Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 435 . mál.


767. Tillaga til þingsályktunar



um skipun samráðsnefndar um hagsmuni og réttindi aldraðra og öryrkja.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að skipuð verði samráðsnefnd fulltrúa heilbrigðisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Öryrkjabandalags Íslands og Landssambands aldraðra.
    Verkefni nefndarinnar verði að veita ríkisstjórninni umsagnir um öll málefni á verksviði fyrrgreindra ráðuneyta er varða hagsmuni og réttindi aldraðra og öryrkja. Nefndin getur að eigin frumkvæði eða að frumkvæði Öryrkjabandalags Íslands eða Landssambands aldraðra tekið til umfjöllunar öll mál er varða tengsl milli ríkisins, almannatrygginga og tryggingaþega. Umsagnir nefndarinnar um einstök mál skal ávallt birta sem fylgiskjöl ef mál koma til afgreiðslu Alþingis.

Greinargerð.


     Alþingi hefur á undanförnum árum samþykkt ýmsar breytingar á lögum sem hafa haft veruleg áhrif á réttindi og kjör aldraðra og öryrkja. Nokkrar þessara breytinga hafa vissulega verið réttarbót til handa þessum hópum þjóðfélagsþegna. Fleiri og tíðari eru þó þær breytingar sem hafa skert kjör þeirra og skapað óvissu og öryggisleysi. Nægir að nefna breytingar sem gerðar voru við og í kjölfar afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1996. Öldruðum og öryrkjum er öðrum fremur nauðsyn að lifa við öryggi og óttaleysi um fjárhagslega afkomu. Tíðar breytingar á kjörum þeirra eru þeim einkar erfiðar, sérstaklega í ljósi þess að mikið hefur skort á að við þessa hópa sé haft samráð þegar breytingarnar eiga sér stað. Í ljósi þessara staðreynda ítrekaði aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni mótmæli sín við afgreiðslu laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996 en þar er vegið að afkomumöguleikum aldraðra og öryrkja í þjóðfélaginu. Jafnframt er í samþykktum fundarins lögð áhersla á að gerðar séu áætlanir til lengri tíma um mál er snerta lífeyrisþega og undirbúningur að öllum breytingum vandaður betur en raun ber vitni.
    Þá hafa samtök aldraðra lagt til að stofnuð verði samráðsnefnd með þátttöku heilbrigðisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis annars vegar og fulltrúum samtaka aldraðra og Öryrkjabandalagsins hins vegar. Nefndin hafi umsagnarrétt um öll þau mál er snerta hagsmuni og réttindi aldraðra og öryrkja. Þannig verði réttur þessara hópa til samráðs um breytingar er varða lífskjör þeirra virtur. Undir þetta sjónarmið er tekið með flutningi þessarar þingsályktunartillögu.
    Landssamband aldraðra hefur í tillögum sínum um samráðsnefnd haft að fyrirmynd norskar reglur sem settar hafa verið og ákvarða með hvaða hætti staðið er að slíku samstarfi og samráði þar.


Prentað upp.