Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:00:49 (2914)

1997-01-30 14:00:49# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það var afskaplega mikilvægt að fá þessa yfirlýsingu frá einum af stjórnarliðunum. Hv. þm. Framsfl. hafa haldið því fram að þeir hafi farið í stórkostlegan björgunarleiðangur og unnið það gífurlega afrek að koma í veg fyrir að hægt sé að veðsetja kvóta. Nú gerist það að einn af reyndum stjórnarliðum, einn af þeim sem hafa mesta reynslu á sviði sjávarútvegs innan stjórnarliðsins, kemur fram og ekki bara tætir í sundur málflutning Framsfl. heldur lýsir því yfir að þeir séu höfundar að einu leiðinni sem hægt hafi verið fræðilega að finna til þess að veðsetja kvótann. Þetta eru lukkuriddararnir sem koma hér og berja sér á brjóst og segja: Við björguðum málinu. Við komum í veg fyrir að kvótinn yrði endanlega færður í hendur örfárra sægreifa. En þegar það liggur fyrir yfirlýsing frá einum af stjórnarliðum um að þeir eru höfundar að þessu stórkostlegasta ráni aldarinnar.