlantal að því er varðar aðalatriði málsins: Við viljum taka við ykkur núna. Við viljum hefja allan undirbúning. Hvenær og hvernig gerum við ráð fyrir því að geta afhent ykkur raforkuna? Það er ekki spurt af engu tilefni. Það er spurt af tilefni svars sem hæstv. iðnrh. lagði á borð þingsins í gær. Eitt af því sem er til athugunar, álver á Keilisnesi.

Eins og vakin hefur verið athygli á beinist mikið af þessum iðnaði að svæðinu við Faxaflóa. Það hafa lítið sést hugmyndir um annað nema hvað fulltrúar ríkisins skruppu norður í Eyjafjörð í nóvembermánuði. Þá var grátt í hlíðum og heldur lítið bjart yfir þegar þeir horfðu yfir svæðið hjá Dysnesi við Eyjafjörð og svo sem ekki nákvæmar frásagnir af því hvernig þeim hafi litist á. En fyrir utan þennan túr norður yfir heiðar hefur ekki frést af því að verið sé að skoða mikið að koma upp orkufrekum iðnaði utan Faxaflóasvæðisins. Sama gildir í rauninni um þær virkjanir sem eru til umræðu í sambandi við þá þrjá stóriðjukosti sem hæstv. iðnrh. telur að séu nærtækastir í þessum efnum. Hver skyldi vera eina virkjunin norðan vatnaskila? Það er Bjarnarflag 1, fyrsti og annar áfangi. Ég spyr hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. því það fer að nálgast að ég þurfi að beina máli mínu til hæstv. umhvrh., ég leyfi mér að koma að því í tengslum við þessar virkjanir. Hvað segja hæstv. ráðherrar um þá hugmynd, sem vafalaust er komin frá Landsvirkjun, um að fara að reisa gufuaflsvirkjun í Bjarnarflagi 1 og 2? Líklega vestan Námaskarðs, ég les það út úr heitinu Bjarnarflag, því að ella mundi væntanlega vera sagt við hverarönd. Er það ætlan manna og eru það áform manna að fara að bæta við mannvirkjum innan Mývatnshringsins, innan fjallahringsins við Mývatn þar sem hefði þurft að hreinsa til fremur en að bæta við í umhverfi Mývatns, hinnar dýrmætustu perlu Íslands, þar sem engu má til hætta í sambandi við umhverfisspillingu og umhverfisspjöll? Er það hugmyndin að auka við vinnslu úr jarðhitasvæðinu í Bjarnarflagi? Hvar er komið athugunum vegna umhverfisáhrifa slíkrar virkjunar?

[14:15]

Ég vek einnig athygli á annarri virkjun, sem er að vísu sunnan heiða, í umsögn minni til hv. iðnn. en það er 5. áfangi Kvíslaveitu. Að mínu mati þarf hann vandlegrar athugunar við vegna áhrifanna á Þjórsárver, hugsanlegra neikvæðra áhrifa á friðlýsta svæðið í Þjórsárverum. Athygli hefur verið á þeim með opinberum hætti af þeim sem einna gerst þekkir til þar af íslenskum náttúrufræðingum sem er prófessor Þóra Ellen Þórhallsdóttir. Hún hefur réttilega bent á að þarna sé að mörgu að hyggja í sambandi við Kvíslaveitu 5 sem er einn þátturinn sem á að koma í gagnið í sambandi við það frv., þau lög, sem verið er að biðja um staðfestingu á hér á Alþingi. Ég bendi á þetta vegna þess að upplýsingar um þessa virkjunarkosti tengdust svarinu frá hæstv. iðnrh. þótt ég sé nú aðallega að fjalla um raforkusamninginn.

Ég bendi á, virðulegur forseti, ítreka, að menn eru með misvísandi upplýsingar. Hér er hæstv. ráðherra með misvísandi upplýsingar að því er varðar Nesjavallavirkjun. Auk spurningarinnar sem blasir við, um samningana um þá virkjun, sem tengist þeim aðila sem hefur virkjunarréttinn eða Reykjavíkurborg. Þessir þættir tengjast auðvitað því sem iðnn. þarf að athuga frekar og ég er með óskir um að nefndin geri það.

Varðandi raforkukostnaðinn, sem ekki má ræða um á grundvelli upplýsinga vegna leyndar, vil ég segja það almennt að mér finnst ekki frambærilegt að líta á raforkusöluna sem tengist þessari fyrirhuguðu stækkun einangrað. Þ.e. miðað við þá raforkuöflun sem um er að ræða, stækkun Blöndulóns, 5. áfanga Kvíslaveitu, breytingar í Búrfellsstöð o.s.frv. og einnig lagfæringar eða orkuaukningu í framleiðslu Sogsvirkjana. Mér finnst ekki hægt að ræða um verðið sem fæst fyrir samninginn út frá því að bara sé horft á blómann úr þessari orkuöflun, alhagstæðustu möguleika Íslendinga til raforkuöflunar, og miða mat sitt á þessum raforkusamningi við slíkt. Þetta er eins og að segja við menn sem vilja kaupa mjólk: ,,Ég hef hérna rjóma sem ég vil afhenda ykkur. Hann vonandi bragðast vel. Þið fáið hann, svo mega aðrir sem koma á eftir súpa undanrennuna.`` Þannig liggur það gagnvart þessum samningi. Það er ekki annað hægt, virðulegur forseti, en að óska eftir að Alþingi fái í hendur vel unnar áætlanir --- ég er ekki að biðja um það í tengslum við afgreiðslu þessa máls --- um líklegan framleiðslukostnað til langs tíma hjá þeim virkjunum sem menn hugsa sér að geti komið við sögu á næstu áratugum í atvinnulífi og við almenna notkun. Menn viti þannig um hvað er verið að tala í þessum efnum og þau atriði séu endurskoðuð jafnt og þétt.

Í slíkum athugunum verða menn jafnframt að taka ríkulegt tillit til þess sem kalla má umhverfissjónarmið, umhverfishagsmuni. Þeir miði ekki við að geta hagað þessu út frá tæknilegum forsendum eingöngu því að það nær engri átt. Í því sambandi minni ég á beiðni af mína, sem varðar samþykkt Alþingis frá árinu 1989, um að forgangsraða virkjunarkostum í landinu með tilliti til umhverfissjónarmiða, þannig að ekki þurfi hverju sinni, kannski með stuttum fyrirvara, að ræða málin og gera þau upp í fljótræði, án þess að þokkaleg sátt sé um niðurstöður varðandi eðlilega hlífð við umhverfi landsmanna.

Þetta, virðulegur forseti, ætla ég að sinni að láta nægja um raforkusamninginn og koma þá að öðrum þætti málsins sem varðar þjóðhagsleg áhrif þess, þ.e. skattgreiðslurnar.

Ég tek eftir því, virðulegur forseti, að í umsögn efh.- og viðskn. til iðnn. er fjallað um þetta efni. Ég held að ég viti það rétt að fulltrúi Alþb. í nefndinni, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hafi ekki verið viðstaddur afgreiðslu málsins af óhjákvæmilegum ástæðum, tepptur norður í landi, fyrir líklega tveimur vikum, tólf dögum eða svo. Umsögn efh.- og viðskn. er dags. 4. des. Eins og ég hef áður minnst á finnst mér vanta mun nánari skoðun málsins að því er varðar skattana og frágang þess máls nú. Ég hefði talið fulla ástæðu til þess að bera þetta saman við endurskoðun á skattaákvæðum 1985, þegar verulegar breytingar urðu á ákvæðunum. Þá reyndu menn að reikna sig fram til þess að sjá hvað líklegt væri að hefðist upp úr breytingunni og hvernig hún reyndist. Mér finnst skorta á að það komi yfirlit um það. Hitt þykist ég vita að á þeim tíu árum sem síðan eru liðin hafi ekki verið um að ræða, nema þá í mjög fá skipti, beinar tekjuskattsgreiðslur eða hagnaðargreiðslur umfram svonefnt framleiðslugjald frá Ísal, vegna þess hvernig búið var um hnútana í samningnum sem þá var gerður. Ég skilaði áliti um hann til þingsins á sínum tíma, í nóvember eða desemberbyrjun 1985, og benti á mörg atriði.

Ég leyfi mér, virðulegur forseti, vegna þess að ég hef ekki haft ráðrúm til þess að skoða það sérstaklega, að spyrja hæstv. iðnrh. og eftir atvikum formann iðnn. Ef til vill er réttara að beina máli til hans, en það má gjarnan vera til beggja: Hvað hefur verið gert varðandi tækni- og söluþóknun til Alusuisse, samanber ákvæði aðalsamningsins sem var endurnýjað 1985? Standa þau ákvæði óbreytt samkvæmt núgildandi samningi? Það eru þau atriði sem mér finnst fráleitast að framlengja ef svo hefur verið gert nú og ef ekki hefur verið tryggt við endurskoðunina að þau yrðu endurskoðuð. Ég ætla að leyfa mér að vitna til nál. sem ég skilaði þinginu um 4. endurskoðun aðalsamnings 1985 um þetta efni, með leyfi forseta:

,,Tækni- og söluþóknun til Alusuisse óbreytt. Þótt aflétt sé samningsbundinni kvöð af Alusuisse að tryggja Ísal bestu kjör á aðföngum og við sölu afurða og teknar upp allt aðrar viðmiðanir um verðlagningu þeirra er í engu hróflað við skattfríum þóknunum Ísals til Alusuisse sem upphaflega voru rökstuddar með samningsákvæðunum um bestu kjör til handa dótturfyrirtækinu í Straumsvík. Alls nema þessar greiðslur 3,7% af árlegri veltu Ísal sem svarar til 3--7 millj. Bandaríkjadala eða meira en tvöfalds lágmarksskattgjalds Ísals.

,,Iðnrh. Íslands réttlætti þessi nýlenduviðskipti við 1. umr. um frv. þannig:`` ,,Miklu skiptir fyrir hagsmuni ríkisstjórnarinnar að Alusuisse sé tæknilega sterkt fyrirtæki.````

Það voru orð þáv. hæstv. iðnrh., Sverris Hermannssonar, þegar hann réttlætti þessi atriði. Ég vænti þess að upplýsingar komi um þetta því að það varðar ekki litlu um stöðuna hvað hefur verið gert í þessu efni. Ég hef ekki tekið eftir í gögnum málsins nú að að því hafi verið vikið.

Hitt er ljóst að verið er að lækka framleiðslugjaldið um helming. Það var að lágmarki 20 dalir á hvert útskipað tonn af áli en lækkar niður í 10 Bandaríkjadali á hvert tonn og verður jafnframt frádráttarbært, segir í áliti efh.- og viðskn., sem rekstrarkostnaður í stað uppígreiðslu. Þetta hafa á undanförnum árum verið einu skatttekjurnar flest árin, þetta lágmarksframleiðslugjald, vegna þess að viðbót hefur aðeins fengist í örfáum tilvikum.

Ég leyfi mér að vitna í umsögn efh.- og viðskn., virðulegur forseti, þannig að ekkert fari milli mála, með leyfi:

,,Álverið í Straumsvík hefur að meira og minna leyti verið rekið með tapi á undanförnum árum. Reksturinn hefur því skilað litlum sem engum tekjuskattsgreiðslum í ríkissjóð umfram lágmarksframleiðslugjald. Þar sem álverð hefur hækkað mikið nú á allra síðustu árum og gert er ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á næsta ári má búast við verulegum tekjuskattsgreiðslum vegna áranna 1995 og 1996.`` --- Eitthvað heyrðist mér að skattgreiðslurnar hefði dregið niður frá síðasta ári og er þá vitnað til nýlegra ummæla blaðafulltrúa Ísals í fréttum. --- ,, Þannig má gera ráð fyrir að miðað við áætlaðan hagnað á árunum 1995 og 1996 gætu skattgreiðslur fyrirtækisins numið um 400 millj. kr. hvort ár um sig. Þetta er um 80 millj. kr. lækkun miðað við eldri samning. Þess ber að gæta að tekjuskatturinn er á þessum tveimur árum reiknaður á þeim grundvelli að fyrirtækið hefur fram til ársloka 1996 heimild til að leggja 20% af hagnaði í varasjóð. Reiknað er með að rekstur nýja kerskálans hefjist á síðasta ársfjórðungi ársins 1997. Ólíklegt er að fyrirtækið greiði tekjuskatt á afskriftartíma meginhluta fjárfestingarinnar, þ.e. frá 1997 og næstu sjö ár þar á eftir. Hins vegar er gert ráð fyrir verulegri hækkun tekna af tekjuskatti miðað við 160.000 tonna framleiðslu eftir þann tíma.``

Það er gott að vísa langt inn í óvissa framtíð til þess að sjá blómin í haga í þessum samningi, eins og hér er verið að gera.

