Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:44:16 (2132)

1995-12-18 16:44:16# 120. lþ. 69.3 fundur 207. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (fasteignaskattur, þjónustuframlög) frv., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:44]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Eftir að félmn. lauk umfjöllun um frv. til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga barst nefndinni ábending frá fjmrn. um að nauðsynlegt væri að samræma 32. gr. laganna um tekjustofna sveitarfélaga við 112. gr. laga nr. 31/1995, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. 112. gr. í lögum um tekjuskatt og eignarskatt fjallar um ofgreiðslu skatta og er þar að finna nýtt ákvæði þess efnis að vextir skuli vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma, þ.e. vextir sem þeir fá í sinn hlut sem hafa ofgreitt skatta. Ákvæði þetta er nýtt og mun ganga í gildi hinn 1. janúar nk.

[16:45]

Í gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga er gengið út frá vöxtum á ákveðnum sparireikningi í Landsbanka Íslands sem nú er með 0,5% vöxtum meðan hæstu vextir á óbundnum sparireikningum eru nú 3%. Tekjuskattur og útsvar eru innheimt samtímis og því er ótvírætt hagræði af því að sömu reglur gildi um ofgreiddan tekjuskatt og ofgreitt útsvar. Því mælir félmn. með því að breyting verði gerð á lögunum um tekjustofna sveitarfélaga og eru þær breytingartillögur svohljóðandi:

1. Á eftir 5. gr. komi ný grein er verði svohljóðandi: 2. málsl. 2. mgr. 32. gr. orðist svo: Skulu vextir þessir vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma.

2. Við 8. gr. (er verði 9. gr.). Við greinina bætist nýr málsliður svohljóðandi: Ákvæði 6. gr. tekur til ofgreiðslu sem á sér stað eftir það tímamark.

Þetta ákvæði er samhljóða því sem kveðið er á um í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt eða svo að ég fari rétt með þetta, þá heita þau Lög um breytingar á lögum er varða rétt til endurgreiðslu og vaxta af ofteknum sköttum og gjöldum.

Hæstv. forseti. Hér er um leiðréttingu að ræða. Menn ráku sig á það að það var ekki samræmi milli þessara laga og því nauðsynlegt að gera þessa breytingu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið úr fjmrn., þá er þarna um óverulegan kostnaðarauka að ræða fyrir sveitarfélögin. Samkvæmt þeim tölum sem þeir hafa þar yfir árið 1995, eru inneignarvextir samtals 120 þús. kr. og ef ég hef skilið það rétt er það vegna þessara 0,5% vaxta. Ef vextirnir hækka upp í 3%, þá gerir þetta 720 þús. kr. fyrir sveitarfélögin þannig að það er augljóst að þetta er óverulegur kostnaðarauki en mjög til hagræðis við úteikninga á vöxtum og við útreikninga á ofgreiddum sköttum. Félmn. mælir þess vegna með því að þessar breytingartillögur verði samþykktar.