Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 15:45:02 (2366)

1995-12-21 15:45:02# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[15:45]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum við frv. til lánfsjárlaga frá meiri hluta efh.- og viðskn. á þskj. 456 og 483 og frhnál. sem eru á þskj. 458 og 482.

Brtt. sem er á þskj. 456 er þess efnis að við 3. tölul. þeirra breytingartillagna sem lágu fyrir í dag bætist nýr tölul. um að það sé hægt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán fyrir Spöl hf. allt að einum milljarði kr. vegna kostnaðar við gerð vegganga undir Hvalfjörð og tengingu þeirra við vegakerfið. Heimildin er veitt með því skilyrði að ríkissjóði standi til boða að kaupa hlutabréf Spalar hf. eigi síðar en 2018 og að staðfest kostnaðar- og tekjuáætlun sé við það miðuð að öllum greiðslum af lánum og innheimtu veggjalds verði lokið innan 30 ára eftir að veggöngin verða tekin í notkun.

Til skýringar á þessari beiðni um sjálfskuldarábyrgð vil ég nefna eftirfarandi:

,,1. Til þess að unnt yrði að ganga frá samningum við Enskilda Bank í Svíþjóð var óhjákvæmilegt að verktakar tækju á sig kostnað vegna tafa á því að vinna við jarðgöngin gæti hafist. Jafnframt hafa verktakar tekið ábyrgð á kostnaði sem verða kann ef verklok dragast fram yfir það sem samið er um. Þá bera verktakar ábyrgð á vissum ófyrirséðum áhættuþáttum sem ekki er hægt að tryggja sig fyrir.`` --- Allt þetta hækkar kostnað við verkið. --- ,,Ábyrgð af þessum sökum nemur allt að 300 millj. kr. sem þó gjaldfalla ekki fyrr en séð verður að staðið verði við samninginn.

2. Taldar 1--12% líkur á að til frekari styrkingar á göngunum en segir í verksamningi kunni að koma. Ógjörningur er að meta slíkan ófyrirsjáanlegan kostnað en hér er reiknað með að ríkisábyrgð af þessum sökum á lánum til Spalar hf. kunni að nema allt að 300 millj. kr. sem gjaldfalla einu ári eftir að göngin hafa verið tekin í notkun.

3. Reiknað er með að vegtenging við göngin kosti um 800 millj. kr. Gert er ráð fyrir að Spölur hf. taki lán með ríkisábyrgð fyrir helming fjárhæðarinnar sem endurgreiðist af veggjaldi. 400 millj. kr. verða greiddar af vegafé Reykjaneskjördæmis og Vesturlandskjördæmis á árunum 1999--2003 en vextir greiðast þó af óskiptu fé Vegasjóðs.``

Áður en þetta mál er hingað komið hafa að sjálfsögðu orðið um það nokkrar umræður. Það má segja að þetta sé að sjálfsögðu álitamál eins og mörg önnur en ég hygg að afstaða manna til þess fari að nokkru leyti eftir því hvern útgangspunkt menn hafa í viðhorfum sínum til þessara framkvæmda. Ástæðan fyrir því að ég get stutt þetta mál og geri það af heilum hug er sú að ég tel að þessi framkvæmd sé þjóðþrifaframkvæmd, hagkvæm framkvæmd sem engin spurning er að þarf að leggja í. Ég tel meira að segja að það hefði verið eðlilegt frá upphafi að Vegagerð ríkisins hefði annast þessa framkvæmd hvort sem það hefði verið gert með því að fyrir hana hefði verið greitt af notendum hennar eða það hefði verið farið með hana með sama hætti og aðrar framkvæmdir í vegamálum. Ég tel það sjálfsagt mál þegar um framkvæmd af þessum toga er að ræða að greitt sé fyrir notkunina. Þetta er minn útgangspunktur í málinu. Í umræðum um málið á árum áður var hins vegar ekki samstaða um það að þessi framkvæmd væri nauðsynleg og ýmsir sem töldu að það væri ekki eðlilegt að í hana væri lagt nema það væri gert á þeim grundvelli að að henni stæði sjálfstætt einkafyrirtæki sem þá hefði möguleika á að láta notendur greiða fyrir notkunina.

