Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 12:14:28 (2895)

1997-01-30 12:14:28# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[12:14]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað á að halda þessari umræðu lengi áfram, herra forseti. Mig langar til að vitna í frv.: ,,Regla 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. helgast af því sjónarmiði að eðlilegast sé að líta á fjárverðmætið eða andlagið, [þ.e. skipið í þessu tilfelli] og hin úthlutuðu réttindi, [þ.e. veiðiheimildir] sem eina heild.``

Þetta er alveg skýrt. Það vita allir. Ég vitnaði í lög um stjórn fiskveiða, hvernig veiðiheimildum er úthlutað. Það er bannað að úthluta veiðiheimildum á aðra aðila en skip. Það er ekki hægt að úthluta veiðiheimildum á t.d. einstaklinga eða fyrirtæki. Það eru skip og þetta mál snýst um það. Það eru heildarverðmæti skips og kvóta sem er lánað út á og verið er að tryggja stöðu lánveitenda. Hér er ekki verið að tryggja stöðu neins annars í þessu máli. Þetta er veðsetning á veiðiheimildum, ókeypis úthlutuðum veiðiheimildum af hálfu ríkisins. Menn geta svo farið í langa umræðu um þá úthlutun. Það er ekki það sem kannski skiptir máli hér, en það er alveg ljóst hvað verið er að ræða um í þessu sambandi. Hér er verið að tryggja fénýtingu útgerðar á aflaheimildum, þ.e. hvað viðvíkur lánum. Að fá lán út á þessi verðmæti og tryggja síðan í framhaldi af því hag þeirra sem lána út á það. Um það snýst þetta mál og ekki nokkurn skapaðan hlut annað. Ef menn vilja lögfesta það á þennan hátt tel ég að verið sé að grafa undan eignarréttarákvæði 1. gr. um stjórn fiskveiða. Það er tvímælalaust gert með þessum hætti. Hægt er að vísu að færa fleiri rök fyrir því, til að mynda þann rétt sem skapast við langvarandi nýtingu á afnotarétti, en það er ekki hægt að fjalla um það hér í andsvari en hv. þm. verður samt að hafa þessa hluti á tæru um hvað verið er að tala. Það er sami hluturinn, verðmæti skips og kvóti. Það er ekki hægt að aðskilja það og hefur aldrei verið hægt.