Ferill 254. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 254 . mál.


425. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi er háð eftirfarandi takmörkunum:
    Eftirtaldir aðilar mega einir stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands samkvæmt lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands eða eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi:
         
    
    Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
         
    
    Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða íslenskra lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                  i.    Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
                  ii.    Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila, sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eða vinnslu sjávarafurða hér á landi, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
                  iii.    Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
                  Með vinnslu sjávarafurða í 1. mgr. þessa töluliðar er átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
    Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru EES- ríki. Heimilt skal að kveða svo á í fjárfestingarsamningum milli Íslands og ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að einstaklingar sem þar eru búsettir eða lögaðilar sem þar eru heimilisfastir hafi einnig sama rétt, enda verði slíkir samningar lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar með þingsályktun.
                  Erlendum aðila, sem öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er heimilt að nýta jarðhita til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni innan þeirra takmarkana sem fram koma í orkulögum.
    Samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundar flugrekstur hér á landi má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%. Einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilar sem þar eru heimilisfastir eru þó undanþegnir ákvæðum þessa töluliðar.
    Fjárfesting erlends ríkis, sveitarfélags eða annars erlends stjórnvalds í atvinnurekstri hér á landi er óheimil nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra.
    Erlendum aðila er heimilt að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
    Með íslenskum aðila er í þessari grein átt við ríkissjóð og sveitarfélög, svo og stofnanir, fyrirtæki og sjóði hér á landi í fullri eigu þeirra, íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu opinberra aðila hér á landi, íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða annarra lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi. Með íslenskum lögaðila er í þessari grein átt við lögaðila með heimili hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi eða eignarhaldi er háttað. Lögaðili telst eiga heimili hér á landi ef hann er skráður hér á landi, ef hann telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi. Með íslenskum lögaðila undir yfirráðum íslenskra aðila er í þessari grein átt við íslenskan lögaðila þar sem íslenskir aðilar eiga meiri hluta hans, svo sem meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, og hafa meiri hluta atkvæðisréttar og hafa raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi lögaðila.

2. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna koma tvær nýjar greinar og breytist greinatala samkvæmt því. Hinar nýju greinar orðast svo:

    a. (5. gr.)
    Telji stjórnendur fyrirtækis sem starfar hér á landi og rétt hefur til að stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands, stjórnendur fiskvinnslufyrirtækis eða stjórnendur íslensks lögaðila sem á með beinum eða óbeinum hætti hlut í slíku fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki að farið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. um hámark erlendrar fjárfestingar og innlend yfirráð í íslenskum lögaðila sem með beinum eða óbeinum hætti á hlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki skal viðkomandi þá þegar senda viðskiptaráðuneytinu tilkynningu þar að lútandi. Ráðuneytið skal þá afla upplýsinga frá hlutaðeigandi lögaðila um það hverjir eigendur hans eru, atkvæðamagn hvers þeirra, stjórnarmenn og önnur atriði sem máli þykja skipta varðandi raunveruleg yfirráð hans. Ráðherra getur að eigin frumkvæði óskað eftir slíkum upplýsingum ef grunsemdir eru um brot gegn ákvæði þessu. Ráðuneytinu skal senda þær upplýsingar sem það óskar eftir innan fjögurra vikna frá því að beiðni þess berst. Að þeim tíma liðnum skal ráðuneytið senda þau gögn, sem það hefur um hlutaðeigandi lögaðila, nefnd um erlenda fjárfestingu, sbr. 12. gr., sem metur hvort gengið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Nefndin getur að eigin frumkvæði aflað frekari gagna til skýringar máli. Álit nefndarinnar skal sent viðskiptaráðherra innan fjögurra vikna frá því málefni barst nefndinni.
    Telji nefnd um erlenda fjárfestingu að fjárfesting eða yfirráð séu með þeim hætti að gengið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. skal viðskiptaráðherra með úrskurði skylda hlutaðeigandi lögaðila til að selja þann eignarhlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki eða, ef um það er að ræða, þá hlutdeild í lögaðila sem á hlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki sem ekki er samræmanlegur ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Söluskylda samkvæmt þessari málsgrein takmarkast við þann eignarhlut eða hluta eignarhlutar sem varð til þess að erlend fjárfesting fór fram úr þeim mörkum sem greinir í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Við úrlausn þess skal miðað við það hvenær tilkynning um eigandaskipti barst viðkomandi lögaðila. Ef ekki er orðið við slíkri skyldu innan fjögurra vikna skal með eignarhlutinn fara skv. 4. og 5. mgr.
    Ef erlendur aðili eignast hlut í fiskveiðifyrirtæki, fiskvinnslufyrirtæki eða fiskiskipi með samningum til lúkningar veðskuldar sem veðhafi við útgáfu uppboðsafsals, með erfðum eða á annan hátt, skal hann selja hlutinn svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að hluturinn komst í eigu hans. Ef ekki hefur orðið af slíkri sölu innan tólf mánaða skal fara með eignarhlutinn skv. 4. og 5. mgr.
    Eigi sala á eignarhlut, sem skylt er að selja skv. 2. mgr., sér ekki stað innan fjögurra vikna eða skv. 3. mgr. innan tólf mánaða skal afhenda viðskiptaráðherra hlutabréfin eða skilríki fyrir eignarhlutnum ásamt undirrituðu söluumboði. Hann skal þá fela óháðu, íslensku verðbréfafyrirtæki, sem heimilt væri skv. b-lið 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. að eiga slíkan hlut, að selja þann eignarhlut sem um ræðir til aðila sem uppfyllir skilyrði laganna. Skal verðbréfafyrirtækið eftir það annast söluna og fara með eignarhlutinn þar til sala hefur tekist. Skal verðbréfafyrirtækið gæta fjárhagslegra hagsmuna eiganda við þá sölumeðferð, þar með talið við ákvörðun um tímasetningu á sölu. Nú selur verðbréfafyrirtækið eignarhlutinn og er eigandi hans þá bundinn við söluna. Þóknun fyrir umsýslu og sölu eignarhlutarins skal greiða af söluandvirði eða arði samkvæmt almennum venjum á verðbréfamarkaði.
    Skili eigandi eða umráðaaðili eignarhlutar ekki hlutabréfum eða skilríki fyrir eignarhlut, sbr. 4. mgr., falla öll réttindi samkvæmt eignarhlutnum niður, þar með talin atkvæðisréttur, áskriftarréttur að nýjum hlutum og réttur til greiðslu arðs, þar til skil hafa verið gerð.
    Hafi sala skv. 3. mgr. eigi tekist innan sex mánaða frá því verðbréfafyrirtækið tók eignarhlutinn til umsýslu og sölumeðferðar er ráðherra heimilt að fenginni ósk verðbréfafyrirtækisins eða eiganda hans að veita viðbótarfrest í sex mánuði ef líkur eru taldar á frjálsri sölu innan þess frests. Að öðrum kosti er ráðherra rétt að krefjast nauðungarsölu á eignarhlutnum án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar.
    Ákvæði 1.–6. mgr. eiga með samsvarandi hætti við þegar gengið er gegn ákvæðum 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr.

