Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 23:03:30 (2177)

1995-12-19 23:03:30# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur


[23:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði nokkurra sjálfsagðra spurninga. Hún spurði um fjármagnstekjutengingu lífeyrisþega. Hún verður sett á 1. september. Ég á von á að fjármagnstekjuskattur verði kominn á þá. Atvinnutekjur skerða lífeyri almannatrygginga og hafa gert um langa hríð. Ég spyr hv. þm.: Er óeðlilegt að miklar tekjur lífeyrisþega skerði lífeyri? Er það óeðlilegt? Er óeðlilegt að fólk sem hefur miklar fjármagnstekjur, segjum hundruð þúsunda, jafnvel milljónir kr., hafi skertan lífeyri? Hér er ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann lægstur heldur þar sem hann er hæstur. Það tel ég eðlilegt.

Hv. þm. spurði fleiri spurninga. Hv. þm. spurði um lífeyrissjóðina, um þá sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóði og hún segir: Er hér verið að tala um öryrkja, um húsmæður? Nei, hvorki er verið að tala um öryrkja né húsmæður. Þvert á móti. Það er t.d. átt við atvinnurekendur sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóði. (JóhS: Eingöngu atvinnurekendur?) Hér er eingöngu verið að tala um þá sem sjáanlega hafa háar tekjur en ekki hafa greitt í lífeyrissjóði. Er hv. þm. ekki sammála mér um það? Engin upphæð er sett á þetta, heldur erum við að tala um jafnræðisreglu sem ég tel mjög eðlilega og sanngjarna. Síðan spyr hv. þm. um hækkun gjalda á heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga. Það er ekki einfalt og ekki auðvelt fyrir þá sem hér stendur að hækka þessi gjöld. Það er alls ekki einfalt. Við féllum frá innritunargjöldum. En hér er talað um lága upphæð í hækkun gjalda. Við erum að tala um 100 kr. á heilsugæslustöð og 200 kr. til sérfræðinga. Hv. þm. spyr að því hvort við tökum sérstaklega tillit til aldraðra og öryrkja. Við gerum það. (Gripið fram í.) Þakið er er 3 þús. kr. fyrir aldraða og 6 þús. kr. fyrir barnafjölskyldur. (Gripið fram í.) Við erum að t.d. endurskoða í heilbr.- og trmrn. hinn háa lyfjakostnað við fúkalyf fyrir börn, sem er núna greiddur að fullu og Alþfl. setti á á sínum tíma. Ég ætla ekki að horfa á hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur því að hún hefur fyrir löngu gengið úr þeim flokki. Við erum að skoða hvort við getum ekki lækkað þennan lyfjaflokk fyrir börn. Við erum sérstaklega, við þessar aðgerðir, að reyna að varast það að þetta komi þyngst niður á þeim sem síst skyldi. Þetta eru erfiðar aðgerðir en við sjáum það og Þjóðhagsstofnun hefur reiknað út fyrir okkur að þetta kemur þó síst niður þeim sem hafa lágar tekjur, lífeyristekjur. Það skal ég sýna hv. þm. svart á hvítu á eftir.