Fjárlög 1996

Föstudaginn 22. desember 1995, kl. 12:52:51 (2513)

1995-12-22 12:52:51# 120. lþ. 77.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur


[12:52]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Með þessu fjárlagafrv. sem nú er verið að afgreiða er allt velferðarkerfið á Íslandi sett í spennitreyju og það verður afar erfitt fyrir starfsmenn heilbrigðisstofnana og félagslegrar þjónustu á Íslandi að búa við þennan veruleika allt næsta ár. Ég spái því að fyrir hæstv. heilbrrh. og aðra ráðherra verði það erfitt verkefni að framkvæma þessi fjárlög, að ekki sé meira sagt.

Í öðru lagi er ljóst að sá halli sem hér er verið að tala um og hæstv. fjmrh. talar um eins og þegar ákveðinn veruleika, mun ekki standast. Það er alveg ljóst að það eru svo mörg göt og svo margir þættir óljósir í fjárlögunum að hallinn verður mun meiri heldur en hér er talað um. Forsendur fjárlaganna eru veikar mjög víða.

Auk þess er það þannig, hæstv. forseti, að fjárlögin eru gölluð að því leytinu til að þar hafa aldrei verið eins margir safnliðir og gert er ráð fyrir hér og vald fjmrn. yfir einstökum fagráðuneytum hefur aldrei eins mikið og samkvæmt þessum fjárlögum sem nú er verið að afgreiða. Það er í fullri mótsögn við ítrekaðar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um að ráðuneytin og stofnanirnar eigi að vera sjálfstæðar að því er þetta varðar. Ég er því sannfærður um að niðurstaða ársins 1996 verður ekki sú sem hæstv. fjmrh. lýsti áðan. En það er best að spyrja að leikslokum.