    b. (6. gr.)
    Nú vill erlendur aðili reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni og skal þá svo með fara:
    Sé um að ræða einstakling sem búsettur er erlendis skal honum óheimilt að vinna sjálfstætt eða starfrækja eigið atvinnufyrirtæki eða taka þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð hér á landi nema með leyfi viðskiptaráðherra, enda sé lögheimili hér á landi ekki óundanþægt skilyrði samkvæmt lögum um viðkomandi atvinnugrein eða veiting undanþágu frá lögheimilisskilyrði falin öðrum. Ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir ákvæðum þessa liðar.
    Um rétt hlutafélags eða einkahlutafélags, sem á heimili erlendis, til að starfa hér á landi fer samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög.
    Viðskiptaráðherra getur veitt öðrum lögaðilum, sem heimili eiga erlendis, leyfi til að starfa hér á landi, enda sé þá að því er varðar slíka lögaðila og starfsemi þeirra hér á landi fullnægt sömu skilyrðum og fylgt sömu meginreglum og að því er varðar erlend hlutafélög, sbr. 2. tölul. þessarar greinar. Útibú slíks lögaðila skal skráð í firmaskrá á heimilisvarnarþingi útibúsins. Lögaðilar með heimili í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins þurfa ekki leyfi viðskiptaráðherra til starfsemi hér á landi.

3. gr.


    5. gr. laganna, er verður 7. gr., orðast svo:
    Tilkynna ber viðskiptaráðherra alla erlenda fjárfestingu jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur bæði til fjárfestingar erlends aðila í atvinnufyrirtæki sem hann hefur ekki átt í áður og viðbótarfjárfestingar í slíku fyrirtæki. Tilkynningu skulu fylgja afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og nauðsynleg teljast að mati ráðherra. Sé um að ræða erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnufyrirtæki hvílir tilkynningarskyldan á viðkomandi atvinnufyrirtæki, en sé um að ræða fyrirhugaða atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni erlends aðila hvílir tilkynningarskyldan á honum.
    Viðskiptaráðherra hefur rétt til upplýsingaöflunar og athugana vegna fjárfestingar erlendra aðila. Heimilt er viðskiptaráðherra að fela ríkisstofnun að annast slíka upplýsingaöflun og athuganir.

4. gr.


    1. málsl. 6. gr. laganna, er verður 8. gr., orðast svo: Erlendum aðila, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, skal frjálst að flytja í því skyni til landsins erlendan gjaldmiðil, enda sé slíkur fjármagnsflutningur tilkynntur samkvæmt lögum og reglum um gjaldeyrisviðskipti.

5. gr.


    2. málsl. 8. gr. laganna, er verður 10. gr., orðast svo: Búsetuskilyrði gildir þó ekki um ríkisborgara þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki.

6. gr.


