Ferill 85. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 85 . mál.


86. Tillaga til þingsályktunarum að leggja niður kjaradóm og kjaranefnd.

Flm.: Ögmundur Jónasson.    Alþingi ályktar að undirbúið verði frumvarp til laga um að leggja niður kjaradóm og kjaranefnd og kosin sjö manna nefnd til þess að annast þá vinnu. Gert verði ráð fyrir að laun þeirra sem kjaradómur úrskurðar um verði ákveðin af Alþingi að fenginni tillögu launanefndar sem starfi á ábyrgð Alþingis. Laun þeirra sem kjaranefnd úrskurðar um verði ákveðin í kjarasamningum stéttarfélaga. Nefndin taki saman skýrslu um reynsluna af störfum kjaradóms og kjaranefndar með nákvæmu yfirliti yfir kjör allra þeirra sem þar heyra undir með skírskotun til almennrar launaþróunar í landinu. Hún skili tillögum sínum svo snemma að unnt verði að afgreiða nýskipan þessara mála fyrir lok yfirstandandi þings.
    Í kjölfarið taki Alþingi laun og starfskjör embættismanna og alþingismanna til endurskoðunar í samræmi við þá kjarastefnu sem stjórnvöld fylgja gagnvart almenningi.

Greinargerð.


    Eins og nú háttar til úrskurðar kjaradómur um laun ýmissa æðstu embættismanna ríkisins, þar á meðal dómara og ráðherra, svo og alþingismanna. Kjaranefnd ákvarðar laun ýmissa annarra embættismanna sem stéttarfélög semja ekki fyrir.
    Á undanförnum árum hefur oft komið fram hve ófullnægjandi þessi skipan er. Þannig hefur það ítrekað vakið mikla reiði í þjóðfélaginu þegar kjaradómur hefur kveðið upp úrskurði um margfaldar kjarabætur til skjólstæðinga sinna á við þær sem almennt launafólk hefur þurft að sætta sig við. Svo rammt hefur kveðið að þessu að stjórnvöld hafa séð sig knúin til að setja lög á úrskurð kjaradóms. Þetta hefur það í för með sér að lögin ná ekki þeim tilgangi sem þeim var ætlað að þjóna.
    Mörg rök mæla gegn þeirri hugsun sem kjaradómur og kjaranefnd byggist á. Þannig er í hæsta máta óeðlilegt að Hæstiréttur skipi aðila í kjaradóm sem m.a. tekur ákvörðun um eigin launakjör, þ.e. kjör dómara.
    Það hlýtur einnig að vera grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi að tengja pólitískt vald annars vegar og ábyrgð hins vegar. Mikilvægt er að tryggja að sá sem tekur pólitíska ákvörðun þurfi jafnan að standa reikningsskil gerða sinna. Þetta á ekki síst við um ákvarðanir um kjaramál sem eru pólitísk í eðli sínu. Þegar kjaramál eru annars vegar er enginn endanlegur sannleikur til. Þar eru aðeins skoðanir og viðhorf.
    Í þeim undantekningartilvikum þar sem því verður ekki við komið að stéttarfélög semji um kjörin er nauðsynlegt að tryggja að pólitískt ábyrgur aðili standi að baki öllum ákvörðunum; hann standi og falli með gerðum sínum í þessu efni sem öðru.
    Þegar lögin um kjaradóm og kjaranefnd voru endurskoðuð árið 1992 mótmæltu samtök opinberra starfsmanna og bentu á að þau væru fylgjandi því fyrirkomulagi sem væri við lýði annars staðar á Norðurlöndum þar sem launakjör réðust almennt í kjarasamningum en laun ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara með lögum. Hér er lagt til að farið sé eftir þessu áliti. Síðan verði það þingsins að taka kjaramál ráðherra, dómara og æðstu stjórnenda, svo og alþingismanna, til endurskoðunar í samræmi við þá launastefnu sem meiri hluti Alþingis hefur tekið þátt í að knýja fram gagnvart almennu launafólki í landinu. Í þeirri endurskoðun verði einnig tekið á starfskjörum og séð til þess að alþingismenn sæti sömu skattalegri meðferð og aðrir landsmenn.