[14:30]

Og framhaldið, með leyfi forseta:

,,Lágmarksframleiðslugjald Ísals er nú 20 Bandaríkjadalir á hvert útskipað tonn á áli og á síðasta ári nam þessi hluti framleiðslugjaldsins 1 millj. 995 þús. Bandaríkjadala. Verði hagnaður af rekstri álversins greiðir Ísal viðbótarframleiðslugjald sem á síðasta ári nam 1 millj. 539 þús. Bandaríkjadala. Helsta breytingin frá núverandi fyrirkomulagi er að lágmarksgjaldið lækkar í 10 Bandaríkjadali fyrir hvert útflutt tonn frá og með 1. jan. 1998 og í stað stighækkandi skattþreps kemur eitt 33% skattþrep sem tekur gildi frá og með 1. jan. 1995.``

Síðar í þessari umsögn segir: ,,Gert er ráð fyrir að afkastageta álversins verði aukin með viðbótarstækkun og endurbótum á eldri kerskálum á næstu árum þannig að ársframleiðslan verði innan fárra ára 200 þús. árstonn. Þá næmi greiðsla fastagjalds miðað við 10 Bandaríkjadali per tonn um 130--140 millj. kr. eða álíka miklu og lágmarksgjaldið nú.``

Eftir að framleiðslan væri komin í 200 þús. árstonn er líklegt að greiðsla fastagjaldsins sem verið er að semja um næmi álíka miklu og lágmarksgjaldið nú. Kannast menn nokkuð við samningatækni Alusuisse sem hefur stundum verið nefnt á íslensku að gefa og þiggja, á ensku give and take? Fór iðnn. yfir þessi efni út frá þeirri samningatækni fyrirtækisins hvernig þessar breytingar á skattaákvæðum koma inn miðað við þann ávinning sem menn telja sig hugsanlega hafa af raforkusamningnum? Ég heyri að enginn talar um ávinning fyrr en eftir 2004 í raun. Hafa menn farið yfir þetta, lagt saman plús og mínus í þessu? Það sem snýr að Hafnarfjarðarbæ er sér á parti og er mál út af fyrir sig og er eitt af þeim almennu atriðum sem af minni hálfu beinist ekki gagnvart Hafnarfjarðarbæ öðrum fremur. Ég tel hina mestu óhæfu í almennri stefnu stjórnvalda að því er varðar stórfyrirtæki og samning um þau að vera að afhenda þeim byggðarlögum þar sem slík fyrirtæki eru niðursett einhver aðlaðandi sérkjör umfram aðra landsmenn af því að fá slík fyrirtæki inn í lögsagnarumdæmi sín. Í tilviki álbræðslunnar varðar það Hafnarfjörð, járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga Skilmannahrepp. Er Skilmannahreppur ekki langsamlega best stæða sveitarfélagið á landinu? Ætla menn að ganga þessa götu áfram? Það eru ekki vandræði að fá menn til að taka við iðnfyrirtækjum og jafnvel að kyngja ófullnægjandi ákvæðum um umhverfisspjöll ef dollarafúlgur eru í boði eins og er í raun í sambandi við þetta mál og fleiri fyrirtæki af svipuðum toga. Hér verða menn að stöðva sig af og það ætti auðvitað að vera hluti af máli sem þessu ef menn vilja af almennum ástæðum gera samninga af þessum toga að tryggja að slíkar greiðslur renni í landssjóðinn þannig að sveitarfélögin fái ekki einhverjar stórfúlgur umfram það sem þau þurfa með beinum hætti að kosta til og sannanlega.

Ég tala svo út frá almennu sjónarmiði og skiptir engu máli hvaða sveitarfélag ætti í hlut, hvort það væri í mínu kjördæmi eða annars staðar. Ég hef nákvæmlega sama viðhorf til þessa máls vegna þess að ég tel að þetta sé spurning um almenna og í þessu tilviki skynsamlega stefnumörkun sem því miður er ekki hér á ferðinni.

Í umsögn efh.- og viðskn. frekar varðandi Hafnarfjarðarbæ: ,,Gert er ráð fyrir að hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldi á árunum 1995--1997 verði 28% í stað 18% nú og fastagjaldið hækki úr 250 þús. dölum í 500 þús. dali, samanber samkomulag milli Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs sem birt er á fskj. IV með frv. Samtals leiðir þetta til um 144 millj. kr. í tekjur fyrir bæinn á þessu tímabili eða um 56 millj. kr. meira en hann hefði fengið í sinn hlut ef farið hefði verið eftir gildandi samkomulagi. Þessar tölur miðast við að hagnaður Ísals verði samtals um 46 millj. Bandaríkjadalir á árunum 1995 og 1996. Ljóst er því að af þeim 400 millj. kr. sem falla til ríkissjóðs í formi framleiðslugjalds (tekjuskatts) vegna þessa árs og ársins 1996 mun hann þurfa að greiða Hafnarfjarðarbæ 144 millj. kr. til baka af þeirri fjárhæð.

Ljóst er að til lengri tíma litið mun hinn nýi viðaukasamningur þýða verulega auknar tekjuskattsgreiðslur Ísals í ríkissjóð vegna aukinnar framleiðslu og meiri hagkvæmni.`` Mér finnst þessi staðhæfing ekki jafnljós og nefndin lætur að liggja. Og framhaldið: ,,Í raun mun fyrirtækið greiða sambærilega skatta í framtíðinni eins og ef það félli undir núverandi íslensk skattalög að frátalinni heimild til 10% arðsfrádráttar.``

Ég hef notað þessa umsögn efh.- og viðskn. sem uppistöðu í umfjöllun minni um skattaþáttinn og gæti margt fleira um þetta sagt, m.a. ef litið væri til forsendunnar 1985 um þetta mál og þær væntingar sem þeir sem stóðu að samningnum 1985 báru fram við þingið í sambandi við þá endurskoðun sem þar fór fram. Mér sýnist að talsvert vanti á að farið hafi verið yfir þennan þátt málsins svo sem vert væri og hef ég því óskað eftir vissum upplýsingum þar að lútandi, ekki síst að því er varðar nýlendugjaldið sem ég vék að frá 1966 sem var framlengt 1985 og heitir Tækni- og söluþóknun og er ekki minni en 3,7% af árlegri veltu fyrirtækisins, sem heimilt er að draga frá áður en farið er að reikna gjöldin á fyrirtækið. Það eru ekki margir sem búa við slíkar aðstæður, virðulegur forseti. Þetta var skattaþátturinn.

Virðulegur forseti. Þá ætla ég að víkja að þriðja þætti málsins sérstaklega sem er umhverfismálin. Það verður því miður ekki hjá því komist af minni hálfu að gera það að nokkru umtalsefni vegna þess að sá þáttur, einn þýðingarmesti þáttur málsins, er sá sem er ljóslega ótækur eins og hann liggur fyrir og mikið áhyggjuefni. Hann tengist ekki bara þessum einstaka samningi heldur tengist hann aðstöðu okkar Íslendinga til að vinna þessi mál með þeim hætti sem þörf er á áður en ákvarðanir eru teknar sem snertir aðbúnað þeirrar stofnunar sem er ætlað það vandasama hlutverk að fjalla um þessi mál og gera um þau tillögur til stjórnvalda. Þar á ég við Hollustuvernd ríkisins sem er mengunarvarnastofnun okkar sem við leggjum traust á að geti fjallað um þetta. Almenningur hlýtur að gera það og þá kröfu að svo sé og jafnframt um þá pólitísku meðferð sem málið hefur haft á undirbúningsferli þess og hefur aðeins borið á góma fyrr í umræðunni, virðulegi forseti, sem og þá málafylgju sem hefur verið höfð uppi af fulltrúum stjórnarmeirihlutans í þessu efni, m.a. í umhvn. þingsins og hv. form. umhvn. fjallaði nokkuð um, því miður ekki alveg með þeim hætti sem ég hefði vonað en ég hlýt að víkja að nokkuð á eftir.

Fyrst af öllu minni ég á þá umræðu sem fór fram undir umræðu um fjárlög, 2. umr. um frv. til fjárlaga, þar sem ég mælti fyrir brtt. við fjárlagafrv. um litlar 5 millj. kr. til ráðstöfunar fyrir Hollustuvernd ríkisins til að bæta þó í litlu væri þá skelfilegu stöðu sem sú stofnun er í vegna lélegs aðbúnaðar fjárveitingavaldsins að stofnuninni. Ég vitnaði þá m.a. í máli mínu til umsóknar stofnunarinnar og röksemdafærslu fyrir fjárveitingabeiðnum sl. vor vegna fjárlaga 1996 þar sem fram koma upplýsingar sem ættu að vera nægar fyrir Alþingi Íslendinga til þess að taka aðrar ákvarðanir en liggja fyrir samkvæmt tillögum um fjárlagagerðina. Við blasir að í öllum þremur megindeildum stofnunarinnar, eiturefnadeild, matvælasviði og mengunarvarnasviði stofnunarinnar, er aðbúnaðurinn slíkur að ekki er nokkur leið að vænta þess að menn geti unnið verkin eins og þeir vilja og eins og eðlilegt er að búa um stofnunina þannig að hún geti gert það, staðið þokkalega að slíkri úrvinnslu. Ég er ekki sérstaklega að vísa í þetta mál eða undirbúning þess heldur er ég að tala um þetta almennt séð en auðvitað snertir það þetta mál líka. Tilvitnun mín í ræðu minni í fyrrakvöld um þetta efni var bein tilvitnun í rökstuðning eða greinargerð forstöðumanns mengunarvarnadeildar vegna fjárlagabeiðni. Um leið og ég minni á þá umsögn --- ég ætla ekki að taka tíma til að ítreka það með upplestri svo sem vert væri þó í samhengi þessa máls --- bið ég hæstv. umhvrh. þess lengstra orða að fara yfir þessi efni, aðstæður þessarar þýðingarmiklu stofnunar við 3. umr. fjárlaga, því að 3. umr. er komin á dagskrá þingsins, og sjá til þess að eitthvað verði úr bætt. Það nægir ekki að vísa bara í einhverja stjórnsýsluendurskoðun stofnunarinnar sem enginn veit í rauninni hvenær lýkur þó að það standi til að hraða henni og það leysir ekki þær þrengingar sem stofnunin býr nú við og eru algerlega óbærilegar miðað við þær kröfur sem á hana eru lagðar.

Ég skilaði sérstakri umsögn um umhverfisþáttinn til iðnn. og liggur hún fyrir sem fskj. með áliti meiri hluta iðnn. --- Nú er mér horfinn sjónum formaður iðnn. sem ég reikna með að vilji vera við umræðuna og bið ég virðulegan forseta að kanna hvort hv. formaður iðnn., hv. 3. þm. Norðurl. v., er ekki fær um að koma í þingsal og vera við umræðuna. --- Þessa umsögn mína er að finna í áliti meiri hluta iðnn. og auk þess var á borð þingmanna í morgun skilað fylgiskjölum sem vitnað er til og fylgdu áliti mínu þannig að þau eru aðgengileg hv. þm.

[14:45]

Fyrst ætla ég aðeins að fara nokkrum orðum að gefnu tilefni um málsmeðferðina að því er varðar þingið, þ.e. umhvn. Mér þótti leiðinlegt að hv. formaður umhvn. skyldi fara að afflytja mál við umræðuna í stuttu innleggi við þetta mál. Ég hefði satt að segja talið að hv. þm., formaður umhvn., hefði varið tíma sínum betur til að fjalla efnislega um málið og ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst það til lítillar eftirbreytni að meiri hluti þingnefndar, sem verður um leið hinn ráðandi aðili í málinu og kveður upp dóma sem eðlilegt er að menn líti á sem nokkuð gilda og þunga dóma þegar meiri hluti fellir þá, að það skuli nánast enginn rökstuðningur fylgja í afgreiðslu og gögnum í þessu tilviki til iðnn. af hálfu meiri hlutans. Það eru teknar upp örfáar línur sem eru í rauninni svo léttvægar og byggja á svo veikum grunni að ég hefði ekki viljað ganga út á þann ís sem þar er, hann er ekki mjög heldur. Og koma síðan hér sem talsmaður umhvn. þingsins og hafa það helst fram að færa að munnhöggvast vegna réttmætra gagnrýniorða af minni hálfu varðandi málafylgju í nefndinni. Ég hef reynt að stuðla að því í vinnu í þingnefndum yfirleitt að menn geti komið að málum þannig að þau fái sem vandaðasta skoðun en það sé ekki verið að svipta málum hálfköruðum út úr nefndum og á ég þá við að nefndin sé ekki sæmilega sátt í heild sinni við málsmeðferðina og skoðun málsins.