    10. gr. laganna, er verður 12. gr., orðast svo:
    Sérstök fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, skal fylgjast með að ákvæðum 4. gr. um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sé framfylgt, sbr. ákvæði 5. gr. Jafnframt skal hún vera ráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar skv. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. Nefndin skal skipuð fimm mönnum, kosnum hlutfallskosningu á Alþingi að afstöðnum almennum þingkosningum. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Viðskiptaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Formaður nefndarinnar boðar hana til funda. Viðskiptaráðherra ákveður þóknun nefndarinnar.
    Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvað slíka fjárfestingu enda kunngjöri hann ákvörðun sína innan átta vikna frá því að honum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 7. gr. Áður en slík ákvörðun er tekin skal ráðherra leita álits nefndar um erlenda fjárfestingu. Þegar um er að ræða fjárfestingu aðila frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal gætt ákvæða 112. og 113. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.
    Viðskiptaráðherra skal á fyrri hluta hvers árs flytja Alþingi skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda til að auka fjárfestingu erlendra aðila hér á landi, um fjárfestingu erlendra aðila og heildarfjárfestingu eftir atvinnugreinum og um beitingu öryggisákvæðis skv. 2. mgr. og úrræða stjórnvalda skv. 5. gr.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta þjónar tvíþættum tilgangi, í fyrsta lagi að laga reglur um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi að ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og í öðru lagi að heimila óbeina fjárfestingu erlendra aðila í fiskveiðum og fiskvinnslu. Samhliða þessu frumvarpi leggur sjávarútvegsráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Er þar kveðið á um sömu rýmkun á heimildum erlendra aðila til að fjárfesta með óbeinum hætti í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og í þessu frumvarpi. Er þetta gert til að tryggja áfram samræmi milli þessara tvennra laga.
    Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins skal aðilum í einu ríki innan EES vera heimilt án takmarkana að fjárfesta í atvinnurekstri í öðru ríki á svæðinu. Í XII. viðauka með samningnum er Íslandi veitt heimild til að viðhalda ótímabundið gildandi banni við fjárfestingu erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Jafnframt er stjórnvöldum samkvæmt samningnum heimilt að krefjast þess að fyrirtæki, sem hafa að hluta til eða að öllu leyti verið keypt af erlendum aðilum eða ríkisborgurum sem ekki eru með lögheimili á Íslandi, losi sig við fjárfestingu í starfsemi á sviði fiskvinnslu eða í fiskiskipum. Þá er Íslandi veittur frestur til 1. janúar 1996 til að laga gildandi reglur um fjárfestingu erlendra aðila í öðrum atvinnugreinum, þar á meðal á orkusviðinu, að ákvæðum samningsins.
    Í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, er fortakslaust bann við fjárfestingu erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða og gildir þá einu hvort um er að ræða kaup á hlut í fyrirtæki í þessum greinum eða óbeina fjárfestingu sem felst í því að erlendur aðili eignast hlut í félagi sem á hlut í fyrirtæki í þessum greinum. Ýmis dæmi eru um óbeina fjárfestingu af þessu tagi í fiskveiðum og fiskvinnslu en ekki hefur verið amast við henni. Eftir því sem íslenskur fjármagnsmarkaður þróast og verður opnari fyrir erlendri fjárfestingu má búast við að slíkum tilvikum fjölgi. Fortakslaust bann við óbeinni fjárfestingu í fiskveiðum og fiskvinnslu mundi, ef því væri framfylgt, leiða til þess að fyrirtæki í fiskveiðum og fiskvinnslu mundu eiga erfiðara með að afla sér eigin fjár en önnur fyrirtæki í landinu. Er vandséð að slíkt sé skynsamlegt og því er í frumvarpinu lagt til að óbein fjárfesting erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða verði heimiluð innan ákveðinna marka.
    Í frumvarpinu er lagt til að breytingar verði gerðar á gildandi ákvæðum um eignarhald og fjárfestingu erlendra aðila á orkusviðinu og í flugrekstri. Er þar fyrst og fremst verið að hrinda í framkvæmd ákvæðum EES-samningsins um rétt aðila á EES-svæðinu til að fjárfesta í þessum greinum hér á landi. Hins vegar er áfram gert ráð fyrir takmörkunum á fjárfestingum aðila utan EES-svæðisins. Þó er gert ráð fyrir að heimilt sé í fjárfestingarsamningum milli Íslands og ríkja utan EES-svæðisins að veita þarlendum aðilum sama rétt til fjárfestinga á orkusviðinu og innlendir aðilar og EES-aðilar hafa, enda verði slíkir samningar lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar með þingsályktun. Jafnframt er lagt til að tekin verði af öll tvímæli varðandi heimildir erlendra aðila til að nýta jarðhita beint í atvinnurekstri, svo sem í iðnaði og fiskeldi. Í því sambandi skal bent á að dæmi eru um að fiskeldisfyrirtæki með erlendri eignaraðild hér á landi hafi nýtt sér jarðhita.
    Fullt samráð hefur verið haft við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi, fiskvinnslu og flugrekstri hér á landi um þær breytingar á reglum um fjárfestingar erlendra aðila sem fram koma í fumvarpinu.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri var lagt fram á Alþingi á 117. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Hins vegar beitti efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sér fyrir því að gerðar voru ákveðnar breytingar á lögunum fyrir gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994. Þær breytingar miðuðu einkum að því að undanþiggja ríkisborgara frá EES-svæðinu skilyrði laganna um að leyfi viðskiptaráðherra þurfi til að erlendur einstaklingur geti rekið atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni og því skilyrði að framkvæmdastjóri og meiri hluti stjórnarmanna í íslenskum atvinnufyrirtækjum skuli búsettir hér á landi. Einnig var fellt niður gagnkvæmnisskilyrði 3. gr. laganna. Þessar breytingar er að finna í lögum nr. 121/1993.
    Frumvarpið var lagt fram á ný seint á 118. löggjafarþingi í nokkuð breyttri mynd. Það komst ekki á dagskrá. Í júní 1995 skipaði viðskiptaráðherra nefnd til að yfirfara ákvæði frumvarpsins. Annars vegar var nefndinni ætlað að kanna hvort ákvæði frumvarpsins fullnægðu alþjóðlegum samningsskuldbindingum Íslands og hvort ástæða væri til að ganga lengra en þær kveða á um. Hins vegar var henni ætlað að kanna hvort breyta ætti ákvæðum laga þannig að þau verði frekar til þess fallin að örva erlenda fjárfestingu. Í nefndinni sitja Arnór Halldórsson deildarstjóri, Baldur Guðlaugsson hrl., Finnur Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri, Halldór J. Kristjánsson skrifstofustjóri og Jón Sveinsson hdl. sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Nefndin hefur lokið fyrra verkefninu. Frumvarp það, sem nú er lagt fram, er árangur þess starfs. Nefndin hefur hins vegar enn til athugunar hvort ástæða sé til þess síðar að taka í lög ákvæði er miði að því að laða erlenda fjárfesta til landsins.
    Helstu breytingar í frumvarpinu frá gildandi lögum eru:
    Heimiluð er óbein fjárfesting erlendra aðila í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar og fiskvinnslu. Ákveðnar skorður eru þó settar við slíkri fjárfestingu. Jafnframt er lagt til að ákvæði laganna um fiskveiðar annars vegar og fiskvinnslu hins vegar verði sameinuð í eitt ákvæði.
    Felldar eru brott skorður við möguleikum aðila á EES-svæðinu til að eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita hér á landi eða stunda orkuvinnslu eða orkudreifingu. Lagt er til að þetta svið verði áfram lokað fyrir öðrum erlendum aðilum. Þó er heimilt við gerð fjárfestingarsamninga við ríki utan EES að opna þetta svið fyrir þarlendum aðilum, enda komi slíkir samningar til umfjöllunar á Alþingi hverju sinni.
    Tekin eru af tvímæli um að erlendum aðila, sem öðlast eignar- og afnotarétt yfir fasteign samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sé heimilt að nýta jarðhita til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni.
    Felldar eru brott skorður við fjárfestingu aðila á EES-svæðinu í félagi sem stundar flugrekstur hér á landi. Lagt er til að hámark laganna um 49% eignarhlut erlendra aðila gildi áfram gagnvart aðilum utan EES-svæðisins.
    Fellt er niður 25% hámark á eignarhluta erlendra aðila í íslenskum hlutafélagsbanka. Einnig er lagt til að fellt verði brott ákvæði laganna sem heimilar erlendum hlutafélagsbönkum að opna útibú hér á landi frá og með 1. janúar 1992. Ákvæði um útibú erlendra lánastofnana er nú að finna í lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, og lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og reglugerðum um þetta efni sem gefnar hafa verið út á grundvelli ákvæða í þessum lögum (nr. 307/1994 og 308/1994).
    Fellt er brott skilyrði um leyfisveitingu viðskiptaráðherra fari erlend fjárfesting fram úr 250 millj. kr. fjárhæðarmarkinu eða sé umfram 25% af heildarfjárfestingu í tilgreindum atvinnugreinum. Í ljósi reynslunnar verður ekki séð að ástæða sé til að lögbinda ákvæði af þessu tagi. Fjárfesting erlendra aðila hér á landi hefur yfirleitt verið langt undir þessum mörkum. Þá gegna almennt öryggisákvæði og ákvæði samkeppnislaga svipuðu hlutverki og ákvæði af þessu tagi er ætlað að gegna.
    Gerð er tillaga um ítarleg úrræði stjórnvalda ef fjárfesting erlends aðila gengur gegn ákvæðum laganna.
    Orðalagi öryggisákvæðis er breytt til samræmis við hliðstæð ákvæði í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og samþykkt OECD um afnám hafta á fjármagnsflutningum. Jafnframt er frumkvæði að beitingu þess fært frá nefnd um erlenda fjárfestingu til viðskiptaráðherra, þó þannig að ráðherra verður að leita álits nefndarinnar.
    Lagt er til að viðskiptaráðuneytinu verði sendar tilkynningar um erlenda fjárfestingu í stað Seðlabanka Íslands. Þykir þetta eðlilegt vegna eftirlitshlutverks ráðuneytisins og nefndar um erlenda fjárfestingu. Jafnframt er lagt til að viðskiptaráðherra verði falið að flytja Alþingi skýrslu um erlenda fjárfestingu næstliðins árs í stað þess að Seðlabankinn birti þessar upplýsingar opinberlega. Þykir þetta eðlilegt í ljósi þess að hér er í senn um að ræða viðkvæman og mikilvægan málaflokk.
