Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:57:59 (4424)

1996-03-22 17:57:59# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:57]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það mál sem hér er rætt ætlar að skapa nokkur þáttaskil í þingstörfum og kannski að valda nokkrum straumhvörfum í þjóðfélaginu á næstu mánuðum. Það er ekki aðeins þetta frv. því að vissulega var búið að leggja steina í þá hleðslu sem ríkisstjórnin er að reyna að byggja upp í sambandi við samskiptareglur á vinnumarkaði, jafnt við opinbera starfsmenn sem við hin almennu samtök launafólks innan Alþýðusambands Íslands og víðar.

Ég tel að þær umræður sem hafa farið fram m.a. í dag séu mjög verðmætar til þess að almenningur í landinu og samtök launafólksins í landinu átti sig í raun á því hvaða möguleikar eru gefnir í gegnum löggjafarvaldið annars vegar og hins vegar varðandi samtök og samtakamátt vinnandi fólks til þess að hafa áhrif á gang mála og til þess að knýja fram niðurstöður. Ég vænti þess að umræður síðustu daga í þinginu hafi gert fólki í landinu ljóst að af hálfu stjórnarandstöðunnar á Alþingi er reynt af fremsta megni að sporna gegn þeim ólögum sem ríkisstjórnin er að reyna að knýja fram í krafti mikils þingmeirihluta. Menn sjá hvernig gengið er fram af forsrh. landsins á þessum degi, í þessum sal til þess að flýta fyrir þeirri niðurstöðu sem ríkisstjórn hans ætlar að reyna að ná fram fyrir sumarið. Það er boðað að það eigi að freista þess, virðulegur forseti, að ljúka 1. umr. um frv. nú áður en Alþingi tekur sér hlé um páska. Síðan er það hugmynd ríkisstjórnarinnar að nota þetta hlé og bænadagana þar á meðal til þess að leita eftir athugasemdum og bæta stöðu sína til þess að ná málinu fram til lögfestingar fyrir þinglok í vor.

[18:00]

Það hlýtur að vera okkur sem í stjórnarandstöðu störfum alveg ljóst hver er hernaðaráætlun ríkisstjórnarinnar í þessu máli og við hljótum að spyrja okkur að því hvort við teljum það heyra til þingskyldum okkar að leggja nótt við dag í dymbilviku og páskaviku til að hjálpa ríkisstjórninni og þingmeirihluta hennar til að ná landi með þessi ólög. Mér finnst það satt að segja ekki sanngjarnt sem fram á er farið gagnvart Alþingi sem heild, að ætla að taka mál sem tekið er með afbrigðilegum hætti fyrir í þessari viku, knýja það í gegn á þessum klukkustundum til þess síðan að ætla þingnefnd að setjast yfir málið á þeim tveimur vikum eða svo sem gefið er þinghlé á Alþingi.

