Lánsfjárlög 1996

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 18:46:00 (2406)

1995-12-21 18:46:00# 120. lþ. 76.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[18:46]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að menn ætla út í þessa framkvæmd á næsta ári, það liggur fyrir. (ÓRG: Hvaða menn?) Í fjárlögum er gert ráð fyrir því og í forsendum þjóðhagsspár gert ráð fyrir því. (Gripið fram í.) Já, já, en ríkið ætlar að borga þessar 800 millj. sem vegurinn að göngunum kostar. Það liggur fyrir. Menn eru að breyta 400 millj. af þessum 800 millj. sem ríkið ætlar hvort sem er að borga á næsta ári, setja þær inn í framkvæmdina þannig að þær verði greiddar af veggjöldum í framtíðinni en ekki óborgaðar.

Auðvitað gætum við farið þessa leið t.d. með breikkun Reykjanesbrautar ef hægt er að bjóða borgurunum upp á einhvern kost í staðinn. Það mætti bjóða hana út, leyfa einhverjum einkaaðila að gera það og hann getur innheimt kostnaðinn með veggjöldum. Þetta er gert mjög víða og kemur ríkissjóði viðkomandi landa lítið við. Það þarf fjármagn til þess að gera þetta og vexti þarf að borga en ef þetta er greitt með veggjöldum, þá kemur það ríkissjóði ekkert við. Hér er því um það að ræða að búið er að ákveða að fara út í framkvæmd og það eina sem menn gera í þessu er að flytja það inn í verkið sjálft og láta það borgast með veggjöldum en ekki láta það vera óborgað í framtíðinni. Þetta er það sem við erum að tala um og ekkert annað.