Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 16:25:52 (2065)

1995-12-16 16:25:52# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[16:25]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur farið örfáum eða ja, nokkrum orðum skyldi ég segja, um umhverfisþátt þessa álsamnings. Ég hef heyrt að hann hefur fundið að því við okkur þegar við höfum þurft að víkja úr þingsal á þessum þremur og hálfa tíma sem umfjöllun hans hefur tekið. Ég bið hann velvirðingar á því, en nauðsyn hefur kallað. Þess vegna þætti mér vænt um ef hægt væri að fá samantekt á ræðunni sem hann flutti. Ég tiltek ekki hversu löng hún þyrfti að vera en þarft væri að fá þetta sett í skýran og stuttan búning.

Ég vil þó aðeins, af því að ég hef ekki jafnlangan tíma til þess að tala, segja þetta í örfáum orðum, meginatriði málsins. Það kemur fram í áliti meiri hluta umhvn. Þar segir:

,,Mikil vinna hefur verið lögð í gerð umhverfismats og starfsleyfis. Með starfsleyfinu, sem umhverfisráðherra hefur gefið út, er tryggt að allar þær kröfur, sem gerðar eru til umhverfisverndar í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, sbr. 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, séu uppfylltar.``

Þetta er meginatriði málsins. Þetta var sá grunnur sem umhvn. hafði til þess að vinna eftir og innan þess ramma héldum við okkur. Ég ítreka það að við í umhvn. unnum okkar mál vel. Þar fór málefnaleg umræða fram og meiri hluti umhvn. gerði þess vegna ekki athugasemdir umfram það sem komið hefur fram.