Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 356 . mál.


1138. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, með síðari breytingum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Sesselju Árnadóttur deildarstjóra frá félagsmálaráðuneyti, Árna Guðjónsson frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stefaníu Traustadóttur frá skrifstofu jafnréttismála og Þóru Guðmundsdóttur frá Félagi einstæðra foreldra.
    Nefndin fékk sendar umsagnir um málið frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, skrifstofu jafnréttismála og Ríkisendurskoðun. Þá studdist nefndin við skýrslu um málefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem unnin var af Löggiltum endurskoðendum hf. og gefin út í desember 1995.
    Frumvarpið gerir annars vegar ráð fyrir að Innheimtustofnun sveitarfélaga verði heimilt að gera tímabundna samninga við meðlagsskuldara sem kveða á um að lægri upphæð verði greidd en fellur til mánaðarlega. Þá er gert ráð fyrir að stjórnin fái heimild til að afskrifa höfuðstól eða hluta hans ef um sérstakar félagslegar aðstæður er að ræða hjá skuldara. Gert er ráð fyrir að heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans verði bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við framangreinda samninga. Í öðru lagi er í frumvarpinu kveðið á um að Innheimtustofnun sé heimilt að mæla með nauðasamningi þar sem fjallað er um niðurfellingu höfuðstóls og/eða dráttarvaxta að hluta eða öllu leyti. Þetta síðarnefnda úrræði er sjálfstætt úrræði og það sett að skilyrði að ljóst sé að hagsmunum stofnunarinnar verði betur borgið með nauðasamningi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fram koma á sérstöku þingskjali. Þær lúta annars vegar að því að skilgreina hvað átt er við með félagslegum erfiðleikum skuldara. Hins vegar er lagt til að verði niðurstaða máls til ógildingar á faðernisviðurkenningu eða vefengingar á faðerni barns sú að skuldari er ekki faðir viðkomandi barns sé Innheimtustofnun heimilt að afskrifa og endurgreiða höfuðstól skuldara sem stofnast hefur eftir að niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir og/eða mál hefur verið höfðað.
    Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. maí 1996.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Magnús Stefánsson,

Einar K. Guðfinnsson.


form., með fyrirvara.

frsm.



Arnbjörg Sveinsdóttir.

Pétur H. Blöndal.

Arnþrúður Karlsdóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.

Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.