Ferill 153. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 153 . mál.


183. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
    4.–5. málsl. 2. mgr. orðast svo: Stofnendur skulu vera lögráða, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi. Stofnandi má hvorki hafa farið fram á eða vera í greiðslustöðvun né bú hans vera undir gjaldþrotaskiptum.
    4. mgr. orðast svo:
                  Ríkisborgarar og lögaðilar þeirra ríkja, sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eru undanþegnir búsetuskilyrðum 2. mgr. enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki eða lögaðilarnir með aðsetur þar. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.

2. gr.

    1.–3. málsl. 2. mgr. 43. gr. laganna orðast svo: Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, fjár síns ráðandi, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi. Ríkisborgarar þeirra ríkja, sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eru undanþegnir búsetuskilyrðum enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.

3. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 71. gr. laganna orðast svo: Hann skal vera búsettur hér á landi, vera lögráða, fjár síns ráðandi, hafa óflekkað mannorð og má ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi.

4. gr.

    2. mgr. 81. gr. laganna orðast svo:
    Skilyrði starfsleyfis er búseta hér á landi, að menn séu lögráða, fjár síns ráðandi, hafi óflekkað mannorð og hafi ekki á síðustu þremur árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi. Þá er það skilyrði að menn búi yfir þeirri þekkingu sem nauðsynleg er til starfans, hafi engin fjárhagsleg tengsl af neinu tagi við vátryggingafélög vegna eignaraðildar eða hagsmuna, annarra en tengjast þeim vátryggingasamningum sem komið er á, og teljist að öðru leyti hæfir til þess að reka þessa starfsemi á viðhlítandi hátt. Þeir skulu einnig leggja fram vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu til að bæta tjón sem kann að hljótast af starfa þeirra og þeir eru bótaskyldir fyrir. Ríkisborgarar þeirra ríkja, sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eru undanþegnir búsetuskilyrðum enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið er í viðskiptaráðuneytinu, felur í sér breytingar á ákvæðum laga nr. 60 11. maí 1994 um vátryggingastarfsemi að fenginni reynslu af framkvæmd laganna. Einkum þykja ákvæði um fjárforræði of ströng. Er því lagt til að reglum um fjárforræði stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, aðalumboðsmanna og vátryggingamiðlara sé breytt með hliðsjón af hlutafélagalöggjöf þeirri sem afgreidd var frá Alþingi í árslok 1994. Jafnframt eru gerðar nokkrar breytingar á öðrum hæfisskilyrðum og búsetuskilyrðum til samræmis við hlutafélagalöggjöfina en búsetuskilyrðin snerta m.a. EES-samninginn. Refsidómsákvæði hlutafélagalöggjafarinnar er tekið upp í tengslum við hæfisskilyrði en tilvísun í löggjöf um vátryggingastarfsemi alls staðar bætt við.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    A-liður. Hér er gerð krafa um lögræði stofnanda en ekki tuttugu ára aldur og að hann sé fjár síns ráðandi en ekki er lengur gerð sú krafa að hann hafi aldrei verið sviptur forræði á búi sínu. Þetta er gert til samræmis við breytingu á hlutafélagalöggjöfinni, sbr. einkum 4. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Refsidómsákvæðið er úr hlutafélagalöggjöfinni.
    B-liður. Hér er búsetuskilyrðum breytt til samræmis við 2. mgr. 3. gr. hlutafélagalaganna og það gert að skilyrði að um búsetu eða aðsetur í EES-ríki sé að ræða.

Um 2. gr.


    Hér er gerð krafa um lögræði en ekki 20 ára aldur. Einnig er slakað á kröfum um fjárforræði og ekki gerðar svo strangar kröfur að stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar megi aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Er þetta til samræmis við 2. mgr. 66. gr. hlutafélagalaganna en auk þess er bætt við ákvæði úr þeirri grein sem herðir hæfisskilyrði, m.ö.o. refsidómsákvæði hlutafélagalaganna. Búsetuskilyrðum er hér breytt eins og í 1. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Hér er breytt ákvæði um aðalumboðsmann. Gerð er krafa um lögræði en ekki 20 ára aldur og að hann sé fjár síns ráðandi. Ekki er lengur gerð sú krafa að hann hafi aldrei verið sviptur forræði á búi sínu. Þá er refsidómsákvæði hlutafélagalaganna tekið upp.

Um 4. gr.


    Hér er einnig gerð krafa um lögræði og samsvarandi breyting á fjárforræðisákvæðinu og í 1.–3. gr. frumvarpsins en refsidómsákvæði 66. gr. hlutafélagalaganna er bætt við eins og í 2.–4. gr. Búsetuskilyrðum er breytt á sama hátt og í fyrri greinum frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Grein þessi þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.


    Frumvarpið miðar að því að breyta reglum um fjárforræði stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og vátryggingarmiðlara til samræmis við ákvæði hlutafélagalaga sem samþykkt voru á Alþingi 1994, en ákvæði laga um vátryggingastarfsemi um þetta efni þóttu of ströng. Jafnframt eru gerðar nokkrar breytingar á öðrum hæfisskilyrðum og búsetuskilyrðum til samræmis við hlutafélagalöggjöfina, en búsetuskilyrðin snerta m.a. EES-samninginn. Verði frumvarpið að lögum er ekki að sjá að það valdi ríkissjóði auknum kostnaði.