Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 270 . mál.


504. Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til þess að treysta byggð á Íslandi.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Gísli S. Einarsson,


Guðmundur Árni Stefánsson, Jón Baldvin Hannibalsson,


Lúðvík Bergvinsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að kanna ástæður búferlaflutninga og gera tillögur um hvernig treysta megi byggð á Íslandi. Í nefndinni sitji m.a. fulltrúar Byggðastofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og ráðuneyta. Nefndinni verði m.a. falin eftirtalin verkefni:
    Að gera úttekt á hvaða atriði það eru sem einkum valda því að fólk flytur í jafnmiklum mæli og verið hefur búferlum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Í því sambandi verði m.a. skoðað hvernig búferlaflutningunum er hagað, þ.e. hvort þeir tengjast tilteknum aldurshópum eða atvinnustéttum, svo og hvort um beina búferlaflutninga er að ræða eða tilfærslur sem verða milli dreifbýlis og þéttbýlis á landsbyggðinni og þéttbýlisins þar og höfuðborgarsvæðisins. Einnig verði kannað með úrtaksathugunum hjá þeim sem flutt hafa búferlum til höfuðborgarsvæðisins frá landsbyggðinni á síðustu fimm eða tíu árum hvaða ástæður séu helst tilgreindar fyrir flutningunum. Í því sambandi verði sérstaklega athugað að hve miklu leyti stefna sú, sem fylgt hefur verið í málefnum framhaldsmenntunar á Íslandi, með höfuðáherslu á bóklegar námsgreinar, kann að hafa valdið búseturöskun, en atvinnutækifæri fyrir ungt fólk með slíka menntun eru mun færri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Í byggðarlögum úti á landi er hins vegar oft skortur á fólki með verk- og tæknimenntun.
    Að meta hvaða árangur hefur orðið af aðgerðum sem gripið hefur verið til á umliðnum árum af hálfu opinberra aðila til að treysta byggð á landsbyggðinni, þ.e. hvaða úrræði eru talin hafa skilað árangri og hver ekki.
    Að kanna hvaða aðgerðir, sem gripið hefur verið til í nálægum löndum, svo sem á Norðurlöndum og í Stóra-Bretlandi, til þess að efla búsetu í jaðarbyggðum, auka fjölbreytni í atvinnulífi og treysta byggð, eru taldar hafa skilað bestum árangri.
    Að gera tillögur um til hvaða úrræða stjórnvöld á Íslandi, ríkisstjórn, Alþingi og sveitarstjórnir, geta gripið til þess að treysta byggð á Íslandi þar sem landkostir eiga að geta boðið upp á lífvænlega afkomu, þjónustu og menningarlíf í samræmi við nútímakröfur.
    Niðurstöður nefndarinnar verði lagðar fyrir Alþingi sem skýrsla og kynntar sveitarstjórnum og almenningi.
    Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Ekkert lát er á flutningi fólks frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Nýjustu mannfjöldatölur sýna áframhaldandi fækkun fólks utan suðvesturhornsins og mikið nettóaðstreymi til mesta þéttbýlis á Íslandi. Mannfjöldi á Vestfjörðum er t.d. minni nú en verið hefur alla þessa öld. Verði framhald á þessum búferlaflutningi verður þess skammt að bíða að jafnvel stór byggðarlög á landsbyggðinni geti ekki lengur veitt þá þjónustu sem þörf er á í nútímaþjóðfélagi og mun það valda enn frekari brottflutningi fólks. Þá hefur fólksfækkun nú þegar valdið miklum samdrætti í tekjum margra sveitarfélaga sem þar með hafa átt í stöðugt meiri erfiðleikum með að halda uppi núverandi þjónustustigi, hvað þá heldur að auka og bæta við eins og íbúarnir telja sig þurfa. Sums staðar hefur verið reynt að bregðast við með sameiningu sveitarfélaga í því skyni að styrkja þau sem rekstrareiningar og auka þjónustu en jafnvel þær tilraunir munu ekki bera nema takmarkaðan árangur ef fólksfækkun heldur áfram í jafnmiklum mæli og verið hefur.
