Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:43:47 (2949)

1997-01-30 16:43:47# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:43]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér eru algerlega ljós tildrög og upphaf þess að lagt var á kvótakerfi í íslenskum sjávarútvegi. Ég hef verið að reyna að koma hv. þm. í skilning um það að þegar kvótakerfið var tekið upp urðu til ný verðmæti í íslensku þjóðfélagi sem varðar verðmæti veiðiheimilda sem ríkisvaldið úthlutar. Þessum veiðiheimildum var úthlutað á grundvelli veiðireynslu og eftir ákveðnum reglum, allt samkvæmt lögum. Umræðan snýst um þessar veiðiheimildir sem núna ganga kaupum og sölum, þessi verðmæti sem við erum að tala um í sambandi við þetta frv. Verðmætið er ekki lengur í skipunum einum. Skip eru hins vegar ekki verðlaus, en þau öðlast fyrst og fremst verðgildi með veiðiheimildunum. Þess vegna eru skip og kvóti ein heild í þessu frv. og um það snýst málið varðandi veðsetningu kvótans.

Hins vegar kom fram í ræðu þingmannsins áðan varðandi sóknardaga hvort einhver grundvallarmunur væri á því hvort kvótatonnum eða sóknardögum væri úthlutað. Það er enginn grundvallarmunur á því, því að þá er líka verið að úthluta verðmætum sem hugsanlega gætu gengið kaupum og sölum. Hvort sem menn vildu það kerfi eða ekki, er ríkisvaldið líka að úthluta verðmætum sem yrðu þá fénýtt af hálfu þeirra aðila sem fá þeim úthlutað. Það er því enginn grundvallarmunur á að láta greiða fyrir aðgang að fiskveiðum í aflamarkskerfi eða í sóknarmarkskerfi. Veiðileyfagjald er óháð stjórnkerfi fiskveiða og það er mjög mikilvægt atriði. En menn verða að hafa áttað sig alveg á því að takmarkanirnar sem ríkið setti á þessar veiðar, eins og gerist alls staðar í hagkerfinu, þ.e. takmörkuð gæði verða verðmæt í sjálfu sér.