Framhaldsfundir Alþingis

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 13:33:06 (2766)

1997-01-28 13:33:06# 121. lþ. 56.92 fundur 163#B framhaldsfundir Alþingis#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[13:33]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Ég þakka hæstv. forsrh. góðar óskir í minn garð og okkar alþingismanna og starfsmanna þingsins. Ég óska jafnframt alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis gleðilegs árs og vænti þess að störf okkar á síðari hluta þessa þings verði þjóðinni til farsældar. Mörg mál liggja enn fyrir þinginu og fleiri eiga eftir að koma fram. Þau munu koma til umræðu á þingfundum og í nefndum á næstu vikum og mánuðum. Í þessu sambandi tel ég mikilvægt að fastanefndir þingsins hefji störf af fullum krafti nú að loknu þinghléi og reyni sem fyrst að ljúka afgreiðslu þeirra mála sem vísað var til þeirra fyrir þinghlé.

Það gildir um þessi mál sem og þau sem enn eru ekki komin fram og ætlunin er að samþykkja á þessu þingi að brýnt er að ekki verði beðið með afgreiðslu þeirra úr nefnd þangað til í nefndavikunni fyrri hluta aprílmánaðar, ella er ljóst að mál munu hrúgast upp á dagskrá þingsins og álagið á þingstörfum síðustu vikurnar fyrir þinglok verður þá æðimikið.

Einnig er mikilvægt að þau mál sem ríkisstjórn á enn eftir að leggja fyrir þingið komi sem fyrst fram, enda þýðingarmikið fyrir árangursríkt starf í nefndavikunni að nefndum hafi tekist að senda frumvörp til umsagnar og fengið svör áður en nefndavikan hefst. Það er ætlun forseta að eiga fund með nefndaformönnum um þá reynslu sem fékkst af nefndavikunni á haustþinginu.

Þó að sú breyting hafi orðið á starfsáætlun Alþingis að þinghléið hafi lengst um eina viku tel ég að þingið eigi að geta lokið störfum 16. maí eins og gert er ráð fyrir í starfs\-áætluninni. Ég legg reyndar ríka áherslu á að svo megi takast. Um þetta atriði vænti ég góðrar samvinnu við ríkisstjórn og þingmenn almennt.

Ég vænti þess að sá góði starfsandi sem einkenndi haustþingið fylgi okkur áfram á þessu þingi.