    Í fylgiskjali með frumvarpinu hafa verið felld saman texti laga nr. 34/1991, laga nr. 121/1993 og ákvæði frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 4. gr. laganna koma fram takmarkanir sem gilda um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Þær eru nú þessar: Bann við fjárfestingu í félögum sem stunda fiskveiðar, frumvinnslu sjávarafurða eða orkuvinnslu og orkudreifingu, 49% hámark á eignarhlut erlendra aðila í félagi sem stundar flugrekstur, 25% hámark á eignarhlut erlendra aðila í hlutafélagsbanka, bann við fjárfestingu erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis, 250 millj. kr. hámark á árlegri fjárfestingu eins erlends aðila eða fjárhagslega tengdra erlendra aðila og 25% hámark á heildarfjárfestingu erlendra aðila af áætlaðri fjárfestingu í tilteknum atvinnugreinum.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er lagt til að áfram gildi fortakslaust bann við beinni fjárfestingu erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Hins vegar er lagt til að heimiluð verði óbein fjárfesting í þessum greinum innan ákveðinna marka. Samkvæmt ákvæðinu mega þeir stunda fiskveiðar og frumvinnslu sjávarafurða skv. a-lið sem uppfylla það skilyrði að vera íslenskir ríkisborgarar eða aðrir íslenskir aðilar. Hugtakið íslenskur aðili er skilgreint í 2. mgr. þessarar greinar sem íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili á hér á landi, opinberir aðilar og lögaðilar sem eru að fullu leyti í eigu þessara aðila. Hér er því um aðila að ræða þar sem engin erlend eignaraðild er heimil. Auk þess mega stunda fiskveiðar og frumvinnslu sjávarafurða skv. b-lið lögaðilar sem eru að öllu leyti í eigu íslenskra aðila eða íslenskra lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    Eru undir yfirráðum íslenskra aðila. Í þessu felst að lögaðilinn verður að eiga heimili hér á landi og að íslenskur aðili eða aðilar verða að eiga meiri hluta í félaginu eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar eða hafa með öðrum hætti raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi félagi. Í því felst að ákvarðanir um stefnu fyrirtækisins og aðrar ákvarðanir, er lúta að daglegri starfsemi þess, eru teknar af íslenskum aðilum en ekki erlendum.
    Erlendir aðilar mega ekki eiga með beinum hætti meira en 25% hlutafjár eða stofnfjár. Þó er heimilt að þessi hlutur fari upp í 33% af hlutafé eða stofnfé, enda eigi lögaðilinn sem um ræðir ekki meira en 5% af hlutafé eða stofnfé í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki.
    Íslenskir lögaðilar, sem eiga hlut í lögaðilanum, verða að vera undir íslenskum yfirráðum, þ.e. þeir verða að eiga heimili hér á landi og íslenskur aðili eða aðilar verða að eiga meiri hluta í lögaðilanum eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar eða hafa með öðrum hætti raunveruleg yfirráð yfir félaginu.
    Þessi skilyrði verða best skýrð með dæmi. Sjávarútvegsfyrirtækið A er í eigu tveggja lögaðila, B og C. Bæði B og C verða að uppfylla það skilyrði að vera íslenskir lögaðilar undir íslenskum yfirráðum. Hins vegar mega erlendir aðilar eiga með beinum hætti allt að 25% af hlutafé eða stofnfé í B og C. Ef hvorki B né C eiga meira en 5% af hlutafé eða stofnfé í A getur þetta hlutfall þó farið upp í 33% af hlutafé eða stofnfé. B og C geta verið hvers konar lögaðilar, t.d. hlutabréfasjóðir. Íslenskir lögaðilar, t.d. D, E, F og G, sem eiga hlutafé eða stofnfé í B og C, verða að uppfylla það skilyrði að vera undir íslenskum yfirráðum. Í skilgreiningunni á íslenskum lögaðila undir íslenskum yfirráðum felst að erlendir aðilar mega ekki eiga meira en 49% hlutafjár eða stofnfjár í D, E, F og G. Þessir lögaðilar verða þó jafnframt að uppfylla það skilyrði að íslenskir aðilar fari þar með meiri hluta atkvæðisréttar og hafi þar raunveruleg yfirráð.
    Ekki er lagt til að breytt verði ákvæðum laganna um það hvaða greinar fiskvinnslu eru háðar takmörkunum á fjárfestingu erlendra aðila. Um er að ræða frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Í ársbyrjun 1996 tekur gildi ný atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands sem byggð er á samræmdri flokkun fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Með hliðsjón af ákvæðum gildandi laga og samhljóða ákvæðum frumvarpsins verða í gildi takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í eftirtöldum atvinnugreinaflokkum innan sjávarútvegs:
    Öllum greinum fiskveiða innan flokks atvinnugreinaflokks 05.01:
              05.01.1     Togaraútgerð.
              05.01.2     Útgerð vinnsluskipa.
              05.01.3     Útgerð annarra fiskiskipa yfir 10 brl.
              05.01.4     Smábátaútgerð.
              05.01.5     Útgerð hvalveiðiskipa.
    Öllum greinum fiskvinnslu innan atvinnugreinaflokks 15.20:
              15.20.1     Frystingu.
              15.20.2     Saltfiskverkun.
              15.20.3     Síldarsöltun.
              15.20.4     Herslu.
              15.20.5     Harðfiskverkun.
              15.20.6     Vinnslu á ferskum fiski.
              15.20.7     Mjöl- og lýsisvinnslu.
              15.20.8     Niðursuðu og niðurlagningu sjávarafurða.
              15.20.9     Annarri ótalinni fiskvinnslu.
    Hvalvinnslu í atvinnugreinaflokki 15.22.
Þó er umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu ekki talin til fiskvinnslu. Ákvæði gildandi laga hafa verið túlkuð þannig að erlendum aðilum sé óheimilt að fjárfesta í hvers konar vinnslu á fersku sjávarfangi, þ.e. í frumvinnslu sjávarafurða, en að fjárfestingin sé þeim heimil þegar um er að ræða vinnslu á hráefni sem þegar hefur verið meðhöndlað í því skyni að verja það skemmdum. Þetta gildir áfram þar sem ákvæði frumvarpsins um skilin milli fiskvinnslu sem erlendir aðilar geta fjárfest í og hinnar eru samhljóða ákvæðum gildandi laga.
    Samhliða þessu frumvarpi leggur sjávarútvegsráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Er þar kveðið á um sömu rýmkun á heimildum erlendra aðila til að fjárfesta með óbeinum hætti í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og í þessu frumvarpi. Er þetta gert til að tryggja áfram samræmi milli þessara tvennra laga.
    Í 2. tölul. koma fram hömlur á möguleikum erlendra aðila til að eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita og hlut í fyrirtækjum á sviði orkuvinnslu og orkudreifingar. Breytingar frá gildandi ákvæðum eru af þrennum toga.
    Í fyrsta lagi er orðalag ákvæðisins einfaldað með því að nota hugtakið íslenskur aðili sem skilgreint er í 2. mgr. greinarinnar. Í gildandi ákvæði er eignarrétturinn takmarkaður við íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis. Í 2. mgr. greinarinnar er íslenskur aðili skilgreindur sem ríkissjóður og sveitarfélög, svo og stofnanir, fyrirtæki og sjóðir hér á landi í fullri eigu þeirra, íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu opinberra aðila hér á landi, íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða annarra lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi.
    Í öðru lagi er lagt til að aðilar annars staðar á EES-svæðinu öðlist sama rétt og Íslendingar til að eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita hér á landi eða stunda orkuvinnslu eða orkudreifingu. Er þetta í samræmi við 40. gr. EES-samningsins, sbr. XII. viðauka hans. Þeir aðilar sem hér um ræðir eru einstaklingar sem búsettir eru og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru EES-ríki. Ríkisfang einstaklings eða ríkisfang eigenda lögaðila skiptir hér ekki máli. Skilyrði 40. gr. EES-samningsins um búsetu fremur en ríkisfang er í samræmi við það sem almennt tíðkast á sviði gjaldeyrismála, þar með taldar fjárfestingar í atvinnurekstri, en þar er miðað við búsetu aðila en ekki ríkisfang þegar greint er á milli innlendra og erlendra aðila, sbr. lög nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Gert er ráð fyrir að þetta svið verði áfram lokað fyrir öðrum erlendum aðilum. Þó er heimilt við gerð fjárfestingarsamninga við ríki utan EES að opna þetta svið fyrir þarlendum aðilum, enda verði slíkir samningar lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar með þingsályktun. Sem dæmi um samninga sem hér um ræðir eru tvíhliða fjárfestingarsamningar sem gerðir eru við einstök ríki, væntanlegur annar áfangi orkusáttmála Evrópu og alþjóðlegur fjárfestingarsamningur sem unnið er að á vegum OECD.
    Loks er í þriðja lagi lögð til sú breyting að tekin verði af tvímæli um að erlendum aðila sem öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna sé heimilt að nýta jarðhita til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni. Þetta gæti t.d. átt við um fiskeldi. Að sjálfsögðu verður nýting á jarðhitanum að samræmast ákvæðum orkulaga sem þýðir m.a. að hömlur eru á því að jarðhitinn sé virkjaður til almennra nota.
    Í 3. tölul. kemur fram takmörkun á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnufyrirtæki sem stundar flugrekstur. Í ljósi skuldbindinga Íslands í 40. gr. EES-samningsins, sbr. XII. viðauka hans, er lagt til að aðilar á EES-svæðinu hafi sömu möguleika til að fjárfesta í flugrekstri hér á landi og íslenskir aðilar. Aðilar utan EES-svæðisins verða hins vegar áfram bundnir af 49% hámarkinu.
    Í 4. tölul. kemur fram svipað bann við fjárfestingu erlends stjórnvalds hér á landi og í núgildandi lagaákvæði. Þó er lagt til að reglur hér á landi verði samræmdar reglum í flestum öðrum iðnríkjum þannig að ákvæðið taki aðeins til fjárfestingar erlends stjórnvalds en ekki einnig fjárfestingar fyrirtækis í eigu erlends stjórnvalds. Á móti er lagt til að ákvæðið verði víðtækara en nú er að því leyti að það nái ekki aðeins til fjárfestingar erlends ríkis heldur einnig til fjárfestingar erlends sveitarfélags eða annars erlends stjórnvalds.
    Síðasti töluliður er nánast óbreyttur frá gildandi lagaákvæði. Lagt er til að orðalagi verði breytt þannig að ekki verði vísað til númers laganna um eignarrétt og afnotarétt fasteigna heldur einungis heitis þeirra. Einnig er fellt brott ákvæði um það hvernig með skuli farið ef erlendur aðili sem veðhafi eignast fasteign hér á landi. Ákvæði þar að lútandi eru í lögum nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, með síðari breytingum.
    Svo sem áður greinir hefur verið haft fullt samráð við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi, fiskvinnslu og flugrekstri hér á landi um þær breytingar sem nú er lagt til að gerðar verði á 1. og 3. tölul. 4. gr. núgildandi laga.

