Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 19:12:54 (2085)

1995-12-16 19:12:54# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[19:12]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé mikill misskilningur og talsvert rangar upplýsingar sem hv. 8. þm. Reykv. ber hér um þau viðbrögð sem hann hafi fengið við tillögum sínum. Það kom fram í ræðu minni áðan, hv. þm., að ég taldi að flest þau verk og öll, sem hv. þm. óskaði eftir að skipa nefndir um þegar þessi samningur væri fullfrágenginn af hálfu Alþingis, væru í vinnslu á vegum iðnrn. og viðskrn. í gegnum ýmsar nefndir, stjórnir og ráð sem starfandi eru á vegum iðnrn. og viðskrn. og tók þar til markaðsskrifstofuna, fjárfestingarskrifstofuna, nefnd um erlenda fjárfestingu, ráðgjafarnefnd sem er í samvinnu aðila vinnumarkaðarins og viðsknrn., um lítil og meðalstór fyrirtæki til að nýta sér þá kosti sem þau hafa gegnum Evrópska efnahagssvæðið og þannig mætti lengi telja. Öll þessi verk sem fram koma og nefndir þær sem hv. þm. leggur til að verði settar á fót eru þegar í vinnslu á vegum ráðuneytisins þannig að ég taldi það vera óþarfa að fara að skipa nefndir um verk sem nú eru í ákveðnum farvegi.

Varðandi árásir á Alþb. þá gætir þar oftúlkunar af hálfu þeirra sem bera þessar upplýsingar í hv. þm. vegna þess að ég var aðeins að reyna að meta hvernig staðan væri, hvernig stuðningur við þetta mál væri og ég taldi að hv. 8. þm. Reykv. styddi málið að mér fannst af hans ágætu ræðu fyrr í dag á sama tíma og ég efaðist um að hv. 4. þm. Austurl. styddi málið eftir að hafa hlustað á hans ræðu í dag.