Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 138 . mál.


261. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um rekstur neyðarsímsvörunar.

    Við hverja hefur verið samið um rekstur neyðarsímsvörunar í landinu og hver er þáttur hvers aðila fyrir sig í því sambandi?
    Með verksamningi dags. 2. október sl. gekk dómsmálaráðuneytið til samninga við Neyðarlínuna hf. um rekstur neyðarvaktstöðvar til að annast samræmda neyðarsímsvörun. Hluthafar í Neyðarlínunni hf. eru Póstur og sími, Reykjavíkurborg vegna Slökkviliðs Reykjavíkur, Securitas hf., Sívaki hf., Slysavarnafélag Íslands og Vari hf. og eiga þessir aðilar jafnan hlut í félaginu. Samkvæmt verksamningnum geta fleiri aðilar tekið þátt í rekstri neyðarvaktstöðvarinnar og/eða nýtt sér þjónustu hennar.

    Hverjar voru forsendur hins faglega mats sem sagt var í frumvarpi til laga um neyðarsímsvörun að lagt yrði til grundvallar við val rekstraraðila og hvernig fór það fram?
    Val á rekstraraðilum fór fram á grundvelli samstarfsútboðs Ríkiskaupa nr. 10299. Undirbúningur útboðsins og val á samstarfsaðilum fór fram af hálfu Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar hf. og fólst meðal annars í ítarlegum verkskilmálum. Alls bárust gögn frá sex þátttakendum. Verkfræðistofan skilaði ítarlegri umfjöllun um þá og á grundvelli hennar gekk dómsmálaráðuneytið til viðræðna við einn þeirra, sem raunar var hópur fjögurra aðila, Securitas hf., Slysavarnafélags Íslands, Slökkviliðs Reykjavíkur og Vara hf. Fleiri aðilar lýstu fljótlega yfir áhuga á að ganga til samstarfs við þennan hóp og samþykkti dómsmálaráðuneytið að tveir þeirra, Póstur og sími og Sívaki hf., bættust í hópinn. Þá var Öryggisþjónustunni hf. einnig boðin þátttaka. Samningaumleitanir leiddu síðan til þess að fyrrnefndur verksamningur var gerður 2. október sl.

    Verður tryggt, hér eftir sem hingað til, að lögregla og slökkvilið annist fyrstu móttöku tilkynninga um ófarir, afbrot eða önnur neyðartilvik í landinu og hvaða áhrif kemur þessi nýja þjónusta til með að hafa á þjónustu þessara aðila?
    Á neyðarvaktstöð munu svara í síma allan sólarhringinn þrautþjálfaðir starfsmenn með sérþjálfun í að svara símtölum frá fólki í neyð, spyrja réttu spurninganna, m.a. um hvar neyðin er og í hverju hún felst. Í mörgum tilvikum þarf fólk á margs konar aðstoð að halda, jafnvel frá lögreglu, slökkviliði og sjúkrabíl. Starfsmenn neyðarvaktstöðvarinnar munu beina þessum símtölum jafnharðan til réttra aðila sem maður í neyð talar síðan milliliðalaust við en starfsmaður neyðarvaktstöðvar hlustar á. Símtölin verða tekin upp og varðveitt en fyllsta trúnaðar gætt í meðferð persónuupplýsinga.
    Rekstur neyðarvaktstöðvar mun engin bein áhrif hafa á þjónustu lögreglu, slökkviliðs eða annarra viðbragðsaðila.
    Hver verður kostnaður af þessari þjónustu?
    Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að heildarframlag ríkis og sveitarfélaga til uppbyggingar og reksturs neyðarvaktstöðvarinnar verði 296.470.160 kr. á átta ára samningstímabili og skiptist þannig á milli ára:

         1. ár               44.642.270 kr.
         2. ár               37.980.270 kr.
         3. ár               36.991.270 kr.
         4. ár               36.451.270 kr.
         5. ár               35.911.270 kr.
         6. ár               35.371.270 kr.
         7. ár               34.831.270 kr.
         8. ár               34.291.270 kr.

    Meðaltalsframlög þessara aðila verða þannig 37.058.700 kr. á ári og skiptast jafnt milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga um samræmda neyðarsímsvörun, nr. 25/1995.
    Til viðbótar þessu kemur árleg greiðsla frá hluthöfum í Neyðarlínunni hf., þar á meðal 5.000.000 kr. framlag Reykjavíkurborgar vegna Slökkviliðs Reykjavíkur, svo og hugsanleg gjöld vegna viðbótarþjónustu, svo sem þjónustu í útkalli.