Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 16:20:22 (2157)

1995-12-19 16:20:22# 120. lþ. 72.2 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[16:20]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað var hv. þm. að segja í andsvari sínu? Hann var að segja að menn ættu bara að treysta því sem fram kæmi hjá sérfræðistofnunum sem eru spurðar í sambandi við þetta mál og þær byggju yfir öllu viti. Það væri svo sem ekkert vit að hafa úr heilabúum þingmanna á Alþingi Íslendinga. Ég ætla ekki að vanmeta það sem kemur frá þessum stofnunum. En ég ætla aðeins að vekja athygli á því að það er ekkert sem hægt er að byggja á sem einhverjum endanlegum sannleik. Það er því miður ekki, það hefur reynslan sýnt okkur. Það hefur m.a. komið fram í sambandi við orkuspár fyrr á tíð sem hafa orðið býsna afdrifaríkar þar sem allt annað kom á daginn en þeir spádómar sem voru reiddir fram í digrum skýrslum frá fulltrúum, m.a. frá þeim stofnunum sem áttu aðild að orkuspárnefnd á sínum tíma. Ég nefni þetta vegna þess að það hafði auðvitað verulegar afleiðingar fyrir áform í orkubúskap okkar. Ég felli ekki neina dóma vegna þess. Ég vil einnig nefna það sem gerst hefur í sambandi við vatnsbúskapinn á Íslandi og hvað menn hafa verið ógætnir oft á tíðum í sambandi við áætlanir þar að lútandi og snertir með beinum hætti það efni sem hér er til umræðu. Ég nefni einnig það sem varðar þjóðhagslega þætti þessara mála að svo miklu leyti sem sérfræðistofnanir, það eru fleiri en Þjóðhagsstofnun sem hafa komið að slíkum málum, hafa verið fallvaltir dómar. Menn ættu að gæta sín að draga sem víðast að upplýsingar og hafa eigið hyggjuvit einnig vel virkt í sambandi við mat á þessum hlutum. Hv. þm. getur leitað fanga í stuðningi við þetta mál hvert sem er og í hvaða flokk sem er sem styður þetta mál. Það breytir engu varðandi það mat sem ég hef fengið á þessu máli sem byggir á þeirri þekkingu sem ég tel mig hafa á því. Samningurinn verður ekki betri þó fleiri styðji hann á fallvöltum forsendum.