Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 402 . mál.


817. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Bryndísar Guðmundsdóttur um náms- og starfsfræðslu.

    Er náms- og starfsfræðslu ætlað rúm á viðmiðunarstundaskrá unglingadeilda grunnskóla og í framhaldsskólum? Ef svo er, hve margar stundir í viku?
    Grunnskólar. Náms- og starfsfræðslu eru ekki ætlaðar fastar stundir á viðmiðunarstundaskrá í grunnskólum. Samkvæmt auglýsingu um fjölda kennslustunda í 1.–10. bekk grunnskóla og skiptingu þeirra milli námsgreina (Stjtíð. B, nr. 439/1995) eru rúmlega 18% af heildarkennslustundum óbundin og til ráðstöfunar í hverjum skóla. Ætlast er til að skólar veiti náms- og starfsráðgjöf samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og noti þá hluta af stundum til ráðstöfunar til þess. Hverjum skóla er ætlað að útfæra náms- og starfsfræðslu og leggja áherslu á það sem talið er henta á hverjum stað.
    Framhaldsskólar. Náms- og starfsfræðslu eru ekki ætlaðar fastar stundir í starfi framhaldsskóla. Engin ákvæði er að finna í námskrá framhaldsskóla um þetta efni.

    Er um að ræða náms- og starfsfræðslu í samvinnu við aðila utan skólakerfisins, t.d. aðila vinnumarkaðar, menntakerfis eða sveitarfélaga?
     Grunnskólar. Samstarf við aðila utan grunnskóla er háð aðstæðum á hverjum stað og því skipulagi sem hver skóli viðhefur við náms- og starfsfræðslu. Ýmis dæmi eru um samstarf skóla og foreldra þar sem skóli skipuleggur kynningu á atvinnu foreldra í einstökum bekkjum eða árgöngum. Um nokkurra ára skeið hefur verið starfræktur svonefndur starfskynningarskóli í Reykjavík undir stjórn Páls Ólafssonar og Hannesar Sveinbjörnssonar. Menntamálaráðuneytið hefur styrkt starfsemina árlega. Reykjavíkurborg hefur lagt til aðstöðu í Gerðubergi. Starfskynningarskólinn hefur boðið upp á starfskynningarnámskeið fyrir efstu bekki grunnskóla í Reykjavík og nágrenni. Námskeiðin eru kostuð af ýmsum aðilum atvinnulífsins. Sem dæmi um aðila sem lagt hafa til efni og kennara má nefna Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Iðntæknistofnun, Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins, tryggingafélög, banka og sparisjóði, Landssamband iðnaðarmanna og Iðnskólann í Reykjavík, Rauða krossinn, Morgunblaðið og DV, samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi o.fl. Í mörgum tilvikum hefur námsefni, sem mótast hefur í tengslum við námskeiðin, verið tekið til útgáfu á vegum Námsgagnastofnunar.
     Framhaldsskólar. Ekki er um skipulagða samvinnu að ræða. Eitthvað er um að aðilar í atvinnulífinu kynni starfsemi sína í einstöku skólum og þá möguleika sem viðkomandi starfsgrein býður upp á en þetta er háð aðstæðum á hverjum stað.

    Hefur einhver eftirfylgd verið við nemendur að loknum grunnskóla, t.d. í tengslum við fræðsluskrifstofur, félagsmálayfirvöld eða námsráðgjafa?
    Starfssvið fræðsluskrifstofa nær einungis til grunnskóla og hafa þær ekki fylgt náms- og starfsfræðslu eftir að loknum grunnskóla. Félagsmálayfirvöld annast ekki þetta verkefni en námsráðgjafar í framhaldsskólum veita náms- og starfsfræðslu eftir því sem þeir hafa tök á.