Þessi frumvörp ríkisstjórnarinnar, og þá á ég m.a. við frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og það sem tengist deilunni varðandi flutning grunnskólans og réttindi starfsmanna hans og síðan þetta frv. hér, eru sannarlega verðmæt kennslustund fyrir Alþingi en ekki síður fyrir fjöldasamtökin í landinu. Ég held að það þurfi að verða öllum ljóst að ef þeim meiri hluta ríkisstjórnar sem situr á Alþingi nú á ekki að takast að koma þessum ólögum fram fyrir vorið með þeirri formlegu afgreiðslu sem hér fer fram, verða allir kraftar í samfélaginu að taka á móti, allir kraftar sem eru andsnúnir þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð og því markmiði sem hér er sett fram.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar og hæstv. félmrh. vísa í starfsáætlun ríkisstjórnar og rétt er það að í því plaggi frá 23. apríl 1995 lesum við að eitt af verkefnunum er, með leyfi forseta: ,,Að endurskoða vinnulöggjöfina með það að markmiði að stuðla að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifa einstakra félagsmanna í stéttarfélögum.`` Þannig er þetta ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar orðað og auðvitað er það svo að við sem höfum fylgst með þessum málum og væntanlega þjóðin öll, höfum gert okkur ljóst að samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. ætlar sér mikið í þessum efnum. Þetta er eitt aðalverkefnið. Þetta er krókurinn sem hæstv. forsrh. bæði fyrrv. og núv. ríkisstjórnar beit á þegar formaður Framsfl. gaf sig fram við hann rétt eftir kosningar í vor og bauð honum upp á samstarf, stjórnarsamstarf. Auðvitað sá hæstv. forsrh. að það væri hægt að nýta Framsfl. í þessu samhengi til þess að ná fram áhugaefnum valdaaðila að baki stjórnmálamannanna í Sjálfstfl. sem þó veigra sér við oft og tíðum að koma fram sem nakinn talsmaður þessara afla atvinnurekendasamtakanna í landinu, en fagnar því ef hann finnur einhverja til að etja á foraðið. Og hvar er líklegra að finna þá eins og nú háttar málum en í Framsfl.? Og hvar er nú hæstv. félmrh., virðulegur forseti? Hvar er hæstv. félmrh. og hvar er formaður þingflokks Framsfl. sem ég óska eftir að verði viðstaddur umræðuna?

(Forseti (GÁ): Forseti verður við þeim óskum og lætur kalla á þá báða.)

Virðulegur forseti. Mér finnst það satt að segja hneyksli ef sá sem leggur málið fram formlega af hálfu ríkisstjórnar sér ekki sóma sinn í því að vera viðstaddur án þess að ítrekað þurfi að ganga á eftir. Ég held að það sé mikil nauðsyn á því að þjóðin, sem flestir, átti sig á eðli þessarar ríkisstjórnar, eðli þessa stjórnarsamstarfs.

Við höfum áður, virðulegur forseti, haft samstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. og þær hafa yfirleitt ekki verið fagnaðarefni fyrir hinn breiða fjölda í landinu, síst af öllu launafólkið. Þær hafa gjarnan verið kenndar við helmingaskipti allt frá sjötta áratugnum þegar samstjórn þessara flokka í tveimur ráðuneytum varð fræg fyrir það að deila með sér kjötkötlunum í hermangsstarfsemi í landinu þangað sem atvinnulausu fólki eða fólki að leita sér atvinnu var vísað og þar sem þess var gætt að skipta sem jafnast. Þessi andi helmingaskiptanna svífur enn yfir vötnum í samskiptum þessara flokka í núverandi ríkisstjórn.

Eitt af verkefnum ríkisstjórnarinnar, a.m.k. af hálfu þeirra sem taka undir kröfurnar sem koma frá atvinnurekendasamtökunum í landinu er að tryggja stöðu þeirra samtaka og tryggja stöðu stórfyrirtækjanna í landinu, þar á meðal kolkrabbans margumtalaða. Við sjáum kröfurnar. Við sjáum til hvers er ætlast af hálfu Vinnuveitendasambandsins og talsmanna þess og einnig af hálfu Vinnumálasambandsins sem enn þá er við lýði þó að veldi þess hafi minnkað til muna.

Vegna þeirrar umræðu, virðulegur forseti, sem fór fram áðan með þátttöku hæstv. forsrh. í tilefni af þeim bréfaskiptum sem fram hafa farið og tengjast alþjóðasamykktum og Alþjóðavinnumálastofnununni, þá er það býsna langsótt þegar hæstv. forsrh. segist ekki koma auga á að verið sé að raska jafnvægi milli aðila á vinnumarkaðinum á Íslandi. Menn þurfa ekki að leita lengi vitna í því máli. Í fyrsta lagi vitnar frv. sjálft og efnisþættir þess mjög skýrt um þetta. Í öðru lagi vitna ummæli fremstu forustumanna atvinnurekendasamtakanna á skýran hátt um mat þeirra á frv. Og ég get leyft mér, virðulegur forseti, að vitna til ummæla frá í gær og í dag í málgögnum þessara flokka eða í málgögnum sem hafa túlkað það. Reyndar er það aðeins Tíminn sem hefur að geyma þessar tilvitnanir í Árna Benediktsson, stjórnarformann Vinnumálasambandsins, í gær, þar sem hann kastar steinum í verkalýðshreyfinguna og segir viðbrögð hennar alveg stórfurðuleg og ekki í neinu samræmi við raunveruleikann og bætir við, með leyfi forseta:

