Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 198 . mál.


248. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu samkomulags um breytingu á samstarfssamningi milli Norðurlanda.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samkomulag um breytingu á samstarfssamningi milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar frá 23. mars 1962 sem gert var í Kaupmannahöfn 29. september 1995.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Samstarfssamningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar var gerður í Helsingfors 23. mars 1962, sbr. C-deild nr. 7/1962. Ýmsar breytingar hafa síðan verið gerðar á samningnum. Sú fyrsta var gerð 13. febrúar 1971, sbr. C-deild nr. 16/1971, önnur 11. mars 1974, sbr. C-deild nr. 17/1975, þriðja 15. júní 1983, sbr. C-deild nr. 13/1983, fjórða 6. maí 1985, sbr. C-deild nr. 16/1985 og nr. 4/1986, fimmta 21. ágúst 1991, sbr. C-deild nr. 33/1991, og loks sú sjötta 18. mars 1993, sbr. C-deild nr. 27/1993.
    Eftir að ljóst var að Finnland og Svíþjóð yrðu aðilar að Evrópusambandinu ákváðu forsætisráðherrar Norðurlanda og stjórnarnefnd Norðurlandaráðs á fundi í Tromsö 15. nóvember 1994 að setja á stofn nefnd sem fjalla skyldi um framtíð Norðurlandaráðs. Nefndin skilaði frá sér skýrslunni „Norrænt samstarf á nýjum tímum“. Þing Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars 1995 féllst á þær tillögur sem fram komu í skýrslunni en jafnframt var stjórnarnefnd Norðurlandaráðs falið að gera frekari tillögur að skipulagi og starfsháttum Norðurlandaráðs.
    Vorið 1995 lágu fyrir tillögur stjórnarnefndarinnar. Á grundvelli þeirra lagði norræna ráðherranefndin fram tillögu um breytingar á 2., 48. og 51.–55. gr. samstarfssamningsins á 5. aukaþingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í september 1995 sem síðan voru samþykktar. Samkomulag um þessar breytingar á samstarfssamningnum var síðan undirritað 29. september 1995 en gert er ráð fyrir að það taki gildi í byrjun árs 1995.
    Samkomulagið gerir ráð fyrir að í 1. mgr. 2. gr. samningsins verði tekið almennt ákvæði um að jafnræðis skuli gætt á milli norrænna ríkisborgara við setningu laga og annarra réttarreglna á Norðurlöndum. Frá þessari reglu eru þó undantekningar ef skilyrði um ríkisborgararétt er bundið í stjórnarskrá, er nauðsynlegt vegna annarra þjóðréttarlegra skuldbindinga eða það telst nauðsynlegt af öðrum ástæðum. Samkvæmt núgildandi ákvæðum samningsins skulu Norðurlönd hins vegar stefna að þessu markmiði.
    Forsætisráðherrar Norðurlanda beindu því til samstarfsráðherra á árinu 1993 að kannaðir yrðu möguleikar og gagnsemi þess að fella inn í samstarfssamninginn ákvæði um jafnræðisreglu. Nefndir sérfræðinga hafa efnislega fjallað um málið og niðurstaðan orðið sú sem fram kemur í breytingu á 2. gr. samstarfssamningsins. Hér er um að ræða mikilvæga þjóðréttarlega skuldbindingu sem höfð verður að leiðarljósi við lagasetningu og lagaframkvæmd á Norðurlöndum.
    Í 48. gr. eru ákvæði um hvernig danska deildin í þinginu skuli skipuð.
    Á 51. gr. er gerð sú breyting að reglulegt þing Norðurlandaráðs skuli haldið einu sinni ári en ekki tvisvar eins og nú er. Á móti kemur að heimilt er að kalla saman aukaþing eða þing um sérstakt málefni þegar uppfyllt eru þau skilyrði sem greinin setur.
    Ýmsar breytingar eru gerðar á 52. gr. Í 1. mgr. er „ár“ fellt brott úr textanum en í staðinn kemur: almanaksár. Breytingar verða einnig á 1. mgr. í samræmi við breytingar á ákvæðum 51. gr. um eitt reglulegt þing Norðurlandaráðs á ári. Loks eru ákvæðin um fjölda fulltrúa felld brott en hann skal hér eftir vera ákvarðaður í þingsköpum Norðurlandaráðs. Hvað 2. mgr. varðar er nú afdráttarlaust tekið fram að fulltrúar sérhvers flokkahóps skuli eiga fulltrúa í stjórnarnefndinni og jafnframt skal sérhvert land eiga fulltrúa í nefndinni. Þá er skýrt tekið fram að embætti forseta ráðsins færist milli landa samkvæmt þingsköpum Norðurlandaráðs.
    Á 53. gr. eru gerðar þær breytingar að 2. og 3. mgr. eru felldar brott en 54. gr. er einfölduð til samræmis við 61. gr. sem tekur til skrifstofu ráðherranefndarinnar. Breytingin á 55. gr. er sú að numið er brott ákvæði um að sérhver tillaga skuli tekin til umfjöllunar í nefnd eða stjórnarnefnd áður en hún er tekin til umfjöllunar í ráðinu.
    Samkomulagið fylgir hjálagt á íslensku, dönsku, finnsku, norsku og sænsku.



Fylgiskjal.


(11 síður myndaðar)