Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:01:07 (2927)

1997-01-30 15:01:07# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:01]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara rangt að þau réttindi sem við ræddum um áðan fylgi í dag veðkröfum aðila. Ríkisstjórn sem Þorsteinn Pálsson sjálfur situr í hefur nýlega úthlutað frá fyrirtæki, sem er í gjaldþrotaskiptum, námuréttindum til annars fyrirtækis, jafnvel þó svo að kröfuhafar hafi krafist þess að það yrði ekki gert. Svo hæstv. ráðherra dómsmála ætti að lesa sér betur til um það sem hans eigin ríkisstjórn er að gera.

Það að ég sé að mótmæla því að sjómenn og landverkafólk geti með einhverjum hætti torveldað framsal aflaheimilda er rangt. Ég sagði að mér hefði brugðið svo við að sjá þessi sinnaskipti sjútvrh. að ég væri ekki enn búinn að átta mig á því og spurði hann þess vegna: Er það virkilega rétt að þetta sé tilgangur þinn, virðulegi sjútvrh., að koma með þessum hætti í veg fyrir frjálsa ráðstöfun aflaheimilda og að gefa tækifæri á því að koma á ígildi svonefnds byggðakvóta? (Gripið fram í.) Og hæstv. sjútvrh. svaraði þessari spurningu minni með einu orði --- já. (Gripið fram í.) Hæstv. sjútvrh. sagði það ekki þegar hann gerði grein fyrir þessu ákvæði frv. fyrr í dag að þetta væri megintilgangurinn. En ég segi að fyrst þetta var megintilgangur hæstv. ráðherra þá fagna ég því. (Gripið fram í.) En við skulum skoða hvort ekki sé hægt að ná þessum megintilgangi hæstv. ráðherra fram með einhverjum öðrum hætti. Hitt er svo allt annað mál hvort það er skynsamlegt eða ekki að koma í veg fyrir frjáls viðskipti með aflaheimildir. Ég tel ekki skynsamlegt að banna það með öllu. (Forseti hringir.) Ég tel að menn sem eru á skoðun hæstv. sjútvrh. um að slíkt eigi að reyna að stöðva ættu að finna sér skynsamlegri leið til þess heldur en þá sem hér er lögð til.