Ég var fyrir fáum kjörtímabilum á árabilinu 1988--1991 formaður í einum þremur eða fjórum þingnefndum, virðulegi forseti, og reyndi á þeim tíma, m.a. í sambandi við mál sem tengdust álbræðslum og nýjum frv. til raforkulaga 1990 þar sem ég var í minni hluta eins og oft hefur komið fyrir í þessum efnum þegar þau hafa verið rædd, að sjá til þess að málið fengi bæði þinglega meðferð en jafnframt þannig að þingið gæti unað við þann tíma sem tekinn var. Og þetta á að takast ef vilji er fyrir hendi. Ég vil virða virðulegum formanni og hv. þm., Ólafi Haraldssyni, það til vorkunnar í þessu máli að hafa ekki verið lengi í þingsölum sem alþingismaður. Ég ætla honum alls ekki að vilja ekki standa þokkalega að málum og afgreiðslu þeirra. Margt hefur verið ágætt í samskiptum okkar sem skylt er að geta, en mér þótti þetta ekki réttmætt hvernig að þessu var staðið í umhvn. á þeim eina fundi sem haldinn var til að fjalla um umsögn til iðnn. í þessu mikilvæga máli. Það var því miður rangt hjá formanni nefndarinnar þegar hann sagði ítrekað í máli síðan áðan að ég hefði beðið um fundinn sem haldinn var í iðnn. mánudaginn 4. des. Það er algert misminni hjá hv. þm. Ég hafði ekki borið fram neinar sérstakar óskir um fund í nefndinni. Mér kom algerlega á óvart þegar ég fékk boð um fund mánudaginn 4. des. sem er ekki reglulegur fundartími nefndarinnar. Að sjálfsögðu hagaði ég svo til að ég gæti komið á þann fund og efnið var samkvæmt dagskrá að fjalla um beiðni iðnn. um umsögn. Á þennan fund hafði hv. formaður nefndarinnar boðað þrjá menn til viðræðu, ekki ég. Ég hafði ekki haft neitt ráðrúm til þess. Ég fékk bara fundarboð. Ég hafði ekki haft neitt ráðrúm til þess og hafði ekki borið fram neinar óskir um viðmælendur, enda hélt ég að á þessum fundi yrði ráðgast um málsmeðferð af hálfu nefndarinnar og kynnt þetta erindi sem borist hafði. Ég hefði enga hugmynd um hvaða svigrúm væri eða hvaða hraði væri á afgreiðslu málsins í iðnn. Upplýst var á fundinum af formanni að bréf hefði borist og dagsetning væri 6. des. sem nefndinni væri ætlaður til þess að skila umsögn. Það er hárrétt.

Á þessum fundi notuðu viðstaddir nefndarmenn tækifærið til að fara enn frekar en gert hafði verið á fyrri stigum yfir einstaka þætti málsins og það var ljúflega tekið undir að reiða fram frekari gögn af hálfu viðmælanda sem voru tveir fulltrúar úr umhvrn. og forstöðumaður mengunarvarnasviðs Hollustuverndar. Allir þessir aðilar tóku ljúflega undir það að veita umbeðnar greinargerðir í skriflegu formi til nefndarinnar. Þegar það lá fyrir og spurningin var um framhald málsins, var það mín ósk í nefndinni að það yrði athugað að við hefðum svigrúm til þess að yfirfara málið að fengnum þessum upplýsingum frá fulltrúum stjórnvalda í málinu til þess að geta metið það á þeim forsendum. Jafnframt upplýsti ég, og ég held að ég hafi verið búinn að því fyrir fundinn í samtali við hv. formann, að ég hefði skyldum að gegna erlendis á næstu dögum. Það hafði í rauninni ekki verið gert ráð fyrir fundi í nefndinni daginn eftir vegna þess að nokkrir fulltrúar úr nefndinni voru fjarstaddir þann 5. des. Þeim fundi hafði verið aflýst vikuna áður. Engu að síður var þess óskað að það yrði skoðað að nefndin fengi meira ráðrúm til þess að fara yfir málið að fengnum greinargerðum sem formaðurinn féllst á að yrði beðið um og lofað var að veittar yrðu af hálfu stjórnvalda. Þegar meirihlutaálit er síðan afgreitt úr nefndinni, eða tillaga sem varð að meirihlutaáliti af hálfu formannsins án nokkurra frekari umsvifa úr nefndinni á þessum sama fundi, gat ég ekki annað en mótmælt þessum vinnubrögðum. Það var ekki einu sinn haft fyrir því að taka upp símann til að spyrja formann iðnn. um það hvað vinnu í iðnn. að þessu máli liði. Getum við fengið eitthvað lengri frest en til 6. des. til að skoða málið í nefndinni áður en við veitum okkar umsögn? Þetta var ekki gert, við þetta var ekki komandi. Ætla menn þá að lá mér þótt ég gagnrýni það með þeim hætti sem gert er í umsögninni að svona er staðið að málum? Lái mér hver sem vill. Það gengur ekki að menn séu að bera fram með röngum hætti staðhæfingar til að réttlæta þessi vinnubrögð. Það er satt að segja afar leitt og dapurlegt að til þess skuli koma. Síðan varð auðvitað reyndin sú í sambandi við málið að það var fullt svigrúm til þess að fjalla um málið í heila viku í viðbót. Málið var afgreitt út úr iðnn. í þessari viku. Þegar eftir að ég hafði gegnt skyldum mínum erlendis settist ég niður við að athuga málið að fengnum skriflegum greinargerðum sem biðu mín frá þeim sem höfðu lofað þeim á fundinum 4. des. Ég tók saman þá umsögn sem liggur fyrir þinginu um þætti málsins og skilaði henni til iðnn. eða til nefndadeildarinnar sl. mánudag. Ég hef ekki orðið var við annað en að það hafi verið allt saman þolanlegt. Meira að segja, og það finnst mér þakkarvert, óskuðu fulltrúar í iðnn. eftir því að fara yfir þessi efni og varð nefndin í heild við því að fara yfir þessi áhyggjuefni mín og ábendingar í umsögn minni með embættismönnum til þess að leiða sem skýrast fram þeirra viðhorf til málsins. Þetta er vel að verki staðið, þetta er þingleg málsmeðferð og eins og á að vinna að málum í þingnefndum, enda sé svigrúm til af almennum ástæðum að mati meiri hluta. Og ég bið virðulegan formann í okkar ágætu umhvn. að taka þessi orð eins og þau eru sögð. Það eru engir spádómar uppi um það að þetta þurfi að ganga svona áfram, aðeins fróm ósk um að við lærum af þessu innan þeirrar nefndar og menn reyni almennt að nýta sem best þann tíma sem er til ráðrúms til þess að vinna mál fyrir ákvarðanatöku. Læt ég síðan lokið þessum þætti sem snýr að vinnubrögðum í umhvn. En margt mætti segja um málið á fyrri stigum þess og ég mun koma þar að nokkrum atriðum í framhaldinu.

Eins og sjá má af umsögn minni, er efnislega mjög margt við umhverfisþátt þessa máls að athuga, starfsleyfi málsins og meðferð á því á ákveðnum stigum. Á ég þar sérstaklega við þá ábyrgðaraðila sem eru í stjórn Hollustuverndar ríkisins sem gerðu þau miklu mistök 2. nóv. sl. að kveða upp úrskurði á grundvelli pantaðs lögfræðiálits. Ég segi pantaðs en ég er ekki að kasta rýrð á álitið með því. Eftir því hafði verið óskað af stjórninni að höfðu samráði við umhvrn., að því er tekið er fram. Menn neituðu að líta á þann sem hér talar sem gildan aðila, bæran um að bera fram athugasemdir og þá ósk sem ég hafði borið fram um að stjórn Hollustuverndar ríkisins tæki efnislega á athugasemdum þeim sem ég hafði borið fram skriflega. Þetta tel ég hörmuleg mistök, líka þegar því tengist að brotinn er að mínu mati réttur sem á að vera tryggður samkvæmt stjórnsýslulögum til andmæla. Mér hafði ekki gefist neinn kostur á því að fjalla um málið eða koma að athugasemdum áður en ég var dæmdur úr leik af meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins. Sem betur fer er þannig um hnútana búið að þessu leyti í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit að það er áfrýjunarréttur í málum til sérstakrar úrskurðarnefndar. Ég notaði mér að sjálfsögðu þann áfrýjunarrétt þá þegar samdægurs um leið og ég kom því sjónarmiði á framfæri við stjórn Hollustuverndar að úrskurður þeirra væri markleysa þar sem ekki hafði verið leitað eftir andmælum af minni hálfu eins og stjórnsýslulög þó bjóða. Þetta mál var þingfest 7. nóv., minnir mig, í úrskurðarnefnd. Ég hef ekki dagsetninguna fyrir framan mig, þetta er sagt eftir minni. Þar hefur það verið til skoðunar síðan. Báðum aðilum hefur verið gefinn kostur á því að reiða fram málsgögn og mér er tjáð af formanni nefndarinnar að von sé á úrskurði í málinu fyrir jól, en nánar hef ég ekki af því frétt. Ég hef að ásettu ráði ekki verið að leggja þau gögn sem snerta málafylgju fyrir úrskurðarnefnd inn í þau gögn sem ég reiði fram fyrir þingið. Mér finnst ekki passa alveg að fara með mál sem þar er til meðferðar frekar til umræðu hingað inn í þingsali. Þetta er til umfjöllunar á dómsstiginu.

[15:00]

Auðvitað skiptir talsvert miklu máli hver niðurstaðan verður, bæði efnislega hvað þetta mál varðar en líka af almennum ástæðum. Því að ef ekki verður tekið undir kröfur sem ég lagði fyrir nefndina sýnist mér alveg óhjákvæmilegt að ræða um breytingu á lögum til að almenningur eigi örugglega aðgang að máli sem þessu án þess að höft séu á lögð. Að því voru leiddar líkur í umræddu lögfræðiáliti Eiríks Tómassonar prófessors. Ég varð afar undrandi að sjá þá álitsgerð. Mér sýnist hún ganga þvert á það sem er almenn þróun í umhverfisrétti og ætti að vera almennt viðhorf þegar fjallað er um svo mikilvæg almenn gæði og umhverfi okkar. Ég er satt að segja enn þá undrandi á hvernig á þessu var tekið og hryggur yfir því að þetta skyldi til bragðs tekið af meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins.

Meiri hluti iðnn. staðhæfir að í engu sé brotið gegn alþjóðlegum skuldbindingum, lögum eða reglum í sambandi við umhverfisþætti málsins. Við heyrðum það frá hv. talsmanni iðnn. áðan við umræðuna. Í meirihlutaáliti iðnn. er sagt að svo sé þrátt fyrir að leiddar hafi verið líkur að því í umsögn minni að í ýmsum atriðum sé gengið á svig og jafnvel gegn skuldbindingum Íslands að þessu leyti. Að ég tali nú ekki um hitt að teflt sé á tæpasta vað að því er varðar umbúnað málsins varðandi umhverfisþáttinn. Hitt er síðan ábending af minni hálfu og tekið fram nr. 1 í umsögn minni að ákvæði í lögum og reglugerðum um umhverfismál, að því er varðar fyrirtæki eins og hér á í hlut og starfsleyfi fyrirtækja almennt, eru alls ekki með þeim hætti sem ætti að vera. Brýnt er að þessi ákvæði verði endurskoðuð. Ég hef lagt áherslu á það fyrr og það var aðgengilegt þinginu þegar árið 1992. Þá var lagt fyrir Alþingi sérstakt álit eða skýrsla vegna fyrirhugaðrar álbræðslu á Keilisnesi. Þetta er mál út af fyrir sig. Hér verður ekki breytt lögum eða reglugerð vegna afgreiðslu þessa máls til þess að fá aðra stöðu í það en fyrir liggur. En nauðsynin er jafnbrýn að því varðar framhaldið. Ég vil ítreka ábendingar um hvaða atriði það eru sem alveg sérstaklega koma til skoðunar þegar litið er á þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar Íslendinga í þessum efnum og raunar einnig ákvæði gildandi laga og reglna.

