Tölvuskráning símtala

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:02:27 (5911)

1996-05-13 15:02:27# 120. lþ. 136.1 fundur 300#B tölvuskráning símtala# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:02]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við lesum í blöðum að tölvunefnd hafi heimilað Pósti og síma að koma upp einni skránni enn í sambandi við skráningu símtala og nú sé um ekkert minna að ræða en það að heimild sé veitt og hafi verið veitt af tölvunefnd til þess að Póstur og sími skrái öll símtöl sem fram fara í landinu, bæði viðtöku og hvaðan hringt er, þannig að fyrir liggi á þessari skrá hvernig samtöl fara fram innan símkerfisins. Í grein í Morgunblaðinu í gær er um þetta fjallað af blaðamanni, með leyfi forseta:

,,Þessa dagana er ein ,,skráin`` enn að verða til og það í fórum Pósts og síma. Áformað er að skrá framvegis öll símtöl sem fram fara í landinu, þ.e. hver hringir í hvern, á hvaða tíma sólarhrings og hve lengi símtalið hafi staðið.`` Síðar segir: ,,Allt fram á síðustu ár voru upplýsingar um símtöl sem fram færu alls ekki skráðar.`` Síðan er rakið hvernig nýjar heimildir hafi verið veittar í þessu sambandi og svo segir hér, með leyfi forseta:

,,Tölvunefnd taldi í úrskurði sínum að skráning sú sem farið var fram á væri eðlilegur þáttur í starfsemi Pósts og síma. Heimilaði hún að öll símtöl í almenna símakerfinu og farsímakerfinu væru skráð, jafnt úr hvaða númeri sé hringt, í hvaða númer og hversu lengi símtalið hafi staðið. Hins vegar mælti nefndin fyrir um að ströng leynd yrði að hvíla yfir þessum skráðu upplýsingum og einungis örfáir menn á fjarskiptasviði Pósts og síma, er undirrituðu þagnareið, mættu hafa aðgang að þeim. Ekki mætti prenta upplýsingarnar út nema í undantekningartilvikum.``

Eins og hér kemur fram er verið að vinna að þessari heildarskrásetningu og hér kemur þetta auðvitað inn á fjölmörg álitaefni sem varða lagafyrirmæli í meðferð opinberra mála í fjarskiptalögum og víðar. Ég spyr dómsmrh. hvort hann hafi engar áhyggjur af því sem þarna er að gerast og hvort ekki sé ástæða til þess að mati ráðherra að fara yfir þessi efni, m.a. með tilliti til friðhelgi einkalífs og allra þeirra stóru álitamála sem þessu tengjast.