,,Þar fyrir utan er ekkert sem hindrar það að aðilar vinnumarkaðarins geti ekki rætt málið áfram og komið sér saman um tillögur til breytinga.`` Það á að setjast að viðræðuborði með þá svipu sem hér liggur á borðum alþingismanna í formi þessa frv. sem er boðað að eigi að lögfesta fyrir vorið. Við þær aðstæður vill formaður stjórnar Vinnumálasambandsins gjarnan setjast og ræða við launafólkið. Og stjórnarformaður Vinnuveitendasambandsins vitnar í Tímanum í dag og, með leyfi forseta, stendur þar í blaði:

,,Hann segir að helsti ágreiningurinn um endurskoðun laga um stéttarfélög og vinnudeilur sé hvort aðilar vinnumarkaðarins eigi að reyna að semja um breytingar í formi kjarasamnings eða hvort setja eigi lög.``

Taka menn eftir því að ágreiningurinn er um það hvort eigi að reyna að semja um breytingar í formi kjarasamnings eða hvort setja eigi lög og framhaldið er, með leyfi forseta: ,,Atvinnurekendur telja að lagasetning sé eðlileg vegna þess að þarna sé um að ræða breytingu á lögum fremur en að gera samning sem sumir samþykkja en aðrir hafna.`` Skilja menn fyrr en skellur í tönnum. Hér er ekki verið að raska jafnvægi milli aðila á vinnumarkaði, segir hæstv. forsrh. þegar forustumenn atvinnurekendasamtakanna í landinu ganga fram með þeim hætti sem ég hef vitnað hér til og raunar er staðfest af hæstv. félmrh. sem sagði í framsögu sinni að atvinnurekendasamtökin hefðu ekki gert miklar athugasemdir við þetta mál þó þau hefðu kosið að ganga lengra, á sama tíma og samtök launafólks vísa því með öllu á bug.

En við hljótum að spyrja: Hvað er það sem dregur Framsfl. út í þetta svað? Hvernig stendur á því að Framsfl. lætur hafa sig í þetta hlutverk? Við höfum að vísu áttað okkur á að innviðirnir eru breyttir. Það eru aðrir innviðir en þegar hæstv. núv. félmrh. kom fyrst inn á þing sem líklega hefur verið 1974 í kjölfar kosninga. (Gripið fram í: Miklu fyrr.) Miklu fyrr. Kann að vera rétt. (Gripið fram í: Nei.) Ég hef það ekki fyrir framan mig, en það breytir ekki öllu. (Gripið fram í: 74.) En ég fullyrði að innviðirnir eru aðrir en þá voru og þeir eru líka aðrir en þeir voru á síðasta áratug þegar Steingrímur Hermannsson, fyrrv. hæstv. forsrh. á þeim tíma, leiddi ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Hvar er, virðulegur forseti, formaður þingflokks Framsfl. sem ég óskaði eftir að væri hér við umræðuna vegna þess að ég er að ræða sérstaklega um Framsfl. þessa stundina?

(Forseti (GÁ): Forseti hafði gert ráðstafanir og skal gera það á nýjan leik.)