Í fyrsta lagi skal nefnt ákvæði mengunarvarnareglugerðar frá 1994, 25. gr. Þar er kveðið á um að halda beri loftmengun í lágmarki og beita til þess fullkomnustu tækni sem völ er á, segir í reglugerðinni. Ég spyr: Eru menn að beita fullkomnustu tækni sem völ er á? Svarið hlýtur að vera nei. Það er viðurkennt í starfsleyfi sem hæstv. umhvrh. hefur gefið út. Ekki er beitt fullkomnustu tækni sem er alveg ákveðið og afmarkað hugtak í alþjóðlegu samhengi, meira að segja skammstafað. Hugtakið er það þróað að farið er að skammstafa það á á ensku, BAT, Best Available Technology. Þó er það ekki notað í starfsleyfinu, besta fáanleg tækni, heldur Ísal-tækni. Það er engin tilviljun heldur vegna þess að Ísal-tækni er ekki besta fáanleg tækni. Þannig stangast þessi gjörningur á við ákvæði 25. gr. mengunarvarnareglugerðar, um að beita beri fullkomnustu tækni sem völ er á.

Um losun flúoríðs gildir alþjóðlegur samningur sem Íslendingar eru aðilar að og er skammstafaður PARCOM, tengdur Parísarkommissjóninni, oft kallaður Parísarsáttmálinn. Í honum er fest lágmark fyrir losun flúoríðs frá álbræðslum. Samkvæmt samþykktinni er það 0,6 kg á tonn, framleitt tonn. Um það er ekki deilt, vænti ég, enda liggur sá samningur fyrir. Hver eru mörkin í Ísal? Þau eru 1,1 kg/tonn fyrir bræðsluna í heild. Starfsleyfið er gefið út fyrir bræðsluna í heild. Aðeins er að finna óskuldbindandi viðmiðun í starfsleyfinu varðandi nýja kerskálann. Ekki upp á 0,6 kg á tonn sem lágmark heldur 0,65, auk 25% heimildar til svokallaðrar hreinálsframleiðslu sem hækka þessi viðmiðunarmörk í yfir 0,8 kg á tonn. Þá sér hver maður hversu miklu munar í þessum efnum. Hér er um lágmarkskröfu að ræða samkvæmt alþjóðasamþykkt. Í næsta grannlandi okkar, Noregi, var sett fram viðmiðun við undirbúning samþykktarinnar. Hún er gerð í ársbyrjun 1994, PARCOM 1/94. Við þá umræðu var krafa Norðmanna, sú krafa sem þeir almennt gera til álbræðslna nú, einnig varðandi endurbætur og stækkun í eldri verksmiðjum, að færa mörkin niður í 0,4% og beita náttúrlega vothreinsun. Þar í landi beita þeir hvarvetna vothreinsun. Þeir höfðu skjalfest erindi fyrirtækjanna sem í hlut áttu að þau gætu við þetta unað. Svo eru menn hér sí og æ með yfirbreiðslur um þetta. Í dómi hæstv. umhvrh., sem hann fær í hendur og hann staðfestir 7. nóv. sl., stendur meira að segja að um þetta sé deilt. Verið er að deila um hverjar séu kröfurnar og hver sé stefnan í nágrannlandi okkar Noregi. Ég gekk í gegnum þær hremmingar veturinn 1991--1992 að þurfa með persónulegum heimsóknum í systurstofnun Hollustuverndar ríkisins í Ósló að fá staðfestar upplýsingar um stöðu mála á sama tíma og verið var að draga falsanir fram fyrir þingnefnd á Alþingi Íslendinga, umhverfisnefnd þingsins sem var að skoða þessi mál. Falskar upplýsingar sem lágu á borðum opinberrar systurstofnunar í höfuðborginni Ósló.

Er að undra, virðulegur forseti, að maður setji spurningar við eitt og annað sem verið er að bera fram í þessum efnum og hljóti að draga þær ályktanir að eitthvað búi að baki þess þegar menn eru að fóðra Alþingi Íslendinga og þingnefndir á ófullnægjandi og sumpart röngum upplýsingum. Af hverju vilja menn ekki vita stöðuna í stórveldinu Noregi í áliðnaði? Af hverju vilja menn ekki vita það? Er það eitthvað óþægilegt, hæstv. umhvrh.? Er það eitthvað óþægilegt að hafa þá stöðu sem ljósasta og skýrasta, þannig að við getum vísað til þess í samningaviðræðum við atvinnufyrirtæki sem á að fara að reisa? Við ætlum ekki að gerast neitt minni menn en Norðmenn í verndun umhverfis okkar. Við ætlum ekki að fylgja rýmri eða lakari stefnu í umhverfismálum heldur en þar er gert. Það er alveg augljóst að tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að það sé gert. Ég tók inn í umsögnina til iðnn. upplýsingar um endurbætta stöðu og starfsleyfi í gömlum álbræðslum í Noregi. Þessar upplýsingar eru komnar frá Hollustuvernd ríkisins frá því þegar verið var að skoða mál álbræðslunnar á Keilisnesi. Menn geta séð hvaða kröfur það eru. Í eldri álbræðslum eru gerðar meiri kröfur en gerðar eru til þessa fyrirtækis hér, að minnsta kosti ef tekið er tillit til hinnar rúmu heimildar vegna svonefndrar hreinálsframleiðslu. Svo er auðvitað hægt að vísa til þess. Menn eru með úrelda tækni og svo er fyrirtæki heimilað að byggja upp, auka verulega umsvif sín, með úreltri tækni, Ísal-tækni, sem getur stefnt samkeppnisstöðunni í hættu í framtíðinni.

Síðan eru það alþjóðlegar skuldbindingar sem varða loftmengun, loftslagssáttmálinn frá Ríó. Ég segi ekki að hann sé brotinn hér og nú. Ég hef ekki sagt það. En ég vænti þess að menn sjái, þegar þeir fara yfir framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar og stöðu málsins eins og hún liggur fyrir, að það er ekki sýnt fram á með neinum viðhlítandi rökum af þeim sem bera þetta mál fram að þeir geti náð því að uppfylla skuldbindingarnar samkvæmt loftslagssamningnum frá Ríó. Það eru uppi alveg furðulegir tilburðir af hálfu stjórnvalda til þess að smokra sér undan skuldbindingum þessa sáttmála. Sáttmálans sem blessaður var í bak og fyrir af yfir 100 þjóðarleiðtogum sem komu á umhverfisráðstefnuna í Ríó. Hæstv. þáv. umhvrh., Eiður Guðnason, undirritaði hann við hátíðlega athöfn, ég fékk að vera nærstaddur, þann 5. júní 1992 ef ég man rétt. Síðan eru menn að bauka við það á stjórnarkontórunum og í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar að búa til einhverjar útgönguleiðir til að geta haldið rakleitt áfram með atvinnuuppbyggingu í landinu án þess að taka á kröfum sáttmálans. Því það eru menn að gera og ekki einungis varðandi samninginn um Ísal. Hér eru samningar á færibandi. Hugmyndirnar frá stjórnvöldum um ný stóriðjuver sem munu bæta aldeilis rækilega í þessa mengun. Því fer víðs fjarri að þess sé nokkur von að menn geti staðið við skuldbindingar þessa samnings ef þeir ætla að ganga þessa götu. Aðeins hann einn og út af fyrir sig nægir, þó að ég fullyrði ekki að ef menn ætluðu að grípa til róttækra ráðstafana á öðrum sviðum, varðandi notkun eldsneytis í fiskiskipaflota og samgöngum, að ekki mætti takast að vega á móti aukningunni á koldíoxíði sem verður með útblæstrinum frá væntanlegri stækkun í Straumsvík. Það er unnt en þess sjást ekki merki í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar að þar sé alvara að baki. Og hver er útgönguleiðin? Það var upplýst af fulltrúa hæstv. umhvrh. í umhvn. þingsins 4. des., ef ég man dagsetninguna rétt. Upplýst að útleiðin fælist í því að einungis ætti að miða við neyslu innan lands. Það ætti bara að miða við aukningu koltvísýrings eða koldíoxíðs, þetta er sama efnið, CO2, sem kemur til vegna neyslu innan lands. Útflutninginn eigi bara að taka út fyrir sviga.

[15:15]

Virðulegur forseti. Mörg eru þjóðráðin, mér finnst þetta slá flestum við. Hvert halda menn að röksemdafærsla í þessa áttina leiði sem þeir voru að ræða uppi í gamla tugthúsinu í nóvembermánuði, hæstv. ríkisstjórn? Hvert halda menn að þessi röksemdafærsla leiði varðandi mengun á veraldarvísu, ISO 2, ef allar þjóðir brygðu á það þjóðráð sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur sett inn í sínar hugmyndir og túlkað var fyrir umhvn. 4. des. sl.: Við ætlum bara að taka allt sem kemur til af útflutningi út fyrir sviga. Síðan svona sem viðbót ef eitthvað er farið að draga fjöður yfir þetta, kemur það næsta sem meira að segja fyrrv. hæstv. iðnrh., Jón Sigurðsson, var kominn með inn í sinn málflutning. Það var svo margt snjallt í hans málflutningi ef farið er út í þá sálma. Ég læt mér nægja að nefna þetta eina hér: Eitt tonn af áli þýðir það sama fyrir íslenskt þjóðarbú eins og eitt tonn af þorski upp úr sjó. Þessa plötu spilaði þáv. hæstv. iðnrh. í ótal skipti í meira en ár á Alþingi í öllum fjölmiðlum. Þjóðhagfræðingur, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, gegndi því embætti meira að segja þá ef ég man rétt, spilaði þessa plötu og menn fóru að spyrja austur á fjörðum: Er það virkilega svo að álbræðsla á Keilisnesi sé jafngildi þess sem menn sjá að þorskarnir geta farið niður í, svona niður undir 200 þús. tonn? Það er ekki nein spurning að við þurfum að gera marga svona fína samninga til að sjá okkur farborða.

En þegar var farið að gá undir yfirborðið á þessari plötu kom í ljós að sannleikanum hafði verið snúið heldur betur á haus, ekki bara 100% eða 200% eða 300%. Nei, 500% a.m.k. var það talið. Svona getur snjöllustu mönnum skjátlast. Eigum við ekki að túlka það svo? Þannig getur þetta verið og þetta fer að minna mig á þetta snjallræði, þjóðráð ríkisstjórnarinnar í sambandi við koltvíildi. Þetta þýðir að þjóðir heimsins sem skrifuðu skuldbindandi undir það 1992, og það voru iðnríkin sem stóðu að því að Íslandi meðtöldu, að við ætlum ekki að losa meira koldíoxíð út í andrúmsloftið árið 2000 heldur en við gerðum 1990. Þetta eru mörkin, skuldbindandi mörk. En nú finna menn upp á því að við ætlum bara að taka allan útflutning, þetta er bara það sem stafar af heimanotum, sem við fáum torgað og brennt heima fyrir.

Ætli þetta skipti engu máli? Var þetta bara svona í gamni, eins og sagt er, sem menn voru að fjalla um þessi efni og gera um það sáttmála í Rio de Janeiro? Ég held ekki. Ég held að á þessum vikum og mánuðum þegar við Íslendingar erum að verða fyrir og fjalla um ýmiss konar vá sem á okkur mæðir af náttúrunnar völdum, ófyrirséð margt hvert eins og gengur í þeim samskiptum, ættum við að fara af alvöru yfir mál sem þessi.

