Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 500 . mál.


877. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, ásamt síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


    Á eftir 1. mgr. 3. gr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Kennarar og skólastjórnendur, sem ráðnir eru samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla og starfa við skóla sem eru reknir af sveitarfélögum samkvæmt lögum um grunnskóla, skulu vera sjóðfélagar og greiða iðgjöld til sjóðsins, enda uppfylli ráðning þeirra skilyrði a-liðar I-tölul. 1. mgr. um ráðningartíma og starfshlutfall. Kennurum og skólastjórnendum er þó heimilt að greiða í annan lífeyrissjóð, ef viðkomandi sveitarfélag samþykkir aðild þeirra að þeim sjóði.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að kennarar og skólastjórnendur greiði áfram iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eftir að rekstur grunnskólans hefur verið fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Efni frumvarpsins er í samræmi við ákvæði a-liðar 1. mgr. 57. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, en samkvæmt þeirri lagagrein er það meðal skilyrða fyrir því að fyrrgreind lög um grunnskóla taki gildi 1. ágúst 1996 að Alþingi hafi þá samþykkt breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggi öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla, sem rétt hafa átt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, aðild að sjóðnum.
    Í frumvarpinu er lagt til að réttur til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins nái bæði til þeirra kennara og skólastjórnenda sem greitt hafa í sjóðinn sem ríkisstarfsmenn og til þeirra sem að óbreyttu verða ráðnir til starfa hjá grunnskólum eftir að sveitarfélög hafa tekið við rekstri þeirra. Heimild þessi nær eftir sem áður ekki til starfsmanna við einkaskóla.
    Í frumvarpinu er lagt til að kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla verði heimilt að greiða iðgjald í annan lífeyrissjóð ef þeir kjósa svo fremur en að greiða iðgjald í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það er þó skilyrði að viðkomandi sveitarfélag samþykki aðild þeirra að þeim sjóði. Nú starfrækja níu sveitarfélög lífeyrissjóði fyrir starfsmenn sína. Reglur þessara sjóða eru að miklu leyti sambærilegar við reglur Lífeyrissjóðs starfsmanna


Prentað upp.
ríkisins. Þá greiða mörg sveitarfélög iðgjald til staðbundinna lífeyrissjóða fyrir starfsmenn sína. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði fyrir sveitarfélög og kennara og skólastjórnendur sem hjá þeim starfa að semja svo um að þessir starfsmenn greiði í sömu lífeyrissjóði og aðrir starfsmenn viðkomandi sveitarfélaga.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að þessar breytingar öðlist gildi 1. ágúst 1996. Sú tímasetning er til samræmis við gildistökuákvæði í 57. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 29/1963,


um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, ásamt síðari breytingum.


    Í frumvarpinu er lagt til að kennarar og skólastjórnendur grunnskóla, sem reknir eru af sveitarfélögum samkvæmt lögum um grunnskóla, verði heimilt að greiða áfram iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Í skýrslu kostnaðarnefndar um flutning grunnskólans til sveitarfélaga er lagt til í fyrsta lagi að sveitarfélög beri ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum vegna áunninna réttinda grunnskólakennara í þjónustu þeirra frá 1. janúar 1997 en ríkissjóður beri ábyrgðina til þess tíma, í öðru lagi að skuldbindingarnar verði fullnustaðar með greiðslu fulls iðgjalds til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og í þriðja lagi að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga beri bakábyrgð á þessum skuldbindingum. Vegna þessa er í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 4. mars sl. um kostnaðar- og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskólans miðað við að hækka þurfi framlag vinnuveitanda úr 6% í 10,5%. Hækkunin er talin nema um 160 m.kr. á ári og er hún innifalin í þeim tekjum sem fluttar verða frá ríki til sveitarfélaga samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Tillaga kostnaðarnefndar byggist á ákveðnum forsendum sem eru til nánari skoðunar og kunna að leiða til þess að gerðar verði tillögur um frekari lagabreytingar. Samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995 er einnig lagt til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga beri bakábyrgð á umræddum lífeyrisgreiðslum.
    Gert er ráð fyrir að frumvarpið hafi ekki önnur áhrif á kostnað ríkisins en greint er frá hér að framan.