Ég sá hv. þm. bregða fyrir en ég vænti þess að þingmaðurinn verði viðstaddur umræðuna. Það eru frómar óskir af minni hálfu því að hv. þingflokksformaður Framsfl. orðaði það svo í aðdraganda umræðu um þetta frv. í gær að nú hefði ríkisstjórnin, þessi ríkisstjórn, tekið á sig rögg og flutt fram mál sem aðrar ríkisstjórnir hefðu ekki lagt út í. Og hann gerði því skóna að stjórnarandstæðingarnir öfunduðu ríkisstjórnina og lið hennar af framgöngunni. Það var satt að segja mjög einkennilega orðað af hv. formanni þingflokks Framsfl. að telja að það væri tilefni til öfundar af okkar hálfu að Framsfl. nú gengi í þau verk sem fyrri ríkisstjórnir hafa kinokað sér við að bera fram í formi lagafrv.

[18:15]

Auðvitað er það formaður Framsfl. sem ber þó meginábyrgð á því sem gengur fram í þessu stjórnarsamstarfi. Það var alveg ljóst hvað hékk á spýtunni þegar ríkisstjórnin var mynduð. Það er þessi nýja forusta sem birtist okkur eftir myndun síðustu ríkisstjórnar í kjölfar formannaskipta í flokknum og breyttrar valdaaðstöðu í flokknum sem hikar ekki við að ganga til verka eins og hér er gert og hælist um yfir því að ganga þannig fram. Mér er til efs, virðulegur forseti, að fyrrv. formaður Framsfl. hefði leitt hugann að því að haga verkum með þeim hætti sem hér er gert. Mér er það mjög til efs. A.m.k. lét hann ekki verða af því. Varla hefur staðið á Sjálfstfl. í ríkisstjórninni 1983--1987 að vinna þessi verk. Hafi Framsfl. einhvern tíma haft aðra stefnu en þá að vera í ríkisstjórn, hafi hann haft einhverja stefnu um eitthvað annað en að sitja í ríkisstjórn, er það gleymt og grafið. Nú virðist manni sem Framsfl. sé orðinn rekald án siglingaljósa, prinsipplaust rekald, svo notuð séu erlend hugtök. Það er leitt að þurfa að segja þetta. Það er mjög alvarleg staðreynd að málum er svo komið og það er mál til komið að sá fjöldi fólks sem hefur trúað Framsfl. fyrir umboði sínu á Alþingi Íslendinga átti sig á því hvert verið er að stefna, hvers konar rekald þessi flokkur er orðinn sem einu sinni kaus að standa við hlið alþýðu landsins þegar í nauðir rak.

Þetta er því miður ekki bara á þessu sviði. Þetta birtist okkur með margvíslegum hætti, ekki aðeins í þessum afdrifaríku og örlagaríku málum. Munum við ekki eftir því að fyrir kosningarnar 1991, í tengslum við stórmál sem þá lágu fyrir og mál sem ekki voru komin fram í dagsljósið á þeim tíma, sá Framsfl. ástæðu til að minna á að það væri hann sem stæði í ístaðinu öðrum flokkum fremur? Það var í sambandi við samskiptin við Evrópusambandið sem þá hét Evrópubandalag. Þá var það aðalauglýsingaefni í kosningaáróðri þessa flokks að x við B þýddi ekki EB. (VS: Akkúrat.) Akkúrat, segir þingflokksformaður Framsfl. úti í sal á sama tíma og það kemur fram æ ofan í æ í umræðum að sjálfur formaður flokksins er galopinn fyrir þeim möguleika að Ísland sæki innan tíðar um aðild að Evrópusambandinu. Og hvað lesum við í viðtali við blað eitt í gær? Hvað lesum við í Helgarpóstinum í gær frá formanni Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík? Hvar er sá ágæti fulltrúi staddur í þessu máli varðandi aðild að Evrópusambandinu? Hann vill sérstaklega taka fram eða hún réttara sagt, Ingibjörg Davíðsdóttir, að hún telji að það eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu hið fyrsta og fer ekki að skilja mikið að suma flokka sem bera það mál fyrir brjósti. Ég nefni þá ekki hér endilega í þessari umræðu, það þekkja menn.

