Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 10:23:02 (7158)

1996-06-04 10:23:02# 120. lþ. 160.95 fundur 354#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[10:23]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það er um allt annað mál en hér hefur verið rætt sem ég vildi beina orðum mínum til forseta. Það varðar eina fyrirspurn sem útbýtt var 6. maí eða fyrir um það bil mánuði til iðnrh. um álbræðslu á Grundartanga, 511. mál þingsins, á þskj. 920. Þetta er fyrirspurn þar sem óskað er skriflegs svars. Hún er ekki mjög flókin en er þó í átta töluliðum. Ég hef haft skilning á því að það gæti tekið tíma að svara fyrirspurninni en skrifstofa þingsins hefur þó ýtt á eftir um svar nú um tveggja vikna skeið má ég segja, en það hefur ekki enn þá borist. Ég bið um liðsinni virðulegs forseta við að tryggt verði að svar berist við þessari fyrirspurn áður en þinghaldi lýkur því að málið er mikilsvert og það er borið eðlilega fram og langur tími um liðinn síðan fyrirspurnin var fram lögð eða nærri því mánuður.