Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 240 . mál.


322. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Í lok 8. málsl. 8. mgr. 6. gr. laganna falla brott orðin „enda verði bátum ekki haldið til veiða á því veiðitímabili sem sóknardagar eru fluttir frá“.
    

2. gr.

    Í stað orðanna „þess veiðitímabils sem sóknardagar eru fluttir frá“ í 11. málsl. 8. mgr. 6. gr. laganna kemur: þriðja veiðitímabils
    

3. gr.

    Í stað orðanna „fiskveiðiársins 1996/1997“ í 12. málsl. 8. mgr. 6. gr. laganna kemur: fiskveiðiársins 1995/1996.
    

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Eins og kunnugt er blasir við mikill vandi hjá bátum undir 6 brl. sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum, þ.e. svokölluðum krókabátum.
    Heimildir krókabáta til veiða hafi verið auknar á undanförnum árum með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða, t.d. með hækkun á heildarviðmiðun krókabáta í 21.500 lestir af þorski með lögum 87/1994 og frjálsum veiðum á öðrum tegundum en þorski með lögum 83/1995. Þrátt fyrir þessa aukningu er ljóst að þær veiðiheimildir, sem mögulega geta verið til ráðstöfunar fyrir þennan útgerðarhóp, duga ekki til að allir, sem hafa krókaleyfi, geti haft af þeim lífsviðurværi.
    Breytingum á lögum um stjórn fiskveiða, frá s.l. sumri, var sérstaklega stefnt gegn þessum vanda með því að gefa mönnum kost á að velja ákveðið hlutfall af eigin aflareynslu sem aflahámark í stað frekari takmarkana á veiðidögum. Allt að einu sýnist nauðsynlegt að gera frekari breytingar á reglum um veiðar þessara báta.
    Ráðuneytið hefur undanfarnar vikur átt viðræður við Landssamband smábátaeigenda, í kjölfar aðalfundar sambandsins, um það hvaða mögulegar breytingar séu helst til þess fallnar að skapa lífvænlegt starfsumhverfi fyrir þá sem hafa haft atvinnu af krókaveiðum og jafnframt að gefa öðrum kost á að draga sig út úr þessum veiðum á viðunandi kjörum.
    Þær viðræður hafa spannað flesta þá meginþætti sem mynda starfsumhverfi krókaveiðanna. Viðræðunum hefur miðað vel áfram og er nú stefnt að því að upp úr miðjum janúar nk. geti legið fyrir heildstæðar tillögur um breytingar á reglum um krókaveiðar sem geti tekið gildi fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs.
    Heildartillögur um efnislegar breytingar á þeim ákvæðum laga um stjórn fiskveiða, sem lúta að veiðum krókabáta, liggja ekki fyrir nú. Var samstaða um það milli ráðuneytis og Landssambands smábátaeigenda að nauðsynlegt væri að leiðrétta ákveðin mistök sem urðu við breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sl. sumar og því er það frumvarp flutt sem hér liggur fyrir. Enn fremur var einhugur um að rétt væri að flytja strax frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og leggja til tímabundna hækkun úreldingar fyrir krókabáta til að freista þess að ná fram fækkun í útgerðarhópnum. Er slíkt frumvarp flutt samhliða þessu. Mistökin komu fram í 8. mgr. 6. gr. og valda því að flutningur róðrardaga frá tímabilinu 1. febrúar til 30. apríl og yfir á sumartímabilin, mundi einungis vera heimill frá og með 1. febrúar 1997, en ekki þegar á næsta ári. Hér er um mistök að ræða og því er hér flutt tillaga til úrbóta. Í tengslum við þessa leiðréttingu þykir rétt að leggja einnig til að dagar, sem ganga af á fyrsta og öðru tímabili, geti færst á milli tímabila með sama hætti og þegar veiði hefur ekki hafist á því tímabili sem daga á að flytja frá.
    Ekki þykir þörf á að skýra sérstaklega einstakar greinar frumvarpsins.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga,
um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru gerðar nokkrar tæknilegar leiðréttingar á lögum um stjórn fiskveiða í samræmi við samkomulag sjávarútvegsráðuneytisins og Landssambands smábátaeigenda.
    Samþykkt frumvarpsins mun ekki leiða til kostnaðar fyrir ríkissjóð.