Um 2. gr.


     a. (5. gr.)
    Til að tryggja að farið sé að ákvæðum 4. gr. laganna þykir rétt að leggja þá skyldu á stjórnendur fiskveiðifyrirtækja og fiskvinnslufyrirtækja og stjórnendur innlendra lögaðila sem eiga hlut í slíkum fyrirtækjum að tilkynna brot á ákvæðum 1. tölul. 4. gr. Ráðuneytið skal þá afla upplýsinga um eignarhlut og önnur atriði sem máli kunna að skipta varðandi raunveruleg yfirráð yfir fyrirtækjum.
    Lagt er til að nefnd um erlendar fjárfestingar meti hvort brotið sé gegn ákvæðinu og að nefndin geti óskað frekari upplýsinga. Ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að brotið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 4. gr. skal aðili skyldugur að selja hlut sinn innan fjögurra vikna. Sama skal við eiga ef eignaraðild í bága við 1. tölul. 4. gr. kemur til vegna uppboðsafsals eða samninga til lúkningar veðskuldar, erfða eða á annan hátt, en í slíkum tilvikum er lagt til að fresturinn verði tólf mánuðir.
    Ef ekki tekst að selja eignarhlut samkvæmt framansögðu innan gefins frests er lagt til að viðskiptaráðherra skuli fela verðbréfafyrirtæki að selja eignarhlutinn. Það er gert að skilyrði að verðbréfafyrirtækið uppfylli ákvæði frumvarpsins um það hvaða lögaðilar mega eiga hlut í sjávarútvegsfyrirtæki. Þykir eðlilegt að gæta samræmis þar á milli. Við þetta eru eðlileg viðskiptaleg sjónarmið höfð að leiðarljósi. Ekki er ástæða til að beita beinum lögþvingunum til sölunnar, enda er verðbréfafyrirtækjum, sem uppfylla ákvæði laganna um eignarhald að sjávarútvegsfyrirtækjum, jafnframt falin meðferð eignarhlutans sem þá þegar þýðir að ákvæði 1. tölul. 4. gr. eru virt meðan sölutilraunir eiga sér stað. Með hliðsjón af þessu þykir einnig eðlilegt að veita rúma fresti þannig að eðlileg viðskiptaleg sjónarmið ráði varðandi söluna, þar með talið varðandi tímasetningu. Með óháðu verðbréfafyrirtæki er átt við að ekki sé um augljós hagsmunatengsl verðbréfafyrirtækisins við hinn erlenda aðila eða hlutaðeigandi lögaðila að ræða.
    Til þrautavara er hins vegar lagt til að um nauðungarsölu geti orðið að ræða ef frekari sölutilraunir sýnast ekki geta skilað árangri. Slíkt þarf ekki að vera að undangengnum dómi, sátt eða aðför.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er lagt til að sömu úrræðum skuli beitt þegar farið er gegn öðrum ákvæðum 4. gr. um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila en þeim er lúta að fiskveiðum og fiskvinnslu.

     b. (6. gr.)
    Hér er lagt til að núgildandi 8. tölul. 4. gr. laganna verði gerður að sérstakri grein enda er í honum ekki fjallað um takmarkanir á fjárfestingu heldur hvernig með skuli farið þegar erlendur aðili vill reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni. Bent skal sérstaklega á að með orðunum „reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni“ og „starfa hér á landi“ er í greininni átt við starfsemi með fastri starfsstöð hér á landi og skráningu í firmaskrá en ekki það að veita þjónustu hér á landi frá starfsstöð erlendis. Gert er ráð fyrir tveimur breytingum á ákvæðinu frá gildandi lögum, sbr. 2.–4. gr. laga nr. 121/1993, annars vegar að ákvæði 2. tölul. nái einnig til einkahlutafélaga, sbr. lög nr. 138/1994, og hins vegar að lokamálslið 3. tölul. verði breytt þannig að ljóst sé að lögaðilar með heimili á EES-svæðinu séu ekki undanþegnir því að skrá útibúið í firmaskrá hér á landi þó svo að þeir þurfi ekki leyfi viðskiptaráðherra til starfseminnar.

