Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 16:18:40 (2156)

1995-12-19 16:18:40# 120. lþ. 72.2 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[16:18]

Frsm. meiri hluta (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ræddi um orkubúskapinn og taldi þar um verulegt ofmat að ræða og að iðnn. hefði ekki kynnt sér þetta mál sem skyldi. Ég vil bara að það komi fram að þetta er ekki rétt því iðnn. fór mjög ítarlega yfir þetta atriði á fundi með Landsvirkjun sem ég vitnaði í þegar ég talaði fyrir málinu. Þá fórum við mjög ítarlega yfir þetta atriði og ég trúi því nú, hv. þm., að hjá Landsvirkjun og Orkustofnun séu þær bestu og öruggustu upplýsingar sem hægt er að fá um orkubúskap okkar Íslendinga og þar sé vitneskjan miklu meiri en hér hjá ákveðnum þingmönnum þótt þeir viti sjálfsagt eitthvað um þessi mál.

Hvað samninginn sjálfan varðar og álit mitt á honum þá er það nú svo að það eru fleiri á hinu háa Alþingi sem hafa trú á honum. Ég vitna til orða fyrrv. formanns Alþb. sem hann viðhafði hér í gær í atkvæðagreiðslu. Þá sagði Ólafur Ragnar Grímsson, með leyfi virðulegs forseta: ,,Sá samningur sem hér liggur fyrir er á margan hátt mjög góður samningur.`` Þetta voru orð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrv. formanns Alþb.