Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 285 . mál.


1018. Frumvarp til lagaum breytingar á þjóðminjalögum, nr. 88 29. maí 1989, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 21. maí.)    Samhljóða þskj. 524 með þessum breytingum:

    D-liður 2. gr. (53. gr.) hljóðar svo:
    Óheimilt er að flytja til Íslands menningarminjar fari sá flutningur fram í andstöðu við löggjöf í því ríki sem flutt er frá.
    Ákvæði 3. og 4. mgr. þessarar greinar og ákvæði 54. gr., svo og ákvæði 55. gr. að því er varðar skil menningarverðmæta til annarra ríkja, gilda einvörðungu um kröfur um skil frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í aðildarríkjum samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Íslensk stjórnvöld skulu þó jafnframt leitast við eftir föngum að aðstoða við réttmæt skil menningarminja til ríkja er ekki eiga aðild að nefndum samningi hafi minjarnar verið fluttar þaðan í andstöðu við þarlend lög.
    Íslenskum stjórnvöldum er skylt að sjá til þess að menningarminjum, sem fluttar hafa verið til Íslands með ólögmætum hætti, án tillits til núverandi eignaraðildar eða vörslu á þeim, verði skilað til réttra eigenda eða umsjármanna þeirra erlendis, enda sé skilyrðum 51. gr. um verðmæti þeirra fullnægt. Umsókn þar að lútandi skal borin upp formlega af valdbæru stjórnvaldi í hlutaðeigandi ríki og skal henni beint til Þjóðminjasafns Íslands sem gerir síðan viðeigandi ráðstafanir, eftir atvikum í samvinnu við hlutaðeigandi stjórnvöld hér á landi, sbr. nánar 54. gr.
    Við verðgildismat menningarminja skv. 3. mgr. þessarar greinar, sbr. og 51. gr., skal miða við þann dag er Þjóðminjasafni Íslands berst krafa um skil á hlutaðeigandi minjum frá réttum stjórnvöldum í öðru ríki. Við ákvörðun verðgildis skal haft mið af ætluðu markaðsverði hér á landi.

    F-liður 2. gr. (55. gr.) hljóðar svo:
    Þjóðminjasafn Íslands annast framkvæmd ákvæða þessa kafla laganna fyrir hönd íslenska ríkisins. Það veitir formleg leyfi til útflutnings menningarminja skv. 50. gr. og jafnframt skv. 52. gr. að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis. Um framkvæmd leyfisveitinga, m.a. um form leyfisskjala, skal farið að nánari reglum er menntamálaráðherra setur. Þjóðminjasafn leggur mat á verðgildi menningarminja skv. 51. gr., sbr. og 53. gr., og annast um framkvæmd skila á menningarminjum til annarra ríkja skv. 53. gr.
    Ákvarðanir um afgreiðslu umsókna um útflutningsleyfi sem hér um ræðir skulu bornar upp í þjóðminjaráði til staðfestingar. Ágreiningi um leyfisveitingar eða synjanir útflutnings á þessu sviði má skjóta til menntamálaráðuneytis, sbr. nánar ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Verður þá ekki af útflutningi fyrr en ráðuneytið hefur heimilað hann og lagt fyrir Þjóðminjasafn Íslands að gefa út leyfisbréf þar að lútandi. Til menntamálaráðuneytis má og skjóta ágreiningi um önnur atriði, er lúta að framkvæmd ákvæða þessa kafla.
    Við mat á gildi menningarminja, er hér um ræðir, svo og um meiri háttar álitaefni, skal Þjóðminjasafn Íslands hafa samráð við forstöðumenn þeirra stofnana hér á landi er einkum varðveita þess konar muni sem mál snýst um hverju sinni. Þar skal m.a. kalla til forstöðumann Listasafns Íslands um myndlistarverk, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi um handrit, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um bækur og handrit og Þjóðskjalasafns Íslands um skjöl. Ef þörf gerist skal og leitað álits sérfróðra manna er eigi starfa við stofnanir þær er hér um ræðir.
    Þjóðminjasafn Íslands tekur við kröfum um skil menningarminja frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í öðrum ríkjum og sömuleiðis ber það fram kröfur til hlutaðeigandi stjórnvalda erlendis um skil menningarminja frá þeim ríkjum hafi þær verið fluttar frá Íslandi með ólögmætum hætti, sbr. 50., 51. og 52. gr., og veitir þeim viðtöku fyrir hönd réttra eigenda eða vörslumanna hérlendis.
    Þjóðminjasafn Íslands skal kappkosta að hafa náið samstarf og samráð við þau stjórnvöld í öðrum ríkjum er fjalla þar um leyfi til útflutnings menningarminja og um skil þeirra, svo og við fjölþjóðlegar stofnanir er láta sig þau mál varða. Þá skal það og leitast við af fremsta megni að upplýsa um vörslustaði menningarminja sem fluttar hafa verið til landsins með óheimilum hætti. Skulu lögregluyfirvöld aðstoða við þá leit ef þörf gerist.
    Tollayfirvöld skulu tafarlaust tilkynna Þjóðminjasafni Íslands um menningarminjar sem reynt hefur verið að flytja ólöglega til landsins og hið sama gildir um ólögmætan útflutning.
    Þjóðminjasafni Íslands til ráðuneytis um allt það er snertir framkvæmd ákvæða þessa kafla starfar þriggja manna nefnd kunnáttumanna er menntamálaráðherra skipar til þriggja ára í senn. Skal ráðherra skipa formann nefndarinnar sérstaklega en nefndin skiptir að öðru leyti með sér störfum. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Við val aðalmanna og varamanna, annarra en formanns og varaformanns, skal þess gætt að einn þeirra hafi sérkunnáttu á sviði listfræði, annar á sviði menningarsögu eða fornminjafræði, þriðji á sviði bókfræði og hinn fjórði á sviði skjalfræði. Varði mál, sem undir nefndina er borið, sérsvið varamanns skal hann fjalla um það mál jafnhliða aðalmönnum. Menntamálaráðherra ákveður þóknun nefndarinnar og greiðist hún af rekstrarfé Þjóðminjasafns.