Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 283 . mál.


522. Frumvarp til laga



um flutninga á skipgengum vatnaleiðum vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Markmið laga þessara er að tryggja gagnkvæman frjálsan aðgang skipa, sem skráð eru í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, að skipgengum vatnaleiðum innan EES.
    

2. gr.

    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga á grundvelli 1. gr. laga þessara.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á 116. löggjafarþingi 1992 lagði samgönguráðherra fram frumvarp til laga um flutninga á járnbrautum, skipgengum vatnaleiðum o.fl. vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Tilgangurinn með framlagningu frumvarpsins var eingöngu sá að fullnægja þeim ákvæðum EES-samningsins sem kveða á um að gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samninginn eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar bindi samningsaðila og skuli teknar upp í landsrétt. Raunhæf þýðing þessara gerða hér á landi var hins vegar á þeim tíma engin; t.d. var aðildarríkjum EES-samningsins ekki tryggður aðgangur að skipgengum vatnaleiðum innan EES og engar skipgengar vatnaleiðir eru hér á landi. Frumvarpið var ekki samþykkt.
    Þegar ljóst varð að frumvarpið yrði ekki að lögum óskuðu íslensk stjórnvöld eftir því við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að vera undanþegin þeim skuldbindingum sem hér um ræðir. Á þetta var fallist ótímabundið að því er varðar flutninga með járnbrautum en tímabundið að því er varðar skipgengar vatnaleiðir þar sem bókun 20 við EES-samninginn heimilar tímabundna undanþágu frá löggjöf ESB um skipgengar vatnaleiðir. Í 2. tölulið bókunar 20 segir að ráðstafanir til að tryggja gagnkvæman jafnan aðgang að skipgengum vatnaleiðum innan yfirráðasvæðis samningsaðila skuli gerðar á vegum hlutaðeigandi alþjóðlegra stofnana fyrir 1. janúar 1996 að teknu tilliti til þeirra skuldbindinga sem er að finna í tilheyrandi marghliða samningum. EFTA-ríkin, sem eins og áður segir, höfðu ekki jafnan aðgang að skipgengum vatnaleiðum bandalagsins við gildistöku EES-samningsins, eiga samkvæmt sömu bókun að lögfesta réttarreglur um skipgengar vatnaleiðir jafnskjótt og þau öðlast rétt til jafns aðgangs.
    Á fundi í Rínar-stjórnarnefndinni (the Central Rhine Commission) 8. nóvember 1995 var samþykkt ályktun um að EFTA-ríkin skuli hafa sömu réttindi og skyldur og aðildarríki ESB. Þar með er skilyrðum bókunar 20 fullnægt og EFTA-ríkjum er nú skylt að lögfesta ESB-reglur hér að lútandi. Skyldur EFTA-ríkjanna lúta fyrst og fremst að því að veita skipum, sem skráð eru í öðrum aðildarríkjum EES, sama aðgang að skipgengum vatnaleiðum og eigin skipum.
    Reglugerðunum má skipa í þrjá flokka:

1. Reglur um markaðsaðgang.
    Þegar samþykkt verður tillaga að reglugerð um setningu sameiginlegra reglna um flutning á vörum og fólki á skipgengum vatnaleiðum milli aðildarríkja mun markmiðinu um frjálsan markaðsaðgang verða náð. Þó er miðað við vissa aðlögun fram til 1. janúar 2000.

2. Reglur um aðlögun.
    Þar sem þessi atvinnugrein hefur búið við stjórnun og höft, vegna offramboðs, mjög lengi og hún hefur nokkra félagslega þýðingu á ákveðnum svæðum munu reglur um styrki, fyrst og fremst til úreldingar, væntanlega gilda til 1998. Úreldingin miðar að því að taka lítil og óhagkvæm skip úr umferð.

3. Reglur um stöðlun.
    Nauðsynlegt verður að samræma reglur um stöðlun, öryggi og menntun stjórnenda skipa sem sigla á skipgengum vatnaleiðum.

    Ljóst er að aðgangur Íslands og íslenskra skipa að skipgengum vatnaleiðum Evrópu veitir íslenskum fyrirtækjum ýmis sóknarfæri á erlendum mörkuðum og eykur möguleika þeirra á flutningamörkuðum Evrópu sem er að sjálfsögðu bæði atvinnu- og gjaldeyrisskapandi. Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða hefur ennfremur vakið athygli á að ótvíræður ávinningur sé fyrir íslensku útgerðirnar að íslensk skip eigi siglingarétt á skipgengum vatnaleiðum Evrópu, svo sem Rín og Dóná. Bent er á að mikilvægar útflutningsafurðir Íslendinga, svo sem fiskimjöl, járnblendi o.s.frv., fari iðulega um umræddar skipgengar vatnaleiðir langt inn í land og geti umskipunarkostnaður í sjávarhöfn haft afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu framleiðenda viðkomandi afurða og rýrt skilaverð til framleiðenda. Þótt íslenskar útgerðir eigi ekki, eins og er, skipakost undir íslenskum fána sem hentar til umræddra siglinga getur útflutningur og sala afurða breyst fyrirvaralaust í þá veru að raunhæft verður fyrir útgerðirnar að eiga slík skip undir íslenskum fána.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Markmið frumvarpsins er að tryggja gagnkvæman aðgang að skipgengum vatnaleiðum innan ríkja EES og fullnægja þar með ákvæðum bókunar 20 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Um nánari skýringu á greininni vísast til almennra athugasemda við lagafrumvarpið.

Um 2. gr.


    Skuldbindingar EFTA-ríkjanna samkvæmt EES-samningnum felast í því að lögfesta þær gerðir sem eru hluti af samningnum og tryggja þar með skipum frá öðrum aðildarríkjum sömu réttindi og skyldur og eigin skipum. Reglum þeim, sem hér um ræðir, má skipta í þrjá flokka, sbr. almennar athugasemdir hér að framan.
    

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um flutninga á skipgengum vatnaleiðum


vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.


    Skuldbindingar EFTA-ríkjanna samkvæmt EES-samningnum felast í því að lögfesta þær gerðir sem eru hluti af samningnum. Með frumvarpinu er leitast við að uppfylla þessar skuldbindingar með því að tryggja gagnkvæman aðgang að skipgengum vatnaleiðum innan ríkja EES og fullnægja þar með ákvæðum bókunar 20 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.