Um 3. gr.


    Þessi grein frumvarpsins byggist á 5. gr. gildandi laga. Þó er lagt til að erlend fjárfesting skuli tilkynnt viðskiptaráðherra í stað Seðlabankans. Rökin fyrir þessu eru þau að viðskiptaráðherra ber ábyrgð á því að lögunum sé framfylgt. Þetta á sérstaklega við um ákvæði laganna er takmarka fjárfestingu erlendra aðila hér á landi. Viðskiptaráðherra til ráðuneytis er nefnd um erlenda fjárfestingu sem kosin er á Alþingi. Frá því að lögin tóku gildi 1991 hefur Seðlabankinn sent ráðuneytinu afrit af öllum tilkynningum sem borist hafa. Ráðuneytið kemur tilkynningunum síðan til nefndar um erlenda fjárfestingu. Nú er lagt til að þessi boðleið verði stytt þannig að tilkynningar berist til þess aðila sem ber ábyrgð á framkvæmd laganna. Þetta er í samræmi við þann skilning að tilkynningarnar þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi að upplýsa um fjárfestingu svo að unnt sé að grípa til ráðstafana sé hún óleyfileg fremur en að vera heimild sem byggt er á við uppgjör Seðlabankans á fjárstraumum til landsins. Að sjálfsögðu mun ráðuneytið leggja bankanum til afrit af þessum tilkynningum telji bankinn mikilvægt að fá þær.
    Skv. 2. mgr. 5. gr. gildandi laga um erlenda fjárfestingu er kveðið á um að Seðlabankinn skuli á fyrri hluta árs birta opinberlega upplýsingar um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan ásamt upplýsingum um heildarfjárfestingu erlendra aðila eftir atvinnugreinum. Þessari lagaskyldu hefur verið fullnægt með sérstakri umfjöllun um fjárfestingu erlendra aðila í ársskýrslu Seðlabankans. Nú er lagt til að horfið verði frá þessu fyrirkomulagi. Því er í 6. gr. frumvarpsins lagt til að viðskiptaráðherra flytji Alþingi á fyrri hluta hvers árs skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila.

Um 4. gr.


    Í gildandi lagaákvæði um þetta efni er kveðið á um að fjármagnsflutningurinn skuli tilkynntur gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands. Með auknu frelsi í gjaldeyrismálum hefur starfsemi þess skroppið saman. Víða um lönd hafa hliðstæðar deildir jafnvel verið lagðar niður. Því þykir rétt að leggja til að ákvæðið verði orðað með almennum hætti þannig að ljóst sé að um tilkynningar af þessu tagi fari samkvæmt lögum og reglum um gjaldeyrisviðskipti.


Um 5. gr.

    Hér er lagt til að undanþága laganna frá búsetuskilyrði framkvæmdastjóra og meiri hluta stjórnarmanna í íslensku atvinnufyrirtæki verði samræmd hliðstæðu ákvæði í lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

Um 6. gr.

    Í 2. mgr. er lagt til að orðalagi öryggisákvæðanna verði breytt á þann veg að felld verði brott heimild til að stöðva tiltekna fjárfestingu ef talið er að hún skerði verulega samkeppni fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein. Í lögum nr. 8/1993, samkeppnislögum, er að finna almennar lagaheimildir um hvernig skuli bregðast við skertri samkeppni vegna yfirtöku eða samruna fyrirtækja, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda aðila. Orðalag öryggisákvæðisins í frumvarpinu tekur mið af orðalagi í 112. gr. EES-samningsins og samþykkt OECD um afnám hafta á fjármagnshreyfingum.
    Þá er í 2. mgr. lagt til að frumkvæði að beitingu öryggisákvæðisins færist frá nefndinni um erlenda fjárfestingu til viðskiptaráðherra. Þykir eðlilegt að fela framkvæmdarvaldinu slíkt frumkvæði. Hins vegar getur ráðherrann ekki beitt öryggisákvæðinu nema leita áður álits nefndarinnar.
    Í 3. mgr. er lagt til að viðskiptaráðherra flytji Alþingi á fyrri hluta hvers árs skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan. Svo sem fram kemur í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins er í gildandi lögum kveðið á um að Seðlabankinn sinni þessari upplýsingaskyldu. Það hefur hann gert með því að birta upplýsingarnar í ársskýrslu sinni. Vegna eðlis málsins þykir hins vegar rétt að leggja til að Alþingi verði árlega gerð grein fyrir þessum málaflokki. Auk upplýsinga um fjárfestingu erlendra aðila er lagt til að viðskiptaráðherra geri Alþingi grein fyrir aðgerðum stjórnvalda til að auka fjárfestingu erlendra aðila hér á landi, beitingu öryggisákvæðisins og hvort stjórnvöld hafi þurft að grípa til aðgerða vegna þess að fjárfesting erlends aðila fór umfram þau mörk sem heimiluð eru.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Lög nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri,
sbr. lög nr. 121/1993 og ákvæði frumvarps þessa.


1. gr.

    Lög þessi gilda um hvers konar fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi nema annað leiði af ákvæðum annarra laga eða reglum settum samkvæmt þeim.

2. gr.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
     Erlendur aðili: Einstaklingur, búsettur erlendis, án tillits til ríkisfangs, félag, stofnun, sjóður eða annar lögaðili, sem á heimili erlendis, erlent ríki og ríkisfyrirtæki, svo og atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum. Einstaklingur telst búsettur erlendis ef hann á lögheimili erlendis eða á þar heimili samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga. Lögaðili telst eiga heimili erlendis ef hann er skráður til heimilis erlendis eða telur heimili sitt erlendis samkvæmt samþykktum sínum.
     Íslenskt atvinnufyrirtæki: Atvinnufyrirtæki sem er með atvinnurekstur hér á landi og á heimili hér á landi, án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi viðkomandi atvinnufyrirtækis er háttað. Atvinnufyrirtæki telst eiga heimili hér á landi ef það er skráð hér á landi, ef það telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess er hér á landi.
     Atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum: Íslenskt atvinnufyrirtæki þar sem erlendur aðili eða aðilar eiga meiri hluta fyrirtækisins, svo sem meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar eða hafa með öðrum hætti raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi atvinnufyrirtæki.
     Fjárfesting: Fjárframlag eða annað framlag til eigin fjár atvinnufyrirtækis eða kaup á eignarhlut sem fyrir er í atvinnufyrirtæki.
     Erlend fjárfesting: Fjárfesting erlends aðila í atvinnurekstri hér á landi, án tillits til þess hvort um er að ræða nýtt framlag eða endurfjárfestingu á úthlutuðum arði eða hlut eða söluandvirði vegna fyrri fjárfestingar hér á landi.