    Full ástæða er til þess að kanna betur en gert hefur verið hvernig þessir búferlaflutningar eiga sér stað og hvort tiltaka megi einhverjar ástæður öðrum fremur sem honum valda. Mynstur búferlaflutninga innan landshluta, milli þeirra og milli þeirra og höfuðborgarsvæðisins getur t.d. verið með ólíku móti eftir svæðum. Tækniframfarir í landbúnaði ásamt miklum erfiðleikum, ekki síst í sauðfjárrækt, hafa valdið mikilli fólksfækkun í sveitum landsins. Sums staðar hefur það valdið beinum búferlaflutningum úr sveitum til höfuðborgarsvæðisins en annars staðar fremur tilfærslum milli dreifbýlis og þéttbýlis í viðkomandi landshluta, en fólki hefur samt ekki fjölgað sem því svarar á þéttbýlissvæðunum á landsbyggðinni vegna búferlaflutninga þaðan til þéttbýlisins á suðvesturhorninu. Þá er alkunna að aldurssamsetningin hefur töluverð áhrif á búferlaflutninga. Mikið af eldra fólki hefur flust frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins ýmist til þess að geta dvalið nær afkomendum sínum sem þar búa eða vegna heilbrigðisþjónustu og þjónustu við aldraða sem þó er orðin til fyrirmyndar víða úti um land. Á móti kemur að margt ungt fólk, sem flytur út á land þar sem atvinna er mikil, tekjumöguleikar góðir og aðstæður góðar til uppeldis barna, flytur þangað með því hugarfari að ætla bara að búa þar um takmarkaðan tíma á meðan fjölskyldan er að koma undir sig fótum fjárhagslega en er staðráðið í að hverfa á brott að þeim tíma liðnum. Segir það sig sjálft að slík afstaða hlýtur að hafa áhrif á viðhorf ungs fólks til framtíðarinnar í byggðarlögum þar sem svo háttar til.
    Margar ástæður og ólíkar valda því að fólk flytur búferlum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Sumar eru huglægar eða jafnvel sálrænar, aðrar efnislegar. Í mörgum þeim byggðarlögum, þaðan sem fólksflutningar hafa verið mestir, er atvinnustig t.d. hátt og atvinnutekjur sömuleiðis sé miðað við landsmeðaltal. Fólk flytur því oft þaðan á staði þar sem atvinnutekjur eru minni en það hafði og atvinnuöryggi minna. Meiri möguleikar vegna fjölbreyttara atvinnulífs reynast aukinheldur oft vera blekking, m.a. vegna meira atvinnuleysis og menntunarkrafna á höfuðborgarsvæðinu en víða annars staðar. Þá er þjónusta við barnafólk oft mun betri í þéttbýli landsbyggðarinnar en í höfuðborginni og aðstæður til uppeldis barna ákjósanlegri þannig að efnalegar aðstæður nægja ekki til þess að skýra mikið aðstreymi fólks frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins. Því er full ástæða til þess að kanna, eftir því sem föng eru á, hvað þessum búferlaflutningum veldur, hvort einhverjar tilteknar ástæður séu tilgreindar öðrum fremur og þá hverjar, einnig hvort ákveðin mynstur, eitt eða fleiri, séu sjáanleg í búferlaflutningum á Íslandi og hvort vera kunni að þau séu mismunandi eftir landshlutum. Þá er þess að geta að stefnumörkun í framhaldsmenntun á Íslandi, ekki síst á landsbyggðinni, hefur verið með þeim hætti að megináherslan hefur verið lögð á bóklegt námsefni með háskólanám að markmiði. Atvinnutækifæri fyrir ungt fólk á landsbyggðinni með slíka menntun eru ekki mörg, en oft er skortur á verk- og tæknimenntuðu fólki í þeim atvinnugreinum sem einkenna atvinnustarfsemina úti á landi. Þannig kunna rangar áherslur í framhaldsmenntun að hafa valdið því að ungt fólk fer ekki til starfa í heimabyggðum sínum að námi loknu.
