Bifreiðakaupalán til öryrkja

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 15:04:56 (2091)

1995-12-18 15:04:56# 120. lþ. 69.91 fundur 145#B bifreiðakaupalán til öryrkja# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[15:04]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum var rætt um það í þessum sal hvernig yrðu afgreidd mál sem lúta að bílalánum öryrkja frá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er um að ræða 40 ára gamla hefð og öryrkjar hafa getað gengið að tvenns konar tilteknum lánum vegna bifreiðakaupa. Um þessi mál hefur verið ágæt samstaða í þjóðfélaginu. Fyrir nokkrum vikum ákvað meiri hluti tryggingaráðs síðan fyrir sitt leyti að rétt væri að fella þetta niður og þá var það mál tekið upp í þessari stofnun í fyrirspurnatíma, m.a. að mínu frumkvæði. Þá svaraði hæstv. heilbrrh. því til að þessi lán verði ekki felld niður þrátt fyrir samþykkt tryggingaráðs og hún vísaði í því sambandi á heilbr.- og trn. Alþingis sem mundi taka málið fyrir.

Nú er mér kunnugt um að heilbr.- og trn. Alþingis hefur tekið þetta mál fyrir aftur og aftur, síðast í morgun. Það er bersýnilegt að stjórnarflokkarnir eru klofnir í málinu og það er líka bersýnilegt, hæstv. forseti, að það er full samstaða um það í stjórnarandstöðuliðinu, eða þannig hef ég skilið það, að ljúka ekki þingstörfum fyrir jól öðruvísi en að þessu máli verði séður farborði með eðlilegum hætti. Þess vegna skora ég á hæstv. heilbrrh. að standa nú þannig að málum að það verði sett lög sem treysta undirstöðu þessara bílalána vegna þess að ný samþykkt tryggingaráðs er ekki nægileg að mati stjórnarandstöðunnar, trúi ég.

Nú eru þeir hlutir þannig að stjórnarflokkarnir hafa ekki tekið mikið tillit til stjórnarandstöðunnar að undanförnu. Nú vill hins vegar þannig til að þeir neyðast til þess að hlusta á stjórnarandstöðuna a.m.k. þá daga sem eftir eru fram að jólum. Og ég segi við hæstv. ráðherra og hæstv. forseta, á bak við þessi orð mín varðandi bílalán er full alvara.