Það er verið að tala um það núna, hæstv. umhvrh., að það verði stórstreymt núna um jólaleytið, sérstaklega suðvestanlands. Menn eru farnir að búa sig undir að mæta þessu stórstreymi og hugsanlegum áföllum sem af því kunna að leiða ef loftþrýstingur reynist lágur og ef vindur stendur á land. Það er vel, það er forsjá, menn eru framsýnir í þeim efnum og farnir að búa sig undir þetta. En hvernig ætli staðan yrði innan ekki langs tíma ef menn fylgdu því þjóðráði sem ríkisstjórnin og talsmenn hennar og embættismenn í þeirra nafni eru að reiða fram varðandi loftslagssamninginn, varðandi þá mengun sem mun hækka hitastig á jörðinni og leiða til hækkunar sjávarborðs sem vægt áætlað nemur um hálfum metra að meðaltali innan 50 ára, að meðaltali bætt á alla? Og nú mun vera að koma út skýrsla alþjóðlegra sérfræðinga sem um þessi efni fjalla sem endurmetur þetta til hækkunar og telur að rökin á bak við ályktanir um gróðurhúsaáhrifin séu gildari en menn höfðu áður haft handa á milli. Til hvers mun þetta leiða um heim allan, þar á meðal hér á Íslandi, ef menn stöðva sig ekki af? Hvað ætlar ríkisstjórnin að leggja inn í þetta púkk? Hún ætlar að leggja inn stækkun Ísals, hún ætlar að leggja inn allar þær stóriðjuhugmyndir sem hér eru uppi og helsta ráðið sem hún vísar á er að græða upp Ísland þannig að það aukna gróðurmagn sem hægt væri að koma upp hátt og lágt í landinu geti vegið á móti þessari mengun sem orkufreka stóriðjan leiðir til. Við skulum athuga hvað er þar uppi og hvað líður fjárveitingum í því efni til skógræktar, landgræðslu o.s.frv. Ég sé ekki mikið fara fyrir því. En þetta er aðalúrlausnarefnið fyrir utan að fara yfir samgöngurnar sem auðvitað er skylt og rétt því þar er mikill valdur í þessum efnum.

En svo er hitt sem fer sem þrautavara hjá ríkisstjórninni í þessum efnum, þ.e. að segja sem svo: Við erum að framleiða þessa raforku ofan í álbræðslurnar með hreinni orku, orku sem ekki mengar. Já, orkan er hrein, hún veldur ekki mengun andrúmsloftsins. Það er erfitt viðfangs vegna landnotkunar, margt af því sem við erum að tala um þar og vegna fegurðargildis vatnsfallanna okkar og fossanna og jarðhitasvæðanna, gleymum því ekki. Orkan veldur ekki mengun andrúmslofts, ekki vatnsorkan. Það er annað mál með jarðvarmaorkuna. En þá er þetta tilvísunin. Rétt eins og menn ættu að álykta sem svo að menn séu að stunda framleiðslu á áli í útlöndum með kolaorku eða öðru slíku eldsneyti sem veldur sannarlega koldíoxíðmengun. Erum við að keppa við slíkt? Er Columbia Aluminium, hæstv. iðnrh., --- eitthvað hefur hæstv. ráðherra skroppið úr augsýn. Hv. formaður iðnn., er það svo í sambandi við Columbia Aluminium, sem er næsti kosturinn og kannski í dyragættinni hjá okkur núna fyrir áramótin, að þar sé um að ræða að velja milli þess fyrir eigendur þess fyrirtækis hvort þeir noti hina hreinu, íslensku orku til að knýja efnagreininguna í kerunum eða að velja á mill kolakyntra orkuvera úti í löndum? Eins og ég hef lesið í málið, þá eru menn að keppa við Venesúela og kannski Kanada og skyldi það vera slík orka? Ég efast um það. Ég held því að það sé ekki mjög mikið í þessu varahjóli ríkisstjórnarinnar í sambandi við loftslagssamninginn heldur.

Hef ég þá vikið að nokkrum dæmum um það að ég tel menn bæði vera að ganga gegn alþjóðlegu samkomulagi og stefnumótun umfram allt í sambandi við alþjóðasamninga í tengslum við þetta mál sem hér er leitað staðfestingar á. Það er ekki gott og ég veit að það er ekkert einfalt fyrir menn að koma hér og standa fyrir máli sínu og réttlæta þessa gjörninga hér og þær áætlanir sem að baki liggja að því er varðar umhverfið. Því miður, verð ég að segja, því enginn óskar eftir að vera í þessum aðstæðum. Þetta eru strangar takmarkanir sem við stöndum frammi fyrir að því er varðar samninginn um loftslagsbreytingar. Það eru strangir skilmálar en þeir varða veröld alla. Við skulum gæta þess, Íslendingar, að fara ekki alveg í spor okkar ágætu þjóðsagnapersóna, Bakkabræðra, þegar við erum að fjalla um þessi mál. Það er margt í þessum gjörningum og röksemdafærslum meiri hlutans sem minnir á þá bræður, sem ætluðu að lýsa upp híbýli sín með því að bera dagsbirtuna þangað inn. Það er því miður ansi margt sem er nákvæmlega af þeim toga. Það er kannski hægt að nota það eitthvað til skrauts í ferðaþjónustunni, þær samlíkingar eins og margt fleira þjóðlegt. En það er ekki vænlegt upp á heill og hamingju okkar hér eða annarra jarðarbúa til framtíðar að ganga þannig um gleðinnar dyr.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem varðar brennisteininn og þar er ekki um neina hreinsun að ræða á brennisteini. Þau mörk sem eru byggð inn í starfsleyfið eru sýndarmörk sem ekki halda nokkrum sköpuðum hlut og gætu þess vegna verið óskrifuð. Það er engin hreinsun og kröfur um mörk um efnainnihald brennisteins í rafskautum eru tengd alþjóðasamkeppnisverði á rafskautum þannig að ef almennt verður um að ræða að það sé dýrara að afla rafskauta með lágu brennisteinsinnihaldi og það fer að bitna á samkeppnisaðstæðum, er engin staða til að verja það eftir þessu starfsleyfi. Því miður er staðan sú.

Ég vil aðeins í þessu samhengi, virðulegi forseti, koma að því sem er eitt helsta haldreipi meiri hlutans í þessu máli. Það gildir bæði um hv. iðnn. og meiri hluta umhverfisnefndar. Það er að nú sé verið að koma Ísal, allri verksmiðjunni, undir mengunarvarnareglugerð. Þetta má lesa í þeim fáu línum sem umhverfisnefndarmeirihlutinn eyddi á okkur í umsögn sinni. Hverju skiptir þetta í raun? Ég skal orða það í stuttu máli. Ég held að þetta skipti litlu sem engu máli. A.m.k. er þetta verri kostur en að láta samkomulagið við Ísal frá 1992 varðandi mengunarvarnir fyrirtækisins gilda varðandi gamla hlutann og setja eðlilegar og ströngustu kröfur sem menn treystu sér til að gefinni hinni ófullnægjandi Ísal-tækni í starfsleyfi gagnvart stækkuninni. Þá skulu menn hafa í huga að hér er ekki bara verið að stækka framleiðslu eða opna fyrir stækkun í 60 þús. tonn, það eru að vísu mörkin í þessum samningi, en starfsleyfið er með ótvírætt innbyggt 200 þús. tonna framleiðsluheimild án þess að til komi útgáfa að nýju starfsleyfi. Og hæstv. iðnrh. er nú opinberlega farinn að veifa stækkun upp í 300 þús. tonn þannig að menn skulu aðeins gæta að sér hvað hér er á ferðinni.

Ég tel sem sagt að þetta séu ekki nein haldbær rök fyrir því hvernig hér er á málum haldið. Þvert á móti eru menn að misstíga sig gróflega ef þeir hafa á milli þess að velja að halda ákvæðunum frá 1992 varðandi núverandi framleiðslu og setja ákveðin skuldbindnadi mörk gagnvart viðbótinni, bæði þessari og ekki síður upp á framtíðina varðandi kröfur til þeirrar stækkunar sem verið er að láta liggja að að gæti komið til.

Ég bendi á það í umsögninni og átti að tengja það við spurninguna um alþjóðlegar viðmiðanir að varðandi ryk og rykmengun eru menn enn í þessu starfsleyfi yfir viðmiðunarmörkum Parísarsáttmálans. Hér er verið að heimila rykmengun upp á 1,5 kg/tonn í staðinn fyrir að samkvæmt Parísarsáttmálanum er sett lágmarkið 1 kg/tonn. Þetta var ekki ofar í hugum manna en svo að að þessu hafði sáralítið verið hugað í sambandi við þessi mörk í starfsleyfinu og stangast það á við það sem búið er að festa í kröfur samkvæmt Parísarsáttmálanum.

[15:30]

Fleira er þarna afar ófullkomið. Ég bendi á mengun vegna lífrænna kolefnasambanda sem þurfa að vísu ekki að vera stórt áhyggjuefni t.d. varðandi framleiðsluna í Straumsvík vegna þess að þar eru menn með svonefnd forbökuð skaut en ekki Söderberg-rafskaut. Engu að síður á að taka á málum sem þessum í starfsleyfi þessara fyrirtækja til þess að hafa vaktina í gangi að því er varðar framleiðsluna þar sem þessi lífrænu kolefnasambönd eru afar viðsjárverð efni. Sum hver þeirra flokkast undir krabbameinsvaldandi efni og Norðmenn hafa háð mikla baráttu í sambandi við mengun af völdum lífrænna kolefnasambanda í áliðnaði sínum og þá sérstaklega af því að þeir voru áður fyrr með svonefnd Söderberg-rafskaut en í einhverjum mæli fellur þessi mengun til, þó í mun minna mæli sé, við þá tækni sem hér er til umræðu.

Virðulegur forseti. Ég kem þá að því sem varðar hávaðamengun frá álbræðslunni í Straumsvík og tengi það þeim erindum sem gengu frá Ísal til Hafnarfjarðarbæjar og frá hæstv. umhvrh. til Hafnarfjarðarbæjar vegna skipulagsmála kaupstaðarins. Ég hef haft áhyggjur af þessari hávaðamengun frá álbræðslunni alveg frá því að fyrstu drögin að starfsleyfi voru kynnt sl. sumar og kom ég þeim áhyggjum á framfæri þá. Ég benti á að a.m.k. að formi til virtust vera strangari mörk í Noregi að þessu leyti en það var vefengt að mig minnir vegna þess að ekki væri um hliðstæðar mælingar að ræða varðandi mörk, lóðamörk eða húsvegg. En ég ætla ekki að gera mál úr því. Auðvelt á að vera að sjá hvað rétt er að sjá í þeim efnum en hitt liggur aftur á móti fyrir nú þegar að frá núverandi starfsemi í Straumsvík stafar hávaði sem veldur truflun og ónæði í íbúðarbyggð í Hafnarfirði. Þetta á heilbrigðisyfirvöldum auðvitað að vera fullljóst og því mikil nauðsyn á því að gera þarna ýtrustu kröfur sem hægt er að gera í sambandi við rekstur fyrirtækisins, ég tala ekki um aukin umsvif. Þetta er því miður ekki með þeim hætti sem æskilegt væri og það er staðfest í því erindi sem Ísal sendi frá sér 21. nóv. til Hafnarfjarðar og er upphafið að því sem mætti gefa nafnið Hafnarfjarðarbrandari sem stundum er tengt þeim kaupstað þar sem menn eru fundvísir á gamansamar hliðar tilverunnar. En þetta er því miður ekki af þeim toga að það sé hægt að hafa af því sérlega mikla skemmtan.

Virðulegur forseti. Það er með fádæmum að Ísal skuli svo seint sem 21. nóv. sjá ástæðu til þess að senda Hafnarfjarðarbæ sérstakt erindi vegna samskipta við bæjarfélagið sem fyrirtækið er staðsett í. Í þessu erindi, sem var á enskri tungu, kemur fram að þeir vara við því að verið sé að skipuleggja íbúðarbyggð í Hvaleyrarhrauni vegna þeirra áhrifa sem vænta megi frá 60% aukningu í mengun frá álbræðslunni varðandi brennisteinsdíoxíð, koldíoxið, loftkennd flúoríð, hávaða og umferð. Allt þetta draga þeir fram í þessu erindi til bæjarins. Það var eðlilegt að uppi yrði fótur og fit í Hafnarfirði því að það á að vera búið að fara yfir þessi mál nokkuð rækilega, virðulegur forseti, á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því sl. vor að fyrst var farið að fara yfir þau, fyrst með athugun á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum og í öðru lagi í sambandi við starfsleyfi. Þar hafði fyrirtækið alla möguleika á því að koma þessum atriðum á framfæri og bar auðvitað siðferðileg skylda til þess að gera það þannig að þessi þáttur kæmi ekki upp seint og um síðir og menn kæmu því á framfæri þeim tilmælum að bæta ekki byggð í Hafnarfirði nær álverinu heldur en orðið er því að það væri í rauninni efnisinnihaldið.

