Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 517 . mál.


1152. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar og Guðmundar Árna Stefánssonar um kærur vegna iðnlagabrota.

    Einstakir liðir fyrirspurnarinnar eru orðaðir þannig að ekki er fyllilega ljóst hvort verið er að leita eftir upplýsingum um kærur til lögreglu eða ákærur sem gefnar eru út af ríkissaksóknara eða öðrum ákærendum. Svörin taka mið af því síðar nefnda. Í þessum inngangi verður þó vikið nokkuð að kærum almennt.
    Allur gangur er á því hvernig upplýsingar um afbrot berast lögreglu og þeim sem með ákæruvald fara. Í sumum tilvikum er um að ræða formlegar kærur frá einstaklingum en í öðrum tilkynningar um tiltekna háttsemi eða upplýsingar um hana. Eins geta lögreglumenn eða ákærendur sjálfir orðið áskynja um afbrot. Þar sem mörkin á milli upplýsinga eða kvartana og formlegrar kæru eru oft óljós getur verið erfitt að henda reiður á fjölda kæra.
    Dómsmálaráðuneytið hefur á síðustu tveimur árum unnið að gerð upplýsingakerfa fyrir lögreglu og vonir standa til að í árslok verði allar lögreglustöðvar og sýslumannsembætti tengd með víðneti við miðlægan gagnagrunn sem hafi að geyma upplýsingar um kærur og önnur lögreglumál. Upplýsingar af því tagi sem beðið er um í fyrirspurninni verða því mun aðgengilegri í nánustu framtíð.
    Í svarinu er iðnlagabrot skilgreint sem brot gegn iðnaðarlögum, nr. 42/1978. Viðurlög við brotum á iðnaðarlögum eru bundin við sektir og sviptingu réttinda þannig að ákæruvald vegna iðnlagabrota er hjá lögreglustjórum, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og tilkynningar ríkissaksóknara frá 14. maí 1993, um málshöfðunarheimildir lögreglustjóra, þó þannig að ef um er að ræða sjaldgæf, sérstæð eða mjög alvarleg brot er rétt að leita viðhorfa ríkissaksóknara.
    Í kjölfar fyrirspurnarinnar var héraðsdómstólunum send beiðni um svör við einstökum spurningum og byggist svar ráðuneytisins á svörum héraðsdómstólanna sem aftur sækja sínar upplýsingar í tölvutækar málaskrár sem færðar hafa verið frá árinu 1992. Upplýsingar um iðnlagabrot sem og aðra refsiverða háttsemi fyrir 1. júlí 1992 eru svo brotakenndar og torsóttar að ráðuneytið hefur ekki treyst sér til að taka þær saman og taka svörin því aðeins til tímabilsins frá 1. júlí 1992 til ársloka 1995 eða tæpra fjögurra ára. Forstöðumenn héraðsdómstólanna voru þó beðnir um að veita upplýsingar um mál af þessu tagi frá fyrri tíma ef slíkar upplýsingar væru tiltækar.

    Hversu margar kærur hafa verið gefnar út vegna iðnlagabrota sl. tíu ár?
    Samkvæmt upplýsingum héraðsdómstólanna var aðeins gefin út ein ákæra vegna iðnlagabrots á tímabilinu frá 1. júlí 1992 til 31. desember 1995. Þessi ákæra var gefin út 25. janúar 1994 og móttekin í héraðsdómi Suðurlands 3. febrúar sama ár.
    Upplýsingar bárust um annað brot úr umdæmi héraðsdóms Austurlands frá árinu 1991. Um var að ræða kærumál sem varðaði starfsemi á sviði málaraiðnar og lauk því með sátt um greiðslu sektar.

    Hvernig skiptast kærurnar eftir
         
    
    iðngreinum,
         
    
    sveitarfélögum?

    Umrædd ákæra sem héraðsdómur Suðurlands hafði til meðferðar á árinu 1994 var vegna brots á sviði húsasmíði og var brotið framið í Vestmannaeyjum.

    Hversu stórum hluta kæranna lauk með dómi?
    Umræddu máli, sem rekið var fyrir héraðsdómi Suðurlands, lauk með viðurlagaákvörðun um greiðslu sektar skv. 124. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Viðurlagaákvörðun er ígildi dóms.