Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 12:56:34 (2908)

1997-01-30 12:56:34# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[12:56]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Í framhaldi af orðum hæstv. ráðherra um mismunandi stöðu útgerðarfyrirtækja við lögfestingu þessa frv. þá skulum við hafa í huga að þetta er ekki þannig að smærri útgerðarfyrirtækin yrðu betur sett við lögfestingu þessa. Það er eiginlega þvert á móti. Það eru stærri fyrirtækin. Þau verða öll að biðja um heimild til að færa veðheimildir í burtu. Stærri fyrirtækin hafa yfirleitt mjög sterka stöðu gagnvart bönkum og lánastofnunum og koma þannig fram sem sterkari samningsaðilar ef þeir vilja flytja burtu veð. Sum þeirra þyrftu ekki annað en að segja: ,,Þér kemur þetta nú bara ekkert við því annars er ég farinn með viðskiptin.`` Það eru bara stór fyrirtæki sem geta talað þannig. Smærri fyrirtækin eru undir það seld að þurfa að fara fyrir alla sína veðhafa og eru þá ,,skvísaðir`` af veðhöfum eins og þekkist mjög oft, einmitt vegna bágrar fjárhagsstöðu sinnar. Þetta þekkja allir sem hafa komið nálægt þessari grein. Að vísu fer það ekki alltaf saman að vera stór og sterkur fjárhagslega. Það eru mjög mörg smáfyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi mjög sterk fjárhagslega og þurfa í sjálfu sér ekkert að óttast fjármálastofnanir. En ef við erum farin að tala um hinar praktísku afleiðingar af frv. þá yrði það frekar á þann veg að þeir sem eru þegar í fjárhagslegum erfiðleikum gagnvart sínum lánastofnunum, og þeir eru margir, ekki hvað síst á sumum stöðum í dreifbýli sem eru verr staddir en áður.

Mér finnst það því styðja enn frekar að við ættum að taka okkur hlé í lögfestingu þessa máls með tilliti til þeirra raka sem ég nefndi áðan, þ.e. að málið er raunverulega miklu stærra. Þó svo að við séum hér komin út í tæknilega umræðu um stöðu einstakra fyrirtækja þá sýnir þetta samt að ýmislegt í þessu máli er ekki alveg fullskýrt.