Þegar lýðum varð ljóst að þessar kröfur og óskir voru uppi hjá álbræðslunni og að kannski væri meira á bak við áhyggjur okkar sem höfum verið að reyna að halda í umhverfishagsmunina að því er varðar þessa fyrirhuguðu stækkun en þeir sem eru að berjast fyrir málinu bera það fram í þeim búningi sem það er frá meiri hlutanum á Alþingi, það væri sitthvað á bak við sem ástæða væri til þess að gaumgæfa. Hafnarfjarðarbær brást eðlilega við enda hafði heilbrrn. kaupstaðarins og umhvn. kaupstaðarins fjallað um málið í góðri trú á fyrri stigum þar sem atriði sem þessi höfðu ekki verið á borðum manna. Ég hef umsögn frá þessum aðilum sem bárust á sínum tíma og þar stendur, svo ég aðeins grípi niður í erindi frá Hafnarfjarðarbæ, undirritað af bæjarstjóra, sem vitnar í samþykkt heilbrigðisráðs Hafnarfjarðar frá 2. ágúst sl., með leyfi forseta:

,,Æskilegt er að aflað verði erlendra upplýsinga varðandi viðmiðunarmörk um hversu nærri álverinu byggð, matvælavinnsla eða önnur starfsemi megi rísa og álit framkvæmdaaðila í því sambandi. Nefndin telur að skoða eigi mótvægisaðgerðir vegna hávaða. Í frumvarpsskýrslunni er hávaðaþættinum gerð lítil skil þannig að upplýsingar vantar um hve víðtækar þær aðgerðir þurfa að vera.`` Þetta er úr samþykkt heilbrigðisráðs í byrjun ágúst sl. Í samþykkt skipulagsnefndar Hafnarfjarðar á fundi nefndarinnar nr. 952 1. ágúst segir, með leyfi forseta:

,,Stækkun álversins samkvæmt framanlögðum uppdráttum og frummati á umhverfisáhrifum er öll innan lóðar álvers og fellur að skipulagsáætlunum, bæði gildandi aðalskipulagi 1980--2000 og samþykktri tillögu að endurskoðun aðalskipulags Hafnarfjarðar 1992--2012. Nefndin vekur athygli á að fyrirhugaður viðlegukantur er ekki í samræmi við gildandi deili- og aðalskipulag og ekki hefur verið formlega gengið frá friðun Straumsvíkur til samræmis við skipulag. Bæjarskipulagi er falið að ýta báðum síðast töldu atriðunum úr vör við endanlega vinnu að tillögu eða endurskoðun aðalskipulags. Nefndin telur að tíunda þurfi nánar áhrif aukins mengunarálags, hljóð- og loftmengunar á landnotkun í nágrenni iðjuversins, svo og mótvægisaðgerðir við því.``

Þetta er samþykkt skipulagsnefndar Hafnarfjarðar 1. ágúst sl. Hvað var gert með málið í því ferli sem síðan er liðið þangað til Ísal tekur sig til eftir að hafa þagað þunnu hljóði fram til 21. nóv. og segir þegar allt er undirritað og á að vera klappað og klárt: Að okkar mati, góðir hálsar, færið þið ykkur ekki nær vegna mengunar, vegna hávaða o.s.frv. Þetta eru slík fádæma vinnubrögð, virðulegur forseti, að það er ekki hægt annað en að nefna þau hér. Svo kemur rúsínan í pylsuendanum sem er erindi hæstv. iðnrh. 7. eða 8. des. --- dagsetningin er ekki sjáanleg á því afriti sem ég hef --- sem ég leyfi mér hér með, virðulegi forseti, að vitna til.

,,Með vísan til bréfs bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar dags. 23. nóv. 1995 og bréfs Ísals, dags. 21. nóv. 1995, óskar ráðuneytið að taka fram:

1. Eins og fram kom í máli fulltrúa ráðuneytisins í viðræðum um hlutdeild bæjarins í framleiðslugjaldi Ísals verður að telja eðlilegt að gera ráð fyrir að álframleiðsla í Straumsvík geti aukist í a.m.k. 300 þús. árstonn þegar fram líða stundir.`` --- Virðulegi forseti. Hvað dvelur virðulegan formann iðnn. Alþingis? Ég þarf æ ofan í æ að biðja þann sem leggur málið fyrir þingið, meiri hlutann, að fylgjast með umræðu.

(Forseti (GÁ): Forseti vill upplýsa að formaður iðnn. var hér rétt áðan, þurfti að skjótast frá en mun koma innan stundar og skal forseti gera honum viðvart.)

,,Reynsla frá öðrum ríkjum bendir til að endanleg hagkvæmni stærðar náist í álveri með a.m.k. 300 þús. tonna ársframleiðslu.``

Svo ætla ég að leyfa mér, virðulegi forseti, að skjóta inn í lestur úr þessu bréfi: Hvað um Columbia Aluminium? Ætli mörkin séu ekki hliðstæð varðandi Columbia Aluminium varðandi endanlega hagkvæmni að lágmarkið sé þar 300 þús. tonn uppi í Hvalfirði? Er ekki rétt að miða við það, hæstv. iðnrh., samkvæmt þessu þegar sótt er um starfsleyfi fyrir það fyrirtæki ef til kemur? Áfram með bréf ráðherrans:

,,2. Ráðuneytið telur reyndar líkur á því að framleiðslugeta Ísals verði á næstu 5--10 árum aukin í um 200 þús. árstonn. Eðlileg endurnýjun búnaðar ætti sjálfkrafa að leiða til a.m.k. nokkurs hluta slíkrar framleiðsluaukningar innan þeirra tímamarka.

3. Aðstaðan sem nú er í Straumsvík gæti einnig nýst sem aðstaða fyrir annan iðnað, t.d. á svæðinu vestan við Straumsvíkina. Með vísan til þessa telur ráðuneytið ábendingu Ísals mjög eðlilega og telur að bærinn ætli að taka þetta mál til nánari athugunar.`` Ekkert skortir á undirskriftirnar á þetta skjal en það undirrita Finnur Ingólfsson og Halldór J. Kristjánsson. Símbréf sent 7. des. þannig að það mun vera sama dagsetning á bréfinu. (Iðnrh.: Bréfið er dags. 27. nóv.) Ég þakka upplýsingarnar. Hæstv. ráðherra upplýsir að bréfið sem ég var að vitna til er dags. 27. nóv. Ég hafði dagsetningu bréfsins ekki fyrir framan mig en þá er það komið fram, enda kemur það fram í símbréfi sem er svohljóðandi svo að öllu sé til skila haldið, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið hefur með bréfi dags. 27. nóv. 1995 sett fram sjónarmið um framtíðarþróun álvinnslu og hugsanlegs annars stóriðjureksturs í tilefni af bréfi Ísal, dags. 21. nóv. 1995, um þróun byggðar í grennd við álverið sem bæjarstjóri sendi ráðuneytinu 23. nóv. sl. Að gefnu tilefni vill ráðuneytið taka fram að ráðuneytið tekur af þessu tilefni enga afstöðu til einstakra þátta í framtíðarþróun byggðar í Hafnarfirði. Ráðuneytið telur hins vegar brýnt að Ísal kynni bænum framtíðaráætlanir álverins og fulltrúar Hafnarfjarðar kynni Ísal sérstaklega skipulagsþarfir bæjarins og aðilar ræði hvernig hagsmunir þeirra verði tryggðir. Taka þarf tillit til þeirra áforma við lokaafgreiðslu á uppbyggingu bæði íbúðarbyggðar og iðnaðarsvæðis.

[15:45]

Báðir aðilar hafa einnig sameiginlega hagsmuni af því að nýta aðstöðuna í Straumsvík til atvinnusköpunar og því væri einnig mikilvægt að aðilar ræði aðgerðir sem greitt geti fyrir því að aðstaðan við Straumsvík nýtist sem best.``

Þetta er símbréfið sem í hámæli komst ásamt öðrum gögnum málsins. Einhverjir orðuðu það svo að í því væri verið að draga í land eða jafnvel kalla aftur eitthvað úr fyrra bréfinu sem er auðvitað hin mesta mistúlkun eins og sjá má af þeirri tilvitnun sem hér hefur verið uppi höfð. Þetta er aðeins nánari útlistun á málinu til þess ætluð, að mér hefur skilist, að lægja öldur í kaupstaðnum Hafnarfirði sem risu eftir að þetta komst í hámæli.

Síðan hef ég handa á milli bréf frá bæjarstjóranum í Hafnarfirði, dags. 8. des. 1995, sem ég ætla, virðulegur forseti, að spara mér að lesa upp tímans vegna. En þar er verið að mótmæla þessum íhlutunum og óskum af Ísals hálfu. Hafnarfjarðarbær áskilur sér skaðabótarétt vegna yfirlýsingar Ísals sem ráðuneytið hefur tekið undir og kann að grafa undan markaðssetningu umrædds landsvæðis undir íbúðarbyggð, eins og segir m.a. í þessu bréfi.

Ég gæti vissulega margt um þetta tilvik sagt, virðulegur forseti, sem á vondri íslensku hefur verið kallað uppákoma. Ég vil þó helst ekki nota það orð. Þetta slæma tilvik, sem kom upp snemma í þessum mánuði, kallar fram margar spurningar um skoðun málsins á fyrri stigum og þær ákvarðanir sem teknar eru af stjórnvöldum varðandi umhverfisþætti álbræðslunnar. Ég skal nú reyna að skýra hvað ég hef í huga að þessu leyti.

Þegar hér er komið sögu og þessi bréfaskipti fara fram hefur í fyrsta lagi verið unnið eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum og kveðnir upp úrskurðir þar að lútandi, einnig varðandi kærumál. Sama eða hliðstætt ferli hefur farið fram samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og á grundvelli þeirra gefið út starfsleyfi fyrir fyrirtækið 7. nóv. sl. Eftir að þetta hefur gerst er upplýst af framkvæmdaraðila að hann telji meinbugi á því að færð verði út byggð í Hafnarfirði samkvæmt skipulaginu. Framkvæmdaraðili hefur haldið þessari skoðun sinni leyndri fram að því að búið er að gefa út starfsleyfi fyrir fyrirtækið. Er málafylgja af þessu tagi í samræmi við eðlilega málsmeðferð? Hlýtur hún ekki að valda því að spurt sé: Er mark takandi á því ferli sem fram fór á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum álbræðslunnar ef framkvæmdaraðilinn heldur leyndum eða kemur ekki fram með, hvort sem væri, þau sjónarmið sem fram eru sett í erindi fyrirtækisins til Hafnarfjarðarkaupstaðar 21. nóv. sl.? Mín skoðun er sú að þetta samrýmist ekki og að það varði einnig starfsleyfi fyrirtækisins með augljósum hætti þegar svona er að verki staðið. Þetta á við Ísal.

Þá kemur að þætti hins opinbera íslenska stjórnvalds, umhvrn. og vissulega iðnrn. einnig, sem ábyrgðaraðila. Hvernig má það vera að þessir aðilar skuli ekki á eðlilegum tíma þegar verið er að meta aðstæður varðandi umhverfisáhrif koma fram með þá skoðun sína sem tjáð er í bréfi iðnrh. 27. nóv. sl. að vænta megi stækkunar upp í 200 þús. tonn? Látum það vera. Starfsleyfið miðar við þau mörk. En samkeppnisfær álver þurfa að miða við 300 þús. tonna ársframleiðslu til að búast megi við að til þess komi í framtíðinni að stækka þurfi álbræðsluna upp að þeim mörkum a.m.k. Að mínu mati er hér um slíka málafylgju að ræða að ekki aðeins er hún gagnrýni verð heldur sýnist mér að hún kollvarpi því ferli sem menn höfðu unnið að í góðri trú fram að þessum tíma. Mér sýnist að málið sé í þeirri stöðu að hún geri það því að þetta bindur, ef ekki með beinum hætti þá óbeint, hendur manna í framtíðinni, setur þá a.m.k. í mjög örðuga stöðu. Ef óskir koma um það, bornar fram af fyrirtækinu Ísal eða eigandanum Alusuisse, verðum við af samkeppnislegum ástæðum að færa út framleiðsluna í Straumsvík upp í 300 þús. tonn a.m.k. og með tilvísun í opinbert bréf frá hæstv. iðnrh. Íslands. Hver er staðan hjá mönnum til þess að meta málin með óháðum hætti að því er varðar umhverfishagsmuni þegar mál eru þannig í pott búin? Það er ekki góð staða. Hún er satt að segja alveg hörmuleg og það er ámælisvert í meira lagi að þessir þættir skuli ekki hafa verið reiddir fram á eðlilegum tíma í því að mörgu leyti flókna ferli sem markað er lögum samkvæmt í skoðun þessa máls. Tíminn var vissulega afar knappur og skaraðist að því er varðaði málafylgju, eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum annars vegar og hins vegar málafylgju samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem að mínu mati var mjög óheppilegt að gerðist á tímabilinu júlí til nóvember sl.