Hæstv. félmrh., sem ég veit að er annarrar skoðunar í þessu efni sem ég nefndi síðast varðandi Evrópusambandið, lætur hafa sig í það að bera fram þetta frv. um stéttarfélög og vinnudeilur, frv. sem Vinnuveitendasambandið klappar fyrir og Vinnumálasambandið en stéttarfélög launafólks mótmæla harðlega. Hvert er Framsfl. að fara sem aðili að ríkisstjórn? Við gerðum einu sinni kröfur til hans á stundum, aðrar kröfur en við gerðum til þess flokks sem hefur verið aðalmerkisberi hagsmuna atvinnurekenda í landinu um langa tíð og hefur ekki farið dult með það, þótt hann hafi að vísu einnig innan sinna vébanda ágætt fólk sem sinnir málefnum launafólks.

Virðulegur forseti. Það frv. sem við ræðum hér er mikið alvörumál. Það snýst ekki síst um það hvort menn á Alþingi styðji og taki undir það að löggjafinn móti nýja vinnulöggjöf í fullri andstöðu við annan aðalaðila vinnumarkaðarins, samtök launafólksins í landinu. Þetta frv. felur í sér að það á að hlutast til í löggjöf um innri málefni stéttarfélaga með reglum um starfshætti og reglum sem eru í andstöðu við viðurkenndar alþjóðasamþykktir. Með þessu frv. ef samþykkt yrði og raunar með framlagningu þess einni saman er rofin áratuga löng hefð og sæmileg sátt sem ríkt hefur um samskiptareglur á vinnumarkaði. Með þessu frv. er að mati samtaka launafólks stefnt að grundvallarbreytingu á verkfallsheimildinni sjálfri, möguleikum til nýtingar hennar og einnig á skilgreiningu stéttarfélaga að íslenskum rétti. Ef þetta frv. yrði að lögum, færði það ríkissáttasemjara gífurlega aukin völd og lýtur það atriði einnig að verulegri miðstýringu. Með því væru innleiddar aðferðir í sambandi við atkvæðagreiðslur sem eru hér bornar fram af hæstv. félmrh. sem sérstakt lýðræðisafrek, sem sérstök kennslubók í lýðræði, en eru þegar betur er að gáð andlýðræðislegar eins og um þær er búið.

Í ljósi þeirra tillagna sem þarna liggja fyrir um hvernig haga skuli ákvörðunum í stéttarfélögum, jafnt um boðun vinnustöðvunar sem um afgreiðslu og afstöðu til kjarasamninga, mætti spyrja hvort það næsta sem við sjáum verði t.d. það að takmarkanir verði settar í sambandi við þátttöku í alþingiskosningum, að það verði búnar til kröfur um einhver ákveðin mörk til þess að slíkar kosningar teljist gildar, að sú almenna regla að meiri hluti í félagasamtökum fái að ráða sínum málum verði afnumin og það verði af hálfu löggjafans boðið hvaða mælistiku starfsemi þessara frjálsu félagasamtaka sem samtök launafólks eru eigi að standast. (ÖJ: Reglur um meiri háttar fólk og minni háttar fólk?) Já, reglur um meiri háttar og minni háttar fólk. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur lesið rétt í málið.

Við hljótum að spyrja: Af hverju á að setja sérstök lög um innri málefni stéttarfélaga í landinu að þessu leyti? Væri ekki þörf á, ef menn ætla að vera sjálfum sér samkvæmir, að taka upp slíkt lögboð varðandi hin frjálsu félagasamtök í landinu almennt? Er það kannski það næsta sem við megum eiga von á?

Virðulegur forseti. Tilgangurinn með þessari uppsetningu mála, með þessari lagasvipu sem hér er á lofti, er að svipta kjörna fulltrúa og trúnaðarmenn í samtökum launafólks því forustuhlutverki og því svigrúmi í kjarasamningum sem hvarvetna tíðkast og þeim möguleikum sem menn almennt hafa í félagasamtökum hér á landi. Það dylst engum til hvers refirnir eru skornir og í ljósi þess er það mat sem kom fram hjá hæstv. forsrh. fyrr í umræðunni afar sérkennilegt. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forsrh. eigi eftir að lesa öðruvísi í málið. Ég vona það a.m.k. og ég vona að það gerist án þess að til stórfelldra tíðinda og frekari átaka dragi í samfélaginu.