3. gr.

    Erlendum aðilum er heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi með þeim takmörkunum sem í þessum lögum eða sérlögum greinir og að uppfylltum öðrum skilyrðum og fengnum tilskildum leyfum lögum samkvæmt.

4. gr.

    Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi er háð eftirfarandi takmörkunum:
    Eftirtaldir aðilar mega einir stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands samkvæmt lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands eða eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi:
         
    
    Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
         
    
    Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                  i.     Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
                  ii.    Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila, sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eða vinnslu sjávarafurða hér á landi, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
                  iii.    Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
                            Með vinnslu sjávarafurða í 1. mgr. þessa töluliðar er átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
    Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru EES-ríki. Heimilt skal að kveða svo á í fjárfestingarsamningum milli Íslands og ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að einstaklingar sem þar eru búsettir eða lögaðilar sem þar eru heimilisfastir hafi einnig sama rétt, enda verði slíkir samningar lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar með þingsályktun.
                  Erlendum aðila, sem öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er heimilt að nýta jarðhita til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni innan þeirra takmarkana sem fram koma í orkulögum.
    Samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki, sem stundar flugrekstur hér á landi, má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%. Einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilar sem þar eru heimilisfastir eru þó undanþegnir ákvæðum þessa töluliðar.
    Fjárfesting erlends ríkis, sveitarfélags eða annars erlends stjórnvalds í atvinnurekstri hér á landi er óheimil nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra.
    Erlendum aðila er heimilt að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
    Með íslenskum aðila er í þessari grein átt við ríkissjóð og sveitarfélög, svo og stofnanir, fyrirtæki og sjóði hér á landi í fullri eigu þeirra, íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu opinberra aðila hér á landi, íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða annarra lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi. Með íslenskum lögaðila er í þessari grein átt við lögaðila með heimili hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi eða eignarhaldi er háttað. Lögaðili telst eiga heimili hér á landi ef hann er skráður hér á landi, ef hann telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi. Með íslenskum lögaðila undir yfirráðum íslenskra aðila er í þessari grein átt við íslenskan lögaðila þar sem íslenskir aðilar eiga meiri hluta hans, svo sem meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, og hafa meiri hluta atkvæðisréttar og hafa raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi lögaðila.

5. gr.

    Telji stjórnendur fyrirtækis sem starfar hér á landi og rétt hefur til að stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands, stjórnendur fiskvinnslufyrirtækis eða stjórnendur íslensks lögaðila sem á með beinum eða óbeinum hætti hlut í slíku fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki að farið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. um hámark erlendrar fjárfestingar og innlend yfirráð í íslenskum lögaðila sem með beinum eða óbeinum hætti á hlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki skal viðkomandi þá þegar senda viðskiptaráðuneytinu tilkynningu þar að lútandi. Ráðuneytið skal þá afla upplýsinga frá hlutaðeigandi lögaðila um það hverjir eigendur hans eru, atkvæðamagn hvers þeirra, stjórnarmenn og önnur atriði sem máli þykja skipta varðandi raunveruleg yfirráð hans. Ráðherra getur að eigin frumkvæði óskað eftir slíkum upplýsingum ef grunsemdir eru um brot gegn ákvæði þessu. Ráðuneytinu skal senda þær upplýsingar sem það óskar eftir innan fjögurra vikna frá því að beiðni þess berst. Að þeim tíma liðnum skal ráðuneytið senda þau gögn, sem það hefur um hlutaðeigandi lögaðila, nefnd um erlenda fjárfestingu, sbr. 12. gr., sem metur hvort gengið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Nefndin getur að eigin frumkvæði aflað frekari gagna til skýringar máli. Álit nefndarinnar skal sent viðskiptaráðherra innan fjögurra vikna frá því málefni barst nefndinni.
    Telji nefnd um erlenda fjárfestingu að fjárfesting eða yfirráð séu með þeim hætti að gengið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. skal viðskiptaráðherra með úrskurði skylda hlutaðeigandi lögaðila til að selja þann eignarhlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki eða, ef um það er að ræða, þá hlutdeild í lögaðila sem á hlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki sem ekki er samræmanlegur ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Söluskylda samkvæmt þessari málsgrein takmarkast við þann eignarhlut eða hluta eignarhlutar sem varð til þess að erlend fjárfesting fór fram úr þeim mörkum sem greinir í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Við úrlausn þess skal miðað við það hvenær tilkynning um eigandaskipti barst viðkomandi lögaðila. Ef ekki er orðið við slíkri skyldu innan fjögurra vikna skal með eignarhlutinn fara skv. 4. og 5. mgr.
    Ef erlendur aðili eignast hlut í fiskveiðifyrirtæki, fiskvinnslufyrirtæki eða fiskiskipi með samningum til lúkningar veðskuldar sem veðhafi við útgáfu uppboðsafsals, með erfðum eða á annan hátt, skal hann selja hlutinn svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að hluturinn komst í eigu hans. Ef ekki hefur orðið af slíkri sölu innan tólf mánaða skal fara með eignarhlutinn skv. 4. og 5. mgr.
    Eigi sala á eignarhlut, sem skylt er að selja skv. 2. mgr., sér ekki stað innan fjögurra vikna eða skv. 3. mgr. innan tólf mánaða skal afhenda viðskiptaráðherra hlutabréfin eða skilríki fyrir eignarhlutnum ásamt undirrituðu söluumboði. Hann skal þá fela óháðu, íslensku verðbréfafyrirtæki, sem heimilt væri skv. b-lið 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. að eiga slíkan hlut, að selja þann eignarhlut sem um ræðir til aðila sem uppfyllir skilyrði laganna. Skal verðbréfafyrirtækið eftir það annast söluna og fara með eignarhlutinn þar til sala hefur tekist. Skal verðbréfafyrirtækið gæta fjárhagslegra hagsmuna eiganda við þá sölumeðferð, þar með talið við ákvörðun um tímasetningu á sölu. Nú selur verðbréfafyrirtækið eignarhlutinn og er eigandi hans þá bundinn við söluna. Þóknun fyrir umsýslu og sölu eignarhlutarins skal greiða af söluandvirði eða arði samkvæmt almennum venjum á verðbréfamarkaði.
    Skili eigandi eða umráðaaðili eignarhlutar ekki hlutabréfum eða skilríki fyrir eiginarhlut, sbr. 4. mgr., falla öll réttindi samkvæmt eignarhlutnum niður, þar með talin atkvæðisréttur, áskriftarréttur að nýjum hlutum og réttur til greiðslu arðs, þar til skil hafa verið gerð.
    Hafi sala skv. 3. mgr. eigi tekist innan sex mánaða frá því verðbréfafyrirtækið tók eignarhlutinn til umsýslu og sölumeðferðar er ráðherra heimilt að fenginni ósk verðbréfafyrirtækisins eða eiganda hans að veita viðbótarfrest í sex mánuði ef líkur eru taldar á frjálsri sölu innan þess frests. Að öðrum kosti er ráðherra rétt að krefjast nauðungarsölu á eignarhlutnum án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar.
    Ákvæði 1.–6. mgr. eiga með samsvarandi hætti við þegar gengið er gegn ákvæðum 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr.