Þetta er alvörumál sem snertir það fólk sem næst er vettvangi og hlýtur að hafa miklar áhyggjur af þessu og stöðu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði, en það snertir auðvitað miklu víðari hagsmuni og málsferð af stjórnvalda hálfu og því óhjákvæmilegt að koma að því hér.

Virðulegur forseti. Er langt í að vænta megi formanns iðnn. í salinn til að fylgjast með umræðu í máli sem nefndin hefur lagt fyrir þingið?

(Forseti (ÓE): Það hafa verið gerðar ráðstafanir til að hafa upp á hv. þm. Síðast þegar til fréttist höfðu þær ekki borið árangur.)

Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að mér kemur það mjög á óvart að sá annars, að ég hef talið, samviskusami hv. þm. sem í hlut á skuli ekki vera við umræðu máls sem nefnd sem hann er formaður fyrir skilar til þingsins. Ég á svolítið erfitt með að halda áfram en ég skal reyna að koma að þáttum sem eru kannski meira almenns eðlis en koma þá síðar að málum sem ég vil ræða við formann nefndarinnar sérstaklega í von um að hann birtist fljótlega. Ég ætlaði satt að segja að reyna að fara að stytta mál mitt þó að ég hafi margt í huga enn þá sem ég hefði viljað koma á framfæri við þingið. Ég hef mikinn áhuga á að við getum skipst á skoðunum um málið á þessum degi sem er ætlaður í umræðu um það.

Skal þá koma að atriði sem snertir starfsleyfið. Hæstv. umhvrh. virðist hafa brugðið sér eitthvað úr þingsal.

(Forseti (ÓE): Hann er mættur.)

Hæstv. umhvrh. er hér. Það varðar það efni sem við höfum að vísu nefnt áður en samhengisins vegna vil ég koma því enn og aftur á framfæri. Það er varðandi mismunandi kröfur um mengunarvarnir fyrirtækja eftir staðsetningu. Ég tel hina mestu óhæfu að sú hugsun skuli vera uppi að heimila eigi og hafa viðmiðun um mismunandi kröfur um lágmark eða hámark, getum við allt eins sagt, útblástur eða losun fyrirtækja á mengandi efnum út í umhverfið, eftir því hvar þau eru sett niður. Þá tek ég fram að þau svæði eru auðvitað mörg þar sem ekki kemur til greina af almennum ástæðum að setja niður fyrirtæki, við skulum segja í áliðnaði, eins og gerðist snemma á öldinni í Noregi þar sem þau voru sett niður innst í fjörðum og hafa orðið til stórvandræða vegna mengunar. Slíkt dettur væntanlega engum í hug lengur, hér á landi eða annars staðar, að stofna þannig til. Ég á við að eðlilegar almennar kröfur um staðsetningu séu uppfylltar en þá sé verið að heimila meiri losun á þessum stað en öðrum. Það leiðir til þess að þar sem umhverfisaðstæður eru taldar geta hugsanlega tryggt að mengun sem berst frá atvinnurekstri dreifist meira en ella megi heimila slíkt en síðan eru gerðar aðrar kröfur þar sem eitthvað öðruvísi hagar og menn hafa meiri áhyggjur af áhrifunum. Til hvers leiðir þetta, hæstv. umhvrh.? Til hvers leiðir þetta gagnvart mati fjárfestingaraðila á hvar setja á niður fyrirtæki ef farið er að hans óskum? Ég held að það blasi við hverjum manni. Það leiðir til þess að valin er sú staðsetning þar sem kröfurnar eru rýmstar, þar sem leggja þarf í minnstan kostnaðinn við mengunarvarnir. Þetta verður ljóslega til þess að svæði, eins og við Faxaflóa, þar sem menn eru búnir að opna fyrir þessi rúmu mörk, draga að sér fjárfestingu en aðrir staðir, t.d. utanverður Eyjafjörður, fælir frá. Heilbrigðisyfirvöld og Hollustuvernd hafa reitt fram það mat að t.d. þurfi að öllum líkindum að krefjast vothreinsibúnaðar við aðstæður eins og í Eyjafirði og austur á Reyðarfirði, svo dæmi séu tekin af stöðum sem hafa verið til umræðu. Er þetta skynsamlegt? Er forsvaranlegt að hafa uppi svona mismunandi kröfur? Ég hef ítrekað spurst fyrir um þetta í grannlandinu Noregi og fengið þessi svör: ,,Við gerum ekki mismunandi lágmarkskröfur til fyrirtækja um mengunarvarnir heldur höfum sama mælikvarðann. Við útilokum af almennum ástæðum staði þar sem ekki á að setja niður slíkan iðnað, eins og innarlega í fjörðum o.s.frv.`` Þetta er almenn viðmiðun sem ég hefði viljað sjá að væri einnig uppi hjá okkur.

Ég hef ekki fjallað mikið um umhverfisáhrif vegna viðbótarorkuöflunar en ég vil ekki láta hjá líða að minna á það. Ég hef aðeins vikið að því í sambandi við fimmta áfanga Kvíslaveitu. Ég spyr hæstv. ráðherra,, sérstaklega hæstv. umhvrh., hvernig þeir hyggjast standa að athugun mála sem varða umhverfisáhrif virkjana sem þessi stækkun kallar á að mati orkuyfirvalda sem og þeirrar framhaldsorkuöflunar sem rætt hefur verið um. Mér finnst annað ekki ná nokkurri átt en að taka vandað á þeim atriðum og ræða í tengslum við afgreiðslu og umræðu um þetta mál. Ég minni ítrekað á það sem snýr að fimmta áfanga Kvíslaveitu og prófessor Þóra Ellen Þórhallsdóttir hefur komið á framfæri að því er varðar Þjórsárver, þá miklu náttúruperlu. Fleiri þætti er ástæða til að nefna. Ég hef þegar vikið að Bjarnarflagi, sem varðar þó ekki beint þessa virkjun, en allt annað sem þarna er um að ræða þarf nákvæmrar skoðunar við og þörf á að tryggja það sem best að þar sé eðlilega að staðið. Þetta minnir auðvitað enn frekar á það, virðulegur forseti, hver nauðsyn er á því að forgangsraða virkjunarkostum í landinu og reyna að útkljá álitaefni varðandi hugsanleg umhverfisáhrif slíkra virkjana með góðum fyrirvara og vinna það fram í tímann eins og Alþingi samþykkti að gert yrði vorið 1989. (Iðnrh.: Eins og verið er að gera í Hvalfirðinum.) Hugsanlega, hæstv. ráðherra. Það kann að vera, en það eru margir Hvalfirðirnir og Ísland er stórt. Virkjunarkostirnir liggja víða og þarf að skoða þetta í almennu samhengi.

[16:00]

Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að enn bólar ekki á hv. formanni iðnn. en ég ætla að koma að einum þætti þessa máls sem hefur lítið verið ræddur, eða hvernig staðið er að framkvæmd laganna um mat á umhverfisáhrifum. Það varðar þá báða, hæstv. ráðherra iðnaðar- og umhverfismála. Það varðar einnig iðnn. þingsins hvernig staðið er að framkvæmd á lögunum um mat á umhverfisáhrifum að því er varðar þennan þátt, stækkun Ísals, en einnig varðandi aðra kosti í stóriðju sem uppi eru til skoðunar hjá stjórnvöldum. Þá er ég m.a. að vísa til Columbia Aluminium álbræðslunnar sem skrifuð er fyrir 60 þús. tonnum. Þau verða þá væntanlega 300 þúsund ef hæstv. iðnrh. hefur rétt fyrir sér um mat á samkeppnisaðstæðum.

Það var upplýst á fundi umhvn. Alþingis þann 15. sept. 1995 af talsmönnum fyrirtækis eða skrifstofu sem heitir markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar, skammstafað MIL, að sú skrifstofa hefði verið mikill örlagavaldur í sambandi við upptöku samninga um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, teldi það raunar sitt hlutverk að leita markaða fyrir orku. Ég get fallist á að samkvæmt stofnsamningi þessarar skrifstofu sé það innan hennar verksviðs að gera það. En það var jafnframt upplýst af skrifstofunni að hún hefði hlaupið undir bagga til að kosta frummat skýrslu um líkleg áhrif á umhverfið. --- Nú fagna ég því að hv. formaður iðnn. er kominn á vettvang. (StG: Ég hef hlýtt á þingmanninn.) Formaðurinn segist hafa hlýtt á þingmanninn. Það er svolítið erfitt fyrir þá sem mæla úr þessum stóli að sjá inn á skrifstofurnar, þótt ég viti af því hagræði sem mönnum er búið þar að geta fylgst með umræðu. En ég treysti mér ekki til að bera fram formlegar fyrirspurnir til fjarstaddra. Ég bið menn að hafa skilning á því.

En það kom sem sagt fram hjá talsmanni markaðsskrifstofunnar á nefndum fundi að þeir hefðu orðið að skjóta saman í púkk á vegum markaðsskrifstofunnar til að greiða fyrir frummat skýrslunnar sem unnin var á vegum hennar af tveimur ástæðum. Af tímalegum ástæðum hafði Ísal ekki treyst sér til að vinna verkið jafnhratt og hugmyndir voru um af hálfu markaðsskrifstofunnar eða iðnrn. og vildi þess vegna ekki standa fyrir skýrslugerðinni með formlegum hætti sem beiðandi. Svo mun hafa orðið að lokum að þeir settu nafnið sitt undir en treystu sér ekki af fjárhagslegum ástæðum til að leggja í kostnaðinn við gerð þessarar skýrslu. Þá var einfaldlega á það ráð brugðið að markaðsskrifstofan lagði út fyrir þeim kostnaði í von um, ég veit ekki hvort um vissu var að ræða, að fá endurgreiðslu á þessum kostnaði síðar. Síðan mun formsatriðunum hafa verið fullnægt vænti ég samkvæmt lögunum eftir á með því að markaðsskrifstofan hafi fengið umboð Ísals og Ísal hugsanlega sjálft reitt fram skýrslurnar, eða a.m.k. svarað fyrirspurnum Skipulags ríkisins sem fer með ferli málsins eftir að hafa skilað frummatsskýrslu. Mér finnst umhugsunarefni að svona skuli staðið að verki. Ég efast um að það sé í samræmi við stofnsamning markaðsskrifstofunnar að þannig sé haldið á málum. Ég les ákvæði þessa samnings. Hann er einhvers staðar í málsgögnum. Ég les ákvæði þessa stofnsamnings þannig, virðulegur forseti, að hlutverk markaðsskrifstofunnar sé ekki það að ganga í þjónustu af þessum toga eða gerast ábyrgðaraðili fjárhagslega fyrir vinnu af þessum toga. (Iðnrh.: Það er ekkert sem bannar það.) Það er ekkert sem bannar það, segir hæstv. iðnrh. Það má vera, en væri nú ekki eðlilegt að ráð væri fyrir slíku gert í stofnsamningi? Ég segi þetta ekki sakir nísku eða vegna þess að ég sjái svo eftir þessum aurum í lán til fátækra fyrirtækja eins og í þessu tilviki Ísals sem hafa ekki ráð á að standa undir slíkum kostnaði. Ég er einfaldlega að benda á þá hagsmunaárekstra sem greinilega eru uppi þegar svona er staðið að máli, þegar sá aðili sem á að vera vöktunaraðili, að vísu var þetta ekki umhvrn. í þessu tilviki, er farinn að hlaupa undir bagga með þeim hætti sem hér er og ganga í rauninni í hlutverk framkvæmdaraðilans. Ég gæti hér, virðulegi forseti, lesið upp stofnskjalið. Það er hvergi að finna í stofnskjali markaðsskrifstofunnar að það sé á verksviði hennar að vera einhvers konar ábekingur fyrir framkvæmdaraðila gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Ef menn eru að þræða þessa götu frekar eins og mér skilst að uppi sé varðandi Columbia Alumunium fyrirtækið... (Iðnrh.: Ekki endilega það, heldur almennt í Hvalfirðinum.) Ekki endilega það, heldur almennt í Hvalfirði. Hvalfjörður er bara orðinn stóriðju-,,stasjón`` samkvæmt orðum hæstv. ráðherra. Hann er bara að verða framkvæmdaraðili ef marka má upplýsingar hæstv. ráðherra. Vafalaust hefur ráðherrann einnig í huga hugsanlega Íslenska járnblendifélagið í þessu samhengi --- hann kinkar kolli --- en ekki er málið betur vaxið fyrir það að mínu mati.