Virðulegur forseti. Það er vert að skoða í ljósi þessa máls og aðdraganda þess hver hin almenna staða verkalýðshreyfingarinnar er, bæði hér á landi, í nágrannalöndum okkar og reyndar víðar. Þessi staða hefur verið að breytast, og í hvaða átt? Vígstaða verkalýðshreyfingarinnar hér á landi og í Vestur-Evrópu hefur verið að veikjast mjög verulega vegna þeirra breytinga sem hafa átt sér stað og sem stundum eru tengdar við alþjóðavæðingu eða hvað við kjósum að kalla það. Þar er það hið frjálsa streymi fjármagns sem haslar völlinn og sú meginbreyting sem því fylgir hefur ein og sér gerbreytt stöðu verkalýðshreyfingarinnar til hins verra. M.a. er reynt að bregðast við því með alþjóðlegum samtökum verkalýðsfélaga. Það eru mjög eðlileg viðbrögð en þau nægja ekki ein og sér. Menn verða að gá að eigin garði því sambandi og það kemur engin frelsun að utan í þessu máli gagnvart okkur Íslendingum frekar en á öðrum sviðum. Við verðum að gera málin upp hér og því fyrr sem menn átta sig á því, því betra.

Annar þáttur sem hefur breytt stöðu verkalýðshreyfingarinnar til hins verra hér og víða erlendis er atvinnuleysið. Atvinnuleysi sem ný staðreynd á vinnumarkaði hér á landi og enn stórfelldara atvinnuleysi víða í Vestur-Evrópu og víðar um heim. Þetta atvinnuleysi var hér áður fyrr á meðan verkalýðshreyfingin var að slíta barnsskónum og hafði ekki náð þeim styrk sem síðar varð og átti þátt í því að byggja upp það sem við köllum velferðarþjóðfélag. Þetta atvinnuleysi er nú á nýjan leik staðreynd og því miður er fátt sem bendir til þess að menn finni þar skjóta lækningu eins og alþjóðlegum samskiptum er háttað og eins og styrkleikur fjármagnsins er um víðan völl. Það eru víða grímulausar hugmyndir á kreiki, einnig hér á landi, um að brjóta niður samtök launafólksins sem reyna af fremsta megni að reisa skorður við ofbeldi fjármagnsins. Þetta er m.a. hugsað með því ráði að afnema eða opna fyrir að menn séu ekki í stéttarfélögum, að afnema það sem stundum er kallað skylduaðild að stéttarfélögum en er það í rauninni ekki með lögboði heldur af því að það er til þess ætlast að menn greiði til þeirra. Um það hefur verið samið á vinnumarkaði. Þessa sjást mjög skýr merki í frv. um opinbera starfsmenn sem liggur fyrir þinginu, réttindi opinberra starfsmanna. Það sama gildir um þetta frv. Þar er að vísu ekki gengið eins langt og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins hefði kosið eða hv. 16. þm. Reykv., Pétur H. Blöndal. Í ræðu hans við umræðu um þetta frv. í gær kom það fram sem skýlaus ósk og óskastaða að skylduaðild að verkalýðshreyfingunni heyrði fortíðinni til, að bakfiskurinn yrði tekinn úr hreyfingunni og það yrði hver og einn að semja fyrir sig. Það eru þessar tillögur sem eru í raun komnar fram á borðið og sem við verðum að taka alvarlega. Það er minnt á þær hér í umræðunni sem hina nýsjálensku leið. Þar hafa menn séð það nakið. Þar hefur verið gengið fram á þann hátt að verkalýðshreyfingin var brotin á bak aftur og ekki aðeins af íhaldsflokki heldur öðrum sem hefði átt að sjá betur þar í landi, en með hörmulegum afleiðingum fyrir allt hið nýsjálenska þjóðfélag eins og þeir geta sannfærst um sem kynna sér aðstæður þar í landi öðruvísi en hlýða á kennimenn sem hingað hafa verið dregnir til að kenna stjórnvöldum og atvinnurekendasamtökum hvernig eigi að ganga fram.