6. gr.

    Nú vill erlendur aðili reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni og skal þá svo með fara:
    Sé um að ræða einstakling sem búsettur er erlendis skal honum óheimilt að vinna sjálfstætt eða starfrækja eigið atvinnufyrirtæki eða taka þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð hér á landi nema með leyfi viðskiptaráðherra, enda sé lögheimili hér á landi ekki óundanþægt skilyrði samkvæmt lögum um viðkomandi atvinnugrein eða veiting undanþágu frá lögheimilisskilyrði falin öðrum. Ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir ákvæðum þessa liðar.
    Um rétt hlutafélags eða einkahlutafélags, sem á heimili erlendis, til að starfa hér á landi fer samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög.
    Viðskiptaráðherra getur veitt öðrum lögaðilum, sem heimili eiga erlendis, leyfi til að starfa hér á landi, enda sé þá að því er varðar slíka lögaðila og starfsemi þeirra hér á landi fullnægt sömu skilyrðum og fylgt sömu meginreglum og að því er varðar erlend hlutafélög, sbr. 2. tölul. þessarar greinar. Útibú slíks lögaðila skal skráð í firmaskrá á heimilisvarnarþingi útibúsins. Lögaðilar með heimili í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins þurfa ekki leyfi viðskiptaráðherra til starfsemi hér á landi.

7. gr.

    Tilkynna ber viðskiptaráðherra alla erlenda fjárfestingu jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur bæði til fjárfestingar erlends aðila í atvinnufyrirtæki sem hann hefur ekki átt í áður og viðbótarfjárfestingar í slíku fyrirtæki. Tilkynningu skulu fylgja afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og nauðsynleg teljast að mati ráðherra. Sé um að ræða erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnufyrirtæki hvílir tilkynningarskyldan á viðkomandi atvinnufyrirtæki, en sé um að ræða fyrirhugaða atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni erlends aðila hvílir tilkynningarskyldan á honum.
    Viðskiptaráðherra hefur rétt til upplýsingaöflunar og athugana vegna fjárfestingar erlendra aðila. Heimilt er viðskiptaráðherra að fela ríkisstofnun að annast slíka upplýsingaöflun og athuganir.

8. gr.

    Erlendum aðila, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, skal frjálst að flytja í því skyni til landsins erlendan gjaldmiðil, enda sé slíkur fjármagnsflutningur tilkynntur samkvæmt lögum og reglum um gjaldeyrisviðskipti. Um skilaskyldu slíks gjaldmiðils skal fara samkvæmt almennum reglum. Sé um að ræða erlendan gjaldmiðil sem Seðlabanki Íslands annast reglubundna gengisskráningu á skal hinn erlendi aðili eiga rétt á að fá hinum erlenda gjaldmiðli skipt í íslenskar krónur.

9. gr.

    Erlendur aðili, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, skal eiga rétt á að fá yfirfært í hvern þann erlenda gjaldmiðil, sem Seðlabanki Íslands annast reglubundna skráningu á, móttekinn arð eða annan hagnaðarhlut og söluandvirði fjárfestingar.

10. gr.

    Í íslenskum atvinnufyrirtækjum skulu framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnarmanna vera búsettir hér á landi óháð eignarhlut, atkvæðisrétti eða öðrum yfirráðum erlendra aðila. Búsetuskilyrði gildir þó ekki um ríkisborgara þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki. Viðskiptaráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja undanþágu frá þessu ákvæði.

11. gr.

    Viðskiptaráðherra fer með leyfisveitingar samkvæmt lögum þessum og annast eftirlit með framkvæmd þeirra að svo miklu leyti sem tiltekið eftirlit eða leyfisveitingar eru ekki samkvæmt ákvæðum laganna faldar öðrum.
    Viðskiptaráðherra getur bannað erlendum aðila fjárfestingu í atvinnurekstri hér á landi ef hann hefur verið sviptur réttindum til atvinnurekstrar með dómi í öðru ríki.

12. gr.

    Sérstök fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, skal fylgjast með að ákvæðum 4. gr. um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sé framfylgt, sbr. ákvæði 5. gr. Jafnframt skal hún vera ráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar skv. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. Nefndin skal skipuð fimm mönnum, kosnum hlutfallskosningu á Alþingi að afstöðnum almennum þingkosningum. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Viðskiptaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Formaður nefndarinnar boðar hana til funda. Viðskiptaráðherra ákveður þóknun nefndarinnar.
    Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvað slíka fjárfestingu enda kunngjöri hann ákvörðun sína innan átta vikna frá því að honum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 7. gr. Áður en slík ákvörðun er tekin skal ráðherra leita álits nefndar um erlenda fjárfestingu. Þegar um er að ræða fjárfestingu aðila frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal gætt ákvæða 112. og 113. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.
    Viðskiptaráðherra skal á fyrri hluta hvers árs flytja Alþingi skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda til að auka fjárfestingu erlendra aðila hér á landi, um fjárfestingu erlendra aðila og heildarfjárfestingu eftir atvinnugreinum og um beitingu öryggisákvæðis skv. 2. mgr. og úrræða stjórnvalda skv. 5. gr.

13. gr.

    Viðskiptaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

14. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Mál út af brotum á lögum þessum fara að hætti opinberra mála.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjárfestingu erlendra


aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild erlendra aðila til fjárfestingar í íslenskum atvinnurekstri verði rýmkuð á nokkrum sviðum. Í 3. gr. er gerð ráð fyrir að tilkynna beri viðskiptaráðherra alla erlenda fjárfestingu jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Í athugasemdum með 3. gr. kemur fram að verið er að flytja eftirlit með erlendum fjárfestingum frá Seðlabankanum til viðskiptaráðherra. Í reynd er þetta hlutverk það smátt í sniðum enn sem komið er að ekki er þörf á að gera ráð fyrir sérstökum kostnaði af þeim sökum.
    Því verður ekki séð að samþykkt þessa frumvarps hafi sérstakan kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.