Ég tel að menn séu á afar óeðlilegu spori að því er varðar mat á umhverfisáhrifum eins og sá farvegur er markaður í lögum og því er lýst vel af Skipulagi ríkisins í þessari útgáfu: Leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum. Í tilvikinu Columbia Aluminium mun málið vera þannig vaxið að markaðsskrifstofa iðnrn. í rauninni gengur í verkin fyrir þetta fyrirtæki. Ég veit ekki hvernig umboðin eru þar á milli og er ástæða til að fá það fram hvernig frá þeim málum er gengið. En er það virkilega hugmynd hæstv. iðnrh. að þannig eigi að halda á máli? Og hvað segir hæstv. umhvrh. sem er ábyrgðaraðili laganna um mat á umhverfisáhrifum? Er eðlilegt að markaðsskrifstofa iðnrn., þótt hvergi sé nefnt í stofnsamningi hennar að hún eigi að sinna verkum af þessum toga, sé farin að eigin frumkvæði að framkvæma fyrir þau stóriðjufyrirtæki sem eru að banka hér upp á slíka hluti? Og ekki bara það, heldur leggja út fyrir þeim líka. Og ég spyr hæstv. iðnrh.: Er þetta mörkuð hugsun hjá hæstv. iðnrh. sem aðila að þessari skrifstofu og hvaða peningum hefur verið ráðstafað í þessu skyni og á þessu ári? Hvaða peningar hafa verið veittir til athugana á umhverfisáhrifum fyrir hönd Ísals vegna stækkunar Ísals á vegum markaðsskrifstofunnar og hvað hefur verið gert í sambandi við Columbia Aluminium í þessu sambandi? Væntanlega fæst það upplýst hér.

Mér hefur skilist að það séu beiðnir um það frá einu fyrirtækinu uppi í Hvalfirði, ekki bara að sinna þessu mati á umhverfisáhrifum, heldur líka sækja um starfsleyfi. Það er beiðni um það góðfúslega að þessi markaðsskrifstofa fari að sækja um starfsleyfi. Menn eru komnir í slíkt tvöfalt kerfi í þessum efnum að þetta er auðvitað gersamlega á svig við anda laganna um mat á umhverfisáhrifum. Það gengur því ekki að mínu mati að menn þræði þessa götu lengur. Ég vara menn sterklega við því að svona sé staðið að málum og vonandi verður ekki meira um það, hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh., að menn séu að reka samtímis athuganir á umhverfisþáttum mála, þessa almennu athugun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, og hins vegar starfsleyfisþáttinn. Þetta eiga að vera aðgreind ferli í tíma. Það er ekki nokkurt vit í að vera að samkeyra þetta eins og gert hefur verið í sambandi við þetta mál og ég bið hæstv. ráðherra að tjá sig um það efni hér á eftir.

Ég fer senn að ljúka máli mínu, virðulegur forseti. Ég hef komið að mörgu af því sem ég tel þörf á að fá inn í þessa umræðu. Ég hef gefið yfirlit um málsmeðferðina, sérstaklega í umsögn minni. Menn sjá hvernig þar hefur verið staðið að verki. Menn hafa aðgang að fylgigögnum málsins, talsverðum upplýsingum sem varða málið. Þeim gögnum hefur verið komið á framfæri við þingið í dag þannig að menn eiga að geta rætt þessi efni á grundvelli þeirra. Ég hef, eins og menn heyra, mjög margt við þetta mál að athuga og í rauninni alla þætti málsins. Ég tel því miður að það skorti mikið á að það hafi verið farið yfir málið eins og þörf er á. Þótt þetta mál sé ekki af stærstu gerð miðað við stóriðjusamninga, er það stórt og það tengist stefnumörkun stjórnvalda að öðru leyti í stóriðjumálum. Ég er mjög á annarri skoðun en hv. formaður iðnn. sem talaði um það fyrr í dag að það væri allt annað viðhorf komið upp í landinu að því er varðaði stóriðjumál. Það sagði hv. formaður iðnn. í framsögu sinni og eitthvað á þá leið að það sé hægt að ganga frá slíkum þáttum örugglega bæði í viðskiptalegu og umhverfislegu tilliti. (StG: Við höfum meiri þekkingu nú.) Betur að satt væri, virðulegur formaður iðnn., hv. þm. Í því sambandi bendi ég á þá horrim sem mengunarvarnastofnun Íslands, Hollustuvernd ríkisins, er haldið á í sambandi við hennar aðstöðu til þess að vinna verkin. Getum við miðað við það að Alþingi Íslendinga skammti svo naumt til þessarar stofnunar að hún sér ekki fram úr verkunum? Er það líklegt til þess að menn geti vandað til sem vert væri undirbúnings stórra mála sem varða umhverfishagsmuni?

[16:15]

Ég vara einnig sterklega við þeirri öldu sem núv. ríkisstjórn og hæstv. iðnrh. stendur fyrir sérstaklega, að gera því skóna og þá væntanlega reyna að láta það ganga eftir að hér eigi menn að þræða upp alla mögulega samningsaðila sem hugsanlega vilja bíta á krókinn og komast að íslenskum orkulindum til sinnar framleiðslu og líta á það sem einhverja gullöld og gleðitíð sem almennt eigi að klappa fyrir. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé skynsamleg atvinnustefna hér á landi að miða við þetta og er ég þá einfaldlega að vísa til þeirra hugmynda sem liggja á borðum okkar frá hæstv. iðnrh. Og ef við lítum á þann tímaramma sem menn eru að tala um, eru menn að tala um einn áratug eða svo og þá tek ég Keilisnes með og hvað þetta heitir allt saman sem ekki er alveg fyrst í röðinni á óskalista stjórnvalda eða líkur sem taldar eru á að hér komi formlegar óskir um.

Ég vil einfaldlega minna á til hvers það mun leiða í íslensku samfélagi ef menn ganga svona fram. Miðað við þá staðsetningu á þeim fyrirtækjum sem mörkuð er af stjórnvöldum og við þekkjum að verulegu leyti, mun það auðvitað leiða til þess að það verður átak af stjórnvalda hálfu, formlegt og skipulegt stórátak í þá veru að safna þeirri dreif af þjóðinni sem er enn utan suðvesturlands hingað suður, til suðvesturhornsins. Það verður með skipulegum hætti staðið að því. Það verður í öðru lagi um að ræða slíka árekstra við umhverfishagsmuni í landinu að það mun leiða til stórátaka. Þá á ég bæði við þá mengun sem menn virðast telja eðlilega varðandi þessa stækkun og það að menn taki fram að þeir telja það ekki fordæmisgefandi fyrir framhaldið. Gott og vel. En ég á eftir að segja að þeir verði ekki minntir á það hvað þeir eru að reyna að fá fram og hafa þegar markað í starfsleyfum og þar að auki virkjunarmálin og allsendis óklár og óuppgerð mál í sambandi við orkuöflunina sem er svo fjarri lagi að sé líklegt að gangi upp með eðlilegum hætti eins og staðið hefur verið að undirbúningi þeirra. Ég tala nú ekki um þá drauma sem eru ekki á þessum blöðum en eru samt á fullu í umræðunni, útflutning raforku með sæstreng frá Íslandi sem búið er að kosta stórfé til. Það eru athuganir í gangi af margvíslegum toga þar að lútandi þar sem lítið er hugsað um orkuþáttinn og gersamlega óuppgert hvar á að taka orkuna og hvernig á að afla hennar. En menn eru eins og Bakkabræður í þeim efnum sem öðrum, að draga upp einhverjar framtíðardraumsýnir um slíkar framkvæmdir og verja stórfé í athugun mála. Ég held að það sé sérstakt fyrirtæki með skoðun á mögulegri framleiðslu á þessum sæstreng með þátttöku Reykjavíkurborgar ef ég man rétt. Það er bara til þess að kóróna hvernig menn standa að verki í þessum efnum á meðan sjálf orkuöflunin og virkjunarkostirnir eru í uppnámi að því er snertir umhverfislega hagsmuni.

Það vill svo til að ég kannast svolítið við þetta efni, virðulegi forseti. Þeir snerta norðausturland og vatnsföllin þar öðru fremur og það sem þar er á döfinni. En ég vara menn sterklega við að vera að byggja á þeim draumsýnum sem liggja fyrir á teikniborðum Landsvirkjunar og með aðstoð góðra tæknimanna í þeim efnum án þess að taka málið til umræðu og skoðunar út frá almennum víðtækum forsendum, að umhverfisþættinum meðtöldum.

Það er raunalegt, virðulegi forseti, að menn skuli ekki hafa notað það hlé sem hefur verið á stóriðjuframkvæmdum í landinu frá 1979, að járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði tók til starfa, til að marka með skýrari hætti málsmeðferð í þessum efnum og til stefnumörkunar af stjórnvalda hálfu. Það er undarlegt að menn skuli standa í þeim sporum þegar þessi framkvæmd kemur sem farið var að tala um 1983 og var reyndar mörkuð í bráðabirgðasamningi við Ísal um athugun á stækkun álbræðslunnar í september 1983, að hafa ekki notað þennan tíma til að reyna að koma málsmeðferðinni í skaplegra horf og skilgreina betur almenna hagsmuni í þessu sambandi, bæði fjárhagslega, þjóðhagslega og umhverfislega hagsmuni.

Hv. þm. Svavar Gestsson, sem skilar inn séráliti um þetta mál, hefur lagt til breytingartillögur í formi viðaukaákvæða við frv. sem hér er til umræðu. Ég tel að þar sé um að ræða eðlilega og nauðsynlega viðleitni til mótvægisaðgerða og nánari skoðunar á málum. En það dugar skammt ef ekki er vilji til þess að taka á slíkum þáttum af alvöru í tengslum við þetta mál og er ég þó ekki þar með að segja að það breyti eðli málsins eitt út af fyrir sig. En eftir sem áður eru slíkir þættir brýnir og nauðsynlegir og þá ekki síður vegna hugmynda um aðrar og stærri framkvæmdir sem stjórnvöld eru nú að vinna að.

Ég vil inna formann iðnn. eftir því hvort hann sé ekki reiðubúinn að taka á þeim þáttum sem ég hef minnst á að þurfi einhverrar skoðunar við áður en til 3. umræðu málsins kemur og ég endurtek ekki vegna þess að ég hafði komið þeim á framfæri. En um leið og ég andmæli því sjónarmiði sem fram kom af hálfu meiri hluta iðnn., að hér sé ekki gengið gegn neinum alþjóðlegum skuldbindingum okkar, vil ég inna hv. þm. formann iðnn. eftir því hvort hann sé ekki reiðubúinn til að stuðla að því að sett verði í gang vandaðri skoðun á forsendum þessara mála. Ég tel að við þurfum að læra af þeirri stöðu sem stjórnvöld hafa sett okkur í í þessu máli og ég held að þingið þurfi líka að læra sitt af því. Það er vissulega afar óheppilegt að mál af þessum toga, almennt séð sé til athugunar innan jafnþröngra marka og raun ber vitni. Ég er ekki að tala um þingið þessa dagana sérstaklega. Ég er að tala um málsmeðferðina frá júlímánuði sl. til dagsins í dag. Við erum að vinna að skoðun málsins innan afar þröngra marka og það er mikil þörf á því að hægt sé að standa betur að málum af skyldum toga í framtíðinni.

Virðulegur forseti. Ég ætla að láta þessari umfjöllun af minni hálfu lokið að þessu sinni í 2. umr. málsins. Ég hef borið fram ýmsar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra auk hv. formanns iðnn. og vantar þó mikið á að ég hafi komið að ýmsum þáttum sem væri þörf á að ræða í málinu að þessu sinni. Ég biðst velvirðingar á því að ég hef tekið nokkurn tíma til að koma á framfæri þessum atriðum en ég tel að það réttlætist af því hve málið er viðamikið og margbrotið og hvað það varðar margs konar hagsmuni einnig í tengslum við þá stefnumótun sem núv. ríkisstjórn hefur verið að draga upp í sambandi við orkufrekan iðnað nú upp á síðkastið og læt þar með máli mínu lokið.