    Um áratuga skeið hafa þessi mál verið til umfjöllunar hjá stjórnendum landsins, Alþingi, ríkisstjórn og sveitarstjórnum. Framan af beindust afskipti hins opinbera beinlínis að því að berjast gegn þéttbýlismyndun á Íslandi sem sumir álitu vera af hinu vonda og valda siðspillingu og hvers konar andlegri og efnalegri óáran með þjóðinni. Markmiðið var að allt skyldi óbreytt vera. Fólkið skyldi sitja sem fastast þar sem það var niður komið, í fjötrum ef ekki fyndist annað ráð.
    Þessi stefna hefur löngu gengið sér til húðar en kostaði þjóðina ómælda fjármuni og var fjötur á lífsafkomu fjölmargra. Breytingar á búsetu eru óhjákvæmilegar og eðlilegar ef landsmenn vilja fylgja öðrum þjóðum í afkomu og menningarlífi. Hins vegar ber þjóðinni skylda til þess að byggja land sitt þar sem byggð á að geta verið lífvænleg. Forræði þjóðarinnar yfir Íslandi gerir þá kröfu til hennar að hún byggi landið og nýti þá landkosti sem samrýmast því að fólk geti búið við góða lífsafkomu og lifað menningarlífi í landi sínu. Það er mætavel hægt víða á landsbyggðinni ekkert síður en á suðvesturhorninu. Nýti þjóðin ekki þá landkosti gæti orðið erfitt fyrir hana í heimi örrar fólksfjölgunar að meina öðrum að gera það. Þess vegna er traust byggð í landinu hluti af varðstöðu þjóðarinnar um sjálfstæði sitt og landforræði.
    Ýmis úrræði hafa verið reynd í nafni svokallaðrar byggðastefnu til þess að treysta byggð hringinn í kringum landið. Sum þessara úrræða hafa skilað árangri, stundum varanlegum, stundum tímabundnum, önnur ekki. Tímabært er að fá yfirlit yfir hvaða ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, hafa skilað árangi til lengri eða skemmri tíma svo að hægt sé að byggja á þeirri reynslu með tilliti til framtíðarinnar. Ekki er síður nauðsynlegt að fyrir liggi hvaða úrræði hafa ekki skilað árangri. Af þeirri reynslu geta menn líka lært.
Með sama hætti verða menn að horfa til umheimsins og þá ekki síst til reynslu þjóða sem eru líkar Íslendingum í lífskjörum og menningu. Í Stóra-Bretlandi hefur til að mynda náðst góður árangur í uppbyggingu atvinnulífs í héruðum eins og Wales og Skotlandi með markvissum aðgerðum stjórnvalda til markaðssetningar á landkostum og tækifærum. Af þeirri reynslu gætum við Íslendingar óefað ýmislegt lært.
    Þingsályktunartillaga sú, sem hér er flutt, er löngu tímabær. Tilgangur hennar er annars vegar að afla upplýsinga um búferlaflutninga, mynstur þeirra og meginástæður, ásamt því að fá yfirlit um árangur aðgerða sem gripið hefur verið til í byggðamálum hérlendis og erlendis og hins vegar að nýta þær upplýsingar til þess að setja fram nýjar hugmyndir um hvernig árangursríkast er að efla byggð á Íslandi til þess að treysta forræði þjóðarinnar á eigin landi og varðveita sjálfstæði hennar og treysta möguleika hennar á að lifa við sambærileg lífskjör og njóta sambærilegrar þjónustu og menningarlífs í landi sínu öllu.