Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 15:36:46 (2108)

1995-12-18 15:36:46# 120. lþ. 69.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., ÓRG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[15:36]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Sá samningur sem hér liggur fyrir er á margan hátt mjög góður. Ég hef lýst því yfir áður og ítreka það nú að ég tel að það orkuverð sem fékkst með þessum samningi sé betra en hægt var að ætlast til miðað við þær aðstæður sem Íslendingar hafa búið við í orkumálum.

Í öðru lagi tel ég að sá skattasamningur sem fékkst með þessum samningi sé veruleg framför frá þeim málum, eins og þeim hefur verið háttað til þessa.

Í þriðja lagi tel ég að þótt umhverfisþátturinn hefði á margan hátt mátt vera betri þá sé hann fyllilega viðunandi. Ég tel því að frv. sem hér er verið að afgreiða sé mjög jákvætt framlag til efnahagsþróunar á Íslandi, samningurinn muni styrkja mjög fjárhagsstöðu Landsvirkjunar, hann muni draga úr erlendum skuldum þjóðarbúsins og auðvelda Íslendingum að ráða fram úr efnahagslegum örðugleikum sem hér hafa verið um langt skeið. Þess vegna tel ég sjálfsagt og eðlilegt að styðja þennan samning með frv. og segi því já.