Fyrir mér snýst því málið um að framkvæmdin er komin á það stig núna að hún er að fara í gang. Það er búið að undirbúa málið. Það er búið að skrifa undir alla samninga og mér finnst þess vegna sjálfsagt mál að ríkið komi til skjalanna með þessum hætti til að lækka kostnaðinn við verkið og tryggja að það geti hafist.

Ég vek líka athygli á því að eins og þetta mál er lagt upp, þá er gengið út frá því að notendurnir greiði fyrir framkvæmdina á löngum tíma. Ég vek líka athygli á því að ef ekki verður lagt í þessa framkvæmd, þarf að leggja í kostnað við veginn fyrir Hvalfjörð upp á meira en 2 milljarða kr. Hámark þess sem ríkið getur tapað við það að lagt er í framkvæmdina er einn milljarður kr. ef öll þessi sjálfskuldarábyrgð fellur á ríkið. Reyndar eru afar litlar líkur á að sú fjárhæð tapist. Ég tel að það sé fyllilega réttlætanlegt að leggja í þetta vegna þess að hámarkið sem hægt er að leggja til framkvæmdarinnar úr ríkissjóði með því að fara í göngin er einn milljarður. Meðan það er alveg tryggt að ekki verður farið í göngin og þau verða aldrei byggð, er alveg öruggt mál að það þarf að leggja yfir tvo milljarða úr ríkissjóði í aðra framkvæmd. Þess vegna tel ég að að sé full ástæða til þess fyrir Alþingi að greiða fyrir þessu máli þannig að þetta þjóðþrifaverk komist af stað.

Í breytingartillögunum sem eru á þskj. 483 er í fyrsta lið lögð til breyting á 1. gr. frv. til lánsfjárlaga. Þetta er leiðrétt niðurstaða 1. gr. fjárlagafrv. Í 2. lið er leiðrétting á orðalagi. Í 3. lið er lögð til heimild fyrir fjmrh. til að taka lán, allt að 70 millj. kr. á árinu 1995 og endurlána til Spalar hf. Í 4. lið er lögð til gildistökuheimild vegna lántökuheimildar fyrir árið 1995.

Til skýringar á 3. og 4. lið brtt. á þskj. 483 er að í framhaldi af þáltill. sl. vor um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð undirrituðu samgrh. og fjmrh. samning við Spöl hf., 22. apríl sl. Samtímis undirrituðu sömu aðilar sérstakt samkomulag með vísan til samningsins. Það fól í sér að hlutafé félagsins var ákveðið 86 millj. kr. á nafnvirði og skyldi ekki hækkað án sérstaks samkomulags samningsaðila. Þ.e. félagið er bundið af því að geta ekki hækkað hlutaféð umfram 86 millj. kr. Jafnframt var samþykkt að lána félaginu úr ríkissjóði allt að 70 millj. kr., m.a. til að koma til móts við þessa takmörkun. Höfuðstóll lánsins ásamt vöxtum skyldi vera víkjandi gagnvart framkvæmda- og fjármögnunarlánum félagsins. Þetta lán var til viðbótar 50 millj. kr. láni úr ríkissjóði sem veitt var árið 1993 til þess að ljúka rannsóknum vegna Hvalfjarðarganga. Hér er lagt til að ráðherra verði veitt þessi heimild til lánveitingar á árinu 1995.

Allar þessar aðgerðir, þ.e. þessi lán upp á 70 millj. og sjálfskuldarábyrgðin vegna þeirra þátta sem ég hef rakið, eru til þess fallnar að draga úr kostnaði við verkið, stytta þann tíma sem notendur þurfa að greiða fyrir notkun á göngunum til þess að standa undir kostnaðinum og færa mannvirkin eins fljótt í hendur ríkissjóði og unnt er. Þess vegna tel ég að þetta sé hið besta mál og vona að það verði hægt að komast í gegnum Hvalfjarðargöng áður en þetta kjörtímabil er úti.