Starfshættir í umhverfisnefnd

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 13:50:38 (5709)

1996-05-07 13:50:38# 120. lþ. 132.92 fundur 294#B starfshættir í umhverfisnefnd# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[13:50]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér hafa fallið allstór orð af hálfu stjórnarliða, síðast frá hv. þm. Árna M. Mathiesen. Það er kannski forboði þess sem koma skal af hálfu stjórnarliða í sambandi við efnislega umfjöllun um þetta mál. Formaður nefndarinnar telur að vinnubrögðin séu með ágætum og hann fer með rangt mál í sambandi við umfjöllun um málið. Það er fyrst á aukafundi þar sem tveir stjórnarliðar eru viðstaddir sl. föstudag að farið er að ræða frv. efnislega. Það var að minni kröfu sem byrjað var á því. Það var farið yfir 13 greinar af 40. Punktur. Síðan kemur nefndarálit og breytingartillögur meiri hlutans í morgun inn á þingnefndarfund og það er ekki einu sinni ráðrúm til að lesa það yfir á nefndarfundinum. Þá er kveðið upp úr um það að nú sé komið að skilum í þessu máli. Þannig eru vinnubrögðin.

Hvað um þingmannamálin í nefndinni? Það er fyrst eftir afgreiðslu þessa máls að þingmannamál fást tekin á dagskrá þrátt fyrir loforð á loforð ofan af formanni nefndarinnar í febrúarmánuði um að það skuli gert eftir að búið var að afgreiða frv. um erfðabreyttar lífverur, loforð sem ekki var staðið við, því miður. Þar á meðal er frv. um breytingu á lögum um náttúruvernd, frv. sem ég hef flutt ásamt fleiri þingmönnum. Umsagnir lágu fyrir um það í janúar en það hefur ekki fengist á dagskrá nefndarinnar þótt það varði það frv. sem tekið var út úr nefndinni í morgun. Þetta eru vinnubrögðin, virðulegur forseti.

Það mætti margt segja um viðveru í nefndinni að því er varðar fulltrúa Sjálfstfl. Ef maður sæi ekki suma þeirra á þingfundum stöku sinnum mundum við ekki þekkja þá eða varla það. Þannig er þetta nú og það þrátt fyrir ákvæði 17. gr. þingskapa með vísun í 53. gr. um mætingu í þingnefndum. Þetta er líka alvörumál, virðulegur forseti, og ég vísa því frá að við þingmenn í umhvn. séum að fjalla um þessi mál með það í huga að stöðva mál, ,,af því bara`` eins og hér er haldið fram af hv. þm. Árna M. Mathiesen. Ég harma að svona skuli staðið að mjög þýðingarmiklu máli. Svo mikið er víst að það er hætt við að sá sem stóð að framgangi frv. um náttúruvernd 1971, Eysteinn Jónsson, fari að snúa sér við þar sem hann nú liggur.