[18:30]

Virðulegur forseti. Að lokum fáein orð um stöðuna á Alþingi nú í aðdraganda páskahlés. Hvert stefnir um störf þingsins ef fram verður haldið eins og greinilegt er áform ríkisstjórnar í sambandi við þetta mál og önnur skyld á þinginu? Hvert stefnir í sambandi hin almennu þingstörf, störf að fjölda mála sem hér liggja fyrir til afgreiðslu frá ríkisstjórn en einnig frá þingmönnum sem ekki eru í ráðherrastólum? Og hvert stefnir, virðulegur forseti, um friðinn í þjóðfélaginu ef þessi ríkisstjórn reynir að þvinga fram hugmyndir sínar um leikreglur á vinnumarkaði? Það horfir sannarlega ekki vel.

Þær hugmyndir sem hér eru klæddar í búning lagafrv. og þar sem lagst er á sveif með þeim sem telja sig eiga fjármagnið er ekki til þess fallið að treysta sátt og tryggja að Íslendingar geti sinnt sínum verkum og lagst samtaka á árar eins og full þörf er á. Enginn boðar að æskilegt sé að grípa þurfi til vinnustöðvana eða efna til átaka í samfélaginu. En jafnframt undirstrikum við og undir það taka flestir í orði að réttindi samtaka launafólks, einnig verkfallsrétturinn, sé helgur réttur og auðvitað getur reynt á það ef í harðbakka slær. Það eru aðrir en við á Alþingi sem því ráða.

Ég vænti þess, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin íhugi sinn gang og þinglið hennar hér á Alþingi og þeir þingmenn í stjórnarflokkunum sem hafa efasemdir um ágæti frv. leggist þar á árar með okkur sem erum að vara við og geri kröfu um að frv. verði dregið til baka. Mér sýnist nú ekki horfur á að hæstv. félmrh., virðulegur forseti, fari í páskaleyfi með þetta frv. inn í þingnefnd eins og nú horfir. Ég vona að hæstv. ráðherra muni nota páskahléið til þess að íhuga þetta mál, átta sig á því og fara yfir þær mörgu viðvaranir sem fram hafa komið í umræðu, bæði í þinginu og utan þings og komist að þeirri niðurstöðu sem ég held að sé í margra huga hin eina ráðlega niðurstaða í þessu máli, þ.e. að draga þetta frv. til baka og að gefa aðilum vinnumarkaðarins gott svigrúm til að móta samskiptareglur sínar eins og þeir voru að vinna að áður en þetta frv. kom fram. Þeir hafa ítrekað, þar á meðal formenn starfsgreinasamtaka innan Alþýðusambandsins, lýst sig reiðubúna til að eiga viðræður um það við atvinnurekendur að móta slíkar reglur og eftir atvikum ef samstaða er þar um að óska eftir löggjöf til þess að festa í sessi leikreglur sem eiga sér stoð í sammæli aðila á vinnumarkaði, að þá verði það tekið til athugunar af ríkisstjórn og síðan af Alþingi. Það er þannig sem vænlegt er að vinna að máli sem þessu og aðeins þannig eru líkur til þess að ekki verði raskað því jafnvægi milli aðila með löggjöf sem hér var rætt fyrr í þessari umræðu og hæstv. forsrh. taldi að ekki væri gert með þessu frv.

Við lítum öðruvísi á málið og ég tel að hæstv. félmrh. yrði maður að meiri að taka af skarið í þessum efnum.