Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 149 . mál.


230. Svar


sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um togveiðar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er fyrirhuguð einhver endurskoðun lagaákvæða um togveiðisvæði innan efnahagslögsögu Íslands með það fyrir augum að færa togaraflotann utar í lögsöguna og ef svo er hvenær má þá vænta aðgerða í því efni?

    Ákvæði um togveiðiheimildir fiskiskipa eru í lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í þessum lögum er jafnframt að finna ákvæði sem lúta að friðunarsvæðum, skyndilokunum og gerð veiðarfæra.
    Á síðasta ári skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd til þess að endurskoða í heild áðurgreind lög, þar með talin ákvæði um togveiðiheimildir skipa. Sú endurskoðun beinist ekki að því að færa togaraflotann utar í lögsöguna heldur því með hvaða hætti togveiðiheimildum verði skipað með hliðsjón af sem bestri nýtingu fiskstofna. Hjá Hafrannsóknastofnun stendur yfir skoðun á nýtingu togveiðisvæða með tilliti til aflasamsetningar, hrygningarstöðva og fleiri þátta.
    Þegar þessi mál hafa verið rædd hafa oft komið fram hugmyndir um að banna togveiðar innan ákveðinnar fjarlægðar frá landi. Nauðsynlegt er að þeir sem um þessi mál fjalla átti sig á því að ýmsar fisktegundir, t.d. ýsa og koli, veiðast nærri landi og að bann við togveiðum á veiðislóðum þeirra tegunda mundi aðeins leiða til vannýtingar á þeim.
    Eins og áður sagði vinnur nefnd að endurskoðun laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og stefnir hún að því að skila áliti fljótlega. Í framhaldi af því má vænta þess að lagt verði fram frumvarp á Alþingi um skipan þessara mála.