Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:21:24 (2784)

1997-01-28 15:21:24# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:21]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég verð í upphafi máls míns að lýsa yfir undrun á því að þetta mál skuli vera á dagskrá að beiðni hv. málshefjanda. Hv. málshefjanda á að vera fullkunnugt um að þetta mál verður á dagskrá umhvn. á næstu dögum og hefur reyndar ítrekað verið reynt af hálfu formanns að koma nefndinni saman til fundar en ekki tekist vegna fjarveru þingmanna í fundarhléi. Að mínu mati snýst þetta mál ekki fyrst og fremst um mengun. Þetta snýst fyrst og fremst um ímynd þeirra hreppa, þeirra sveitarfélaga sem eru á því svæði þar sem álverið á að byggja.

Það fer ekki hjá því að menn horfist í augu við að þeir sem þarna búa hafa heilmikið til síns máls því að þetta álver, til viðbótar þeirri verksmiðju sem er á svæðinu, mun hafa mjög mikil áhrif á allt umhverfið. Ég get ekki neitað því að ég get vel hugsað mér aðra staðsetningu á þessu álveri en þá sem hér er um að ræða. En þá rekumst við á skipulag þessa svæðis og reyndar skipulag Skilmannahrepps þar sem reisa á álverið. Við verðum að horfast í augu við það að ef við ætlum að vera sannfærandi gagnvart þeim erlendu fjárfestum sem við viljum laða hingað til lands, ekki bara til þess að fjárfesta í stóriðju heldur líka til þess að fjárfesta í öðrum greinum eins og ferðaþjónustu, þá getum við ekki verið duttlungafull í skipulagsmálunum. Við verðum að standa við þær ákvarðanir sem við höfum tekið. Þannig að það sé hægt að treysta á okkur, bæði í uppbyggingu og viðskiptum.

Málið er því eiginlega í þeirri stöðu að það er undir byggingaraðilanum komið hvort hann vill vegna mótmælanna leita að annarri staðsetningu en hann hefur fram til þessa hugsað sér.

Sú umræða sem hefur farið fram að undanförnu um þetta mál hefur að mínu viti verið mjög til góðs og við getum margt af henni lært. Það eru þrjú atriði sem ég vil þó draga fram sérstaklega. Það er í fyrsta lagi hvað varðar kynningu á skipulagstillögum og kynningu á umhverfismati. Það er alveg ljóst að sú kynning sem fer fram í dag á þessum hlutum er ekki nægjanleg. Hún vekur ekki upp þá umræðu sem við þurfum á að halda til þess að fá niðurstöðu sem fólk sjáanlega mun sætta sig. Sem betur fer höfum við tækifæri til að gera breytingar á þessu því að skipulagslögin eru til umfjöllunar í umhvn. í dag og munu væntanlega ný skipulagslög, reyndar skipulags- og byggingarlög verða afgreidd frá yfirstandandi þingi.

Í öðru lagi er það staðsetningin á stóriðjuverum, hvort sem um álver eða aðrar stóriðjuverksmiðjur er að ræða. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvar við viljum koma slíkri starfsemi fyrir í samhengi við annað atvinnulíf í landinu. Ég held að eftir sem áður verði um einhverja stóriðjuuppbyggingu að ræða í framtíðinni. Við þurfum á fjölbreytni að halda í okkar atvinnulífi og við getum ekki kastað frá okkur tækifæri eins og stóriðjunni. Það er hins vegar vandaverk að fá þetta allt til þess að spila saman og það er það sem við þurfum að vinna að.

Þetta tengist því líka hvar við virkjum á hálendinu. Menn tala yfirleitt um að við séum einungis búin að virkja 10% af því sem virkjanlegt er á hálendinu, en 10% er bara heilmikið. Við þurfum því að huga að því hvar við virkjum og hvenær við virkjum og hvers vegna við virkjum.

Í þriðja lagi er það starfsleyfið sem við þurfum að huga að. Við verðum að gera mjög strangar kröfur til stóriðjuvera en um það verður fjallað í umhvn. á næstu dögum. Mér finnst hins vegar skjóta aðeins skökku við í þessari umræðu hjá hv. kollegum mínum hér á Alþingi. Mér finnst þeir beina svolítið spjótum sínum hver að öðrum. Það fer ekki hjá því að menn horfist í augu við að einn aðilinn að þeirri virkjunaruppbyggingu, sem er forsenda þeirrar stóriðju sem hugsanleg er á næstunni, er R-listinn í Reykjavík. Það væri væntanlega ekki verið að virkja í dag á Nesjavöllum nema R-listinn í Reykjavík stæði þar að máli og styddi við það. Þess vegna finnst mér að málflutningur hv. málshefjanda og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar ekki bera vott um mikla grósku í samstarfi þessara aðila innan sinna eigin flokka eða á vinstri vængnum þar sem þeir beina spjótum sínum að borgarstjóranum og forseta borgarstjórnar í Reykjavík.