Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:10:25 (2931)

1997-01-30 15:10:25# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:10]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ánægjulegt ef ræða mín hefur orðið til þess að opna augu manna fyrir einhverjum atriðum í frv. og það er full ástæða til. Ég ætla bara að benda hv. þm. á til viðbótar við það sem hann hefur þegar áttað sig á, að það eru fleiri lánveitendur til í landinu en bankar og sparisjóðir þar á meðal stór og öflug útgerðarfyrirtæki. Og stórt og öflugt útgerðarfyrirtæki gæti náð undir sig ómældum aflakvóta minni og veikari fyrirtækja með því einfaldlega að bjóða viðkomandi fyrirtækjum lán til að losna út úr tímabundnum rekstrarerfiðleikum. Lánið er þá veitt með veði í skipinu og þeim rétti að neita allri ráðstöfun aflaheimilda útgerðarinnar sem viðkomandi stóra útgerðarfyrirtækinu væri ekki þóknanlegt. Þannig gætu þeir aðilar haldið á málinu að allar aflaheimildir þeirra smáfyrirtækja sem þeir hefðu lánað til, meira að segja tiltölulega litla fjármuni, enduðu í höndum hins sterka. Ég vona að mér hafi tekist að opna augu hv. þm. fyrir þessu líka þannig að hann sé reiðubúinn til þess að hugsa þetta mál svolítið betur en gert hefur verið. Ég sé að hv. þm. kinkar kolli og samsinnir þessu þannig að einhverju jákvæðu hef ég þá komið til leiðar með því að benda á fleiri hliðar þessa máls heldur en hafa verið í umræðunni fram að þessu.