Forseti (Ólafur G. Einarsson):
Einar Ingimundarson, fyrrverandi alþingismaður, bæjarfógeti og sýslumaður, andaðist laugardaginn 28. desember. Hann var 79 ára að aldri.
Einar Ingimundarson var fæddur 29. maí 1917 í Kaldárholti í Holtum, Rangárvallasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Ingimundur Benediktsson bóndi þar og Ingveldur Einarsdóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1938 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands 1944. Héraðsdómslögmaður varð hann 1949. Að loknu lögfræðiprófi var hann um tíma blaðamaður hjá dagblaðinu Vísi, síðan fulltrúi í skrifstofu tollstjóra í Reykjavík 1944--1945, fulltrúi borgarfógeta 1945 og fulltrúi sakadómara 1946--1952. Árið 1952 var hann skipaður bæjarfógeti á Siglufirði og gegndi því embætti til 1966. Eftir það var hann sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Hafnarfirði til 1973, sýslumaður í Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Hafnarfirði og Seltjarnarneskaupstað 1974--1987, einnig bæjarfógeti í Garðakaupstað frá 1976.
Við alþingiskosningar 1953 var Einar Ingimundarson í kjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Siglufirði og hlaut kosningu. Hann var þingmaður Siglfirðinga 1953--1956 og 1959 og þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra 1959--1966, sat á 11 þingum alls. Hann sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1955 og var fulltrúi á fundum Þingmannasamtaka Norður-Atlantshafsríkjanna 1961 og 1962.
Einar Ingimundarson var í stúdentaráði Háskóla Íslands 1940--1942, formaður ráðsins 1941--1942, og formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1944--1945. Í stjórn Dómarafélags Íslands var hann 1972--1973. Hann var kosinn í kosningalaganefnd 1954, í okurnefnd 1955 og í áfengismálanefnd 1964 og hann var skipaður 1962 í nefnd til að endurskoða lög um tollheimtu og tolleftirlit.
Hugur Einars Ingimundarsonar hneigðist snemma að stjórnmálum. Á háskólaárunum lét hann að sér kveða í samtökum stúdenta. Eftir ársdvöl á Siglufirði völdu íbúar kaupstaðarins hann til setu á Alþingi. Um tug ára var hann þingmaður Siglfirðinga jafnframt bæjarfógetastörfum. Þegar hann var skipaður í umsvifamikið og annasamt embætti og fluttist til Hafnarfjarðar afsalaði hann sér þingmennsku og hætti opinberum afskiptum af stjórnmálum.
Einar Ingimundarson var góðviljaður, vandvirkur og réttlátur embættismaður. Hann ávann sér traust og vinsældir hjá samstarfsmönnum og samborgurum. Á Alþingi reyndist hann starfssamur og glöggskyggn við afgreiðslu mála. Hann var heilsteyptur í því sem hann tókst á hendur.
Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Einars Ingimundarsonar með því að rísa á fætur. --- [Þingmenn risu úr sætum.]